Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Ég vil sanngirni - þegar hún hentar mér...

Áður en dómur hæstaréttar um myntlán féll man ég ekki eftir að neinn hafi haldið því fram að leiðrétta ætti myntlánin af því að kjör þeirra sem þau tóku væru mun lakari en þeirra sem tóku verðtryggð krónulán. Núna ganga menn fram, hver af öðrum; Kristinn Gunnarsson, Mörður Árnason og Gylfi Magnússon og vilja verðtryggja myntlánin, m.a. annars af því að ef skilmálarnir standi að öðru leyti muni kjör fólks með verðtryggð lán verða mun lakari en myntlánin. Skoðanabræður þeirra á blogginu birtast líka einn af öðrum og taka í sama streng án þess hafa nokkurn tímann skrifað stafkrók þegar hallaði á skuldara myntlána gagnvart skuldurum verðtryggðra lána. Þetta er eins og maðurinn sagði: "Ég vil sanngirni – þegar hún hentar mér." Auðvitað mega þessir menn hamast eins og þeir vilja, hæstiréttur er æðsta dómstig landsins og ekki er hægt að setja afturvirk lög til að breyta þessu.

Undirritaður hefur í gegnum tíðina talað fyrir inngripi stjórnvalda í myntlán þegar þau voru að sliga almenning og fyrirtæki í landinu. Lánveitendur þeirra, alla vega stóru gömlu bankarnir, voru virkir í að fella krónuna þannig að þessir pappírar sem nýju bankarnir tóku yfir voru alltaf gölluð vara – ef ekki lagalega, þá örugglega siðferðilega. Vinstri stjórnin á Íslandi valdi að grípa ekki inn í þessi mál. Ég treysti á að hún verði sjálfri sér samkvæm og grípi ekki inn í núna þegar almennir borgarar hafa réttinn sín megin. Og ef skynsamir menn eru við stjórn á lánastofnunum koma þeir nú með gott tilboð sem lágmarkar tap þeirra en bætir um leið skuldurum myntlána þjáningar undanfarinna mánaða. Hinn kosturinn er að útkljá alla óvissuþætti í gegnum hæstarétt - og það verður lánastofnunum ekki í hag.

 

Eru það bruðlarar sem velja lægstu vexti?

Pétur Blöndal tekur stórt upp í sig þegar hann ásakar þá tugþúsundir manna sem tóku myntlán um að hafa ekki sýnt ráðdeild og um áhættusækni. Fyrir utan þá staðreynd að bankarnir héldu þessum lánum að fólki sem hagkvæmum valkosti (og þeir áttu að heita sérfræðingarnir sem ósérfróður almenningur leitaði til) þá voru þetta lægstu vextir sem í boði voru og ef fólk vildi sýna varkárni og skoðaði gengisþróun undanfarinna ára, þá var ekkert í spilunum sem gaf tilefni til að halda að fyrir höndum væru slíkar hamfarir sem urðu. Þar með er Pétur líka að segja að meginþorri íslenskra fyrirtækjarekenda séu óráðssíumenn og áhættufíklar - en flest stærri lán til íslenskra fyrirtækja undanfarin ár hafa verið myntlán. Ég held, þvert á móti, að þeim sem hefur gengið vel í fyrirtækjarekstri hafa gert það vegna ráðdeildar og fyrirhyggju, vegna þess að þeir hafa alltaf leitað að ódýrustu kostunum - og þar með talið lægstu vöxtum.

Ákall um inngrip vegna myntlána

Núna tala fjármögnunarfyrirtæki um að þeir bíði eftir skilaboðum eða inngripi frá stjórnvöldum vegna hæstaréttardóms um myntkörfulán. Undirliggjandi er ósk um lög þar sem lögleg verðtrygging komi á lánin í stað þeirrar ólögmætu, þ.e. lánin hækki samkvæmt vísitölu auk vaxta. Stjórnvöld gripu ekki inn í þegar krónan féll og myntlánin ruku upp úr öllu valdi og lögðust með fullum þunga á lántakendur. Ef þau ætla að grípa inn í þessi mál núna til bjargar fjármögnunarfyrirtækjum sem veittu þessi ólöglegu lán eða bönkunum, þegar íbúðalánin fara sömu leið, þá er almenningur í landinu í djúpum skít - þá á hann enga málsvara lengur.

Gylfi og myntlánin

Einn af ókostunum við að setja embættismenn í hlutverk stjórnmálamanna er að þeir fyrrnefndu kunna oft á tíðum ekki að tala við fólk - almenning í landinu. Þetta kunna stjórnmálamenn, þótt á stundum komi frá þeim tómt froðusnakk í löngu máli þar sem þeir segja ekki neitt (undantekning er Jón Gnarr sem segir ekki neitt í stuttu máli) þá kunna þeir þá list að láta sem þeir séu að tala máli almennings og gæta þess að tala ekki niður til fólks. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, er gott dæmi um þetta. Hann var ekki búinn að sitja lengi sem viðskiptaráðherra þegar hann, í sjónvarpsviðtali, talaði niður til fólks í umræðu um skuldavanda heimilanna - sagði að það hefði ekki átt að taka þessi lán og gaf í skyn að þetta væri fólkinu sjálfu að kenna. Ummæli hans nú um nýfallinn hæstaréttardóm eru forvitnileg í þessu samhengi. „Það er með miklum eindæmum að þessi bolti fór af stað og að öllum þeim lögfræðingum sem útbjuggu lánasamningana hafi ekki tekist að gera þá þannig úr garði að þeir væru löglegir.“Þetta er áhugavert orðalag. Vandinn er sem sé sá að lögfræðingarnir hefðu átt að finna smugu til að komast hjá lögum um verðtryggingu í þessum samningum - eða hvað? Hverra erinda gengur Gylfi Magnússon í vinstri stjórn á Íslandi? Varla almennings.

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband