Færsluflokkur: Heimspeki

Um hlutverk forsetans

Ég man eftir því, fyrir rúmlega tveimur áratugum þegar ég las stjórnarskrána í fyrsta sinn, að lýsingin á hlutverki forseta kom mér spánskt fyrir sjónir. Það var eins og að hafa talið sig vera að horfa á leikritið Skugga Svein og uppgötva svo skyndilega að handritið var Íslandsklukkan eða eitthvað annað leikrit. Lýsingin var af töluvert pólitískara hlutverki en ég hafði vanist að sjá í verki; forseti getur lagt fram frumvörp, skipað ráðherra og embættismenn, svo eitthvað sé nefnt. En svo er klikkt út með því að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt, sem er ákveðin þversögn í sjálfu sér.

Nú hef ég ekki miklar skoðanir á því hvert hlutverki forsetans í stjórnsýslunni á að vera - mér hefur hingað til þótt það helst hafa mótast af löngun fólks til að hafa konung til að klippa á borða og halda hátíðarræður. Kosningar til forseta hafa mér þótt frekar vandræðalegar – til hvers var forseti að sækja lýðræðislegt umboð til fólksins ef hann var í raun valdalaus „gaukur í klukku“ eins og Bubbi orðaði það – umboð til hvers? Núverandi forseti braut blað í sögunni með því að nota og virkja málskotsréttinn fræga. Ég man eftir umræðunni í tengslum við framboð Sigrúnar Þorsteinssonar til forseta, árið 1988, sem hafði sem sitt helsta baráttumál að virkja málskotsréttinn – flestir lögspekingar töldu hann þá óvirkan eða jafnvel ónýtan. Ég vil að fólkið í landinu geti sjálft knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál, ef nógu margir fara fram á slíkt. Þar með verður aukaatriði hvort forseti hafi slíkan málskotsrétt.

Ég held þó að andstaða almennings við að leggja niður forsetaembættið yrði of mikil og því þarf að finna skilgreiningu og skipan á því sem er sjálfri sér samkvæm - forseti Íslands getur verið sameiningartákn og rödd samvisku þjóðarinnar - en valdamikill verður hann ekki.


Af hverju ættum við að hjálpa öðrum

Fyrir nokkrum dögum héldum við málstofu um spurninguna; af hverju ættum við að hjálpa öðrum? Málstofan heppnaðist mjög vel og vakti skemmtilegar umræður. Í gær heyrði ég enduróm frá þeim umræðum sem hafa haldið áfram í framhaldinu - einn þátttakendanna fékk að heyra eftirfarandi staðhæfingu: Hér á Íslandi þurfum við að hugsa um okkur sjálf núna og þau vandamál sem við höfum við að glíma. Dæmi var tekið af neyðarástandi í flugvél þar sem loftþrýstingur félli. Fyrst þyrfti maður að setja grímuna á sjálfan sig og svo á börn og aðra sem þyrftu hjálp. Þetta hljómar kannski sannfærandi við fyrstu skoðun, en ef maður hugsar aðeins um það og setur í stærra samhengi þá er það frekar eins og eftirfarandi lýsing: Við erum löngu komin með okkar súrefnisgrímu, hér er fólk ekki að deyja úr hungri eða neitt slíkt. Það er frekar eins og við þurfum að rétta aðeins úr sætisbakinu vegna þess að við finnum til smáóþæginda, við þurfum að klóra okkur aðeins í eyranu og setja á okkur smá svitalyktareyði og konurnar smá maskara - áður en við snúum okkur að þeim sem situr við hliðina á okkur helblár úr súrefnisskorti.

Að morgni forvals

Vaknaði í morgun með hugsanir um nokkra hluti sem ég hefði átt að gera í gær, hefði getað gert betur. Ákvað svo að vera sáttur - ég gerði mikið í gær, miklu fleiri hluti en ég gerði ekki og flest gerði ég betur en illa. Búnir að vera áhugaverðir dagar. Fékk staðfestingu á að fullt af fólki sem ég hef ekki séð eða heyrt í lengi er enn góðir vinir mínir, fólk sem hefur einhvern tímann slest upp á vinskapinn hjá er samt vinir mínir þrátt fyrir allt. Og svo hef ég kynnst fullt af áhugaverðu og spennandi fólki. Þrátt fyrir að það sé einhver handavinna í dag og púsl, þá er aðal "aksjónin" búin og ég ætla að njóta dagsins, hitta fólk í kosningaskrifstofu VG og vera á góðum stað innra með mér. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta forval fer en ég veit það eitt að ég er sáttur.


Nýr sími

Ég fékk mér nýjan síma um daginn - gamli félaginn í gegnum súrt og sætt síðustu árin, var orðinn lúinn og heyrðust í honum brak og brestir, ef maður ýtti ekki með hárnákvæmum þrýstingi, plús/mínus tvö bör, aftan á bakið á honum og sneri eilítið uppá. Þegar maður er í framboðsham og talar hástemmt um lýðræðisbyltingu í símann var erfitt að halda réttum þrýstingi og snúningurinn varð of mikið til vinstri. Mér líður enn dálítið eins og ég sé svikari - hann var þrátt fyrir allt nothæfur og hafði fylgt mér í 6-7 ár, en lífið þarf að hafa sinn gang og ég keypti nýjan síma. Mitt innlegg til aukinnar neyslu til að koma hjólum atvinnulífs heimsins í gang á ný... Eða þannig.

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband