Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Um lokun landamæra

Ég var að lesa grein eftir Hjörleif Guttormsson þar sem hann vekur máls á þeirri óþurft sem Schengen-samningurinn er - í skjóli hans geta glæpahópar leikið lausum hala og flutt sig á milli landa. Eigum við ekki bara að taka þetta alla leið? Ég sá um daginn tölfræði um ofbeldisglæpi á Íslandi. Samkvæmt þeim eru flestir ofbeldisglæpir, miðað við mannfjölda, framdir í Reykjanesbæ, þar á eftir kemur Akureyri. Setjum upp varðstöðvar við Kjalarnes og fyrir utan Hafnarfjörð til að við getum stemmt stigu við að ofbeldismenn geti flutt sig á milli staða - þeir geta barið á fólki sínu heimahéraði!

Af skuldum óreiðumanna

Nú stíga menn fram, hver á fætur öðrum og básúna í anda Bjarts í Sumarhúsum: Við borgum ekki skuldir óreiðumanna – segjum nei við Icesave. Bjartur sjálfur orðaði þetta svona: „Meðan ég sækist ekki eftir annarra manna gróða kæri ég mig ekki um að bera annarra manna skuld.“

Vissulega geta margir ef ekki flestir tekið undir þessi orð en vandinn er bara sá að ef við lítum of einfeldningslega á þau, í anda Bjarts, að þá gætu örlög okkar orðið þau sömu. Auðvitað erum við alltaf að borga skuldir óreiðumanna; við tryggjum, með lögum um greiðslur í Tryggingasjóð launa, laun starfsmanna fyrirtækja sem fara á hausinn, með almannafé greiðum við skaðabætur sem ógæfumenn eru ekki borgunarmenn fyrir og meðlagsskuldir þeirra sem ekki standa skil á meðlagi. Við gerum það ekki vegna þessa óreiðu- og ógæfufólks, við gerum það vegna fórnarlambanna, vegna fólksins sem missti vinnuna og myndi annars að auki missa laun fyrir unna vinnu, vegna þolenda ýmis konar ofbeldis og glæpa og vegna barna einstæðra foreldra. Við borgum skuldir óreiðumanna til þess að minnka þjáningu grandalausra fórnarlamba – vegna þess að við viljum telja okkur siðlegt samfélag.

Stærra samfélag

Þegar við tölum í dag um samfélagið sem við lifum í getum við ekki einskorðað það við Ísland. Við erum líka þátttakendur í stærra samfélagi þar sem við höfum ýmsar skuldbindingar, bæði lagalegar og siðferðilegar. Lagalegar í gegnum ýmsa alþjóðasamninga og siðferðilegar skuldbindingar sem eru þær sömu gagnvart öllu fólki sem við eigum samskipti við og skiptir þjóðerni engu í því sambandi. Á meðal þeirra sem hæst kalla nú um að við eigum ekki að borga skuldir óreiðumanna er fólk sem fékk sitt sparifé að fullu bætt. Það var í lagi að þeir fengu borgað sitt að fullu, það eru bara útlendingar sem voru viðskiptavinir íslensku bankanna sem mega éta það sem úti frýs. Ef íslenskar innistæður Landsbankans hefðu ekki verið að fullu tryggðar væri Icesave ekki vandamál – þá hefði andvirði þrotabús Landsbankans dugað og vel það. En það var ákveðið að mismuna eftir þjóðerni (það er býsna aumt að hanga á því að mismununin hafi verið eftir útibúum en ekki þjóðerni) og þess vegna er Icesave vandamál í dag. Við slíka mismunun hefur kallið: „Við borgum ekki skuldir óreiðumanna!“ holan hljóm og inngrip íslenskra stjórnvalda með neyðarlögunum gerði þetta að okkar máli.

Dómsstólaleiðin

Nei-sinnar hafa verið duglegir að benda á að það sé sjálfsagt mál að leita til dómstóla um úrlausn Icesave-málsins. Ég hef alltaf, svona almennt séð, litið á dómstóla sem þrautarlendingu ef allt annað bregst. Ef ég hef reynt viðræður og samninga, ef ég hef reynt að setja mig í annarra spor og ná sanngjarnri niðurstöðu í samningum – ef allt um þrýtur, þá leita ég til dómstóla. Það er þá um leið ákveðinn vanmáttaryfirlýsing – ég var ekki fær um að leysa málið öðruvísi. Vegna þess að við höfnuðum fyrri Icesave-samningunum náðum við mun hagstæðari samningum og getum vel við unað. Við, ásamt gervöllum hinum vestræna heima, gerðum stórt á okkur í fjármálum og við Íslendingar eigum að taka ábyrgð á okkar hlut en ekki að reyna að sleppa sem billegast frá því.

Förum varlega í að gera orð Bjarts í Sumarhúsum að okkar – munum örlög hans; frjáls og sjálfstæður, já – en allslaus og vinasnauður. Ég ætla að segja já þann níunda – ekki af ótta við mögulegar afleiðingar, heldur vegna þess að ég vil ekki skammast mín fyrir að vera Íslendingur.


Indland

Sessunautur minn í fluginu frá London til Naíróbí heitir Richard King og hefur áhugavert starf – hann vinnur að því að koma á friði. Samtökin sem hann tilheyrir heita Concordis International og starfa víða um heim að því að reyna að miðla málum á milli fylkinga þar sem eru vopnuð átök með því að koma á tengslum og umræðu. Hann er á leið til Súdan þar sem hans bíða ærin verkefni.

Undanfarin ár, þegar ég hef farið til bæði Indlands og Kenía í sömu ferð, hef ég yfirleitt flogið fyrst til Bombay, klárað mín mál í Indlandi, flogið frá Bombay til Naíróbí og svo sömu leið til baka í ferðarlok. Í þetta sinn er ódýrara að fljúga til Naíróbí og jafndýrt er á milli Naíróbí og Bombay, sama hvoru megin maður byrjar. Það neikvæða við þessa leið er að á flugvellinum í Naíróbí er langlélegasta aðstaða sem ég hef kynnst til að bíða og tólf tímar þar – mér tekst að vísu að dotta aðeins í stól en samt... Síðan tekur við stutt bið, bæði í millilendingu í Addis Ababa og í Bombay og svo liggur leiðin til Chennai. John tekur á móti mér á flugvellinum, við spjöllum saman á leiðinni á lítið hótel nærri flugvellinum en svo er höfuðið varla búið að snerta koddann þegar...

Daginn eftir flýg ég til Madurai – John er búinn að panta rútumiða fyrir mig til Kodaikanal en eftir allan þennan tíma á ferðalagi get ég ekki hugsað mér að sitja 9 tíma í rútu. Á flugvellinum í Madurai tekur Deenis á móti mér, en hann rekur hjálparsamtök í Madurai og nágrenni. Samtökin reka 11 dagvistarheimili fyrir börn, auk minni verkefna eins og kennslumiðstöðvar o.fl. Þrír sjálfboðaliðanna okkar tóku þátt í einu slíku hjá „tribal“ fólki í þorpi fyrir utan Madurai. Eftir að ég er búinn að henda töskunni inn á herbergi setjumst við niður og förum yfir verkefnið – plúsa og mínusa hans megin og hvað megi betur fara. Nota tímann um daginn til að undirbúa námskeiðið sem ég er að fara að halda í Kodaikanal og ljúka nokkrum óloknum verkefnum. Um kvöldmatarleitið kemur Deenis aftur – við fáum okkur kvöldmat uppi á þaki hótelsins – frábær veðurblíða og þægilegur kvöldandvari. Deenis kemur með sundurliðaða áætlun um hvernig hann myndi gera verkefnið aftur – dag fyrir dag.

Vakna fyrir allar aldir og fer út á rútustöð. Er rétt búinn að missa af einni rútu til Kodaikanal en eftir smá bið kemur leigubílstjóri sem hafði verið að aka fólki frá Kodaikanal á flugvöllinn í Madurai og var að leita að farþegum til baka. Verður úr að ég borga honum 500 rúpíur, sem er þriðjungur að því sem það myndi annars kosta í leigubíl, og er kominn með far til Kodaikanal. Leiðin upp í fjöllin er gríðarlega falleg. Ekið er með hlíðum þöktum þéttum skógi með útsýni á vinstri hönd yfir landið fyrir neðan, á veggjum meðfram veginum sitja apar og tína lýs af hverjum öðrum, íhugulir á svip. Leiðin frá Madurai er ekki löng – um 120 kílómetrar, en tekur um tvo og hálfan tíma. Ég renni inn að Jay hotel rétt fyrir ellefu. Þar taka John og Michael á móti mér, ásamt fimmtán öðrum þátttakendum.

Hálftíma síðar byrjar námskeiðið. Ég þekki ekki nema um helming þátttakendanna – hinn helmingurinn er fólk sem er nýkomið í samtökin okkar, ekki bara frá Tamil Nadu, heldur frá nágrannafylkjunum líka – Andra Pradesh og Karnataka. Ég er að prófa nýtt námskeið sem ég hef ekki haldið áður. Vinnuheitið á því er: „The Humanist Approach to Religion.“ Þegar mér er sagt að það séu tveir kristnir prestar á námskeiðinu, auk jógameistara sem haldið hefur mörg hundruð jóganámskeið, hugsa ég: Þetta verður áhugavert. Reyndar eru indverskir prestar ekki mjög „orthodox“, mér hefur sýnst þeirra andlega grunnur byggjast á indverskri speki, frekar en að vera kristileg tvíhyggja góðs og ills. Námskeiðið er í bland fræðilegt og verklegt – þ.e. verklegi hlutinn felst í að skoða og reyna að framkalla trúarlega reynslu og setja hana í annað samhengi en fólk gerir vanalega – efni sem var nokkuð stúderað í húmanistahreyfingunni í gamla daga.

100_2811

Námskeiðið gengur ótrúlega vel miðað við að þetta er fyrsta sinn sem ég held það og í lokasamantektinni virðast allir vera ánægðir. Reyndar er þetta efni sem, ef það virkar, tekur tíma að gerjast með fólki, þannig að ég þarf að heyra í þátttakendum eftir eina eða tvær vikur. Í lok dags held ég fund með þeim sem voru viðloðandi sjálfboðaliðaverkefnið; Sumathi í Salem, Eelangeran í Thorapadi, Chinnamaruthu og Shanmugan frá Ramanathapuram, auk Michaels og Johns. Förum yfir málin og ræðum það sem betur má fara – þeir stinga m.a. upp á því að dvalið verði lengur á hverjum stað svo að sjálfboðaliðarnir fái almennilega þjálfun í því sem þeir eru að gera. Það er býsna svalt um nóttina sem við gistum þarna – sef alklæddur með rúmábreiðu. Kodaikanal er í 1.800 metra hæð yfir sjávarmáli og á nýlendutímanum fóru Bretar gjarnan þangað yfir heitasta tímann.

Námskeiðinu lýkur um þrjú á sunnudag og þá fer ég ásamt Chinnamaruthu, Shamugam jógameistara og Barathi, sem rekur tímarit í Ramanthapuram,  í almenningsrútu – leiðin liggur til Muthukalathur þar sem Chinnamaruthu rekur stúlknaheimili. Þeir segja mér í upphafi að við verðum komnir upp úr átta en það er ekki fyrr en um miðnætti sem við skrönglumst í bæinn. Chinnamaruthu fer með mig heim til sín – hann og konan hans gista sjálf á heimilinu sem þau reka, þau hafa ekki efni á að ráða vaktmann. Sef ekki mjög vel – fæ loksins að kynnast aðstöðunni sem við bjóðum sjálfboðaliðunum okkar upp á!!! Einhver árans óværa í rúminu held ég, klæjar í annan handlegginn og sef varla nema 3-4 tíma áður en kominn er tími á að fara á fætur. Chinnamaruthu kemur og sækir mig um hálfsjö – meiningin er að hitta stúlkurnar á heimilinu áður en þær fara til skóla. Heimilið er í jaðri bæjarins, virðist hafa verið byggt sem einhvers konar samkomuhús og hafði staðið autt lengi áður en þau hjónin tóku það á leigu. Þau vörðu umtalsverðu fé í að koma því í stand – seldu m.a. alla gullskartgripi konunnar (algeng brúðkaupsgjöf) og reka það enn að stórum hluta með eigin fé. Vinir Indlands styðja fjórar stúlkur þar af samtals fimmtán, sem er mikilvægur stuðningur, en betur má ef duga skal. Eftir að stúlkurnar eru farnar í skóla er mér borinn morgunmatur á pallinum í fordyrinu á húsinu og spjalla við Rexline, konu Chinnamaruthu – hún talar prýðisgóða ensku, en Chinnamaruthu kann bara nokkur orð.

SAM_2489

Þegar komið er undir klukkan ellefu er kominn tími á að halda áfram för minni. Eftir hálftíma í rútu er ég kominn til Parmakudi, þar sem ég hitti Shamugan yfir tesopa áður en ég held áfram til Madurai þar sem ég gisti um nóttina. Morguninn eftir á ég flug til Chennai. John hittir mig á flugvelllinum og við höldum rakleiðis til Spencer Plaza. Þar versla ég sitt lítið af hverju, fer og skoða áprentun á kaffikönnur fyrir Múltikúlti (könnur með lógói Múltikúlti). Verðið er gott en flutningskostnaður mikill, nema það sé í mun meira magni en ég get gengið frá á staðnum. Niðurstaðan er að geyma það fram á sumar og taka einhvern slatta með heim í frakt. Frá Spencer Plaza förum við beint á flugvöllinn þar sem við hittum Michael – fáum okkur kaffi og spjöllum saman áður en ég fer út í flugvélina til Bombay.

 

Mannréttindi

Í áherslum mínum í framboði til stjórnlagaþings set ég mannréttindi sem mikilvægasta þáttinn. Í sjöunda kafla stjórnarskrárinnar er ágætis upptalning á mannréttindum, en skortir á nánari skilgreiningar. Þar vantar t.d. grein um pólitíska mismunum, sem útilokar mismunandi vægi atkvæða – svo eitthvað sé nefnt. Mannréttindi eiga að mínu mati að vera hryggjarstykkið í nýrri stjórnarskrá – þau hafa forgang gagnvart öðrum málum, hvort sem það er fullveldi, hlutverk forseta eða önnur atriði – þau síðarnefndu eru undirskipuð gagnvart mannréttindum. Þannig hafi mannréttindakafli eða mannréttindakaflar stjórnarskrárinnar svipaðan sess innan stjórnarskrárinnar og stjórnarskrá gagnvart lögum: Engin lög standast ef þau eru í andstöðu við stjórnarskrá og ekki er hægt að setja neitt inn í stjórnarskrá sem er í andstöðu við mannréttindi. Þannig er t.d. ekki hægt að krefjast aukins meirihluta í almennum kosningum um mál sem snerta fullveldi – eins og sumir frambjóðendur hafa tæpt á. Aukin meirihluti þýðir í raun misvægi atkvæði, sem er mannréttindabrot. Þannig væri líka útilokað að vera með ríkisrekna þjóðkirkju – þar með ríkir ekki raunverulegt trúfrelsi eins og kveðið er á um í 65. grein, 6.  kafla.

 

Af hverju munu Norðmenn ekki lána okkur án Icesave-skilyrða?

Það er einföld ástæða fyrir því að Norðmenn munu aldrei lána okkur norska krónu fyrr en við höfum gengið frá okkar málum við Breta og Hollendinga - það er af sömu ástæðu og þeir tóku ekki í mál að við tækjum hér upp norska krónu. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að Norðmenn hafi tvívegis hafnað inngöngu í Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu vill meirihluti norskra stjórnmálamanna enn að Noregur gangi í Evrópusambandið. Það hentar því norskum stjórnmálamönnum ekki að við fáum valkosti við evruna sem gjaldmiðil og það hentar þeim ekki að skera okkur niður í snörunni sem við komum okkur sjálfir í með Icesave - þannig gætum við frestað því að taka á samskiptavanda okkar við meginland Evrópu og það myndi minnka líkurnar á að við gengjum í sambandið. Norskir stjórnmálamenn vilja að við göngum í Evrópusambandið því það eykur líkurnar á að Norðmenn geri það líka.

 


mbl.is Fullviss að Norðmenn vilji lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ættum við að hjálpa öðrum

Fyrir nokkrum dögum héldum við málstofu um spurninguna; af hverju ættum við að hjálpa öðrum? Málstofan heppnaðist mjög vel og vakti skemmtilegar umræður. Í gær heyrði ég enduróm frá þeim umræðum sem hafa haldið áfram í framhaldinu - einn þátttakendanna fékk að heyra eftirfarandi staðhæfingu: Hér á Íslandi þurfum við að hugsa um okkur sjálf núna og þau vandamál sem við höfum við að glíma. Dæmi var tekið af neyðarástandi í flugvél þar sem loftþrýstingur félli. Fyrst þyrfti maður að setja grímuna á sjálfan sig og svo á börn og aðra sem þyrftu hjálp. Þetta hljómar kannski sannfærandi við fyrstu skoðun, en ef maður hugsar aðeins um það og setur í stærra samhengi þá er það frekar eins og eftirfarandi lýsing: Við erum löngu komin með okkar súrefnisgrímu, hér er fólk ekki að deyja úr hungri eða neitt slíkt. Það er frekar eins og við þurfum að rétta aðeins úr sætisbakinu vegna þess að við finnum til smáóþæginda, við þurfum að klóra okkur aðeins í eyranu og setja á okkur smá svitalyktareyði og konurnar smá maskara - áður en við snúum okkur að þeim sem situr við hliðina á okkur helblár úr súrefnisskorti.

Skottúr til Kenía

Lenti  í London í 17 gráðu hita og sólskin – sem gerði jökulkalt vorið á Íslandi með snævi þöktum fjöllunum og gaddfreðinni skuldahítinni einhvern veginn enn nöturlegra.  Hafði tékkað mig inn í gegnum netið áður en ég lagði af stað – bæði hjá Icelandair og Qatar Airways og allt gekk því fljótt og snurðulaust fyrir sig. Millilenti í Doha um miðnætti eftir um 7 tíma flug – 28 gráðu hiti þar, tilkynnti flugstjórinn rétt fyrir lendingu. Nokkuð löng bið – um sjö tímar í ógurlega afkastamiklu loftræstikerfi sem olli því að eftir að mér tókst að leggja mig í nokkra tíma, vaknaði ég hálffreðinn. Hálsbólgan og hóstinn sem spratt í kjölfarið átti eftir að endast nokkurn veginn alla ferðina. Ferðafélaginn var Rauðbrystingurinn, eftir Jon Nesbö, en hann er næsta viðfangsefni bókaklúbbsins Æskunnar (nafnið kemur af örvæntingarfullri sjálfsblekkingu nokkurra miðaldra bókanörda).

Flugið til Nairobi er umtalsvert styttra – eitthvað á fimmta tímann. Fann mér hótel sem var heldur ódýrara en í fyrri ferðum – ég var aðeins lasinn en krónugreyið í enn verra ástandi, allt 60-70% dýrara en áður. Fór samt ágætlega um mig. Um kvöldið fékk ég heimsókn konu sem tók hjá mér 10 fótbolta sem Paul Ramses hafði beðið mig að taka með mér. WPM$6946

Morguninn eftir kom svo Mama Lucy úr Little Bees og tók af mér megnið af pökkunum sem ég hafði komið með. Seinna um daginn hitti ég svo hana aftur ásamt Victori, ungum fyrrverandi skjólstæðingi hennar úr Little Bees sem í dag hjálpar henni við rekstur skólans. Victor varð samferða mér í tíu sæta Matatu til Nakuru. Í Nakuru tók Linet á móti okkur, rak mig beina leið í lyfjaverslun og lét mig kaupa flensulyf og síðan í beint á hótelið.

Morguninn eftir byrjaði námskeið um húmanískt sjálfboðaliðastarf með 12 manna hópi. Helmingurinn frá Nakuru, hinn helmingurinn héðan og þaðan úr Vestur-Kenía. Námskeiðið gekk mjög vel, stærsti hluturinn ungt fólk, þriðjungur í háskóla. Umræðurnar voru skemmtilegar og frjóar á köflum. Það var aftur lítið hægt að tala saman um kvöldið þegar farið var út að borða á stað þar sem tónlistin var í botni og varla hægt að tjá sig nema með öskrum. Þar á eftir kíkt örstutt á dansstað. Dansvalið var pólitískt rétt; á víxl spiluð Kikuyu- og Luo-tónlist auk annarrar sem ég kann ekki deili á. Þar sem námskeiðið átti að halda áfram klukkan átta morguninn eftir var farið á skikkanlegum tíma inn á hótel og í bólið. Áður en svefninn tók völdin svifu um kollinn hugleiðingar um liðinn dag og kveiktu á þessari sjaldgæfu og dýrmætu tilfinningu um að vera að gera nákvæmlega það sem mann langar til að gera!WPM$69AD

Námskeiðinu lauk rúmlega tvö á sunnudag. Eftir að við höfðum gætt okkur á tilapiu (fiskur) og geitakjöti kom einn sjálfboðaliðahópurinn með ýmislegt sem hann er að framleiða úr úrgangsefnum, töskur, veski , o.fl. Ég valdi sitt lítið af hvoru fyrir Múltikúlti áður en ég settist upp í Matatu á ný og brunað til Kisumu. Ferðin tók tæpa fjóra tíma og ég hafði nægan tíma, m.a. til að lesa staðarblöðin. Í Kenía eru þeir að reyna að koma saman nýrri stjórnarskrá – þeirra, eins og okkar, er uppsuða úr stjórnarskrá nýlenduherranna. Þeir hafa þó hóflegri hugmyndir en við um mannafla í þessa vinnu – þrettán manns koma að verkinu. Af hverju þurfum við sextíu og þrjá? Þá var nokkuð fjallað um atlögu stjórnvalda gegn talibönum Kenía, Mungiki-sértrúarhópnum. Hópurinn hefur vaxið undanfarin ár og er talinn ábyrgur fyrir fjölda morða í landinu. Þeir blanda saman sósíalískum hugsjónum um jöfnuð og afturhvarfi til gamalla gilda í Kenía – þ.m.t. til umskurðar kvenna og annars slíks. Þá var vandræðaleg útskýring eins ráðherra ríkisstjórnarinnar á því hvernig hvarf á upphæð sem nemur 15 milljörðum íslenskra króna mætti rekja til tölvuvillu. Kom til Kisumu um kvöldmatarleytið – frekar heimilislegt að rúlla inn á Hotel Palmers og heilsa upp á fólkið. Eftir að hafa kíkt í bæinn á „boda-boda“ (reiðhjól með bólstruðum bögglabera fyrir farþega) og kíkt á netið, hitti ég Anne Lauren á Palmers og við fórum yfir dagskrá þessa eina dags sem ég átti í vændum í Kisumu.

Klukkan tíu um morguninn komu Anne, George, Davies, ásamt Janet litlu sem Bidda systir er að styðja sem mætti með frænku sinni. Við ræddum aðeins mál Janetar – hún er á síðasta ári í grunnskóla, á næsta ári tekur við framhaldsskóli og ráðast möguleikar hennar af prófi sem hún þarf að taka í lok árs. Eftir það var fundað um komu ungu íslensku sjálfboðaliðanna í lok júní, gisting og verkefni og flestir lausir endar hnýttir . Var skotið föstum skotum á mig að nú yrði ég að koma og prófa að gista í heimahúsum líka! (Hvað er ég að koma mér útí?) Eftir hádegi röltum við Anne á heilsugæsluna og heilsuðum upp á Geoffrey lækni. Vinir Kenía byrjuðu nýlega að styðja við smálánaverkefni sem hann stýrir – hann vinnur með hópi vændiskvenna sem eru að reyna að skapa sér annað lifibrauð. Hann er frekar praktískur: „Við erum aðallega að reyna að fækka þeim skiptum sem þær fara á götuna – minnka tíðnina og skapa þeim valkosti.“ Svo sagði hann mér sögu af einni sem var nýkomin af stað með eigin atvinnurekstur – og gekk nokkuð vel. Hún hafði sagt að hún hefði mikið að gera, þegar hún kæmi heim á kvöldin væri hún of þreytt til að fara út og harka – og svo átti hún hvort sem er nóg að borða! Þar á eftir fórum við Anne á stúfana og náðum í vörur frá starfsþjálfunarmiðstöð fyrir ungt fólk – m.a. endurunnin kort sem hafa selst ágætlega í Múltikúlti. Um fimmleytið kom heilsugæslujeppinn og keyrði mig á flugvöllinn. Hálftímaflug, leigubíll í bæinn og inn á hótel. Þegar ég kíkti á netið beið dágott þýðingarverkefni sem ég fór langleiðina með að klára á heimleiðinni.


Tólf dagar í Kenía

Föstudagur 2. janúar

Lenti í Nairóbí eldsnemma eftir stutta viðkomu í Amsterdam og lengri þar á undan í London. Morguninn var frekar svalur en hlýnaði fljótt og þar sem ég ranglaði á milli veitingastaða og beið eftir fluginu til Kisumu hitti ég Val og Guinness, skoska vini mína – ég hafði staðið í þeirri trú að þau væru komin til Kisumu. Við fengum okkur að borða saman og instant kaffi úr dós, en þrátt fyrir að framleiða ókjör af kaffi er engin almennileg kaffimenning í Kenía – sama sagan og á Indlandi og annars staðar sem enskir hafa komið við sögu, kaffið er útbúið eins og te eða bara instant. Flug til Kisumu tekur innan við hálftíma, öðrum hálftíma síðar stóðum við í fordyri hótels sem kennt við heilaga Önnu. Tveimur tímum síðar komu John og Michael, tveir félagar okkar frá Indlandi, og þá var ekki eftir neinu að bíða; ásamt ellefu kenískum hvunndagshetjum fórum við að funda um málefni IHA (International Humanist Alliance) og hættum ekki fyrr en langt var liðið á kvöldið.

  Teambuilders meeting Jan09

Laugardagur 3. janúar

Eftir morgunmat, um 9, var haldið áfram að funda. Undir kvöldmat mætti Þórir Gunnarsson, gallvaskur frá Íslandi og sat það sem eftir lifði fundar. Hann hafði lent í Nairóbí snemma um morguninn en átti ekki flug til Kisumu fyrr en um eftirmiðdaginn svo hann notaði tækifærið og kíkti í heimsókn til Little Bees skólans í Nairobi – hitti þar Mömmu Lucy, kraftaverkakerlingu úr slömmum Nairobi og útdeildi gjöfum frá stuðningsforeldrum.

 

Sunnudagur og mánudagur 4.-5. janúar

Ég og Val héldum svokallað Phase II, eða framhaldsnámskeið, fyrir lykilfólk í hópunum sem við erum að vinna með. Þar var fjallað um ýmis þemu: Hugmyndafræðilegar grunnstoðir IHA, tilgang lífsins á 21. öld, persónulegar og félagslegar mótstöður við breytingum og ferlið frá hóp til „networks“ (tengslanet lýsir því ekki alveg). Námskeiðið er byggt upp sem blanda af fyrirlestrum, þátttökuverkefnum og leikjum og tókst mjög vel.

 

Þriðjudagur 6. janúar

Nú var skipt liði; Námskeið I var að mestu leyti í höndum Val, Michaels og Anne Lauren – ég tók bara Þórir Kenía 09 055þátt í blábyrjun og síðustu klukkutímunum. Þess á milli hafði ég tækifæri til að fara í jólasveinaleik og færa nokkrum börnum pakka frá stuðningsaðlinum á Íslandi. Á námskeiðið mætti fólk frá Kisumu, Migori, Sindo og Nakuru. Á meðan á því námskeiði stóð hélt Guinness annað námskeið um internetið. Þátttakendur voru nokkrir af þeim sem höfðu tekið þátt í framhaldsnámskeiðinu, auk fáeinna annarra. Hann fór yfir grundvallarhluti eins og tölvupóst og innskráningu og þátttöku í spjalli og fundum á netinu. Tölvunámskeiðið fór fram í tölvuveri Great Lakes University, skammt frá hóteli heilagrar Önnu, og var það fullt af tölvum með íslenskum lyklaborðum – tölvum frá Orkuveitu Reykjavíkur sem við sendum þeim í fyrra.

 

Miðvikudagur 7. janúar

Þegar byrjenda- og internetnámskeiðunum lauk, rétt upp úr hádeginu á miðvikudag, hélt Þórir vestur til Migori, að landamærum Tansaníu, en undanfarin ár hefur hann stutt grunnskóla þar, Goodwill Humanist Academy. Starfið þar hefur verið í nokkurri upplausn eftir að Florence Akinye, sem var aðalsprautan í því starfi, lést í fyrra og var markmiðið með för Þóris m.a. að koma málum þar í góðan farveg. Við hinir útlendingarnir fórum í heimsókn til miðstöðvar Anne Lauren í Korando, austur af Kisumu, rétt við Viktoríuvatnið. Kvennahópurinn þar tók á móti okkur með söng og dansi en síðan gekk Anne með okkur um nágrenni miðstöðvarinnar, kynnti okkur fyrir ýmsu fólki, m.a. tveimur unglingssystrum sem búa þar og annast yngri systkini sín, en fá hjálp frá miðstöðinni. Við miðstöðina sjálfa lék stór hópur barna sérIMG_2267_cr í fótbolta, boltinn var alvörufótbolti – víðast sér maður krakka í fótbolta í Kenía með bolta úr samanvöðluðu og -bundu plasti, hnoðuðu saman í kúlu. Þessi bolti var gefinn af stuðningsforeldri frá Íslandi. Hópurinn í Korando var búinn að gera ýmislegt frá því að ég var þarna síðast, m.a. girða af stóran akur til ræktunar við miðstöðina. Leikskólinn sem þær hafa verið að byggja er með bráðabirgðaþaki en stuðningsaðili á Íslandi lagði til aura til þess að setja á hann þak og verður það væntanlega komið á innan skamms.

Eftir heimsóknina var haldið aftur á hótelið í Kisumu en skömmu síðar vorum við sótt af öðru farartæki. Leiðin lá rétt út fyrir bæinn þar til beygt var inn í ríkmannlegt hverfi, inn í garð umluktan háum vegg með gaddavír efst. Þar var geysistórt hús á tveimur hæðum þar sem kunningjakona Michaels, Jane Ochieng býr. Jane rekur munaðarleysingjaheimili og er gift þingmanni úr flokki forsætisráðherrans, Raila Odinga. Ochieng var kosinn í frægu kosningunum fyrir rúmlega ári. Þar beið okkar síðbúinn kvöldmatur og spjall. Auk Jane var þar frændi hennar Bob, sem býr í New Jersey í Bandaríkjunum – skarpur karl sem starfar við rannsóknir á tryggingasvikum. Bob spurði mikið um ástand mála á Íslandi, fregnir af Íslandi fljúga víða.

 

Fimmtudagur 8. janúar

Um morguninn skildu leiðir, Val og Guinness héldu til Mombasa, Michael og John til Nakuru en ég, ásamt Janess Swama, ungum manni frá Suba-svæðinu við Viktoríuvatnið, stigum upp í rútu. Leiðin lá til bæjarins Sindo þar sem hann býr. Fólk tíndist inn og út úr farartækinu á leiðinni, sérstaka athygli mína vakti mjög dökk ung stúlka í skærbleikum bol sem á stóð: „Blonds are more cool,“ og vakti hugleiðingar um sjálfsmynd og hjálparstarf. Þótt þröngt væri í bílnum gekk allt greiðlega fyrir sig, „eftir að óeirðunum í kjölfar kosninganna lauk er fólk almennt kurteisara og tillitsamara,“ sagði Janess, „það hafa allir fengið nóg af ófriði.“ Við fórum óvenjulega leið til Sindo sem liggur vestur af Kisumu. Í stað þess að aka í vesturátt fórum við austur frá Kisumu og svo norður, en Kisumu liggur við botn fjarðar frá vatninu. Fjarðarmynnið er mjótt og tekur ferðin yfir aðeins um 45 mínútur. Bærinn sem ferjan leggst við heitir Mbita. Þar fór Janess með mig á skrifstofu í bænum sem hýsir miðstöð fyrir baráttu gegn kynbundnu ofbeldi. Hann kynnti mig fyrir konum sem þar starfa – þetta verkefni er eitt af mörgum sem hann kemur að. Síðan var haldið beint til Sindo, um 25 kílómetra leið. Þar mættum við beint á fund með hópi ungs fólks á staðnum sem er að vinna að ýmsum málum á staðnum í tengslum við börn og HIV. Eftir ræðuhöld og spjall þar var stokkið aftan á mótorhjól og keyrt eftir moldartroðningum enn vestar þar sem Jane, einn þátttakenda á byrjendanámskeiðinu, var með hóp sem vinnur að því að gefa munaðarlausum börnum og börnum fátækra mat. Eftir ræðuhöld og spjall, þar sem þau lýstu áhuga á því að tengjast stuðningsforeldraverkefninu okkar, var tekið til við að borða; kjúkling og ugali. Síðan var ekin sama leið til baka. Nóttinni varði ég í litlu hóteli í Sindo. Handan götunnar var spiluð hávær, lifandi tónlist vel fram yfir miðnætti – og það var hljóðbært, þau hefðu alveg eins getað verið í herberginu mínu að spila. Eldsnemma um morguninn voru settir í gang stórir bílar fyrir utan hótelið og þeim gefið vel inn – svefninn varð frekar stuttur og sundurlaus. Niðurstaða mín var að þetta væri næstversta hótel sem ég hef dvalið á – það versta er líka í Sindo, þar var ég fyrir 5 árum. Um morguninn bauð Janess í morgunmat og eftir að komast á netið í heilsugæslunni á staðnum hélt ég einn til baka til Mbita og tók ferjuna til baka og bílinn til Kisumu.

Þórir kom til baka frá Migori sama dag og bókuðum við okkur báðir á Palmers-hótelið. Um kvöldið var farið út, að ég hélt til að hlusta á lifandi tónlist. Þannig hófst það allavega en á fyrsta staðnum hittum við gamlan kunningja, lækni sem vinnur á heilsugæslunni sem Anne Lauren vinnur út frá, ásamt konu að nafni Carol, sem er fyrrverandi vændiskona og vinnur með honum að verkefnum sem snerta vændiskonur; að tryggja þeim ókeypis heilsugæslu og skapa þeim aðra valkosti sér til framfærslu. Fararkosturinn um kvöldið var ágæt jeppabifreið sem tilheyrði heilsugæslunni og enduðum við kvöldið á veitingastaðnum „Bottoms Up“, en þar sátu nokkrar stúlkur og voru að „harka“ og ein þeirra kom til okkar og sagði okkur sögu sína. Hún var innan við þrítugt, átti 2 börn og var HIV smituð.

 

Laugardagur 9. janúar

Um morguninn var haldið til Nakuru í 10 sæta Matatu, sem eru Toyota sendibifreiðar innréttaðar með sætum og einn helsti ferðamátinn í Kenía. Þegar ég kom fyrst til Kenía var troðið 19 manns í þessa bíla en 10 er svona mátulegt. Vegurinn til Nakuru var talsvert betri en þegar ég fór hann síðast og tók ferðin um 3 tíma. Á Chester-hótelinu í Nakuru beið okkar hópur um 30 sjálfboðaliða og voru haldnar ræður á milli þess að dreypt var á te og kaffi og etnar kökur. Síðan var farið út að borða og hlustað á og dillað sér við þjóðlega tónlist.

 

Sunnudagur 10. janúar

Morguninn eftir fóru allir nema ég í þjóðgarðinn í Nakuru, ég þurfti að vinna í þýðingaverkefni og átti eftir að ganga frá athugsemdum varðandi námskeiðin, sem ég og gerði. Þegar hópurinn sneri aftur höfðu þau gert góða ferð, séð ljón, hlébarða auk annarra dýra. Bavíani hafði rænt nestispoka Þóris og át banana og jógúrt með bestu lyst. Um kvöldið var Þórir svo orðinn fárveikur, með hita og í maganum – líklega matareitrun.

 

Mánudagur 11. janúar

Um morguninn hélt ég, ásamt Michael og John, til Nairóbí en Þórir varð eftir í góðum höndum Linetar, sem dreif hann til læknis sem dældi í hann lyfjum og hélt honum á sjúkrahúsinu yfir nótt. Ég kvaddi indversku vinina mína, sem áttu flug í eftirmiðdaginn, en fór sjálfur til Little Angels Adoption Agency í úthverfi borgarinnar, en það er félag sem hefur leyfi til alþjóðlegra ættleiðinga. Ég átti fund með forstöðukonunni sem upplýsti mig um hvað þyrfti til að opna fyrir ættleiðingar til Íslands. Þar á eftir bókaði ég mig inn á hótel og hélt áfram að vinna fram eftir kvöldi.

 

Þriðjudagur 12. janúar

Snemma næsta morgun lagði ég af stað til Kenyatta-háskólans, sem er rétt fyrir utan borgina. Þar tók Ezekiel á móti mér, en ég hitti hann fyrst í september í fyrra og hafði hann boðið mér í heimsókn. Ezekiel er kunningi Terry Gunnels sem átti frumkvæði að því að senda tölvur frá HÍ til Kenyatta-háskólans, fyrst 2005 og svo aftur í fyrra og unnum við að því með honum í bæði skiptin. Ezekiel starfar í dag sem yfirumsjónarmaður útvarpsstöðvar Kenyatta-háskóla. Hann gekk með mér um ganga og inn á skrifstofur og herbergi þar sem mjög víða mátti sjá tölvur með íslensk lyklaborð. Þar á eftir lá leiðin til Olive M. Mugenda, sem er Vice-Chancellor háskólans, en Ezekiel hafði bókað tíma hjá henni. Ég átti von á 5 mínútna kurteisisspjalli en lenti í 45 mínútna fundi með henni ásamt nokkrum toppum í háskólanum þar sem þau lýstu áhuga á meiri samskiptum við HÍ og Ísland almennt. Það kom mér mjög á óvart hvað þessar tölvusendingar til þessa næststærsta háskóla Kenía skiptu þá miklu máli. Hluti þessarar síðustu sendingar fór til menntamálaráðuneytisins í Kenía, til samhæfingarskrifstofa sem samhæfa starf hundruð skóla hver á sínu svæði. Öll þessi fyrirhöfn sem við lögðum á okkur í september til að koma tölvunum til landsins var allt í einu alveg þess virði. Ég var svo leystur út með gjöfum og teknar virðulegar myndir af mér og frú Mugende.

Seinna um daginn kom Þórir svo, hann hafði jafnað sig ótrúlega fljótt og vel. Með honum var Jeff, ungur maður frá Migori sem stundaði háskólanám í Nairóbí, en tók þátt í verkefninu í Migori. Jeff sagði mér að prófessor Mugende væri vel þekkt í Kenía, hún hefði unnið frábært starf með háskólann og hefði fengið sérstaka forsetviðurkenningu árið áður. Að lokum málsverði á ítölskum pítsustað í miðborg Nairóbí var farið snemma í háttinn.

 

Miðvikudagur 14. janúar

Við Þórir áttum flug hvor með sinni vélinni en brottför var aðeins með hálftíma millibili þannig að það hentaði ágætlega að fara saman út á völl. Við hittumst svo aftur í London og lentum skömmu eftir miðnætti í íslenskt myrkur og kulda.

 

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband