Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Um áhrif fyrirmynda

Mér, eins og mörgum öðrum, fannst mjög jákvætt þegar Paul Nikolov settist á Alþingi á dögunum - það var bara tímaspursmál að aðfluttir Íslendingar tækju þar sæti og eignuðust sinn fulltrúa. Hins vegar gerði ég mér fyrst grein fyrir því í gær hvað þetta skipti miklu máli fyrir þúsundir manna hér á landi. Ég var í kvöldmat hjá vinafólki okkar, hjá aðfluttum vini mínum sem giftur er íslenskri konu og fékk ríkisborgararétt fyrir nokkrum árum. Hann er með vel menntaður, með 10 ára háskólanám að baki - lauk námi frekar nýlega og er búinn að vera að leita sér að vinnu. Honum hefur ekki gengið of vel að finna starf á sínu sviði og var það aðeins farið að leggjast á sálina, en sagði mér að þegar Paul fór inn á þing hefði hann fyllst bjartsýni og sjálftrausti - ef Paul getur þetta, þá getur hann farið uppréttur inn á vinnustaði og sótt um starf við sitt hæfi. Þetta skipti hann greinilega miklu máli. Nýverið setti hann inn umsókn um styrk fyrir ákveðið verkefni og hefur fengið frekar jákvæð viðbrögð við því. Ég hef alltaf talið mig vita að fyrirmyndir skipta máli - þetta er svo sannarlega staðfesting á því.

Morgunblaðið

Ég las á dögunum um að frammámenn í Samfylkingunni væru að segja upp Mogganum vegna leiðaraskrifa blaðsins undanfarið. Það vakti hjá mér nokkrar hugleiðingar um blessaðan Moggann sem ég bar út um nokkrar götur í Hafnarfirði fyrir þó nokkuð mörgum árum. Ég hafði borið út Tímann og Þjóðviljann þar á undan en það var dreifður og tímafrekur útburður svo mér fannst ég hafa himinn höndum tekið þegar ég komst í að bera út Moggann. Síðan komst ég til frekari þroska og pólitískrar meðvitundar með vaxandi róttækni og þá fæddist þessi texti við lag í bílskúrsbandi sem náði aldrei úr bílskúrnum:

Aðgöngumiði

að úreltri skoðun.

Afturhaldsliði

guðsalmáttugsboðun.

 

Frumskógarlögmál

sem frelsi það býður.

Þá framgjörn smásál

á frekjunni skríður. 

 

Þitt íhaldssull 

er innflutt af könum.

Já útlenskt sull

á íslenskum krönum

 

Morgunblaðið, Morgunblaðið

Minningargrein um málstað. 

 

Svo liðu árin, kalda stríðinu lauk, múrar og flokksmálgögn féllu og eftir stóð Mogginn með algjöra yfirburðastöðu á dagblaðamarkaði. Við þær aðstæður gat hann leyft sér að losa um tök flokksins í blaðinu, verða víðsýnni og gagnrýnni og farið að vinna á eigin faglegu forsendum, sem hann og virtist gera. Ég tók Moggann í sátt (hef enda alltaf verið frekar sáttagjarn) og keypti mér áskrift og hef síðan verið í það minnsta með helgaráskrift. Þá kom að Baugsmálinu og búmm, Mogginn var allt í einu kominn aftur í skotgrafirnar - nú var óvinurinn ekki hinn illi kommúnismi heldur ákveðin öfl auðmanna í landinu - ekki réttu auðmennirnir. Mogginn var aftur orðinn flokksmálsgagn og hefur verið það síðan. Dálítið skrítið í landslagi dagsins í dag þar sem enginn annar flokkur hefur lengur eigið málgagn. Fréttablaðið var að vísu í mjög ákveðinni stjórnarandstöðu í kringum Baugsmálið en virðist í dag hafa meiri metnað í að vera fréttablað en eitthvað annað. Ég er enn með helgaráskrift - Lesbókin hefur blessunarlega fengið að halda sínu striki - sem betur fer.


Af Nígeríu-svindlurum og þjófsnautum

Öðru hvoru fæ ég, eins og margir aðrir, póst með einhverjum tilboðum um auðævi gegn lítilsháttar viðviki - oft og iðulega frá Nígeríu, en einnig frá öðrum löndum. Oft er um einhvern arf að ræða, nú, eða einhver stjórnmálamaður þarf að koma einhverjum sjóðum undan og nú nýverið var verið að vekja athygli á enn útsmognari leiðum til að plata fólk. Öðru hvoru heyrir maður af því að einhverjir hafi látið ginnast og sent út fé til að liðka fyrir auðævunum og eflaust eru þeir enn fleiri sem maður heyrir ekkert frá. Mér datt það í hug si svona, eitt skipti fyrir nokkrum árum þegar fyrrverandi verkalýðsformaður úr sjávarplássi úti af landi bar sig aumlega eftir að hafa verið plataður og fannst hann eiga einhverja vorkunn skilið. Mér fannst dálítið einkennilegt að hann væri að barma sér yfir að hafa ekki fengið að vera þjófsnautur í að stela frá fátæku fólki í Afríku, hvort sem það var nú ríkisstjórn, fyrirtæki eða fátækir erfingjar einhvers í fátæku Afríkulandi sem um var að ræða. Ég hugsaði bara; gott á hann.

Af tíu litlum negrastrákum

Hlustaði á talsmann bókaútgefenda þar sem rætt var við hann vegna nýrrar útgáfu á barnabókinni Tíu litlir negrastrákar. Rök hans voru þau að þetta væri hluti af menningararfleifðinni og að það réttlætti útgáfuna. Hm? Það er líka hluti af menningararfleifðinni að borga konum lægri laun - það má þá væntanlega ekki hrófla við því, eða hvað?

Meira frá Tbilisi

Næstu tvo daga höldum við sjálfboðaliðanámskeið í miðstöð húmanista á staðnum. Þátttakendur eru á ýmsum aldri, en helmingurinn tengist lögmennsku – sem stafar af því að Giorgi er lögfræðingur. Þarna eru þrír laganemar, tveir lögfræðingar, auk Giorgis – og einn dómari. Aðrir eru úr ýmsum áttum. Túlkurinn á námskeiðinu er fyrsta flokks – ljóðaþýðandi sem kennir auk þess ensku í einum helsta háskóla Tbilisi. Námskeiðið fær góðar viðtökur – komin góð reynsla á það – búnir að halda það áður á Íslandi, Indlandi og í Kenía. Kvöldunum eftir námskeiðin er varið í gönguferðir um miðbæinn með Giorgi og Nick. „Kemistríið“ í hópnum er frábært og mikið hlegið. Nick kemur á óvart – frábærlega vel lesinn í heimsbókmenntunum og stendur hvergi á gati. Giorgi hefur komið nokkuð víða við – eftir námið þjónaði hann í hernum og var stuttan tíma í lögreglunni. Skortur hans á feminískri rétthugsun virkar undarlega hressandi, femínisminn hérna heima er stundum eins og jarðsprengjusvæði – maður þarf að passa sig svo fjandi vel hvar maður stígur niður. Maður skynjar að undir niðri vill hann vel – einhvern veginn á mörkum tveggja heima. Við ræðum ýmis mál, mannréttindamál og helstu átakamál Georgíu. Málefni samkynhneigðra – reynt hefur verið að halda Gay Pride en hætt við vegna morðhótana – ekki alveg kominn tími á það. Ástandið í Abkhasiu er flókið mál sem brennur á þeim – hvernig er hægt að sætta og fyrirgefa?

Við Guinness eigum flug til baka með stuttu millibili. Við sitjum yfir kaffibollum í flugstöðinni með Giorgi og Nick og spjöllum um næstu skref. Eftir þessa fáu daga er allavega eitt víst – hingað á ég eftir að koma aftur!  


Nokkrir dagar í Tbilisi


Flugstöðin í Tbilisi er lítil, meira að segja miðað við Keflavík. Nútímaleg glerbygging, eins og höfuð flugu með þúsund augu og þrjá rana sem sjúga inn sveitta og svefnvana ferðalanga. Fyrir framan mig í biðröðinni að vegabréfsskoðuninni er ungt par sem heldur á vegabréfum sem sýna að þau eru frá Georgíu – stúlkan brosir innilega til mín – eins og hún hafi alltaf þekkt mig. Ég átti eftir að mæta álíka innilegheitum víðar í Tbilisi – inni á stórmörkuðum, úti á götu – íbúar Georgíu eru ótrúlega hlýlegt fólk. Fyrir utan taka á móti mér Giorgi og Nick, Giorgi er rúmlega þrítugur – nokkuð líkur leikaranum Nicolas Cage án hártopps. Nick er ungur, hávaxinn og slánalegur. Við bíðum rúmlega hálftíma eftir Guinness frá Skotlandi sem mætir hálftíma síðar – ekki í skotapilsi, þeim félögum til nokkurra vonbrigða.DSCF6013

Við fáum lánaða íbúð í einu úthverfa Tbilisi, í dæmigerðri sovétblokk. Hrörlegur stigangur, lyfta sem virðist vera frá seinni heimstyrjöldinni með myntsjálfssala sem greiða þarf í, kveikja á bakþönkum – hefðum við kannski átt að vera á hóteli? Þegar inn í íbúðina kemur hverfa þeir, íbúðin er hin vistlegasta, með parketi og hlýlegum skápum í hnotubrúnum lit. Dyrnar úr rammgerðu stáli, þumlungsþykkar með þremur lásum – Giorgi segir okkur að opna ekki fyrir neinum sem spyr ekki um okkur með nafni. Georgíubúar eru ekki slæmir, segir hann, en hér er yfir 60% atvinnuleysi og margir eiga erfitt.

Daginn eftir er borgin og næsta umhverfi skoðað. Tbilisi stendur á hæðóttu landi umhverfis ána Mtkvari. Langflestar byggingarnar eru stórar íbúðablokkir og minna á að landið var áður hluti af Sovétríkjunum. Þá má finna eldri hverfi með þröngum götum sem gætu verið hvar sem er í Suður-Evrópu. Samgöngumálaráðuneytið vekur athygli – til húsa í ferlíki sem er eins og steypukubbar lagðir á víxl hver á annan – líklegast sovésk framúrstefnulist. Þá má finna mjúkar ávalar línur íslamskrar byggingalistar á nokkrum eldri byggingum. Nafnið Tbilisi þýðir „heitt vatn“ og á það sameiginlegt með nafni Reykjavíkur að það má rekja til hverasvæðis sem þar má finna. Kunnugleg hveralyktin stígur þar út úr lágreistum og hlýlegum múrsteinsbyggingum – þar eru heilsuböð með grænleitu hveravatni.

Við ökum af stað út úr bænum. Hitinn er tæplega 30 gráður og umhverfið minnir helst á Spán. Eftir tæplega hálftíma akstur út fyrir borgina komum við að gömlu höfuðborginni, Mtskheta, eða gömlu Tblisi. Heimsækjum Sioni kirkjuna, þar sem í gólfinu má sjá grafir konunga Georgíu sem einnig voru skírðir í þessari kirkju. Á veggjum kirkjunnar má sjá brot úr fornum freskum sem hafa verið endurheimtar undan málningu sem kommúnistar settu yfir þær. Myndirnar eru alls ólíkar þeim sem maður á að venjast í kirkjum hinnar vestrænu kristni; við hlið postulanna eru ýmsar kynjaskepnur, m.a. hafmaður og dýr með mannseinkenni.DSCF6105

Komum við á markaði á bakaleiðinni. Giorgi talar um mat af mikilli ástríðu – hann þreifar og lyktar af ávöxtum á markaðinum og andvarpar, nánast með kynferðislegum undirtóni. Borðum mat heima hjá fjölskyldu hans. Systir hans hefur eldað, aðallega grænmetisrétti sem er raðað á diskana í margvíslegu mynstri. Faðir hans, fyrrverandi kommúnisti, stjórnaði borðhaldi – það þarf að skála fyrir framtíðinni, löndum okkar, friði og börnum heims. Síðan er spjallað og spurt og deilt staðreyndum um þjóðir og sögu. Undir niðri má greina hálfvolga nostalgía í minningum um tíma Sovétríkjanna þegar flestir höfðu vinnu, heilsugæsla og menntun var ókeypis – allir höfðu það skítsæmilegt, en engin von um nokkuð betra. Nú á að heita frelsi til allra hluta, en frelsi hins fátæka er takmarkað.


Um mælikvarða menninga

Tilefni þessa bloggs eru umræður sem hafa orðið í kjölfar heimsókna tveggja gagnrýnenda islam, þeirra Mariam Namazie og Ayaan Hirsi Ali. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki haft tíma til að lesa neitt að ráði eftir þær stöllur, en hef þó rekist á nokkrar helstu fullyrðingar sem hafðar hafa verið eftir þeirri síðarnefndu. Þær birtast m.a. í grein Jóns Kaldals "Mikilvæg skilaboð" frá 11. september s.l. Þar má finna setningu eins og: „Sú trú að öll menning sé jafngild er á villigötum" sem er að mér skilst meginþemað í hennar málflutningi. Nú er hugtakið menning svo flókið og margslungið fyrirbæri - og líka svo stórt fyrirbæri - að það er erfitt að ætla að láta einhverja merkimiða "betri" eða "verri" tolla á því af einhverju viti. Það er hægt að mæla ákveðna hluti, eins og t.d. tækniþekkingu, framleiðni, o.s.frv. en ekki veit ég til þess að neinn sé að tala um að nota þá mælikvarða í þessari umræðu. Ayaan Hirsi Ali leggur til sinn mælikvarða - þá grundvallarhugmyndafræði vestrænna ríkja að leitast við að jafna sem mest réttindi karla og kvenna til menntunar og tækifæra á lífsleiðinni. Ekki slæmur mælikvarði, þótt hann sé að mínu mati ekki nægilegur til að alhæfa um heilu menningarnar. Sögulega er stutt síðan samkomulag varð um þetta á Vesturlöndum, fór ekki að gerast að neinu ráði fyrr en á síðustu öld, og minna má á að konur fengu atkvæðisrétt á Tyrklandi árið 1934 og í Írak, undir stjórn Saddam Husseins, fengu konur að kjósa og menntun kvenna stórjókst. Síðarnefnda dæmið er gott dæmi um hvað svona mælikvarðar eru vandmeðfarnir. Daglega eru 3 konur drepnar af kristnum eiginmönnum sínum í Bandaríkjunum - hvað segir það okkur um bandaríska eða vestræna menningu? Ég er aðeins kunnugur umræðum um karlaveldið og búrkuna - ef maður samþykkir forsendur þeirrar fullyrðingar að karlaveldið sé að baki því að múslimskar konur neyðist til að ganga með búrku þá verður maður að samþykkja mótrök íslamskra kvenna; að karlaveldinu á Vesturlöndum megi kenna um þann tíma sem vestrænar konur verja fyrir framan spegilinn að mála sig - þeirra búrka sé ekki síður þung.

Auðvitað eigum við að fordæma öll mannréttindabrot og allt ofbeldi - en menning er miklu stærra en það - hún er siðir, venjur, tungumál - langmest þættir sem fela ekki endilega í sér ofbeldi. Við þurfum að greina þarna á milli og vanda okkur í orðræðunni - annars verða hugtökin merkingarlítil. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að það er enginn eðlismunur á ofbeldi skítugs og ómenntaðs hirðingja í Afganistan sem umsker dóttur sína og þeim verknaði sem ungur, vel klipptur hermaður fremur er hann þrýstir á hnapp sem sendir eldflaug á hús í mörg hundruð kílómetra fjarlægð.

 


« Fyrri síða

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 10271

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband