Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gamlárskvöld

Gamlárskvöld

 

Dvel hérna á litlu gistihúsi skammt frá Heathrow í herbergi við hæfi Spartverja; lítið, kalt og með lágmarksbúnaði. Á morgun liggur leiðin til Kenía með viðkomu í Amsterdam. Rölti í kuldanum í kvöld inn á kínverskt buffet, prýðismatur á þokkalegu verði – pundið hefur verið að falla fyrir evrunni og með sama áframhaldi ná þau saman innan skamms tíma.

Í netfréttum koma fyrir nokkrar fréttir í röð, Kryddsíld blásin af vegna mótmæla, búnaður Stöðvar 2 skemmdur og starfsfólk laskað og mótmælendur úðaðir – og þar fyrir neðan: „Ingibjörg vill friðarumræður.“ Um stund velti ég fyrir mér hvort hún sé að tala um Gaza-svæðið eða mótmælendur á Íslandi. Ákveð að hún sé að tala um hið fyrrnefnda en finnst það síðarnefnda ekki síður góð hugmynd – það þarf að eiga sér stað heiðarleg og hreinskiptin umræða á Íslandi og henni þurfa að fylgja aðgerðir ef það á að verða einhver friður.

Þrátt fyrir allt hefur þetta verið gott ár hjá mér þótt mér hefði ekki veitt af svo sem einum mánuði í viðbót. Þegar vinnubrjálæðið minnkaði fyrir jólin gerði ég smá átak og hafði samband við fólk sem ég hef trassað að vera í sambandi við og sem ég fann fyrir spennu þegar ég hugsaði um það – aðallega af því að ég hef ekki sinnt ákveðnum samskiptum og ekki gert eitthvað sem ég hefði átt að vera búinn að gera. Það er alltaf gott að tjá sig beint við fólk og nú þarf ég ekki að burðast með þessa spennu fram yfir á næsta ár – sem er svo sannarlega léttir.

Næsta ár... Einhvern veginn eitt stórt spurningamerki. Allir þessir erfiðleikar sem fela í sér alla þessa möguleika – í öllu falli mjög áhugavert ár framundan. 


Kreppa sjálfsímyndar

Flestir eru sammála um að hér sé kreppa. Fólk missir vinnuna, vöruverð og lán hækka - framtíð fólks lokast. Samt sveltur enginn og allir hafa húsnæði - og þannig verður það áfram. Kreppur síðustu alda þýddu hungur, sjúkdómar og vosbúð - þær voru upp á líf og dauða. Hver eru þá einkenni þessarar kreppu sem nú blasir við okkur? Hvað gerist hjá fólki á Íslandi er það tapar fjárfestingum sínum, missir atvinnu sína og eignir í samfélagi þar sem þessir hlutir hafa svo mikið vægi í að ákvarða og skilgreina hver við erum? Stór hluti okkar sjálfsímyndar er húsin sem eigum, bílarnir sem við ökum og störfin sem við gegnum - þessir hlutir eru í hættu og þ.a.l. er þessi kreppa fyrst og fremst kreppa sjálfsímyndar.


Í kjölfar kommúnisma og frjálshyggju ... og Davíð og Geir

Þegar kommúnisminn hrundi sögðu hörðustu kommúnistar að kommúnisminn í Sovétríkjunum sálugu hefði ekki verið alvöru kommúnismi heldur eitthvað allt annað. Það er áhugavert að heyra í hörðustu frjálshyggjupostulunum í dag: Þetta var ekki alvöru frjálshyggja ... líka bara eitthvað annað.

Svo er komin upp áhugaverð staða hjá Sjálfstæðisflokknum núna. Skjaldborg sjálfstæðismanna um Davíð stafar auðvitað af því að arfleifð hans er stór hluti af arfleifð Sjálfstæðisflokksins. Það útskýrir auðvitað ótrúlegt þanþol þeirra gagnvart seðlabankastjóranum. Eftir að Davíð hótaði Geir með pólitískri endurkomu er komin upp sú staða að arfleifð Geirs er að veði - ef hann bregst ekki við þessu hefur hann verið algjörlega niðurlægður. Geir þarf því að velja, og hann getur aðeins valið eitt af tvennu: eigin arfleifð eða Davíðs.

 


Talað í hring

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, svaraði í Háskólabíói í kvöld spurningu um af hverju mætti ekki afnema eða frysta verðtrygginguna með eftirfarandi orðum: "Við þurfum peninga inn í bankana til að geta hjálpað fólki og fyrirtækjum í erfiðleikum" - erfiðleikum sem væntanlega má að stórum hluta rekja til verðtryggingarinnar!

Davíðsarmur Sjálfstæðisflokks - Andstaða við Evrópusambandsaðild

Í hádegisfréttum Bylgjunnar var talað um tvær fylkingar innan Sjálfstæðisflokksins, önnur sem varaformaðurinn, Þorgerður Katrín, talar fyrir og er opin fyrir að skoða inngöngu í Evrópusambandið, og hin kennd við Davíðsarminn, samkvæmt Bylgjunni, og er mótfallin henni. Ég veit ekki hvort þetta er með ráðum gert, að spyrða andstöðu við Evrópusambandsaðild saman við Davíð, en með stöðu Davíðs í dag í huga, þá dettur manni í hug að e.t.v. sé um pólitíska framsetningu að ræða. Það verður engum málstað til framdráttar í dag að vera kenndur við Davíð.

Ísland - Nígería norðursins

Ég átti í smá bréfaskriftum við kunningja minn frá Ítalíu í morgun. Hann, eins og margir aðrir, fær mjög ýkta mynd af ástandi mála á Íslandi í gegnum fjölmiðla. Við höfum báðir verið talsvert í Kenía og hann spurði mig hvort að þetta væri að verða eins og í Afríku hjá okkur. Í Silfri Egils áðan kom fram að Icesave reikningarnir í Hollandi voru stofnaðir í vor og þeim síðan lokað nú þegar bankarnir hrundu. Þá datt mér þessi samlíking við Afríku í hug, sérstaklega við Nígeríu, þar sem menn hafa verið mjög útsjónarsamir við að plata fólk á Vesturlöndum - þeim hefur þó aldrei tekist neitt í líkingu við þetta!

Svört spá seðlabanka - spá eða afleiðing eigin stefnu?

Svört spá Seðlabankans um aukið atvinnuleysi, lækkun húsnæðisverðs og annað í þeim dúr, vekur hugleiðingar um forsendur þeirrar spár. Það sem er áhugavert við spána er að þar hlýtur að telja allþungt þeirra eigin ákvörðun um að hækka stýrivexti, ákvörðun sem mörg dæmi sýna að hefur haft nákvæmlega þessar afleiðingar.

Um pólitíska ábyrgð

Segjum sem svo að yfirvöld slökuðu á umferðareglum og leyfðu 200 km. hámarkshraða, akstur á göngustígum og gegn hefðbundinni akstursstefnu, þ.e. slökuðu á öllum almennum umferðarreglum. Gætu þau vísað ábyrgðinni á gífurlega aukinni slysatíðni á almenning og bílaframleiðendur? Ríkisstjórnin bendir á auðmenn og almenning en minnast ekki á eigin ábyrgð - það var pólistísk ákvörðun að lækka bindisskyldu bankanna og ríkið ber ábyrgð á eigin eftirlitsstofnunum.

Af vekjaraklukkum

Ég hlustaði aðeins á BBC í morgun á leið í kennslu - á umfjöllun um vekjaraklukkur. Þar voru spiluð ýmis afbrigði af vekjaraklukkuhljóðum og sagt frá ýmsum gerðum af vekjaraklukkum - ein færði sig um á gólfinu þannig að maður varð að elta hana uppi til að slökkva á henni, ein gaf rafstuð þegar maður reyndi að slökkva á henni, o.s.frv. Best fannst mér þó sú sem var nettengd og gefur framlag til einhvers málefnis sem manni er illa við, fari maður ekki á fætur og slökkvi á henni. Fyrir mig myndi eflaust virka að stilla á kosningasjóð Frjálslynda flokksins...

Um stimpilgjöld og samkeppni

Ein af helstu rökunum með því að fella niður stimpilgjöld hafa verið þau að þau standi í vegi fyrir samkeppni á lánamarkaði. Nú stendur til að fella niður stimpilgjöld þegar fólk kaupir sína fyrstu íbúð. Það gerir nákvæmlega ekkert til þess að auka áðurnefnda samkeppni. Þegar fólk kaupir sína fyrstu íbúð er það að taka húsnæðislán í fyrsta skipti og þarf að borga stimpilgjöld hvar sem það tekur þau lán. M.ö.o. þá er til staðar möguleiki á samkeppni. Stimpilgjöldin koma hins vegar í veg fyrir að fólk endurfjármagni óhagstæðari lán með hagstæðari lánum ef þau bjóðast.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 10248

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband