Færsluflokkur: Fjármál

Að lepja upp án gagnrýni - leiðari Fréttablaðsins

Í leiðara Fréttablaðsins fjallar Ólafur Stephensen um áhrif hæstaréttardómsins um myntlánin og lepur gagnrýnislaust upp ummæli Franeks Roswadowskis, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um hvaða kostnaður leggist á ríkið ef hann verður staðfestur án nokkurrar verðtryggingar. Eini kostnaðurinn sem er nefndur er aukið hlutafé sem mögulega þurfi að leggja bönkunum til ef af þessu verður. Aukið hlutafé er ekki endilega kostnaður – það er líka fjárfesting. Það þýðir að ríkið mun eiga stærri hluta í bönkunum tveimur sem nú er að mestu leyti í höndum erlendra kröfuhafa. Þar að auki minnist hann ekki á þær auknu tekjur sem ríkið fær við að þessir peningar fara í umferð út í samfélagið í stað þess að fara í oftekna vexti.


Ég vil sanngirni - þegar hún hentar mér...

Áður en dómur hæstaréttar um myntlán féll man ég ekki eftir að neinn hafi haldið því fram að leiðrétta ætti myntlánin af því að kjör þeirra sem þau tóku væru mun lakari en þeirra sem tóku verðtryggð krónulán. Núna ganga menn fram, hver af öðrum; Kristinn Gunnarsson, Mörður Árnason og Gylfi Magnússon og vilja verðtryggja myntlánin, m.a. annars af því að ef skilmálarnir standi að öðru leyti muni kjör fólks með verðtryggð lán verða mun lakari en myntlánin. Skoðanabræður þeirra á blogginu birtast líka einn af öðrum og taka í sama streng án þess hafa nokkurn tímann skrifað stafkrók þegar hallaði á skuldara myntlána gagnvart skuldurum verðtryggðra lána. Þetta er eins og maðurinn sagði: "Ég vil sanngirni – þegar hún hentar mér." Auðvitað mega þessir menn hamast eins og þeir vilja, hæstiréttur er æðsta dómstig landsins og ekki er hægt að setja afturvirk lög til að breyta þessu.

Undirritaður hefur í gegnum tíðina talað fyrir inngripi stjórnvalda í myntlán þegar þau voru að sliga almenning og fyrirtæki í landinu. Lánveitendur þeirra, alla vega stóru gömlu bankarnir, voru virkir í að fella krónuna þannig að þessir pappírar sem nýju bankarnir tóku yfir voru alltaf gölluð vara – ef ekki lagalega, þá örugglega siðferðilega. Vinstri stjórnin á Íslandi valdi að grípa ekki inn í þessi mál. Ég treysti á að hún verði sjálfri sér samkvæm og grípi ekki inn í núna þegar almennir borgarar hafa réttinn sín megin. Og ef skynsamir menn eru við stjórn á lánastofnunum koma þeir nú með gott tilboð sem lágmarkar tap þeirra en bætir um leið skuldurum myntlána þjáningar undanfarinna mánaða. Hinn kosturinn er að útkljá alla óvissuþætti í gegnum hæstarétt - og það verður lánastofnunum ekki í hag.

 

Eru það bruðlarar sem velja lægstu vexti?

Pétur Blöndal tekur stórt upp í sig þegar hann ásakar þá tugþúsundir manna sem tóku myntlán um að hafa ekki sýnt ráðdeild og um áhættusækni. Fyrir utan þá staðreynd að bankarnir héldu þessum lánum að fólki sem hagkvæmum valkosti (og þeir áttu að heita sérfræðingarnir sem ósérfróður almenningur leitaði til) þá voru þetta lægstu vextir sem í boði voru og ef fólk vildi sýna varkárni og skoðaði gengisþróun undanfarinna ára, þá var ekkert í spilunum sem gaf tilefni til að halda að fyrir höndum væru slíkar hamfarir sem urðu. Þar með er Pétur líka að segja að meginþorri íslenskra fyrirtækjarekenda séu óráðssíumenn og áhættufíklar - en flest stærri lán til íslenskra fyrirtækja undanfarin ár hafa verið myntlán. Ég held, þvert á móti, að þeim sem hefur gengið vel í fyrirtækjarekstri hafa gert það vegna ráðdeildar og fyrirhyggju, vegna þess að þeir hafa alltaf leitað að ódýrustu kostunum - og þar með talið lægstu vöxtum.

Ákall um inngrip vegna myntlána

Núna tala fjármögnunarfyrirtæki um að þeir bíði eftir skilaboðum eða inngripi frá stjórnvöldum vegna hæstaréttardóms um myntkörfulán. Undirliggjandi er ósk um lög þar sem lögleg verðtrygging komi á lánin í stað þeirrar ólögmætu, þ.e. lánin hækki samkvæmt vísitölu auk vaxta. Stjórnvöld gripu ekki inn í þegar krónan féll og myntlánin ruku upp úr öllu valdi og lögðust með fullum þunga á lántakendur. Ef þau ætla að grípa inn í þessi mál núna til bjargar fjármögnunarfyrirtækjum sem veittu þessi ólöglegu lán eða bönkunum, þegar íbúðalánin fara sömu leið, þá er almenningur í landinu í djúpum skít - þá á hann enga málsvara lengur.

Gylfi og myntlánin

Einn af ókostunum við að setja embættismenn í hlutverk stjórnmálamanna er að þeir fyrrnefndu kunna oft á tíðum ekki að tala við fólk - almenning í landinu. Þetta kunna stjórnmálamenn, þótt á stundum komi frá þeim tómt froðusnakk í löngu máli þar sem þeir segja ekki neitt (undantekning er Jón Gnarr sem segir ekki neitt í stuttu máli) þá kunna þeir þá list að láta sem þeir séu að tala máli almennings og gæta þess að tala ekki niður til fólks. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, er gott dæmi um þetta. Hann var ekki búinn að sitja lengi sem viðskiptaráðherra þegar hann, í sjónvarpsviðtali, talaði niður til fólks í umræðu um skuldavanda heimilanna - sagði að það hefði ekki átt að taka þessi lán og gaf í skyn að þetta væri fólkinu sjálfu að kenna. Ummæli hans nú um nýfallinn hæstaréttardóm eru forvitnileg í þessu samhengi. „Það er með miklum eindæmum að þessi bolti fór af stað og að öllum þeim lögfræðingum sem útbjuggu lánasamningana hafi ekki tekist að gera þá þannig úr garði að þeir væru löglegir.“Þetta er áhugavert orðalag. Vandinn er sem sé sá að lögfræðingarnir hefðu átt að finna smugu til að komast hjá lögum um verðtryggingu í þessum samningum - eða hvað? Hverra erinda gengur Gylfi Magnússon í vinstri stjórn á Íslandi? Varla almennings.

Brennum greiðsluseðlana á Austurvelli

Það eru undarleg rökin sem dynja yfir skuldara húsnæðislána á Íslandi. Viðskiptaráðherra talar niður til fólks í Kastljósi og segir að það hefði ekki átt að taka lánin og þeir sem veittu lánin hefðu ekki átt að veita þau. Síðan stíga hann og fleiri fram og höfða til siðferðiskenndar og löghlýðni - við eigum að borga það sem okkur ber samkvæmt samningum. Samningum á myntlánum sem blekið var varla þornað á þegar lánveitendurnir, gömlu bankarnir, tóku stöðu gegn krónunni og felldu hana jafnt og þétt með þriggja mánaða fresti þegar kom að uppgjörum og milliuppgjörum hjá þeim. Síðan afskrifa nýju bankarnir helminginn af þeim kröfum sem þeir yfirtaka frá gömlu bönkunum en ætlast til að "eigendur" íbúðahúsnæðis með neikvæða eiginfjárstöðu borgi að fullu! Verðtryggð lán okkar eru hækkuð með fölskum forsendum, neyslumynstri háþenslutímans 2005-2007 og íbúðaverði frysts markaðar sem á eftir að fara mun neðar. Ég dreg í efa að þetta með myntlánin muni reynast löglegt þegar upp verður staðið - lánasamningarnir sem nýju bankarnir tóku yfir hljóta að vera "damaged goods" og forsenda til lækkunar þeirra. Hvort tveggja, myntlánin og þau verðtryggðu, er örugglega siðlaust í þessu ástandi. Og ef ný stjórn kemur ekki með pólitíska lausn, þá er það í höndum okkar skuldaranna og borgaranna að taka af þeim ráðin einu sinni enn. Við mætum með greiðsluseðlana á Austurvöll og kveikjum í þeim. Ég ítreka - gefum stjórninni smá stund og látum svo verkin tala! Við úrtölumenn greiðsluverkfalla vil ég segja: Verkföll eru aldrei góð til skemmri tíma, hvorki fyrir þá sem fara í verkfall né fyrir þá sem verkfallið beinist gegn. Þau hafa þó verið nauðsynlegt tæki til að skapa það velferðarkerfi sem hér er til staðar og afleiðingar greiðsluverkfalls sem byggir á réttlátum kröfum er á ábyrgð þess sem það beinist gegn.

 


Tveir mánuðir í greiðsluverkfall!

Ég hef ekki viljað taka svo djúpt í árinni, eins og sumir hafa gert, að það sé eins konar borgarastyrjöld í aðsigi vegna húsnæðislána í samfélaginu. Viðtöl við forsætis- og viðskiptaráðherra í fréttum í kvöld gætu þó lagt sitt af mörkum til þess. Ég kaus þessa stjórn til þess að vera áfram í þeirri trú að hún ætlaði að taka á málum en í viðtalinu var sagt blákalt að með möguleikum á greiðsludreifingu, frystingu og öðru slíku, væri búið að gera það sem gera á í lánamálum! Þau hótuðu fólki að ef það tæki þátt í greiðsluverkfalli eða einhverju slíku, þá fengi það mögulega ekki greiðsluaðlögun og það var farið að tala um innheimtulögfræðinga. Skilur þetta fólk ekki að ef ekkert breytist verður fólki skítsama um mögulega greiðsluaðlögun eða innheimtulögfræðinga, hvorugt mun skipta neinu máli -  það verður ekkert að innheimta hjá fólki sem á minna en ekki neitt og ef farið verður að gera fólk gjaldþrota vegna húsnæðisskulda eftir að búið er að hirða af þeim húsnæðið verður örugglega einshvers konar styrjöld á Íslandi. Það er líka að koma í ljós að þótt bankarnir eigi að heita í eigu ríkisins, þá haga þeir sér enn eins og glæpahyski. Þeir frysta myntlán en halda fullu eða auknu álagi - þeir tvö og þrefalda tekjur sínar af lánunum miðað við þegar þau voru tekin án þess að rekstargjöld hækki svo nokkru nemi - þeir eru með sín rekstargjöld í krónum! Mér þykir rétt að ráðrúm verði gefið til að mynda nýja stjórn og síðan fái hún einhverjar vikur til að byrja sín störf. Ef ekki verður búið að taka myndarlega á þessu innan tveggja mánaða eða svo, t.d. með því að færa niður verðtryggingarþátt lánanna, breytingu á myntlánum í krónulán miðað við sanngjarnt gengi, t.d. snemma í fyrra, mun ég hefja greiðsluverkfall!


...að kjósa með buddunni

Ekki er neinn skortur á hugmyndum um af hverju VG fékk mun minna fylgi í kosningunum en skoðanakannanir gáfu til kynna. Að mínu mati stendur ein upp úr. Við gefum upp skoðanir í skoðanakönnunum út frá hjartanu en í kjörklefanum ræður buddan. Einhversstaðar heyrði ég því fleygt að skoðanakannanir um afstöðu gagnvart inngöngu Dana í Evrópusambandið hefðu ávallt verið á þá leið að meirihluti væri andvígur - bæði fyrir og eftir að þeir samþykktu það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef það er rétt, styður það þessa hugmynd.


Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband