Færsluflokkur: Dægurmál

Um nýja stjórnarskrá

Það er ákveðin þverstæða falin í því að alþingi skuli eiga síðasta orðið í að staðfesta nýja stjórnarskrá, og það tvívegis, þótt sú stofnun og stjórnmálaflokkarnir séu í raun vanhæfir til að eiga lokaorð um plagg sem fjallar um þessar stofnanir og setur völdum þeirra og áhrifum skorður. Kerfiskarlar og –kerlingar tala niður þjóðaratkvæði áður en alþingi á síðasta orðið – samkvæmt gömlu stjórnarskránni skal það vera þannig. Það er hins vegar enginn vafi á að þessi stjórnarskrárdrög, sem endurspegla þá lýðræðiskröfu sem spratt upp úr hruninu, munu hafa meira vægi í meðförum þingsins með blessun þjóðarinnar að baki, en með það útvatnaða umboð sem stjórnlagaráð hefur. Það er því gríðarlega mikilvægt að fylgja þeirri kröfu vel eftir. Mér sýnist við Íslendingar ekki hafa lært mikið á hruninu, lausn okkar við afleiðingum græðginnar er meiri græðgi. Stjórnarskrá með róttækum lýðræðisbreytingum er þó skref í rétta átt.


Indland - júlí 2010, seinni hluti

Klukkan 10 morguninn eftir voru 17 manns mættir á námskeið sem fór fram á hótelinu. Flestir frá Ramanathapuram-svæðinu en nokkur norðar; frá Salem og Chennai og nágrenni. Michael hélt með mér námskeiðið, en það er kallað „phase 2“ og er framhaldsnámskeið á eftir „phase 1“ sem hefur verið aðal sjálfboðaliðanámskeiðið hjá okkur í gegnum tíðina. Námskeiðið hófst klukkan 10 og var klukkan langt gengin í sex þegar við hættum. Þetta námskeið er í senn háheimspekilegt og með mikið af leikjum og skemmtir fólk sér undatekningarlaust vel. Á þessum fyrri degi rifjuðum við upp helstu atriði phase 1, fórum í hugmyndafræði IHA (International Humanist Alliance) og fólk fékk þau verkefni í hópvinnu að leysa ýmis félagsleg ágreiningsefni með notkun þessarar hugmyndafræði og síðan var hið sama gert með persónuleg vandamál. Næsta þema var „Tilgangur lífsins á tuttugustu öld“, þema sem undantekningarlaust vekur skemmtilegar umræður. Eftir að dagskrá dagsins lauk var okkur boðið í heimsókn til eins þátttakanda í um korters fjarlægð frá hótelinu. Þar fengum við te og meðlæti og var ég látin fletta í gegnum risastórt myndaalbúm frá giftingu dótturinnar síðastliðið vor. Þar voru endalausar myndir af brúðhjónunum þar sem þeim var stillt upp við hliðina á gestum og sjá mátti hvernig þau voru sífellt lúnari eftir því sem leið á albúmið – ég held að jafnist á við maraþon að gifta sig á Indlandi.

Morguninn eftir vaknaði ég rétt fyrir 7, en ég hafði mælt mér mót við mann að nafni Shamugan og fór ég með honum í heimsókn til miðstöðvar hans í um hálftíma fjarlægð. Shamugan er læknir og doktor í jógafræðum og hafði verið mjög virkur í umræðum á námskeiðinu. Á miðstöðinni hans er dreift lyfjum ókeypis til fátækra – þar á meðal mikið af náttúrulyfjum. Auk þess stendur hann fyrir ýmsum öðrum verkefnum. Hann talar ágæta ensku svo við gátum spjallað um mjög margt. Það kom í ljós að hann var alveg á sömu bylgjulengd og ég í sambandi við sjálfboðaliðaverkefnið – að líta ætti á þá sem „workers“ en ekki „special guests“. Ræddum það fram og aftur og þóttist ég búinn að finna þarna góðan samherja. Klukkan tíu vorum við komnir aftur á hótelið, þar sem haldið var áfram með námskeiðið og fjallað um „networking“ (vantar almennilega þýðingu, bygging tengslaneta nær því ekki). Í þessum hluta var mikið af leikjum og mikið hlegið. Námskeiðinu lauk svo um hálf þrjú og þá tókum við hlé áður en ég fór yfir stutta námskeiðið sem ég hafði verið að prófa í Keníu. Ég var aðeins búinn að laga það en kom skemmtilega á óvart hvað þau voru gríðarlega ánægð með efnið. Um kvöldið heimsóttum við Michael Chinnamarathu sem rekur félag sem heitir Awards Trust og þar var okkur boðið í kvöldmat. Spjölluðum fram eftir kvöldi áður en við héldum aftur á hótelið.

Morguninn eftir fengum við Michael okkur morgunmat saman, spjölluðum, plönuðum og plottuðum áður en hann rölti með mig út á rútustöð. Eftir tvo tíma var ég kominn á rútustöðina í Madurai, þaðan á flugstöðina þar sem ég flaug aftur til Chennai. Hitti John aðeins um kvöldið áður en ég lagði mig. Síðan: Chennai, Mumbai, London, Keflavík. Í vélinni frá London hitti ég gamla og kæra vinkonu, hana Stínu Sævars, og kjöftuðum við um pólitík og liðna tíma. Fékk svo far með henni og Völlu heim.

Kenía - júlí 2010, seinni hluti

Klukkan níu morguninn eftir kom Linet og átta aðrir – helsta liðið í Nakuru. Við byrjuðum með fundi um ýmis mál tengd verkefnunum og svo hélt ég sama námskeiðið fyrir þau. Lukkaðist vel – fínar umræður og varla hægt að ljúka námskeiðinu, fólk þurfti svo mikið að tjá sig.

Ég var mættur rétt fyrir átta á matatu-stöðina í Nakuru og tíu mínútum síðar var ég kominn af stað í „Ten seater“, sem er matatú með færri sætum en venjulegir matatúar (10 í stað 14) og því fer mun betur um mann. Ferðin til Nairóbí tók um tvo tíma og þegar ég kom í borgina skráði ég mig inn á hótel Brighton, skammt frá rútumiðstöðinni nálægt miðbænum. Verðið og staðsetning hvort tveggja mjög hentugt. Hringdi svo í Lucy í Little Bees, sem kom um tveimur tímum síðar. Við fundum matatú og fórum með honum á hjartaskurðlækningadeild Mater-sjúkrahússins. Erindið var að skoða mál Amosar litla, fjögurra ára drengs í Little Bee´s sem glímir við alvarlegan hjartagalla (vantar m.a. hjartahólf). Læknirinn sem hitti okkur kannaðist vel við mál Amosar. Hún sagði að það væri einstaklega erfitt og flókið mál og aðgerð ekki á færi lækna í Keníu. Hins vegar fengu þeir reglulega heimsóknir erlendra sérfræðinga sem önnuðust erfiðari skurðaðgerðir. Hún sýndi okkur umsögn læknis, sem hún sagði einn þekktasta hjartaskurðlækni Bandaríkjanna, um Amos. Hann taldi aðgerðina mjög erfiða og tímafreka og innan við 50% líkur á að hún tækist. Hann taldi sig því ekki geta réttlætt að gera hana þar sem hann gæti aðeins gert takmarkaðan fjölda aðgerða og önnur börn ættu betri líkur á árangri. Miðað við slíka umsögn þessa læknis, sagði hún, myndu aðrir læknar ekki leggja í aðgerð. Undirskriftin við umsögnina var dr. H Hennein og „gúgglaði“ ég hann eftir að ég kom aftur á hótelið. Ég staðfesti að þetta er einn þekktasti skurðlæknir í Bandaríkjunum – en líka að hann framdi sjálfsmorð í kringum síðustu mánaðamót eftir að hafa reynt að drepa konu sína. Eina sem virðist vera hægt er að gera fyrir Amos litla að sinni er að reyna að láta honum líða sem best og passa upp á heilsuna að öðru leyti og vona að eitthvað breytist í náinni framtíð. Á leiðinni heim á hótel labbaði maður upp að mér til að betla. Sagðist vera frá Simbabve og eiga hvergi höfði að halla. Ég hrökk í lás, maðurinn nokkuð skuggalegur, og arkaði frá honum inn í verslunarkjarna. Þar stoppaði ég og hugsaði málið. Undanfarna daga hafði ég verið í prógrammi í samskiptum. Prógrammið má e.t.v. taka saman í eftirfarandi setningu: „Hvernig myndi sú manneskja sem mig langar til að vera bregðast við tilteknum aðstæðum?“ Ákvað að manneskjan sem mig langar að vera myndi gefa manninum smáræði fyrir mat – en þegar ég kom aftur út var hann horfinn.

Um kvöldið, síðasta kvöldið í Keníu að þessu sinni, fór ég á Simmers og fékk mér að borða. Horfði á söng- og dansatriði og lenti á spjalli við hollenska fjölskyldu sem var á leið til Kisumu. Um leið og ég kynnti mig og sagðist vera frá Íslandi sagðist ég vona að þau hefðu ekki átt Icesave reikninga. Konan á rætur að rekja til Kisumu og eru þau með félag í Hollandi sem styður börn í skóla á svæðinu – að mér skildist, ekki fjarri Korando. Ég gaf þeim því upp símanúmerið hjá Anne Lauren og við skiptumst á netföngum.

Síðasti morguninn í Nairóbí var rólegur, fékk mér morgunmat og lagði á mig langt rölt til að fá mér mjög gott kaffi en líka rándýrt (um 200 kr. ísl). Dundaði mér við að skrifa þetta blogg yfir kaffinu og rölti svo og tók strætó (City Hopper nr. 34) út á flugvöll. Hingað til hef ég alltaf tekið leigubíl en langaði að prófa strætóinn. Ég var kannski korteri lengur á leiðinni en ég reiknaði út að hann kostaði 1/35 af verði leigubílsins. Samansaumaður kreppu-Íslendingur á ferð.

Fékk nokkuð stórt þýðingarverkefni á flugvellinum í Nairóbí og með því að hafa skinið á skjánum í lágmarki tókst mér að vinna helminginn af ferðinni til Bombay. Býsna forvitnileg þýðing – umfjöllun um tvö Disney verkefni: Ein lítil um Músíkönu, sem átti að vera framhald á Fantasíu og eitt stórt um Destínó,samvinnuverkefni Salvador Dalis og Walt Disneys sem þeir luku aldrei við sjálfir en var lokið nýlega. Einhvern veginn dettur manni ekki súrrealismi þegar maður heyrir minnst á Walt Disney. En ef grannt er skoðað í eldri teiknimyndum þá er ýmislegt mjög súrt þar – ég man eftir fíladraumnum í Dúmbósem ég sá einhvern tímann með krökkunum mínum; bleikir fílar og nótnaborð sem leystust upp og annað álíka. Destínó er fimm mínútna teiknimynd sem hefur hlotið fullt af verðlaunum og er full af táknum og súrrealisma í anda Dalis.


Hvað áhrif hefur hrun Grikklands á Icesave?

Ástandið í Grikklandi hefur vakið upp vangaveltur um hrun landsins og mögulega keðjuverkun sem næði til annarra Suður-Evrópuþjóða og hefði svo áhrif á efnahagskerfið um allan heim. Í umfjöllun um Icesaveskuldir hefur verið rætt um að endurheimtur af eignum Landsbankans muni nema 80-90% af skuldinni þannig að þegar upp verði staðið muni eingöngu lítill hluti þess falla á Íslendinga - mesti bagginn verði vaxtakostnaður. Forsendur þessarar spár eru spár um hagvöxt og batnandi efnahag í heiminum - hvað gerist ef allt snýst til verri vegar og við horfum fram á stærri kreppu næsta áratuginn? Það væri áhugavert ef hagfræðingar færu að setja fram einhver möguleg módel um slíkt.


Skötuselurinn

Mörgum kann að þykja Samtök atvinnulífsins gera mikið veður út af skötuselsfrumvarpinu svonefnda. Það er auðvitað ljóst að LÍÚ stendur þarna að baki og þeir vita vel hvað er undir. Átökin um þetta frumvarp er hvorki meira né minna en fyrsta orrustan um hverjir muni eiga kvótann í framtíðinni - þjóðin eða nokkur fyrirtæki og einstaklingar. Fyrir okkur sem erum á móti núverandi skipulagi er auðvitað geysimikilvægt að skapa fordæmi, jafnvel þótt það snerti aðeins eina fisktegund - að búa til nýtt kerfi við hlið þess gamla svo fólk geti borið saman og hætti að taka núverandi kerfi sem sjálfgefið. Að sama skapa vita talsmenn útvegsmanna hve hættulegt slíkt fordæmi er þeirra hagsmunum og leggja því allt undir - þar með talinn stöðugleikasáttmálann þar sem hvergi er minnst á skötusel.

Færslan á kvótanum frá útvegsmönnum til þjóðarinnar er eitt mikilvægasta þjóðþrifamál um þessar mundir. Ég segi "frá útvegsmönnum" en í raun er eignin á kvótanum að miklu leyti hjá bönkunum eftir braskið um árið og þ.a.l. í höndum erlendra kröfuhafa sem eignuðust stærsta hlutann í þeim. Nú ríður á að stjórnin stígi fast niður - hún er með lýðræðislegt og siðferðilegt umboð til þess!


Að loknu forvali

Þá eru ljósar niðurstöður forvals VG í Reykjavík - og auðvitað hefði ég viljað ná betri niðurstöðu. 269 greidd atkvæði er þó ágætis byrjun, sérstaklega ef tekið er mið af því að vera hvorki þingmaður, kona né ungur, og tilheyra því engri af þeim blokkum sem þarna voru að einhverju leyti til staðar. En ég er reynslunni og nokkrum vinum ríkari - og það er þó nokkuð.

Nýr sími

Ég fékk mér nýjan síma um daginn - gamli félaginn í gegnum súrt og sætt síðustu árin, var orðinn lúinn og heyrðust í honum brak og brestir, ef maður ýtti ekki með hárnákvæmum þrýstingi, plús/mínus tvö bör, aftan á bakið á honum og sneri eilítið uppá. Þegar maður er í framboðsham og talar hástemmt um lýðræðisbyltingu í símann var erfitt að halda réttum þrýstingi og snúningurinn varð of mikið til vinstri. Mér líður enn dálítið eins og ég sé svikari - hann var þrátt fyrir allt nothæfur og hafði fylgt mér í 6-7 ár, en lífið þarf að hafa sinn gang og ég keypti nýjan síma. Mitt innlegg til aukinnar neyslu til að koma hjólum atvinnulífs heimsins í gang á ný... Eða þannig.

Dagur í lífi "homo politicus".

Mér hefur alltaf fundist prófkjörstími skemmtilegur tími. Maður gengur um bæinn og hittir fullt af elskulegum frambjóðendum sem hafa ofboðslegan áhuga á manni, eru kátir og kammó – hreint út sagt, yndislegir! Auðvitað er það ekki að ástæðulausu – þeir eru að leita að umboði – nýrri vinnu eða eru að reyna að halda gömlu vinnunni í bland við að reyna að koma hugsjónum sínum í framkvæmd. En samt ... maður er ekkert að gera sér rellu út af því – væri ekki heimurinn betri ef allir væru alltaf á leiðinni í framboð – og fólk væri stöðugt meðvitað um að það þarf á öðru fólki að halda? ... hm...

Nú er ég sjálfur kominn í þessa stöðu, á leiðinni í prófkjör, og það er forvitnilegt að skoða það frá hinni hliðinni. Ég tók t.d. eftir því í gær þegar ég stoppaði fyrir kunningja mínum á Hverfisgötunni til að skutla honum upp á Hlemm og hugsaði: Hefði ég gert þetta ef ég væri ekki í prófkjöri? Líklega hefði ég gert það en kannski ekki af jafn miklum ákafa – hann er meira að segja í sama flokki og ég! Ég finn líka að ég vanda mig meira þegar ég tala við fólk – þarf raunar að passa mig að fara ekki að tala eitthvað hástemmt, uppskrúfað mál í landsföðurlegum tón sem endar með andlegu og líkamlegu harðlífi undir vorið. Næstu dagar verða áhugaverðir – nokkrir dagar í lífi homo politicus. 


Einnota frumvarp Helga

Ég hef lengi verið talsmaður þess að auka hér lýðræð með ýmsum hætti, m.a. að með undirskriftasöfnum sé hægt að knýja fram mál. Nú ætlar Helgi Hjörvar, ásamt fleirum, að leggja fram frumvarp um að meirihluti kosningabærra manna geti knúið fram kosningar. Sú einstaka staða sem nú er uppi í íslensku samfélagi gerir það að verkum að mögulegt og líklegt er hægt væri að koma slíkri söfnun í gegn og það á einni viku eða svo. Hins vegar held ég að það verði aldrei slíkar aðstæður aftur og þess vegna er þetta einnota frumvarp. Eðlilegt væri að setja markið við 20-30% kosningabærra manna. Það er 40-60 þúsund manns og víst að er nóg mikill biti til þess að ekki yrði hægt að misnota það.

Tólf dagar í Kenía

Föstudagur 2. janúar

Lenti í Nairóbí eldsnemma eftir stutta viðkomu í Amsterdam og lengri þar á undan í London. Morguninn var frekar svalur en hlýnaði fljótt og þar sem ég ranglaði á milli veitingastaða og beið eftir fluginu til Kisumu hitti ég Val og Guinness, skoska vini mína – ég hafði staðið í þeirri trú að þau væru komin til Kisumu. Við fengum okkur að borða saman og instant kaffi úr dós, en þrátt fyrir að framleiða ókjör af kaffi er engin almennileg kaffimenning í Kenía – sama sagan og á Indlandi og annars staðar sem enskir hafa komið við sögu, kaffið er útbúið eins og te eða bara instant. Flug til Kisumu tekur innan við hálftíma, öðrum hálftíma síðar stóðum við í fordyri hótels sem kennt við heilaga Önnu. Tveimur tímum síðar komu John og Michael, tveir félagar okkar frá Indlandi, og þá var ekki eftir neinu að bíða; ásamt ellefu kenískum hvunndagshetjum fórum við að funda um málefni IHA (International Humanist Alliance) og hættum ekki fyrr en langt var liðið á kvöldið.

  Teambuilders meeting Jan09

Laugardagur 3. janúar

Eftir morgunmat, um 9, var haldið áfram að funda. Undir kvöldmat mætti Þórir Gunnarsson, gallvaskur frá Íslandi og sat það sem eftir lifði fundar. Hann hafði lent í Nairóbí snemma um morguninn en átti ekki flug til Kisumu fyrr en um eftirmiðdaginn svo hann notaði tækifærið og kíkti í heimsókn til Little Bees skólans í Nairobi – hitti þar Mömmu Lucy, kraftaverkakerlingu úr slömmum Nairobi og útdeildi gjöfum frá stuðningsforeldrum.

 

Sunnudagur og mánudagur 4.-5. janúar

Ég og Val héldum svokallað Phase II, eða framhaldsnámskeið, fyrir lykilfólk í hópunum sem við erum að vinna með. Þar var fjallað um ýmis þemu: Hugmyndafræðilegar grunnstoðir IHA, tilgang lífsins á 21. öld, persónulegar og félagslegar mótstöður við breytingum og ferlið frá hóp til „networks“ (tengslanet lýsir því ekki alveg). Námskeiðið er byggt upp sem blanda af fyrirlestrum, þátttökuverkefnum og leikjum og tókst mjög vel.

 

Þriðjudagur 6. janúar

Nú var skipt liði; Námskeið I var að mestu leyti í höndum Val, Michaels og Anne Lauren – ég tók bara Þórir Kenía 09 055þátt í blábyrjun og síðustu klukkutímunum. Þess á milli hafði ég tækifæri til að fara í jólasveinaleik og færa nokkrum börnum pakka frá stuðningsaðlinum á Íslandi. Á námskeiðið mætti fólk frá Kisumu, Migori, Sindo og Nakuru. Á meðan á því námskeiði stóð hélt Guinness annað námskeið um internetið. Þátttakendur voru nokkrir af þeim sem höfðu tekið þátt í framhaldsnámskeiðinu, auk fáeinna annarra. Hann fór yfir grundvallarhluti eins og tölvupóst og innskráningu og þátttöku í spjalli og fundum á netinu. Tölvunámskeiðið fór fram í tölvuveri Great Lakes University, skammt frá hóteli heilagrar Önnu, og var það fullt af tölvum með íslenskum lyklaborðum – tölvum frá Orkuveitu Reykjavíkur sem við sendum þeim í fyrra.

 

Miðvikudagur 7. janúar

Þegar byrjenda- og internetnámskeiðunum lauk, rétt upp úr hádeginu á miðvikudag, hélt Þórir vestur til Migori, að landamærum Tansaníu, en undanfarin ár hefur hann stutt grunnskóla þar, Goodwill Humanist Academy. Starfið þar hefur verið í nokkurri upplausn eftir að Florence Akinye, sem var aðalsprautan í því starfi, lést í fyrra og var markmiðið með för Þóris m.a. að koma málum þar í góðan farveg. Við hinir útlendingarnir fórum í heimsókn til miðstöðvar Anne Lauren í Korando, austur af Kisumu, rétt við Viktoríuvatnið. Kvennahópurinn þar tók á móti okkur með söng og dansi en síðan gekk Anne með okkur um nágrenni miðstöðvarinnar, kynnti okkur fyrir ýmsu fólki, m.a. tveimur unglingssystrum sem búa þar og annast yngri systkini sín, en fá hjálp frá miðstöðinni. Við miðstöðina sjálfa lék stór hópur barna sérIMG_2267_cr í fótbolta, boltinn var alvörufótbolti – víðast sér maður krakka í fótbolta í Kenía með bolta úr samanvöðluðu og -bundu plasti, hnoðuðu saman í kúlu. Þessi bolti var gefinn af stuðningsforeldri frá Íslandi. Hópurinn í Korando var búinn að gera ýmislegt frá því að ég var þarna síðast, m.a. girða af stóran akur til ræktunar við miðstöðina. Leikskólinn sem þær hafa verið að byggja er með bráðabirgðaþaki en stuðningsaðili á Íslandi lagði til aura til þess að setja á hann þak og verður það væntanlega komið á innan skamms.

Eftir heimsóknina var haldið aftur á hótelið í Kisumu en skömmu síðar vorum við sótt af öðru farartæki. Leiðin lá rétt út fyrir bæinn þar til beygt var inn í ríkmannlegt hverfi, inn í garð umluktan háum vegg með gaddavír efst. Þar var geysistórt hús á tveimur hæðum þar sem kunningjakona Michaels, Jane Ochieng býr. Jane rekur munaðarleysingjaheimili og er gift þingmanni úr flokki forsætisráðherrans, Raila Odinga. Ochieng var kosinn í frægu kosningunum fyrir rúmlega ári. Þar beið okkar síðbúinn kvöldmatur og spjall. Auk Jane var þar frændi hennar Bob, sem býr í New Jersey í Bandaríkjunum – skarpur karl sem starfar við rannsóknir á tryggingasvikum. Bob spurði mikið um ástand mála á Íslandi, fregnir af Íslandi fljúga víða.

 

Fimmtudagur 8. janúar

Um morguninn skildu leiðir, Val og Guinness héldu til Mombasa, Michael og John til Nakuru en ég, ásamt Janess Swama, ungum manni frá Suba-svæðinu við Viktoríuvatnið, stigum upp í rútu. Leiðin lá til bæjarins Sindo þar sem hann býr. Fólk tíndist inn og út úr farartækinu á leiðinni, sérstaka athygli mína vakti mjög dökk ung stúlka í skærbleikum bol sem á stóð: „Blonds are more cool,“ og vakti hugleiðingar um sjálfsmynd og hjálparstarf. Þótt þröngt væri í bílnum gekk allt greiðlega fyrir sig, „eftir að óeirðunum í kjölfar kosninganna lauk er fólk almennt kurteisara og tillitsamara,“ sagði Janess, „það hafa allir fengið nóg af ófriði.“ Við fórum óvenjulega leið til Sindo sem liggur vestur af Kisumu. Í stað þess að aka í vesturátt fórum við austur frá Kisumu og svo norður, en Kisumu liggur við botn fjarðar frá vatninu. Fjarðarmynnið er mjótt og tekur ferðin yfir aðeins um 45 mínútur. Bærinn sem ferjan leggst við heitir Mbita. Þar fór Janess með mig á skrifstofu í bænum sem hýsir miðstöð fyrir baráttu gegn kynbundnu ofbeldi. Hann kynnti mig fyrir konum sem þar starfa – þetta verkefni er eitt af mörgum sem hann kemur að. Síðan var haldið beint til Sindo, um 25 kílómetra leið. Þar mættum við beint á fund með hópi ungs fólks á staðnum sem er að vinna að ýmsum málum á staðnum í tengslum við börn og HIV. Eftir ræðuhöld og spjall þar var stokkið aftan á mótorhjól og keyrt eftir moldartroðningum enn vestar þar sem Jane, einn þátttakenda á byrjendanámskeiðinu, var með hóp sem vinnur að því að gefa munaðarlausum börnum og börnum fátækra mat. Eftir ræðuhöld og spjall, þar sem þau lýstu áhuga á því að tengjast stuðningsforeldraverkefninu okkar, var tekið til við að borða; kjúkling og ugali. Síðan var ekin sama leið til baka. Nóttinni varði ég í litlu hóteli í Sindo. Handan götunnar var spiluð hávær, lifandi tónlist vel fram yfir miðnætti – og það var hljóðbært, þau hefðu alveg eins getað verið í herberginu mínu að spila. Eldsnemma um morguninn voru settir í gang stórir bílar fyrir utan hótelið og þeim gefið vel inn – svefninn varð frekar stuttur og sundurlaus. Niðurstaða mín var að þetta væri næstversta hótel sem ég hef dvalið á – það versta er líka í Sindo, þar var ég fyrir 5 árum. Um morguninn bauð Janess í morgunmat og eftir að komast á netið í heilsugæslunni á staðnum hélt ég einn til baka til Mbita og tók ferjuna til baka og bílinn til Kisumu.

Þórir kom til baka frá Migori sama dag og bókuðum við okkur báðir á Palmers-hótelið. Um kvöldið var farið út, að ég hélt til að hlusta á lifandi tónlist. Þannig hófst það allavega en á fyrsta staðnum hittum við gamlan kunningja, lækni sem vinnur á heilsugæslunni sem Anne Lauren vinnur út frá, ásamt konu að nafni Carol, sem er fyrrverandi vændiskona og vinnur með honum að verkefnum sem snerta vændiskonur; að tryggja þeim ókeypis heilsugæslu og skapa þeim aðra valkosti sér til framfærslu. Fararkosturinn um kvöldið var ágæt jeppabifreið sem tilheyrði heilsugæslunni og enduðum við kvöldið á veitingastaðnum „Bottoms Up“, en þar sátu nokkrar stúlkur og voru að „harka“ og ein þeirra kom til okkar og sagði okkur sögu sína. Hún var innan við þrítugt, átti 2 börn og var HIV smituð.

 

Laugardagur 9. janúar

Um morguninn var haldið til Nakuru í 10 sæta Matatu, sem eru Toyota sendibifreiðar innréttaðar með sætum og einn helsti ferðamátinn í Kenía. Þegar ég kom fyrst til Kenía var troðið 19 manns í þessa bíla en 10 er svona mátulegt. Vegurinn til Nakuru var talsvert betri en þegar ég fór hann síðast og tók ferðin um 3 tíma. Á Chester-hótelinu í Nakuru beið okkar hópur um 30 sjálfboðaliða og voru haldnar ræður á milli þess að dreypt var á te og kaffi og etnar kökur. Síðan var farið út að borða og hlustað á og dillað sér við þjóðlega tónlist.

 

Sunnudagur 10. janúar

Morguninn eftir fóru allir nema ég í þjóðgarðinn í Nakuru, ég þurfti að vinna í þýðingaverkefni og átti eftir að ganga frá athugsemdum varðandi námskeiðin, sem ég og gerði. Þegar hópurinn sneri aftur höfðu þau gert góða ferð, séð ljón, hlébarða auk annarra dýra. Bavíani hafði rænt nestispoka Þóris og át banana og jógúrt með bestu lyst. Um kvöldið var Þórir svo orðinn fárveikur, með hita og í maganum – líklega matareitrun.

 

Mánudagur 11. janúar

Um morguninn hélt ég, ásamt Michael og John, til Nairóbí en Þórir varð eftir í góðum höndum Linetar, sem dreif hann til læknis sem dældi í hann lyfjum og hélt honum á sjúkrahúsinu yfir nótt. Ég kvaddi indversku vinina mína, sem áttu flug í eftirmiðdaginn, en fór sjálfur til Little Angels Adoption Agency í úthverfi borgarinnar, en það er félag sem hefur leyfi til alþjóðlegra ættleiðinga. Ég átti fund með forstöðukonunni sem upplýsti mig um hvað þyrfti til að opna fyrir ættleiðingar til Íslands. Þar á eftir bókaði ég mig inn á hótel og hélt áfram að vinna fram eftir kvöldi.

 

Þriðjudagur 12. janúar

Snemma næsta morgun lagði ég af stað til Kenyatta-háskólans, sem er rétt fyrir utan borgina. Þar tók Ezekiel á móti mér, en ég hitti hann fyrst í september í fyrra og hafði hann boðið mér í heimsókn. Ezekiel er kunningi Terry Gunnels sem átti frumkvæði að því að senda tölvur frá HÍ til Kenyatta-háskólans, fyrst 2005 og svo aftur í fyrra og unnum við að því með honum í bæði skiptin. Ezekiel starfar í dag sem yfirumsjónarmaður útvarpsstöðvar Kenyatta-háskóla. Hann gekk með mér um ganga og inn á skrifstofur og herbergi þar sem mjög víða mátti sjá tölvur með íslensk lyklaborð. Þar á eftir lá leiðin til Olive M. Mugenda, sem er Vice-Chancellor háskólans, en Ezekiel hafði bókað tíma hjá henni. Ég átti von á 5 mínútna kurteisisspjalli en lenti í 45 mínútna fundi með henni ásamt nokkrum toppum í háskólanum þar sem þau lýstu áhuga á meiri samskiptum við HÍ og Ísland almennt. Það kom mér mjög á óvart hvað þessar tölvusendingar til þessa næststærsta háskóla Kenía skiptu þá miklu máli. Hluti þessarar síðustu sendingar fór til menntamálaráðuneytisins í Kenía, til samhæfingarskrifstofa sem samhæfa starf hundruð skóla hver á sínu svæði. Öll þessi fyrirhöfn sem við lögðum á okkur í september til að koma tölvunum til landsins var allt í einu alveg þess virði. Ég var svo leystur út með gjöfum og teknar virðulegar myndir af mér og frú Mugende.

Seinna um daginn kom Þórir svo, hann hafði jafnað sig ótrúlega fljótt og vel. Með honum var Jeff, ungur maður frá Migori sem stundaði háskólanám í Nairóbí, en tók þátt í verkefninu í Migori. Jeff sagði mér að prófessor Mugende væri vel þekkt í Kenía, hún hefði unnið frábært starf með háskólann og hefði fengið sérstaka forsetviðurkenningu árið áður. Að lokum málsverði á ítölskum pítsustað í miðborg Nairóbí var farið snemma í háttinn.

 

Miðvikudagur 14. janúar

Við Þórir áttum flug hvor með sinni vélinni en brottför var aðeins með hálftíma millibili þannig að það hentaði ágætlega að fara saman út á völl. Við hittumst svo aftur í London og lentum skömmu eftir miðnætti í íslenskt myrkur og kulda.

 

Næsta síða »

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband