Færsluflokkur: Mannréttindi

Um femínisma, fórnarlömb og hlutgervingu

Ég setti inn dálítið innlegg á Fésbókina hjá henni Stínu vinkonu minni um daginn, en hún hafði deilt erindi sem Halla Gunnarsdóttir hafði flutt þar sem hún lagðist gegn frumvarpi um staðgöngumæðrun. Ég lýsti þar skoðun minni; að hennar afstaða væri sprottin af vafasamri hugmyndafræði og fórnarlambsfemínisma. Það var býsna stutt innlegg, eins og svona innlegg eru gjarnan, og að sjálfsögðu allt of stutt til að geta talist málefnalegt. Ég hef í gegnum tíðina veigrað mér við að tjá mig opinberlega um svokallaðan fórnarlambsfemínisma, sem er hluti af harðasta femínismanum í dag og sumir telja ganga út í öfgar. Hann felur í sér að skilgreina t.d. fólk í klámiðnaði og staðgöngumæður sem einhvers konar fórnarlömb sem ekki kunni fótum sínum forráð og þurfi þ.a.l. að hafa vit fyrir. Ástæðan fyrir að ég hef veigrað mér við að skrifa um þetta er að hluta til að miðaldra karlmenn eru gjarnan tortryggðir í þessari umræðu – sjálfir tákngervingar feðraveldisins, og að hluta til af því að femínisminn hefur staðið fyrir einni mestu mannréttindabyltingu sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi og mig langar ekkert sérstaklega að leggja stein í götu hans, þrátt fyrir að hluti þeirrar hreyfingar hafi haldið í vegferð sem mér finnst æði vafasöm. En stöku sinnum hef ég pirrað mig yfir sumu sem ég hef lesið úr þessari átt og það er góð leið til að losna við pirring að tjá sig um málin. Þar fyrir utan veit ég að þær Stína og Halla eru báðar hugsjónamanneskjur og ég ætla þeim engan slæman ásetning þótt ég sé þeim hjartanlega ósammála um þetta mál. Mér finnst því verjandi nokkrum orðum til að útskýra mína afstöðu skilmerkilegar en ég gerði í áðurnefndu innleggi.


Um fórnarlambsfemínisma
Ég skrifa þetta í Dindigul í Tamil Nadu á Suður-Indlandi að loknu námskeiði sem ég hélt ásamt tveimur indverskum félögum mínum þar sem fulltrúar níu samtaka, sem vinna að ýmsum góðum málum í héraðinu, tóku þátt. Hluti af námskeiðinu fjallar um forsendur hjálparstarfs og felur í sér gagnrýni á ákveðna tegund hjálparstarfs sem iðkuð hefur verið í heiminum um langa hríð. Þá erum við ekki að tala um neyðaraðstoð af ýmsu tagi, eins og eftir jarðskjálfta, flóð eða aðrar náttúruhamfarir – við erum að tala um verkefni til lengri tíma þar sem vestrænar stofnanir koma inn og setja upp stofnanir og samtök til þess að vinna að ýmsum ágætum málum, algjörlega á eigin forsendum, en heimamenn standa á hliðarlínunni, óvirkir – fá kannski starf og einhverjar sporslur en algjörlega í aukahlutverki sem þiggjendur. Slíkt starf veldur ýmsum félagslegum aukaverkunum, heimafólk verðu háð aðstoðinni og verður óvirkt og slíkt starf gerir lítið fyrir sjálfsmat og -virðingu heimafólks. Hjálparstarf á þessum nótum er sem betur fer á undanhaldi, þótt við stillum þessu svona upp í ýktri mynd til skilnings. Á móti stillum við því upp sem kalla mætti húmanískt hjálparstarf, þar sem allt starf sem er unnið er á forsendum heimafólks og reynt er að stuðla að því að gera alla að þátttakendum. Þátttakendur upplifa stolt og aukna sjálfsvirðingu vegna eigin starfs, en slík fyrirbæri, þótt ómælanleg séu, eru mikil félagsleg verðmæti í öllum samfélögum.
Hvað kemur þetta áðurnefndu innleggi við? Í einhverjum skilningi er, í þessu „gallaða“ hjálparstarfi, litið á fólk á vettvangi hjálparstarfsins sem einhvers konar fórnarlömb og þeim ekki treyst fyrir verkefninu og að byggja upp eigið samfélag og eigið líf. Í þessu kristallast sú grundvallarafstaða mín; að með því að líta á fólk sem fórnarlömb, sem taka megi ráðin af og sjálfsákvörðunarrétt, sé verið að halda því niðri og hlutgera það.

Hlutgerving
Hugtakið hlutgerving kemur gjarnan fyrir í umræðu, bæði um staðgöngumæðrun og klám. Í rökum gegn áðurnefndu frumvarpi hefur m.a. verið nefnt að þetta fyrirbæri, staðgöngumæðrun, hvetji til hlutgervingar. Ég hefði haldið að hún Stína vinkona mín myndi nú staldrað við svona framsetningu. Við Stína vorum nefnilega í mörg á saman í félagsskap þar sem var talsvert fjallað um hlutgervingu og hún stúderuð. Rekja má rætur hugtaksins til þýska heimspekingsins Immanuels Kant sem sagði að ekki mætti líta á fólk sem tæki til að ná fram eigin markmiðum, heldur væri fólk markmið í sjálfu sér. Í þessum félagsskap okkar Stínu var rætt ýtarlega um hlutgervingu sem undanfara ofbeldis – til þess að geta beitt aðra manneskju ofbeldi verðum við að sjá hana sem hlut, sem eitthvað eitt og einangrað fyrirbæri, sem líkama eða kynveru, sem hlutverk eða fulltrúa stöðu, stéttar eða ættbálks. Þegar við höfum smækkað manneskjuna þannig í hlut eða hlutverk getum við notað hana og beitt ofbeldi. Fyrst og fremst er hlutgerving afstaða – ekki bundin við einhvern ákveðinn hóp eða stétt. Allir hlutgera einhvern tímann og þeir sem gera mikið af því hlutgera yfirleitt alla – starfsmaðurinn á afgreiðslukassanum verður framlenging á kassanum, karlinn verður holdgervingur feðraveldisins og konan verður kynlífsleikfang. Fólk sem hlutgerir ekki að öllu jöfnu gerir það kannski þegar það er stressað, er að flýta sér eða er upptekið af sjálfu sér – það tengist ekki einhverju ákveðnu starfi eða hlutverki.
Það er að sjálfsögðu ekkert athugavert við að fólk líti á hvert annað sem konur, karla, afgreiðslufólk eða kynverur – það er verður ekki hlutgerving fyrr en fólk einskorðar sig við það og sér ekkert annað, sér ekki hvert annað sem fjölbreyttar verur í mörgum lögum og, það sem mestu máli skiftir; verur með sinn eigin ásetning og frelsi. Þegar litið er á fólk eingöngu sem fórnarlömb og því meinað að taka ákvarðanir um eigið líf er verið að hlutgera það. Þess vegna sagði sagði ég í áðurnefndu innleggi að fórnarlambsfemínisminn geri lítið úr konum í tengslum við staðgöngumæðrun og feli ekki í sér mikla trú á fólk. Almennt hefur mér svo virst sem margir femínistar séu uppteknari við hugmyndafræði og sínar skoðanir og jaðartilfelli sem falla að þeim, heldur en tölfræði, rannsóknir eða að setja sig í spor þeirra kvenna sem þeir skilgreina sem fórnarlömb. Til þingnefndarinnar sem fjallaði um staðgöngumæðrun bárust fleiri umsagnir sem mæltu gegn frumvarpingu en mæltu með því. Munurinn var hins vegar sá að í þeim umsögnum sem mæltu með frumvarpinu var vísað til rannsókna úr sambærilegum samfélögum en í þeim sem mæltu á móti var gjarnan huglægt mat – m.a. þessi; að staðgöngumæðrun feli í sér tilhneigingu til hlutgervingar. Þá hafa andstæðingar gjarnan minnst á Indland í þessu samhengi – sem er frekar ódýrt áróðursbragð þar sem þetta eru ósambærileg samfélög hvað þetta varðar og í anda þess að draga fram verstu jaðartilfelli máli sínu til framdráttar.

Almennt um femínisma – laumufarþeginn
Mér verður stundum hugsað til fyrri daga femínismans, t.d. þess femínisma sem birtist í tímaritinu Veru fyrir all nokkrum árum. Ég man t.d. eftir grein þar sem fjallað var um ferð þriggja ungra manna á strippbúllu og kom þar fram heiðarleg sýn sem sýndi tvær hliðar, táknræna niðurlægingu kvenna en jafnframt hvernig þessar sömu konur plokkuðu af mönnunum peninga eins og væru þeir kjúklingar. Þetta var sanngjörn og heiðarleg umfjöllun, femínismi með báðar fætur á jörðinni og mér fannst ég eiga samleið með honum. Ég hef velt fyrir mér hvað hefur gerst síðan og mín niðurstaða er sú að stór hluti vandans sé að ákveðinn laumufarþegi hafi gert sig æ fyrirferðarmeiri um borð. Þennan laumufarþega mætti nefna siðferðilega forræðishyggju. Mér finnst ekkert athugavert við að fólk berjist fyrir „bættu“ siðferði – fólk á bara að koma fram og segja það og þá get ég tekið afstöðu til þess. En að fela hann bak við femínisma, lýsa yfir vilja til að loka strippbúllum af umhyggju við konur en sýna í raun engan áhuga á þeim konum sem þar starfa eða þeirra sjónarmiðum er vægast sagt grunsamlegt, í skásta falli hræsni. Ég man reyndar eftir einu skipti þar sem einn helsti talsmaður femínista, Sóley Tómasdóttir, talaði opinberlega um siðferði í þessu samhengi – í Silfri Egils að mig minnir. Það var allavega heiðarlegt en þá er málið hætt að snúast um femínisma.

Lokaorð
Ég vil kalla mig femínista – þótt skoðanir mínar séu ekki samkvæmt hugmyndafræði þeirra sem lengst vilja ganga. Ég á ekki samleið með öllum femínistum. Vel fram yfir þrítugt hafði ég engar efasemdir – mér fannst ég vera í liði með öllum sem tjáðu sig um kvenfrelsi og jafnrétti. Ég man þegar fyrst steytti á skeri í því sambandi. Ég var að gefa út blað um innflytjendamál ásamt hópi Íslendinga og innflytjenda. Við ræddum einu sinni við nokkrar konur í pólitík um að jafnréttislög yrðu víkkuð út þannig að þau næðu líka til réttinda innflytjenda, sem hafa að ýmsu leyti staðið höllum fæti í íslensku samfélagi. Viðbrögðin komu mér vægast sagt á óvart. Meirihluti þessara kvenna vildi ekki taka þetta í mál – fannst að mögulega gæti þetta rýrt eitthvað stöðu kvenna. Mögulega var það rétt hjá þeim – en þá gerði ég mér grein fyrir að þeirra barátta var ekki hluti af jafnréttis- og mannréttindabaráttu allra – hún var bara fyrir konur, bara fyrir þær sjálfar – og einhverjar konur voru tilbúnar að standa gegn því að aðrir sem hallaði á fengju notið sömu réttinda.

Það er sjálfsagt lengi hægt að bæta við þessi stóru þemu sem varða baráttuna fyrir betra samfélagi en ég ætla að segja þetta gott að sinni. Ég óska Stínu og Höllu góðs gengis við flest baráttumál þeirra og efast ekki um að þær munu ekkert slá af frekar en þær hafa gert hingað til og á von á að oftar en ekki verði ég í þeirra liði.


Í tilefni Alþjóðlega kvennadagsins

Í gær fagnaði heimurinn Alþjóðlega kvennadeginum, en fjölskylda Salapei L. syrgði. Salapei dó um miðjan janúar síðastliðinn vegna þess að hún var ófrísk, fátæk og úr fjarlægu þorpi í Trukana í Keníu þar sem vélknúin farartæki eru ekki á hverju strái og vegir standa varla undir nafni. Næsta heilsugæsla er í 20 kílómetra fjarlægð og næsta sjúkrahús 100 kílómetra í burtu. Nýfætt ungabarn mun nú alast upp móðurlaust. Eiginmaður hennar sagði frá því sem gerðist: Átta tímum eftir að hríðir hófust hjá Salapei gerði hún sér grein fyrir að ekki var allt með felldu og bað eiginmann sinn að fara með sig á sjúkrahúsið. Þau voru fjóra daga á leiðinni í miklum hitum og þjáðust af hungri og þorsta vegna þess að vörubíllinn sem þau ferðuðust með var sífellt að bila. Að lokum tókst þeim að leigja einkabifreið sem kom þeim loks á svæðissjúkrahúsið þar sem læknirinn framkvæmdi keisarauppskurð. Henni blæddi  ákaft. Læknirinn var ágætlega menntaður og ákveðinn í að reyna að  bjarga lífi konunnar en á sjúkrahúsinu var ekki að finna nein lyf til að stöðva blæðingar. Eiginmaðurinn varð því að ganga einn kílómetra í lyfjaverslun til að kaupa lyfin. Salapei var látin þegar hann sneri aftur. Á þessu ári munu nærri 8.000 kenískar konur og stúlkur láta lífið vegna meðgöngu, fæðingar eða eftir fæðingu, samkvæmt heimildum WHO. Þýtt úr Daily Nation.


Mannréttindi

Í áherslum mínum í framboði til stjórnlagaþings set ég mannréttindi sem mikilvægasta þáttinn. Í sjöunda kafla stjórnarskrárinnar er ágætis upptalning á mannréttindum, en skortir á nánari skilgreiningar. Þar vantar t.d. grein um pólitíska mismunum, sem útilokar mismunandi vægi atkvæða – svo eitthvað sé nefnt. Mannréttindi eiga að mínu mati að vera hryggjarstykkið í nýrri stjórnarskrá – þau hafa forgang gagnvart öðrum málum, hvort sem það er fullveldi, hlutverk forseta eða önnur atriði – þau síðarnefndu eru undirskipuð gagnvart mannréttindum. Þannig hafi mannréttindakafli eða mannréttindakaflar stjórnarskrárinnar svipaðan sess innan stjórnarskrárinnar og stjórnarskrá gagnvart lögum: Engin lög standast ef þau eru í andstöðu við stjórnarskrá og ekki er hægt að setja neitt inn í stjórnarskrá sem er í andstöðu við mannréttindi. Þannig er t.d. ekki hægt að krefjast aukins meirihluta í almennum kosningum um mál sem snerta fullveldi – eins og sumir frambjóðendur hafa tæpt á. Aukin meirihluti þýðir í raun misvægi atkvæði, sem er mannréttindabrot. Þannig væri líka útilokað að vera með ríkisrekna þjóðkirkju – þar með ríkir ekki raunverulegt trúfrelsi eins og kveðið er á um í 65. grein, 6.  kafla.

 

Réttindi fólks gagnvart lögreglu og dómsvaldi verði tryggð

Í flestum ef ekki öllum samfélögum í dag er hluti af skilgreiningunni á ríki sú að það sé eini aðilinn sem hefur rétt á beitingu ofbeldis innan sinna landamæra. Þannig liggur ofbeldishótun að baki öllu laga- og reglugerðargangvirki ríkisins. Ef við borgum ekki skattana, ef við brjótum umferðareglur eða önnur lög landsins getur ríkið beitt okkur ofbeldi – tekið af okkur fé, eignir eða frelsi okkar. Þegnar hafa ekki þennan rétt – þeir verða að leita réttar síns í gegnum stofnanir ríkisins. Þetta ofbeldi er réttlætt með því að það sé nauðsynlegt til að halda ríkinu saman og koma í veg fyrir upplausn þess. Þessi réttur ríkisins til ofbeldis er þó yfirleitt nokkrum takmörkunum háður. Þannig þarf dómsvaldið alla jafnan að hafa milligöngu um beitingu ofbeldisins, fólk er talið saklaust þar til sekt hefur verið sönnun og hafi fólk hreina samvisku á að ekki að þurfa að eiga það á hættu að verða beitt ofbeldi með því að það sé tekið til yfirheyrslu eða frelsi þess takmarkað á annan hátt. Lögreglan þarf að hafa rökstuddan grun um afbrot til þess að beita slíku ofbeldi. Á dögum Rögnu Árnadóttur í sæti dómsmálaráðherra voru lögð drög að því að breyta því fyrirkomulagi, með því að leyfa forvirkar rannsóknarheimildir, en sem betur fer hafa þau áform verið lögð til hliðar – a.m.k. að sinni.

Til staðar er tilhneiging í öllum stofnunum til að reyna að efla völd sín og áhrif og þ.a.l. túlka raunveruleikann þannig að sú túlkun styðji við slíkt. Þannig er t.d. hentugt að tala um aukningu glæpa í tengslum við vændi þegar hegðun sem var eitt sinn lögleg er gerð ólögleg. Það þarf ekki að vera um neina breytingu á atferli að ræða – þvert á móti eru líkur á að tíðni slíks atferlis hafi minnkað, en samkvæmt tölum hefur þá glæpatíðnin aukist. Það að ákveðin bifhjólasamtök ákveði að ganga til liðs við erlend bifhjólasamtök sem hafa illt orð á sér þýðir í orðræðu lögreglunnar að skipulögð glæpastarfsemi sé að festa rætur sínar hér – án þess að nokkuð hafi endilega breyst í starfsemi áðurnefndra bifhjólasamtaka eða að einhverjir hafi bæst í þeirra hóp erlendis frá.

Þessi orðræða er ekki ósvipuð orðræðunni í tengslum við hryðjuverkaógn og öryggismál. Á undanförnum árum er búið að ganga langt, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, í að veita lögreglu og öryggisþjónustu víðtækari heimildir og völd sem skerða persónulegt frelsi og mannréttindi þegnanna. Í Bretlandi var lífi fólks gjörbylt vegna atburða sem vissulega voru hræðilegir, en til að setja hlutina í samhengi þá dóu í hryðjuverkaárásinni jafn margir og deyja á tveimur dögum í umferðarslysum í Bretlandi. Á Spáni var tekin ákvörðun um að láta hryðjuverkaárásirnar sem urðu á Spáni um svipað leyti ekki verða til að stjórna lífsháttum fólks – túlkunin var sú að slíkt bæri vott um sigur hryðjuverkamannanna.

Eins og áður segir er það tilhneiging stofnana til þess að efla völd sín og áhrif. Það er hins vegar hlutverk stjórnmálamanna að dansa ekki eins og dáleiddar hænur eftir orðræðu þeirra og lepja hana upp gagnrýnislaust. Stjórnarskrá sem tekur af skarið með mannréttindakafla með skýrum ákvæðum sem tryggja mannhelgi og lágmarkar ofbeldi ríkisvaldsins hjálpar til þess.

 

Af hverju ættum við að hjálpa öðrum

Fyrir nokkrum dögum héldum við málstofu um spurninguna; af hverju ættum við að hjálpa öðrum? Málstofan heppnaðist mjög vel og vakti skemmtilegar umræður. Í gær heyrði ég enduróm frá þeim umræðum sem hafa haldið áfram í framhaldinu - einn þátttakendanna fékk að heyra eftirfarandi staðhæfingu: Hér á Íslandi þurfum við að hugsa um okkur sjálf núna og þau vandamál sem við höfum við að glíma. Dæmi var tekið af neyðarástandi í flugvél þar sem loftþrýstingur félli. Fyrst þyrfti maður að setja grímuna á sjálfan sig og svo á börn og aðra sem þyrftu hjálp. Þetta hljómar kannski sannfærandi við fyrstu skoðun, en ef maður hugsar aðeins um það og setur í stærra samhengi þá er það frekar eins og eftirfarandi lýsing: Við erum löngu komin með okkar súrefnisgrímu, hér er fólk ekki að deyja úr hungri eða neitt slíkt. Það er frekar eins og við þurfum að rétta aðeins úr sætisbakinu vegna þess að við finnum til smáóþæginda, við þurfum að klóra okkur aðeins í eyranu og setja á okkur smá svitalyktareyði og konurnar smá maskara - áður en við snúum okkur að þeim sem situr við hliðina á okkur helblár úr súrefnisskorti.

Einnota frumvarp Helga

Ég hef lengi verið talsmaður þess að auka hér lýðræð með ýmsum hætti, m.a. að með undirskriftasöfnum sé hægt að knýja fram mál. Nú ætlar Helgi Hjörvar, ásamt fleirum, að leggja fram frumvarp um að meirihluti kosningabærra manna geti knúið fram kosningar. Sú einstaka staða sem nú er uppi í íslensku samfélagi gerir það að verkum að mögulegt og líklegt er hægt væri að koma slíkri söfnun í gegn og það á einni viku eða svo. Hins vegar held ég að það verði aldrei slíkar aðstæður aftur og þess vegna er þetta einnota frumvarp. Eðlilegt væri að setja markið við 20-30% kosningabærra manna. Það er 40-60 þúsund manns og víst að er nóg mikill biti til þess að ekki yrði hægt að misnota það.

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband