Færsluflokkur: Ferðalög
4.3.2011 | 09:08
Indland
Sessunautur minn í fluginu frá London til Naíróbí heitir Richard King og hefur áhugavert starf hann vinnur að því að koma á friði. Samtökin sem hann tilheyrir heita Concordis International og starfa víða um heim að því að reyna að miðla málum á milli fylkinga þar sem eru vopnuð átök með því að koma á tengslum og umræðu. Hann er á leið til Súdan þar sem hans bíða ærin verkefni.
Undanfarin ár, þegar ég hef farið til bæði Indlands og Kenía í sömu ferð, hef ég yfirleitt flogið fyrst til Bombay, klárað mín mál í Indlandi, flogið frá Bombay til Naíróbí og svo sömu leið til baka í ferðarlok. Í þetta sinn er ódýrara að fljúga til Naíróbí og jafndýrt er á milli Naíróbí og Bombay, sama hvoru megin maður byrjar. Það neikvæða við þessa leið er að á flugvellinum í Naíróbí er langlélegasta aðstaða sem ég hef kynnst til að bíða og tólf tímar þar mér tekst að vísu að dotta aðeins í stól en samt... Síðan tekur við stutt bið, bæði í millilendingu í Addis Ababa og í Bombay og svo liggur leiðin til Chennai. John tekur á móti mér á flugvellinum, við spjöllum saman á leiðinni á lítið hótel nærri flugvellinum en svo er höfuðið varla búið að snerta koddann þegar...
Daginn eftir flýg ég til Madurai John er búinn að panta rútumiða fyrir mig til Kodaikanal en eftir allan þennan tíma á ferðalagi get ég ekki hugsað mér að sitja 9 tíma í rútu. Á flugvellinum í Madurai tekur Deenis á móti mér, en hann rekur hjálparsamtök í Madurai og nágrenni. Samtökin reka 11 dagvistarheimili fyrir börn, auk minni verkefna eins og kennslumiðstöðvar o.fl. Þrír sjálfboðaliðanna okkar tóku þátt í einu slíku hjá tribal fólki í þorpi fyrir utan Madurai. Eftir að ég er búinn að henda töskunni inn á herbergi setjumst við niður og förum yfir verkefnið plúsa og mínusa hans megin og hvað megi betur fara. Nota tímann um daginn til að undirbúa námskeiðið sem ég er að fara að halda í Kodaikanal og ljúka nokkrum óloknum verkefnum. Um kvöldmatarleitið kemur Deenis aftur við fáum okkur kvöldmat uppi á þaki hótelsins frábær veðurblíða og þægilegur kvöldandvari. Deenis kemur með sundurliðaða áætlun um hvernig hann myndi gera verkefnið aftur dag fyrir dag.
Vakna fyrir allar aldir og fer út á rútustöð. Er rétt búinn að missa af einni rútu til Kodaikanal en eftir smá bið kemur leigubílstjóri sem hafði verið að aka fólki frá Kodaikanal á flugvöllinn í Madurai og var að leita að farþegum til baka. Verður úr að ég borga honum 500 rúpíur, sem er þriðjungur að því sem það myndi annars kosta í leigubíl, og er kominn með far til Kodaikanal. Leiðin upp í fjöllin er gríðarlega falleg. Ekið er með hlíðum þöktum þéttum skógi með útsýni á vinstri hönd yfir landið fyrir neðan, á veggjum meðfram veginum sitja apar og tína lýs af hverjum öðrum, íhugulir á svip. Leiðin frá Madurai er ekki löng um 120 kílómetrar, en tekur um tvo og hálfan tíma. Ég renni inn að Jay hotel rétt fyrir ellefu. Þar taka John og Michael á móti mér, ásamt fimmtán öðrum þátttakendum.
Hálftíma síðar byrjar námskeiðið. Ég þekki ekki nema um helming þátttakendanna hinn helmingurinn er fólk sem er nýkomið í samtökin okkar, ekki bara frá Tamil Nadu, heldur frá nágrannafylkjunum líka Andra Pradesh og Karnataka. Ég er að prófa nýtt námskeið sem ég hef ekki haldið áður. Vinnuheitið á því er: The Humanist Approach to Religion. Þegar mér er sagt að það séu tveir kristnir prestar á námskeiðinu, auk jógameistara sem haldið hefur mörg hundruð jóganámskeið, hugsa ég: Þetta verður áhugavert. Reyndar eru indverskir prestar ekki mjög orthodox, mér hefur sýnst þeirra andlega grunnur byggjast á indverskri speki, frekar en að vera kristileg tvíhyggja góðs og ills. Námskeiðið er í bland fræðilegt og verklegt þ.e. verklegi hlutinn felst í að skoða og reyna að framkalla trúarlega reynslu og setja hana í annað samhengi en fólk gerir vanalega efni sem var nokkuð stúderað í húmanistahreyfingunni í gamla daga.
Námskeiðið gengur ótrúlega vel miðað við að þetta er fyrsta sinn sem ég held það og í lokasamantektinni virðast allir vera ánægðir. Reyndar er þetta efni sem, ef það virkar, tekur tíma að gerjast með fólki, þannig að ég þarf að heyra í þátttakendum eftir eina eða tvær vikur. Í lok dags held ég fund með þeim sem voru viðloðandi sjálfboðaliðaverkefnið; Sumathi í Salem, Eelangeran í Thorapadi, Chinnamaruthu og Shanmugan frá Ramanathapuram, auk Michaels og Johns. Förum yfir málin og ræðum það sem betur má fara þeir stinga m.a. upp á því að dvalið verði lengur á hverjum stað svo að sjálfboðaliðarnir fái almennilega þjálfun í því sem þeir eru að gera. Það er býsna svalt um nóttina sem við gistum þarna sef alklæddur með rúmábreiðu. Kodaikanal er í 1.800 metra hæð yfir sjávarmáli og á nýlendutímanum fóru Bretar gjarnan þangað yfir heitasta tímann.
Námskeiðinu lýkur um þrjú á sunnudag og þá fer ég ásamt Chinnamaruthu, Shamugam jógameistara og Barathi, sem rekur tímarit í Ramanthapuram, í almenningsrútu leiðin liggur til Muthukalathur þar sem Chinnamaruthu rekur stúlknaheimili. Þeir segja mér í upphafi að við verðum komnir upp úr átta en það er ekki fyrr en um miðnætti sem við skrönglumst í bæinn. Chinnamaruthu fer með mig heim til sín hann og konan hans gista sjálf á heimilinu sem þau reka, þau hafa ekki efni á að ráða vaktmann. Sef ekki mjög vel fæ loksins að kynnast aðstöðunni sem við bjóðum sjálfboðaliðunum okkar upp á!!! Einhver árans óværa í rúminu held ég, klæjar í annan handlegginn og sef varla nema 3-4 tíma áður en kominn er tími á að fara á fætur. Chinnamaruthu kemur og sækir mig um hálfsjö meiningin er að hitta stúlkurnar á heimilinu áður en þær fara til skóla. Heimilið er í jaðri bæjarins, virðist hafa verið byggt sem einhvers konar samkomuhús og hafði staðið autt lengi áður en þau hjónin tóku það á leigu. Þau vörðu umtalsverðu fé í að koma því í stand seldu m.a. alla gullskartgripi konunnar (algeng brúðkaupsgjöf) og reka það enn að stórum hluta með eigin fé. Vinir Indlands styðja fjórar stúlkur þar af samtals fimmtán, sem er mikilvægur stuðningur, en betur má ef duga skal. Eftir að stúlkurnar eru farnar í skóla er mér borinn morgunmatur á pallinum í fordyrinu á húsinu og spjalla við Rexline, konu Chinnamaruthu hún talar prýðisgóða ensku, en Chinnamaruthu kann bara nokkur orð.
Þegar komið er undir klukkan ellefu er kominn tími á að halda áfram för minni. Eftir hálftíma í rútu er ég kominn til Parmakudi, þar sem ég hitti Shamugan yfir tesopa áður en ég held áfram til Madurai þar sem ég gisti um nóttina. Morguninn eftir á ég flug til Chennai. John hittir mig á flugvelllinum og við höldum rakleiðis til Spencer Plaza. Þar versla ég sitt lítið af hverju, fer og skoða áprentun á kaffikönnur fyrir Múltikúlti (könnur með lógói Múltikúlti). Verðið er gott en flutningskostnaður mikill, nema það sé í mun meira magni en ég get gengið frá á staðnum. Niðurstaðan er að geyma það fram á sumar og taka einhvern slatta með heim í frakt. Frá Spencer Plaza förum við beint á flugvöllinn þar sem við hittum Michael fáum okkur kaffi og spjöllum saman áður en ég fer út í flugvélina til Bombay.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2010 | 15:54
Indland - júlí 2010, seinni hluti
Klukkan 10 morguninn eftir voru 17 manns mættir á námskeið sem fór fram á hótelinu. Flestir frá Ramanathapuram-svæðinu en nokkur norðar; frá Salem og Chennai og nágrenni. Michael hélt með mér námskeiðið, en það er kallað phase 2 og er framhaldsnámskeið á eftir phase 1 sem hefur verið aðal sjálfboðaliðanámskeiðið hjá okkur í gegnum tíðina. Námskeiðið hófst klukkan 10 og var klukkan langt gengin í sex þegar við hættum. Þetta námskeið er í senn háheimspekilegt og með mikið af leikjum og skemmtir fólk sér undatekningarlaust vel. Á þessum fyrri degi rifjuðum við upp helstu atriði phase 1, fórum í hugmyndafræði IHA (International Humanist Alliance) og fólk fékk þau verkefni í hópvinnu að leysa ýmis félagsleg ágreiningsefni með notkun þessarar hugmyndafræði og síðan var hið sama gert með persónuleg vandamál. Næsta þema var Tilgangur lífsins á tuttugustu öld, þema sem undantekningarlaust vekur skemmtilegar umræður. Eftir að dagskrá dagsins lauk var okkur boðið í heimsókn til eins þátttakanda í um korters fjarlægð frá hótelinu. Þar fengum við te og meðlæti og var ég látin fletta í gegnum risastórt myndaalbúm frá giftingu dótturinnar síðastliðið vor. Þar voru endalausar myndir af brúðhjónunum þar sem þeim var stillt upp við hliðina á gestum og sjá mátti hvernig þau voru sífellt lúnari eftir því sem leið á albúmið ég held að jafnist á við maraþon að gifta sig á Indlandi.
Morguninn eftir vaknaði ég rétt fyrir 7, en ég hafði mælt mér mót við mann að nafni Shamugan og fór ég með honum í heimsókn til miðstöðvar hans í um hálftíma fjarlægð. Shamugan er læknir og doktor í jógafræðum og hafði verið mjög virkur í umræðum á námskeiðinu. Á miðstöðinni hans er dreift lyfjum ókeypis til fátækra þar á meðal mikið af náttúrulyfjum. Auk þess stendur hann fyrir ýmsum öðrum verkefnum. Hann talar ágæta ensku svo við gátum spjallað um mjög margt. Það kom í ljós að hann var alveg á sömu bylgjulengd og ég í sambandi við sjálfboðaliðaverkefnið að líta ætti á þá sem workers en ekki special guests. Ræddum það fram og aftur og þóttist ég búinn að finna þarna góðan samherja. Klukkan tíu vorum við komnir aftur á hótelið, þar sem haldið var áfram með námskeiðið og fjallað um networking (vantar almennilega þýðingu, bygging tengslaneta nær því ekki). Í þessum hluta var mikið af leikjum og mikið hlegið. Námskeiðinu lauk svo um hálf þrjú og þá tókum við hlé áður en ég fór yfir stutta námskeiðið sem ég hafði verið að prófa í Keníu. Ég var aðeins búinn að laga það en kom skemmtilega á óvart hvað þau voru gríðarlega ánægð með efnið. Um kvöldið heimsóttum við Michael Chinnamarathu sem rekur félag sem heitir Awards Trust og þar var okkur boðið í kvöldmat. Spjölluðum fram eftir kvöldi áður en við héldum aftur á hótelið.
Morguninn eftir fengum við Michael okkur morgunmat saman, spjölluðum, plönuðum og plottuðum áður en hann rölti með mig út á rútustöð. Eftir tvo tíma var ég kominn á rútustöðina í Madurai, þaðan á flugstöðina þar sem ég flaug aftur til Chennai. Hitti John aðeins um kvöldið áður en ég lagði mig. Síðan: Chennai, Mumbai, London, Keflavík. Í vélinni frá London hitti ég gamla og kæra vinkonu, hana Stínu Sævars, og kjöftuðum við um pólitík og liðna tíma. Fékk svo far með henni og Völlu heim.Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2010 | 12:14
Indland - júlí 2010, fyrri hluti
Biðin í Bombay var stutt, aðeins um 3 tímar í þetta skipti. Ég fór beint á innanlandsflugvöllinn og með SpiceJet til Chennai. Þegar ég lenti tók John á móti mér og fylgdi mér á hótel skammt frá flugvellinum. Hann skildi við mig þar en kom svo aftur upp úr hádeginu, þegar ég var búinn að leggja mig, og fórum við saman á Spencer Plaza aðal verslunarmiðstöðina í Chennai. Keypti inn sitt lítið af hverju fyrir Múltikúlti en náði ekki að ljúka öllu sem ég ætlaði að klára.
Fyrsta verkið morguninn eftir var því að klára það sem var óklárað að versla, eftir pítsumorgunmat í Spencers. Svo var brunað út á flugvöll og flogið með Kingfisher suður á bóginn til Madurai. Enginn auto-richshaw á flugvellinum í Madurai svo ég þjarkaði dálítið við leigubílstjóra áður en ég gekk af stað í átt að borginni en hann keyrði hægt á eftir mér og prúttaði áfram þangað til hann var búinn að lækka sig úr 300 rúpíum niður í 200. Leiðin lá á hótel Supreme og hálftíma eftir að ég var kominn þangað kom maður að nafni Denees að hitta mig, en hann rekur lítil samtök sem vinna með dalítum og tribal fólki fyrir utan bæinn. Hann hafði haft samband við mig nokkrum mánuðum fyrr og óskað eftir að hitta mig kom í ljós að hann hafði fengið netfangið hjá gömlum kunningja og kaþólskum presti í Madurai að nafni Jospeh Raj. Ræddum saman í góða stund áður en við ókum út úr bænum í nærri klukkutíma þar til við komum í lítið þorp þar sem Denees var með verkefni. Þar annaðist ungur bæklaður maður tuition center þar sem börn fá aðstoð við námið eftir að venjulegum skóladegi lýkur. Þessi tuition center er í raun bara veröndin við heimili hans og þar voru á þriðja tug barna að læra þegar við komum þar að. Einnig var konan hans starfandi í sjálfshjálparhópi kvenna á staðunum. Eftir smá fundarhöld fundum við flöt á því að ungir sjálfboðaliðar á vegum Múltikúlti gætu komið þangað í janúar og hjálpað til við kennsluna, auk þess sem þeir gætu komið með fræ og unnið við gróðursetningu í þorpinu og þorpunum í kring. Síðan heimsóttum við þorpsforingjann, sem bauðst til að hýsa sjálfboðaliða hjá sér, en húsið hans er eina húsið í þorpinu sem er með klósett. Denees var allur á iði á meðan allt þetta gekk á, hann hafði miklar innri mótstöður gegn því að setja útlendinga í þessar aðstæður. Helst vildi hann hafa þau á fínu hóteli á nóttinni og svo gætu þau gert eitthvað á daginn. Þetta er kjarninn í einu af helstu vandamálunum sem við höfum átt við að glíma með þetta verkefni; við erum að reyna að bjóða upp á venjulegt líf fólks á þessum stöðum en fólkinu finnst það ekki boðlegt, vilja bera sjálfboðaliðana á höndum sér, vera með hátíðamat upp á hvern dag og helst fara með þá um allt eins og sýningargripi. Sem betur fer hefur eitthvað áunnist í þessu frá því að við byrjuðum.
Morguninn eftir kom Denees á hótelið og við ræddum frekar saman en undir hádegið tók ég auto á rútustöðina og fann rútu á leið til Paramakudi á Ramanathapuram-svæðinu. Eins og hálftíma ferð kostaði 23 rúpíur, eða um 70 krónur. Fór ágætlega um mig fyrir utan að, vegna þess að Suður Indverjar eru flestir styttri en ég, var fótarýmið heldur þröngt. Í Paramakudi reyndust allar merkingar á tamílsku, þannig að ég skildi ekki neitt neins staðar en leiðbeiningarnar sem ég hafði voru nógu skýrar til þess að með smá aðstoð rataði ég tiltölulega auðveldlega á hótelið. Það var sólskin og vel heitt í Paramakudi og var ég orðinn vel sveittur þegar ég steig inn í loftkælt herbergið í Rasul Lodge.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2010 | 14:45
Kenía - júlí 2010, seinni hluti
Klukkan níu morguninn eftir kom Linet og átta aðrir helsta liðið í Nakuru. Við byrjuðum með fundi um ýmis mál tengd verkefnunum og svo hélt ég sama námskeiðið fyrir þau. Lukkaðist vel fínar umræður og varla hægt að ljúka námskeiðinu, fólk þurfti svo mikið að tjá sig.
Ég var mættur rétt fyrir átta á matatu-stöðina í Nakuru og tíu mínútum síðar var ég kominn af stað í Ten seater, sem er matatú með færri sætum en venjulegir matatúar (10 í stað 14) og því fer mun betur um mann. Ferðin til Nairóbí tók um tvo tíma og þegar ég kom í borgina skráði ég mig inn á hótel Brighton, skammt frá rútumiðstöðinni nálægt miðbænum. Verðið og staðsetning hvort tveggja mjög hentugt. Hringdi svo í Lucy í Little Bees, sem kom um tveimur tímum síðar. Við fundum matatú og fórum með honum á hjartaskurðlækningadeild Mater-sjúkrahússins. Erindið var að skoða mál Amosar litla, fjögurra ára drengs í Little Bee´s sem glímir við alvarlegan hjartagalla (vantar m.a. hjartahólf). Læknirinn sem hitti okkur kannaðist vel við mál Amosar. Hún sagði að það væri einstaklega erfitt og flókið mál og aðgerð ekki á færi lækna í Keníu. Hins vegar fengu þeir reglulega heimsóknir erlendra sérfræðinga sem önnuðust erfiðari skurðaðgerðir. Hún sýndi okkur umsögn læknis, sem hún sagði einn þekktasta hjartaskurðlækni Bandaríkjanna, um Amos. Hann taldi aðgerðina mjög erfiða og tímafreka og innan við 50% líkur á að hún tækist. Hann taldi sig því ekki geta réttlætt að gera hana þar sem hann gæti aðeins gert takmarkaðan fjölda aðgerða og önnur börn ættu betri líkur á árangri. Miðað við slíka umsögn þessa læknis, sagði hún, myndu aðrir læknar ekki leggja í aðgerð. Undirskriftin við umsögnina var dr. H Hennein og gúgglaði ég hann eftir að ég kom aftur á hótelið. Ég staðfesti að þetta er einn þekktasti skurðlæknir í Bandaríkjunum en líka að hann framdi sjálfsmorð í kringum síðustu mánaðamót eftir að hafa reynt að drepa konu sína. Eina sem virðist vera hægt er að gera fyrir Amos litla að sinni er að reyna að láta honum líða sem best og passa upp á heilsuna að öðru leyti og vona að eitthvað breytist í náinni framtíð. Á leiðinni heim á hótel labbaði maður upp að mér til að betla. Sagðist vera frá Simbabve og eiga hvergi höfði að halla. Ég hrökk í lás, maðurinn nokkuð skuggalegur, og arkaði frá honum inn í verslunarkjarna. Þar stoppaði ég og hugsaði málið. Undanfarna daga hafði ég verið í prógrammi í samskiptum. Prógrammið má e.t.v. taka saman í eftirfarandi setningu: Hvernig myndi sú manneskja sem mig langar til að vera bregðast við tilteknum aðstæðum? Ákvað að manneskjan sem mig langar að vera myndi gefa manninum smáræði fyrir mat en þegar ég kom aftur út var hann horfinn.
Um kvöldið, síðasta kvöldið í Keníu að þessu sinni, fór ég á Simmers og fékk mér að borða. Horfði á söng- og dansatriði og lenti á spjalli við hollenska fjölskyldu sem var á leið til Kisumu. Um leið og ég kynnti mig og sagðist vera frá Íslandi sagðist ég vona að þau hefðu ekki átt Icesave reikninga. Konan á rætur að rekja til Kisumu og eru þau með félag í Hollandi sem styður börn í skóla á svæðinu að mér skildist, ekki fjarri Korando. Ég gaf þeim því upp símanúmerið hjá Anne Lauren og við skiptumst á netföngum.
Síðasti morguninn í Nairóbí var rólegur, fékk mér morgunmat og lagði á mig langt rölt til að fá mér mjög gott kaffi en líka rándýrt (um 200 kr. ísl). Dundaði mér við að skrifa þetta blogg yfir kaffinu og rölti svo og tók strætó (City Hopper nr. 34) út á flugvöll. Hingað til hef ég alltaf tekið leigubíl en langaði að prófa strætóinn. Ég var kannski korteri lengur á leiðinni en ég reiknaði út að hann kostaði 1/35 af verði leigubílsins. Samansaumaður kreppu-Íslendingur á ferð.
Fékk nokkuð stórt þýðingarverkefni á flugvellinum í Nairóbí og með því að hafa skinið á skjánum í lágmarki tókst mér að vinna helminginn af ferðinni til Bombay. Býsna forvitnileg þýðing umfjöllun um tvö Disney verkefni: Ein lítil um Músíkönu, sem átti að vera framhald á Fantasíu og eitt stórt um Destínó,samvinnuverkefni Salvador Dalis og Walt Disneys sem þeir luku aldrei við sjálfir en var lokið nýlega. Einhvern veginn dettur manni ekki súrrealismi þegar maður heyrir minnst á Walt Disney. En ef grannt er skoðað í eldri teiknimyndum þá er ýmislegt mjög súrt þar ég man eftir fíladraumnum í Dúmbósem ég sá einhvern tímann með krökkunum mínum; bleikir fílar og nótnaborð sem leystust upp og annað álíka. Destínó er fimm mínútna teiknimynd sem hefur hlotið fullt af verðlaunum og er full af táknum og súrrealisma í anda Dalis.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2010 | 12:03
Kenía - júlí 2010, fyrri hluti
Flugvellir í Indlandi eru einstakir að því leyti að þar er hvergi hægt að komast á netið. Mér skilst að ástæðan tengist baráttunni gegn hryðjuverkum en þar fyrir utan eru Indverjar náttúrulega skriffinnar par excellence og stjórnvöld vilja stjórna flestu en netið lætur illa að stjórn. Netfíkillinn ég þjáðist því af óstöðvandi andlegum kláða í 11 tíma bið á flugvellinum í Bombay. Mér tókst að slá á hann með því að detta inn í unglingavampírubókmenntir, réttlætt með því að ég vissi að höfundurinn skrifaði eina snjöllustu vísindaskáldsögu sem ég hef lestið, The Host, auk þess sem næsta verkefni bókaklúbbsins Æskunnar eru vampírubókmenntir (Las upprunalegu Drakúla, eftir Bram Stoker, fyrr í sumar hún hefur elst býsna vel). Fékk kjánahroll við að lesa um nokkur hundruð ára gamlar vampírur í gelgjulegum tilfinninga-sambandsflækjum. Ég hef tekið eftir að í nýrri vampírubókmenntum verða vampírurnar sífellt mennskari eina undantekningin síðari ár er Salem´s Lot eftir Stephen King, þar sem vampíran er ill í gegn eins og í upprunalegu sögu Stokers. Anne Pryce, í Interview with a Vampire, gengur kannski ekki eins langt og gert er í unglingadramanu en þar er vampíran frekar úrkynjuð en ill en umfram allt mennsk. Sama gildir um kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Meira að segja mynd Coppola, Bram Stokers Dracula, þótt hún sé annars nokkuð trú sögunni og myndin snilld að öllu leyti, þá er hún römmuð inn í ástarsögu sem verður kveikjan að tilurð Drakúla, illsku hans og dauða.
Þegar 11 tímarnir voru liðnir bættist við einn enn tími vegna seinkunar sem þýddi að ég missti af fluginu frá Nairóbí til Kisumu lenti um korteri of seint. Þurfti að bíða frá tíu um morguninn til fimm um daginn á Panters hótelinu, skammt frá flugvellinum, í boði Kenya Airways. Herbergið sem ég fékk í nokkra tíma til að leggja mig var líklega flottasta hótelherbergi sem ég hef komið í.
Flugið til Kisumu tók hálftíma eins og venjulega. Á flugvellinum tók Anne á móti mér eins og venjulega og fór með mig á Palmers eins og venjulega. Klukkutíma síðar komu Georg, Davies og Harrison og við héldum fund um verkefnin og prógrammið og svo fór ég upp á hótelherbergi og þegar ég vaknaði um morguninn mundi ég ekki eftir að hafa hallað höfðinu að koddanum.
Morguninn eftir kom Janess á hótelið. Við byrjuðum að fara niður á Mega Plaza til að prenta út gögn fyrir námskeiðið sem ég ætlaði að halda námskeið fyrir fólk sem er að vinna með börn, í skólum og miðstöðvum og fjallar um sýn okkar á fólk og þar með börn ofbeldi og nýhúmaníska menntun. Leiðinni var heitið til Lakeview leikskólans í Maeri og spjöllum við Janess um eitt og annað, m.a. um gamla tíma, en ég kynntist Janess í minni fyrstu ferð til Kenía árið 2002. Hann fór að tala að ýmislegt hefði breyst frá þeim tíma sérstaklega þessi NGO-hugsunarháttur, þ.e. hugsunarhátturinn að halda að lausnin á öllum hlutum sé að fá fé í gegnum hjálparstofnanir en gera sem minnst sjálfur, en það er hluti af hugmyndafræðinni að okkar aðstoð frá Íslandi er aldrei nema viðbót við það starf sem fyrir er starfið má aldrei standa eða falla með henni. Ég hef þóst vita að þetta væri að virka að einhverju leyti en það var gott að fá það staðfest. Þá ræddum við væntanlegar kosningar um nýja stjórnarskrá fyrir Keníu. Janess er virkur í Já-hreyfingunni sem vill samþykkja stjórnarskránna. Hjá Nei-sinnum fara kirkjunnar menn í fararbroddi og mótmæla helst að leyfðar skuli fóstureyðingar ef líf móður er í hættu auk þess sem ákvæði um jarðir, sem ríkið ætlar að endurheimta, valda deilum. Þá styðja langflestar konur nýja stjórnarskrá í henni fá þær ýmis réttindi til jafns við karlmenn, eins og rétt til að erfa land, en fram til þessa hefur það eingöngu fallið sonum í skaut. Ef enginn sonur er til staðar verður nánasti karlkyns ættingi fyrir valinu. Kosningarnar fara fram 4. ágúst vel við hæfi; á afmælisdegi Ingu Sóleyjar dóttur minnar fá konur í Keníu mikla réttarbót.
Vegirnir eru mjög misjafnir á leiðinni til Maeri, eins og víðast í Keníu og sjá mátti farartæki af öllum stærðum og gerðum. Gamall maður á reiðhjóli sem lék jafnvægislist með hvíta og gljáandi líkkistu á bögglaberanum vakti athygli mína, undrun og aðdáun. Á námskeiðið mættu 6 konur sem annast um 120 börn í Lakeview leikskólanum. Sú eina sem ég þekkti fyrir var Sophy, sem var á sjálfboðaliðanámskeiðinu sem ég var með í mars síðastliðnum. Þessi fyrsta keyrsla á námskeiðinu tókst nokkuð vel þótt ég sæi fram á að ég þyrfti að gera einhverjar breytingar á því. Á köflum urðu skemmtilegar umræður, t.d. í einum kafla, þar sem fjallað er um að varðveita frumkvæði og sköpun hjá börnum og í því samhengi komið inn á viðhorf til óhlýðni, og eitt umræðuefnið er: Hvernig væri mannkynssagan öðruvísi ef Gandhi, Einstein, Kristur og fleiri sögupersónur hefðu fylgt reglum og viðmiðum síns tíma? Eitt svar vakti athygli mína: Heimurinn væri þá fullur af heiðingjum!
Þegar námskeiðinu var lokið var langt liðið á daginn, klukkan orðin sex og eftir smá bið við veginn vorum við orðnir svartsýnir á að við næðum bíl aftur til Kisumu þetta kvöldið. Eftir einhver símtöl var hóað í mótorhjól sem keyrði með okkur rétt út fyrir bæinn, síðan út á einhvern troðning í átt að vatninu. Mér var um og ó en slakaði á þegar við keyrðum inn í rjóður þar sem stóð matatú sem verið var að hlaða með fiskikössum og með nóg af lausum sætum. Fimm mínútum síðar var lagt af stað og Janess sagði mér að bíllinn flytti smáfisk sem bannað væri að veiða á þessum tíma árs. Smyglleiðangurinn gekk snurðulaust fyrir sig og matatúinn skilaði okkur og fiskinum í heilu lagi til Kisumu.
Ég náði á Mega Plaza áður en netkaffið lokaði og náði líka að hala niður myndaskrá fyrir verkefni sem mér hafði borist um daginn prófarkarlestur á bíómynd. Þegar því var lokið rölti ég niður á Mon Ami, veitingastað fyrir neðan og settist þar inn þrátt fyrir að hátt í 50 bandarísk ungmenni görguðu þar í karókí, nánast öll á sama tíma þetta var eini staðurinn sem var opinn. Þegar ég hafði setið þar í korter sá ég hvar gamall vinur frá London, Tony Robinson, kemur gangandi lítill heimur. Tony er að styðja við skóla nálægt Kisumu (www.footstepsuk.org). Við sátum og spjölluðum fram eftir kvöldinu en hann var á leið til Nairóbí morguninn eftir til að taka á móti 25 Bretum sem ætluðu á næstu dögum að leggja hönd á plóginn í skólunum sem Steps er að styðja.
Næsti morgunn leið við prófarkarlestur en um hádegið kom Patrick frá Korando og sótti mig. Ferðin til Korando tók um hálftíma en þar voru mætt á annað námskeiðið fjórar konur frá Korando og þrír kennarar frá grunnskóla skammt frá. Börnin sem ljúka leikskólanum í Korando sækja þennan skóla. Þetta námskeið gekk líka ágætlega en efnið hentaði þó greinilega betur kennurunum en umsjónarkonunum í Korando. Mikill munur er á leikskólanum eftir að Gunnar Hallsson splæsti í þak yfir hann nú fyrst er hann farinn að nýtast almennilega. Eftir námskeiðið fékk ég sýnishorn af gerð aloa vera sápu sem þær framleiða í Korando og að því loknu gengum við út að þjóðveginum við síðustu geisla sólarinnar sólarlag við Viktoríuvatnið er einstakt.
Við vorum rétt komin út á veginn þegar matatú renndi að. Eftir kvöldmat átti að vera fundur aftur með Anne Lauren og nokkrum fleiri og eftir að ég var búinn að bíða góða stund hringdi hún það höfðu orðið einhver forföll og útlit fyrir að aðeins hún myndi mæta, svo við ákváðum að hittast bara áður en ég færi morguninn eftir. Ég sofnaði yfir sjónvarpinu og vaknaði ekki aftur fyrr en nokkrum tímum síðar um hánótt.
Morguninn eftir kom Davies með nokkur af nýju börnunum sem verið er að styðja frá Íslandi svo ég tók smá vídeóbrot með þeim frekar feimin greyin. Síðan kom Ruth, dóttir Wilkister heitinnar, með unga stúlku að nafni Idevere sem er studd af íslenskri konu og færði ég henni bréf sem ég var með til hennar. Fékk bréf til baka og gjafir. Um hádegið kom Anne og héldum við smá fund, hnýttum lausa enda og svo hoppaði ég upp á boda-boda (reiðhjól með hnakki á bögglaberanum) og hélt á rútustöðina. Rútunni seinkaði um klukkutíma svo ég var ekki kominn til Nakuru fyrr en undir sex. Linet tók á móti mér á hótelinu, ásamt Sam og John, en eftir smá spjall héldu þau sína leið. Um kvöldið var hellirigning, þrumur og eldingar og ég dundaði mér við lestur og sjónvarps- og tölvugláp.Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2009 | 10:26
Dagbók - Kenía
Mánudagur 20. júlí
Flaug með Air India frá Mumbay til Nairóbí. Þetta var frekar gamaldags vél í annað sinn á undanförnum áratug sem ég hef verið í langflugi þar sem ekki er skjár í bakinu á sætinu fyrir framan mann. Þýddi Ngugi eins lengi og rafhlaðan í tölvunni leyfði, sofnaði eitthvað og las svo Risk það sem eftir lifði ferðarinnar. Undir kvöldmatarleytið var ég kominn á hótel Downtown, Nairóbí. Það er orðið aðalhótelið mitt áður var það alltaf SixEighty sem nú er orðið allt of dýrt. Heyrði í Ragga frá Nakuru og Lucy í Little Bees og sofnaði snemma. Svefninn var reglulega rofinn af hávaða tónlistinni í veitingastaðnum á móti og þjófavarnarkerfi bíla sem fóru af stað, að því er virtist fyrir litla ástæðu allt um kring.
Þriðjudagur 21. júlí
Klukkan níu var Lucy mætt og tók megnið af þeim pökkum sem ég hafði komið með minnkaði farangurinn um helming. Samdi svo um smá afslátt við Downtown hótelið sex herbergi í tvær nætur nokkrum dögum síðar (fyrir sjálfboðaliðana) áður en Lucy fylgdi mér í 10 sæta matatú til Nakuru. Þetta var bara skottúr, tveir og hálfur tími. Á hótel Genivieve urðu fagnaðarfundir þegar ég hitti loks Linet og íslenska hópinn allir nokkurn veginn heilir eftir tæplega tveggja mánaða töff ferð um Indland og Kenía. Fékk að heyra nokkrar sögur áður en Raggi og Josephine bættust í hópinn. Plönuðum næstu daga svo var slappað af og farið að borða á Taitys, ágætur matur og aldrei þessu vant tónlistin ekki í botni þannig að hægt var að tala saman. Spjallaði m.a. við Linet um Dan, ungan mann sem var á námskeiðinu sem ég hélt í maí (sjá mynd hér neðar frá bloggi 15. maí. Hann er sjötti frá vinstri) Hann hafði ekið mér nokkrum sinnum í maí og gaf mér Kenía-derhúfu nokkrum vikum dó hann af lungnameini. Dan var ágætlega menntaður og vann við ýmis verkefni, m.a. í Súdan. Af því fólki sem við höfum unnið hvað nánast með síðan við byrjuðum á þessu starfi hérna í Kenía fyrir um 7 árum hafa fjögur dáið. Þrjú þeirra voru á milli þrítugs og fertugs öll hæfileikarík og öflug. Það kemur svona súnk inni í manni þegar maður hugsar um það og ef þetta endurspeglar samfélagið, eins og mér sýnist, þá er þetta gífurleg blóðtaka.
Við fórum frekar snemma í háttinn.
Miðvikudagur 22. júlí
Krakkarnir fóru eldsnemma af stað í þjóðgarðinn í Nakuru en ég varð eftir á hótelinu að þýða Ísöld 3 fyrir DVD útgáfu myndarinnar hafði fengið það verkefni daginn áður. Dagurinn leið við það verkefni og dálítið af Ngugi. Undir fjögur labbaði ég með Josphine nokkurn spöl frá hótelinu þar sem hún sýndi mér nýja miðstöð sem hún er að setja á laggirnar. Josphine er ung stúlka sem hefur gengið í gegnum ýmislegt. Foreldrar hennar skildu þegar hún var mjög ung og síðan hefur hún aðeins séð föður sinn einu sinni. Það var í Nairóbí fyrir ekki mjög mörgum árum. Þá rakst hún á ungan mann sem hét óvenjulegu nafni sem föðurafi hennar hafði heitið. Hún gaf sig á tal við hann og kom í ljós að það var hálfbróðir hennar, nokkrum árum yngri. Hann fór með henni til föður þeirra sem varð nokkuð hissa. Sagði að nýja konan sín vildi ekki að hann hefði neitt samneyti við hana eða systkini hennar koma hennar ætti eftir að valda honum vandræðum. Sagðist svo myndi kíkja á hana þegar hann ætti leið til Nakuru það hefur enn ekki gerst. Eftir að hann yfirgaf fjölskylduna á sínum tíma lentu þau í miklum vandræðum og Josphine lenti á götunni og þurfti sem unglingur að selja sig til að sjá systkinum farborða. Hún náði að rífa sig frá þessu og opnaði hárgreiðslustofu og vinnur nú með ungum konum sem eru í svipaðri stöðu og hún var. Í nýju miðstöðinni hitti ég þrjár ungar stúlkur sem sögðu mér sögu sína ein þeirra, 23 ára og tveggja barna móðir, var á vergangi. Hún bjó inni á manni sem barði hana reglulega og var nýbúin að segja henni að hypja sig. Josphine er greinilega mikil stoð þeirra og stytta .
Um kvöldið komu svo krakkarnir endurtekið efni á Taity´s áður en farið var aftur í háttinn á skikkanlegum tíma.
Fimmtudagur 23. júlí
Upp úr hádegi rölti ég með íslensku krökkunum í nýju miðstöðina hennar Josphine o.Co. Þar vörðum við 2-3 tímum í að fara yfir alla ferðina, jákvæða og neikvæða hluti og það sem mætti verða til að bæta úr minnka þjáningu þeirra sem fara í svona sjálfboðaliðferð í framtíðinni J Í heildina virðist þetta þó hafa verið áhugaverð ferð fyrir alla. Uppi á skerinu munum við svo skoða nánar hvernig þau sem vilja geta lagt hönd á plóginn í framtíðinni.
Upp úr hálf sex mættu svo heimamenn á fund þar sem við fórum yfir þeirra hlið á málum, auk þess að tala um nokkur þemu frá sameiginlegum fundi sem haldinn var á netinu í júní nettengingin við Kenía hafði ekki tekist vel þannig að það þurfti að ræða málin betur. Eftir þann fund mættu Íslendingarnir á staðinn, haldnar voru ræður og fólk kvaddist, knúsaðist og táraðist.
Síðan: Aftur Taity´s og svo á dansstað rétt hjá hótelinu þar sem dansinn var stiginn mislengi að mér skildist morguninn eftir.
Föstudagur 24. júlí
Klukkan tíu vorum við komin af stað til Nairóbí. Ferðin gekk ágætlega, nema þegar komið var inn í Nairóbí, þar var nokkur umferðarteppa. Komumst þó þangað um eittleytið. Um klukkutíma síðar kom Mama Lucy og önnur kona móðir litlu nýfæddu Brynhildar í Little Bees. Við höfðum haldið matatúinum sem við komum á frá Nakuru og fórum með honum til Little Bees. Á leiðinni var stoppað á lögreglustöð á leiðinni til að fá lögreglufylgd. Ég var dreginn inn á stöðina og látinn setjast hjá lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra svæðisins til að heilsa upp á þá. Þeir sögðu mér að þeir ættu mikla samvinnu með Lucy. Þegar börn fyndust á vergangi og engir foreldrar fyndust, færu þeir með þau til Lucy. Kvöddum þá svo og héldum í fylgd tveggja óeinkennisklæddra lögreglumanna til Little Bees. Stoppuðum þar líklega tvo tíma. Það er alltaf að bætast við barnahópinn í hvert skipti sem ég kem. Lucy staðfesti það; skólinn hefur vaxið frá 80 í 250 á undanförnum árum. Hjá Lucy var eitt barn sem lögreglan hafði fundið á vergangi og var búið að vera í nokkra daga. Ágústa, ein úr hópnum, tók hann í fangið og hann hjúfraði sig upp að henni .
Ferðin til baka gekk frekar hægt, enda var komið fram undir rökkur og mikil umferð. Kvöldið var frekar rólegt.
Laugardagur 25. júlí
Um ellefu komu Lucy og Victor og lóðsuðu okkur á Masai-markaðinn, sem var í um 20 mínútna göngufæri frá hótelinu. Þetta er býsna stór markaður og er bara opinn á laugardögum og þriðjudögum. Sölumennirnir voru býsna ágengir og notuðu öll brögð til að koma af stað sölu. Ég tók eftir að ég er kallaður meira papa en brother hm... Maður verður víst að sætta sig við að tíminn líður. Við dreifðum okkur um markaðinn - ég skannaði svæðið lengi áður en ég fór svo og keypti eitt og annað fyrir Múltikúlti.
Gengum þungklyfjuð heim á hótel og við tóku rólegheit - síðasta kvöld sjálfboðaliðanna í Nairóbí.
Sunnudagur 26. júlí
Morguninn var rólegur - lögðum af stað um eitt út á flugvöll. Umferðin var nánast engin svo við vorum fljót á leiðinni. Kvaddi þennan frábæra hóp við International departure. Var að hugsa, á meðan ég beið eftir flugi til Kisumu: Sýn þeirra og nálgun á þetta starf, auk einlægs ásetnings, er svo endurlífgandi fyrir sjálfan mig.
Fluginu til Kisumu seinkaði, auk þess sem vélin millilenti í Eldoret. Þar að auki varð bíllinn sem fór með mig frá flugvellinum bensínlaus á leiðinni á hótelið. Bílstjórinn stoppaði mótorhjól og fékk ökumanninn til að skutla sér eftir bensín á brúsa.
Allt þetta leiddi til að ég varð of seinn að hitta Tony Robinson, gamlan vin úr Húmanistahreyfingunni sem ég hafði frétt að væri í Kisumu. Það var komið á þriðja ár síðan ég hafði hitt Tony, en þar á undan höfðum við ýmislegt brallað og höfum svipaðar hugmyndir á mörgu. Hann var að vinna fyrir heimsfriðargöngu Húmanistahreyfingarinnar, hafði hitt Raila Odinga, forsætisráðherra Kenía, í vikunni og fengið hann til að lýsa yfir stuðningi á myndbandi. Þegar ég spurði hann hvernig honum litist á Odinga sagði hann að bókin (ævisagan) væri betri!! Kjöftuðum svo lengi frameftir um hvað hefði drifið á dagana undanfarið.
Rölti svo upp á hótel Palmers, eina ferðina enn. Alltaf ljúft að koma þangað.
Mánudagur 27. júlí
Um morguninn kom Anne Lauren að hitta mig yfir morgunmatnum og skipulögðum við þessa fáu daga sem voru framundan. Lenti á kjaftatörn í lok morgunverðar við kínversk/bandaríska konu sem var á flakki um Austur-Afríku.Raggi og Josephine komu skömmu síðar og kjöftuðum við frameftir morgni.
Ég hafði vaknað með einhverja kvefpest og fór og keypti mér pillur áður en ég fór á netið á Mega Plaza.
Um þrjúleytið komu Anne, Wilkister, Davies og George og fóru með mér í matatú eitthvað út fyrir bæinn. Þar var hljóðlátur fundarsalur - eftir að við höfðum fengið okkur að borða, héldum við fund sem stóð í rúma 3 tíma. Þar var farið yfir svipaða hluti og við fórum yfir í Nakuru - fólk var jafn ánægt þar með heimsókn sjálfboðaliðanna. Eina kvörtunin sem kom var þegar konur í einu þorpi höfðu varið nærri heilum degi við að elda jarðhnetusúpu, sem er í miklu uppáhaldi hjá þeim, þá voru sjálfboðaliðarnir lítt hrifnir og þótti hún súr.
Að fundinum loknum hitti ég Ragga og Josephine aftur og kvaddi þau. Þau voru bara í dagsferð í Kisumu Raggi var að leggja drög að ýmsum verkefnum; Ísframleiðslu, vinnslu fiskroða og fleira. Hann átti eftir að fara aftur og koma hlutunum í gang.
Þriðjudagur 28. júlí
Klukkan 10 kom Anne Lauren með bíl og skelltum við okkur í Korando. Sú kínversk/bandaríska kom með hún hafði ekki kynnst því hvernig fólkið býr til sveita, svo ég bauð henni með. Hún var skemmtilega ferköntuð í spurningunum um starfið - hugsaði það út frá svona hefðbundnu hjálparstarfi í anda ný-nýlendustefnu, eins og er svo algeng. Kíktum á leikskólann hjá Anne Lauren og svo röltum við með henni til að heimsækja nágrannakonu hennar sem er mjög veik og Anne heimsækir nánast daglega til að gefa henni að borða og nudda hana. Hún og maðurinn hennar eru bæði HIV smituð en þegar hann varð óvinnufær var hún send aftur á sínar heimaslóðir og býr hjá mömmu sinni. Í dag liggur hún allan daginn hálf ósjálfbjarga á strádýnu á gólfinu. Kvartaði yfir að Anne hefði ekkert sinnt henni í gær. Ég játaði á mig sökina að hafa haldið henni upptekinni og var þetta allt á frekar léttum nótum. Síðan kvöddum við og fengum að borða heima hjá Anne. Skutluðum svo Lotus í rútu - hún var á leið til Uganda. Á leiðinni til baka lýsti hún yfir að hún vildi gjarnan styðja barn. Sjáum til hvað verður.
Upp úr tvö heimsóttum við Geoffrey lækni á heilsugæsluna. Hann var hress að vanda og fór með okkur upp í fundarherbergi upp á lofti. Þar komu síðan þær fjórar sex workers sem fengu aðstoð frá Vinum Kenía í framfærsluverkefni. Þær voru allar búnar að endurgreiða svo hægt er að lána aftur. Þær voru allar á því að lánið hefði nýst þeim vel - þær hefðu getað keypt meiri lager af vörunum sem þær voru að selja, aukið úrvalið og haft meira sér til framfærslu. Þær voru ekki allar hættar harkinu en sú síðasta sagði að nú þyrfti hún ekki að segja já við hvern sem er, ofbeldismenn og þá sem hætt var við að sviku þær um greiðslu.
Um kvöldmat kom Janess og við kjöftuðum frameftir hann geturr verið býsna skemmtilega pælandi.
Miðvikudagur 29. júlí
Vaknaði um níu. Fór niður í banka hraðbanki hafði gleypt kort hjá mér kvöldið áður. Þeir sögðu mér að koma aftur eftir klukkutíma, sem og ég gerði þá á leiðinni út á flugvöll. Kortið var þá fundið og var ég samferða Anne Lauren út á flugvöll: Kisumu-Nairóbí-Mumbay-London-Keflavík.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2009 | 14:18
Skot-tur til Indlands
Þriðjudagur, 14. júlí
Lenti á Gatwick í London undir hádegið og í þeirri lengstu biðröð sem ég hef lent í fyrir framan vegabréfsskoðunina. Hún náði einhverja hundruð metra út úr tollafgreiðslusalnum fram eftir löngum göngum, fimm til sexföld á breidd. Mér varð um og ó þegar ég sá hana þetta yrði seint búið. Þegar til kom gekk hún þó ótrúlega hratt var kominn í gegn á innan við klukkutíma.
Fór í rútu yfir á Heathrow og dundaði mér þar í nokkra tíma við nokkur lítil þýðingarverkefni, verslaði mér myndavél (það er alltaf verið að skamma mig fyrir hvað ég er lélegur að taka myndir góð byrjun að eiga myndavél!) og svo tvær bækur; Risk eftir Dan Gardner og Outliers The Story of Success, eftir Malcolm Gladwell. Sú síðari var algjört möst. Ég á fyrir The Tipping Point (fjallar m.a. um líkindi félagslegra byltinga og veikindafaraldra) og Blink (Um innsæið, Blink = hvernig við tökum ákvörðun á augabragði byggt á innsæinu og ómeðvitaðri "rökrænni" úrvinnslu). Það sem ég veit um þá þriðju er að þar fjallar hann um snillinga, hvað það er sem skilur þá að frá öðrum. Niðurstaðan er víst að það sé að mestu leyti vinnan sem lögð er í viðfangsefnið, um 10.000 tímar, sem skapa snilling. Meðfædd gáfa er samkvæmt því ofmetin. Tók svo eftir að á forsíðu Risk var vísað í Malcolm Graldwell (Terrific ... has the clarity of Malcolm Gladwell).
Í flugvél flugfélagsins Kingfisher á leið til Mumbay byrjaði ég svo á Risk. Áhugaverð lesning um áhrif óttans, m.a. talað um hvernig rúmlega 1.500 Bandaríkjamenn létust í umferðarslysum eftir 9/11 umfram það sem hefði verið ef þeir atburðir hefðu ekki vakið ótta við að fljúga. Eftir atburðina fór fólk að aka meira en það er mun hættulegra en að fljúga (þótt hryðjuverkamenn brotlentu farþegaflugvél vikulega væri samt margfalt öruggara að fljúga en aka). Einnig áhugaverð pæling um hvernig við höfum smíðað samfélag sem passar fyrir vitsmunaveru sem er þó að litlu leyti til staðar, vitsmunaveru sem íhugar og rökræðir, allt mjög hægt. En við tökum margfalt fleiri ákvarðanir út frá annarri og eldri vitsmunaveru sem lætur m.a. stjórnast af hlutum eins og hræðslu sú vitsmunavera er mun eldri en sú fyrri.
Miðvikudagur, 15. júlí
Lenti í Mumbay í rigningarsudda í rauðum sokkum með kveðju frá Kingfisher. Biðin á innanlandsflugvellinum var frekar stutt lenti í Chennai undir kvöldmat að indverskum tíma daginn eftir að ég lagði í hann. Á flugvellinum tók John á móti mér, þráttaði létt við hann um hvaða hótel ég ætti að fara á. Hann vildi að vel færi um mig, ég vildi spara fékk mitt fram, fundum lítið og ódýrt hótel í Pallavaram, rétt hjá flugvellinum. Settum niður fundartíma fyrir daginn eftir og svo fór ég beina leið í háttinn.
Fimmtudagur, 16. júlí
Vaknaði svo um tvöleytið um nóttina og gat ekki sofnað aftur. Dundaði mér við að þýða bók Ngugi wa Thiongo, Devil on the Cross eða Kölski á krossinum sem er fyrsta verkið sem útgáfudeild Múltikúlti gefur út. Ngugi er merkasti rithöfundur Kenía og einnig vel þekktur í mannfræðinni (Decolonizing the Mind) og kemur til Íslands í septemberlok.
Um morguninn skilaði ég af mér nokkrum þýðingaverkefnum á internetbúllu skammt hjá. Hraðinn á nettengingum hefur margfaldast frá því síðast besta mál. Svo kom John og við byrjuðum að kíkja á reikningsuppgjör vegna komu sjálfboðaliðanna ungu til Indlands. Allt mjög skipulagt og vel gert, eins og hans er von og vísa. Síðan fórum við á Spencer Plaza, aðal mollið í Chennai og gott ef ekki í Asíu (sagði einhver). Verslaði slatta af dóti fyrir Múltikúlti (reyndar dálítið meira en ég ætlaði) og druslaði því heim á hótel aftan á mótorhjólinu hans Johns áður en við fórum í mat heim til hans, þar sem ég hitti foreldra hans og systur. Skoðaði síðan nýja skrifstofu Action India (félag sem þeir stofnuðu í kringum nokkur verkefni) á efstu hæðinni hjá honum.
Um kvöldið, þegar ég var kominn aftur á hótelið, var frétt í sjónvarpinu um Ísland. Ísland ákveður að ganga í Evrópusambandið var yfirskriftin. Einhvern veginn ekki alveg eins og það er sett fram í umræðunni heima. Fréttin var nokkuð ítarleg með viðtali og myndum.
Föstudagur 17. júlí
Köflóttur svefn og endaði með að ég svaf fram að hádegi. Ýmislegt stúss um daginn sem endaði með að John kom og fylgdi mér á eitt flottasta hótelið í Chennai þar sem við hittum Michael. Mágur hans er hótelstjóri þar og býr í næsta húsi við Michael. Við fengum þarna flott buffet með óteljandi réttum, hver öðrum betri á 250 rúpíur á mann (brot af því sem það kostaði). Ég fékk ekki einu sinni að borga minn hlut (fékk yfirleitt frekar lítið að borga í þessari ferð, allir hafa mikla samúð með ástandinu á Íslandi :) Hótelstjórinn kom svo með yfirþjóninn og yfirkokkinn og kynnti fyrir okkur. Það var gaman að fylgjast með kokkinum. Indverjar kinka ekki kolli til að segja já heldur vagga höfðinu til hliðanna. Hann var með langa hvíta kokkahúfu og þegar hann vaggaði höfðinu var það býsna skondið.
Laugardagur 18. júlí
Eftir svefnlitla nótt var ég sóttur klukkan sjö um morguninn í Ambassador bifreið (ekki eins flott og það hljómar). Þar voru mættir John og bílstjórinn en við náðum svo í Michael og Deva Kumar skammt hjá og ókum af stað út úr bænum í átt að Thorapadi. Þar stóð til að vígja Grund Humanist Home for Children. Grundarnafnið kemur frá því að upphafið má rekja til framlags frá Grundarsjóði, sem var menningarsjóður sem var lagður niður og hluti hans rann í að byggja þarna barnaheimili að frumkvæði Gunnars Kvaran. Ferðin þangað tók um 3 tíma og þar tók á móti okkur dágóður hópur heimamanna, fulltrúa IHA (International Humanist Alliance), o.fl. Þar klippti ég á borða, fékk litaklessu á ennið og var sveipaður handklæði (bara ég og Michael fengum handklæði, hinir fengu bara einhverjar dúkadruslur) og fékk gefna gjöf, auk þess sem ég hélt smá ræðu. Á staðnum voru líka blaðaljósmyndarar og fréttamenn, auk nokkurra stráka sem munu búa þarna þegar starfsemin kemst í gang.
Síðan var farið í nálæga borg þar sem við fengum afnot af kennslustofu í skóla og héldum fund með nokkrum helstu sprautunum í starfinu í Tamil Nadu og fórum yfir ýmis mál. Allir voru mjög ánægðir með ferð sjálfboðaliðanna virðist hafa lukkast vel frá þeim séð. Skoðuðum hvað mætti gera betur ef þetta verður endurtekið. Við enduðum á spjalli um þema síðasta mánaðar Af hverju ættum við að hjálpa öðrum og spruttu af því skemmtilegar umræður og endaði á mjög góðum nótum.
Á bakaleiðinni var mikið spjallað Michael sagði mér frá ýmsu sem gengið hefur á varðandi bygginguna í Thorapadi. Sá sem við byrjuðum með upphaflega og lagði til landið þar reyndist hafa einhvern dulinn ásetning og er þetta búið að vera ein allsherjar sápuópera þar sem hann hefur verið að reyna eitt og annað til að ota sínum tota og þvælast fyrir þegar það hefur ekki tekist. Öll sú saga er lengri en svo að þetta blogg rúmi hana, en virðing mín fyrir Michael óx við að hlusta á þetta (og var hún nokkur fyrir) hvernig hann lítur á hlutina og leysir málin. Við renndum svo inn í Chennai upp úr kvöldmat.
Sunnudagur, 19. júlí
Rólegur morgun við þýðingar en rétt fyrir hádegi kom John og var samferða mér heim til Michaels. Þar beið matur konan hans er ótrúlega góður kokkur. Svo fórum við upp á loft á skrifstofuna hans Michaels og fórum yfir nokkra hluti, skoðuðum myndir og myndbönd frá heimsókn sjálfboðaliðanna. Hann sýndi mér líka nokkrar myndbandsskýrslur um fósturbörn sem verið er að styðja. Frábær hugmynd og eitt verkefni sem næsti sjálfboðaliðahópur (ef við leggjum í þetta aftur) getur gert, bæði í Indlandi og Kenía. Klukkan var orðin fimm þegar við kvöddumst.
Kíkti á netið og hitti svo Deva Kumar og Louis. Deva kumar var með blaðaúrklippur frá menntaverkefni Vina Indlands í samvinnu við ýmis samtök í Tamil Nadu, með myndir af sjálfboðaliðunum við ýmis tækifæri. Textinn á tamílsku þannig að hann var lítt skiljanlegur en myndirnar töluðu fyrir sig. Átti gott spjall við Louis. Hann er skemmtilegur og ljóngáfaður kaþólikki sem vinnur við að dreifa smokkum og eiga samskipti við samkynhneigða (Hluti af fræðslu hans í slömmum vegna HIV, sem er útbreiddara en marga gæti grunað, sérstaklega á meðal sprautufíkla). Við ræddum m.a. dóm hæstaréttar í vikunni á undan þar sem úrskurðað var að kynlíf samkynhneigðra væri ekki ólöglegt á Indlandi. Hann sagði mér frá því að fyrir daga Breta á Indlandi hefðu verið musteri tileinkuð samkynhneigð (Khajraho musterið) en það hefðu verið Bretar með tilskipun 377: 18c, sem hefði gert samkynhneigð ólöglega. Áhugavert. Um kvöldið var svo pakkað niður í ró og næði.
Ferðalög | Breytt 25.7.2009 kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.5.2009 | 10:43
Skottúr til Kenía
Lenti í London í 17 gráðu hita og sólskin sem gerði jökulkalt vorið á Íslandi með snævi þöktum fjöllunum og gaddfreðinni skuldahítinni einhvern veginn enn nöturlegra. Hafði tékkað mig inn í gegnum netið áður en ég lagði af stað bæði hjá Icelandair og Qatar Airways og allt gekk því fljótt og snurðulaust fyrir sig. Millilenti í Doha um miðnætti eftir um 7 tíma flug 28 gráðu hiti þar, tilkynnti flugstjórinn rétt fyrir lendingu. Nokkuð löng bið um sjö tímar í ógurlega afkastamiklu loftræstikerfi sem olli því að eftir að mér tókst að leggja mig í nokkra tíma, vaknaði ég hálffreðinn. Hálsbólgan og hóstinn sem spratt í kjölfarið átti eftir að endast nokkurn veginn alla ferðina. Ferðafélaginn var Rauðbrystingurinn, eftir Jon Nesbö, en hann er næsta viðfangsefni bókaklúbbsins Æskunnar (nafnið kemur af örvæntingarfullri sjálfsblekkingu nokkurra miðaldra bókanörda).
Flugið til Nairobi er umtalsvert styttra eitthvað á fimmta tímann. Fann mér hótel sem var heldur ódýrara en í fyrri ferðum ég var aðeins lasinn en krónugreyið í enn verra ástandi, allt 60-70% dýrara en áður. Fór samt ágætlega um mig. Um kvöldið fékk ég heimsókn konu sem tók hjá mér 10 fótbolta sem Paul Ramses hafði beðið mig að taka með mér.
Morguninn eftir kom svo Mama Lucy úr Little Bees og tók af mér megnið af pökkunum sem ég hafði komið með. Seinna um daginn hitti ég svo hana aftur ásamt Victori, ungum fyrrverandi skjólstæðingi hennar úr Little Bees sem í dag hjálpar henni við rekstur skólans. Victor varð samferða mér í tíu sæta Matatu til Nakuru. Í Nakuru tók Linet á móti okkur, rak mig beina leið í lyfjaverslun og lét mig kaupa flensulyf og síðan í beint á hótelið.
Morguninn eftir byrjaði námskeið um húmanískt sjálfboðaliðastarf með 12 manna hópi. Helmingurinn frá Nakuru, hinn helmingurinn héðan og þaðan úr Vestur-Kenía. Námskeiðið gekk mjög vel, stærsti hluturinn ungt fólk, þriðjungur í háskóla. Umræðurnar voru skemmtilegar og frjóar á köflum. Það var aftur lítið hægt að tala saman um kvöldið þegar farið var út að borða á stað þar sem tónlistin var í botni og varla hægt að tjá sig nema með öskrum. Þar á eftir kíkt örstutt á dansstað. Dansvalið var pólitískt rétt; á víxl spiluð Kikuyu- og Luo-tónlist auk annarrar sem ég kann ekki deili á. Þar sem námskeiðið átti að halda áfram klukkan átta morguninn eftir var farið á skikkanlegum tíma inn á hótel og í bólið. Áður en svefninn tók völdin svifu um kollinn hugleiðingar um liðinn dag og kveiktu á þessari sjaldgæfu og dýrmætu tilfinningu um að vera að gera nákvæmlega það sem mann langar til að gera!
Námskeiðinu lauk rúmlega tvö á sunnudag. Eftir að við höfðum gætt okkur á tilapiu (fiskur) og geitakjöti kom einn sjálfboðaliðahópurinn með ýmislegt sem hann er að framleiða úr úrgangsefnum, töskur, veski , o.fl. Ég valdi sitt lítið af hvoru fyrir Múltikúlti áður en ég settist upp í Matatu á ný og brunað til Kisumu. Ferðin tók tæpa fjóra tíma og ég hafði nægan tíma, m.a. til að lesa staðarblöðin. Í Kenía eru þeir að reyna að koma saman nýrri stjórnarskrá þeirra, eins og okkar, er uppsuða úr stjórnarskrá nýlenduherranna. Þeir hafa þó hóflegri hugmyndir en við um mannafla í þessa vinnu þrettán manns koma að verkinu. Af hverju þurfum við sextíu og þrjá? Þá var nokkuð fjallað um atlögu stjórnvalda gegn talibönum Kenía, Mungiki-sértrúarhópnum. Hópurinn hefur vaxið undanfarin ár og er talinn ábyrgur fyrir fjölda morða í landinu. Þeir blanda saman sósíalískum hugsjónum um jöfnuð og afturhvarfi til gamalla gilda í Kenía þ.m.t. til umskurðar kvenna og annars slíks. Þá var vandræðaleg útskýring eins ráðherra ríkisstjórnarinnar á því hvernig hvarf á upphæð sem nemur 15 milljörðum íslenskra króna mætti rekja til tölvuvillu. Kom til Kisumu um kvöldmatarleytið frekar heimilislegt að rúlla inn á Hotel Palmers og heilsa upp á fólkið. Eftir að hafa kíkt í bæinn á boda-boda (reiðhjól með bólstruðum bögglabera fyrir farþega) og kíkt á netið, hitti ég Anne Lauren á Palmers og við fórum yfir dagskrá þessa eina dags sem ég átti í vændum í Kisumu.
Klukkan tíu um morguninn komu Anne, George, Davies, ásamt Janet litlu sem Bidda systir er að styðja sem mætti með frænku sinni. Við ræddum aðeins mál Janetar hún er á síðasta ári í grunnskóla, á næsta ári tekur við framhaldsskóli og ráðast möguleikar hennar af prófi sem hún þarf að taka í lok árs. Eftir það var fundað um komu ungu íslensku sjálfboðaliðanna í lok júní, gisting og verkefni og flestir lausir endar hnýttir . Var skotið föstum skotum á mig að nú yrði ég að koma og prófa að gista í heimahúsum líka! (Hvað er ég að koma mér útí?) Eftir hádegi röltum við Anne á heilsugæsluna og heilsuðum upp á Geoffrey lækni. Vinir Kenía byrjuðu nýlega að styðja við smálánaverkefni sem hann stýrir hann vinnur með hópi vændiskvenna sem eru að reyna að skapa sér annað lifibrauð. Hann er frekar praktískur: Við erum aðallega að reyna að fækka þeim skiptum sem þær fara á götuna minnka tíðnina og skapa þeim valkosti. Svo sagði hann mér sögu af einni sem var nýkomin af stað með eigin atvinnurekstur og gekk nokkuð vel. Hún hafði sagt að hún hefði mikið að gera, þegar hún kæmi heim á kvöldin væri hún of þreytt til að fara út og harka og svo átti hún hvort sem er nóg að borða! Þar á eftir fórum við Anne á stúfana og náðum í vörur frá starfsþjálfunarmiðstöð fyrir ungt fólk m.a. endurunnin kort sem hafa selst ágætlega í Múltikúlti. Um fimmleytið kom heilsugæslujeppinn og keyrði mig á flugvöllinn. Hálftímaflug, leigubíll í bæinn og inn á hótel. Þegar ég kíkti á netið beið dágott þýðingarverkefni sem ég fór langleiðina með að klára á heimleiðinni.
Ferðalög | Breytt 20.5.2009 kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.3.2009 | 20:19
Dauðasveitir í Kenía
Ástæðan fyrir að Paul Ramses sótti um pólitískt hæli í fyrrasumar var að hann taldi sig í hættu vegna dauðasveita sem tækju stjórnarandstæðinga, eða andstæðinga forsetans, af lífi. Ýmsir drógu þetta í efa þá. Í ferðum mínum síðan til Kenía hef ég heyrt ýmsu hvíslað um slíkar dauðasveitir og að fjöldi fólks horfið sporlaust. Nýleg morð á "aktivistum" sem rannsökuðu þessar sveitir renna stoðum undir þennan orðróm - en þær eiga að tengjast her og lögreglu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2009 | 14:37
Tólf dagar í Kenía
Föstudagur 2. janúar
Lenti í Nairóbí eldsnemma eftir stutta viðkomu í Amsterdam og lengri þar á undan í London. Morguninn var frekar svalur en hlýnaði fljótt og þar sem ég ranglaði á milli veitingastaða og beið eftir fluginu til Kisumu hitti ég Val og Guinness, skoska vini mína ég hafði staðið í þeirri trú að þau væru komin til Kisumu. Við fengum okkur að borða saman og instant kaffi úr dós, en þrátt fyrir að framleiða ókjör af kaffi er engin almennileg kaffimenning í Kenía sama sagan og á Indlandi og annars staðar sem enskir hafa komið við sögu, kaffið er útbúið eins og te eða bara instant. Flug til Kisumu tekur innan við hálftíma, öðrum hálftíma síðar stóðum við í fordyri hótels sem kennt við heilaga Önnu. Tveimur tímum síðar komu John og Michael, tveir félagar okkar frá Indlandi, og þá var ekki eftir neinu að bíða; ásamt ellefu kenískum hvunndagshetjum fórum við að funda um málefni IHA (International Humanist Alliance) og hættum ekki fyrr en langt var liðið á kvöldið.
Laugardagur 3. janúar
Eftir morgunmat, um 9, var haldið áfram að funda. Undir kvöldmat mætti Þórir Gunnarsson, gallvaskur frá Íslandi og sat það sem eftir lifði fundar. Hann hafði lent í Nairóbí snemma um morguninn en átti ekki flug til Kisumu fyrr en um eftirmiðdaginn svo hann notaði tækifærið og kíkti í heimsókn til Little Bees skólans í Nairobi hitti þar Mömmu Lucy, kraftaverkakerlingu úr slömmum Nairobi og útdeildi gjöfum frá stuðningsforeldrum.
Sunnudagur og mánudagur 4.-5. janúar
Ég og Val héldum svokallað Phase II, eða framhaldsnámskeið, fyrir lykilfólk í hópunum sem við erum að vinna með. Þar var fjallað um ýmis þemu: Hugmyndafræðilegar grunnstoðir IHA, tilgang lífsins á 21. öld, persónulegar og félagslegar mótstöður við breytingum og ferlið frá hóp til networks (tengslanet lýsir því ekki alveg). Námskeiðið er byggt upp sem blanda af fyrirlestrum, þátttökuverkefnum og leikjum og tókst mjög vel.
Þriðjudagur 6. janúar
Nú var skipt liði; Námskeið I var að mestu leyti í höndum Val, Michaels og Anne Lauren ég tók bara þátt í blábyrjun og síðustu klukkutímunum. Þess á milli hafði ég tækifæri til að fara í jólasveinaleik og færa nokkrum börnum pakka frá stuðningsaðlinum á Íslandi. Á námskeiðið mætti fólk frá Kisumu, Migori, Sindo og Nakuru. Á meðan á því námskeiði stóð hélt Guinness annað námskeið um internetið. Þátttakendur voru nokkrir af þeim sem höfðu tekið þátt í framhaldsnámskeiðinu, auk fáeinna annarra. Hann fór yfir grundvallarhluti eins og tölvupóst og innskráningu og þátttöku í spjalli og fundum á netinu. Tölvunámskeiðið fór fram í tölvuveri Great Lakes University, skammt frá hóteli heilagrar Önnu, og var það fullt af tölvum með íslenskum lyklaborðum tölvum frá Orkuveitu Reykjavíkur sem við sendum þeim í fyrra.
Miðvikudagur 7. janúar
Þegar byrjenda- og internetnámskeiðunum lauk, rétt upp úr hádeginu á miðvikudag, hélt Þórir vestur til Migori, að landamærum Tansaníu, en undanfarin ár hefur hann stutt grunnskóla þar, Goodwill Humanist Academy. Starfið þar hefur verið í nokkurri upplausn eftir að Florence Akinye, sem var aðalsprautan í því starfi, lést í fyrra og var markmiðið með för Þóris m.a. að koma málum þar í góðan farveg. Við hinir útlendingarnir fórum í heimsókn til miðstöðvar Anne Lauren í Korando, austur af Kisumu, rétt við Viktoríuvatnið. Kvennahópurinn þar tók á móti okkur með söng og dansi en síðan gekk Anne með okkur um nágrenni miðstöðvarinnar, kynnti okkur fyrir ýmsu fólki, m.a. tveimur unglingssystrum sem búa þar og annast yngri systkini sín, en fá hjálp frá miðstöðinni. Við miðstöðina sjálfa lék stór hópur barna sér í fótbolta, boltinn var alvörufótbolti víðast sér maður krakka í fótbolta í Kenía með bolta úr samanvöðluðu og -bundu plasti, hnoðuðu saman í kúlu. Þessi bolti var gefinn af stuðningsforeldri frá Íslandi. Hópurinn í Korando var búinn að gera ýmislegt frá því að ég var þarna síðast, m.a. girða af stóran akur til ræktunar við miðstöðina. Leikskólinn sem þær hafa verið að byggja er með bráðabirgðaþaki en stuðningsaðili á Íslandi lagði til aura til þess að setja á hann þak og verður það væntanlega komið á innan skamms.
Eftir heimsóknina var haldið aftur á hótelið í Kisumu en skömmu síðar vorum við sótt af öðru farartæki. Leiðin lá rétt út fyrir bæinn þar til beygt var inn í ríkmannlegt hverfi, inn í garð umluktan háum vegg með gaddavír efst. Þar var geysistórt hús á tveimur hæðum þar sem kunningjakona Michaels, Jane Ochieng býr. Jane rekur munaðarleysingjaheimili og er gift þingmanni úr flokki forsætisráðherrans, Raila Odinga. Ochieng var kosinn í frægu kosningunum fyrir rúmlega ári. Þar beið okkar síðbúinn kvöldmatur og spjall. Auk Jane var þar frændi hennar Bob, sem býr í New Jersey í Bandaríkjunum skarpur karl sem starfar við rannsóknir á tryggingasvikum. Bob spurði mikið um ástand mála á Íslandi, fregnir af Íslandi fljúga víða.
Fimmtudagur 8. janúar
Um morguninn skildu leiðir, Val og Guinness héldu til Mombasa, Michael og John til Nakuru en ég, ásamt Janess Swama, ungum manni frá Suba-svæðinu við Viktoríuvatnið, stigum upp í rútu. Leiðin lá til bæjarins Sindo þar sem hann býr. Fólk tíndist inn og út úr farartækinu á leiðinni, sérstaka athygli mína vakti mjög dökk ung stúlka í skærbleikum bol sem á stóð: Blonds are more cool, og vakti hugleiðingar um sjálfsmynd og hjálparstarf. Þótt þröngt væri í bílnum gekk allt greiðlega fyrir sig, eftir að óeirðunum í kjölfar kosninganna lauk er fólk almennt kurteisara og tillitsamara, sagði Janess, það hafa allir fengið nóg af ófriði. Við fórum óvenjulega leið til Sindo sem liggur vestur af Kisumu. Í stað þess að aka í vesturátt fórum við austur frá Kisumu og svo norður, en Kisumu liggur við botn fjarðar frá vatninu. Fjarðarmynnið er mjótt og tekur ferðin yfir aðeins um 45 mínútur. Bærinn sem ferjan leggst við heitir Mbita. Þar fór Janess með mig á skrifstofu í bænum sem hýsir miðstöð fyrir baráttu gegn kynbundnu ofbeldi. Hann kynnti mig fyrir konum sem þar starfa þetta verkefni er eitt af mörgum sem hann kemur að. Síðan var haldið beint til Sindo, um 25 kílómetra leið. Þar mættum við beint á fund með hópi ungs fólks á staðnum sem er að vinna að ýmsum málum á staðnum í tengslum við börn og HIV. Eftir ræðuhöld og spjall þar var stokkið aftan á mótorhjól og keyrt eftir moldartroðningum enn vestar þar sem Jane, einn þátttakenda á byrjendanámskeiðinu, var með hóp sem vinnur að því að gefa munaðarlausum börnum og börnum fátækra mat. Eftir ræðuhöld og spjall, þar sem þau lýstu áhuga á því að tengjast stuðningsforeldraverkefninu okkar, var tekið til við að borða; kjúkling og ugali. Síðan var ekin sama leið til baka. Nóttinni varði ég í litlu hóteli í Sindo. Handan götunnar var spiluð hávær, lifandi tónlist vel fram yfir miðnætti og það var hljóðbært, þau hefðu alveg eins getað verið í herberginu mínu að spila. Eldsnemma um morguninn voru settir í gang stórir bílar fyrir utan hótelið og þeim gefið vel inn svefninn varð frekar stuttur og sundurlaus. Niðurstaða mín var að þetta væri næstversta hótel sem ég hef dvalið á það versta er líka í Sindo, þar var ég fyrir 5 árum. Um morguninn bauð Janess í morgunmat og eftir að komast á netið í heilsugæslunni á staðnum hélt ég einn til baka til Mbita og tók ferjuna til baka og bílinn til Kisumu.
Þórir kom til baka frá Migori sama dag og bókuðum við okkur báðir á Palmers-hótelið. Um kvöldið var farið út, að ég hélt til að hlusta á lifandi tónlist. Þannig hófst það allavega en á fyrsta staðnum hittum við gamlan kunningja, lækni sem vinnur á heilsugæslunni sem Anne Lauren vinnur út frá, ásamt konu að nafni Carol, sem er fyrrverandi vændiskona og vinnur með honum að verkefnum sem snerta vændiskonur; að tryggja þeim ókeypis heilsugæslu og skapa þeim aðra valkosti sér til framfærslu. Fararkosturinn um kvöldið var ágæt jeppabifreið sem tilheyrði heilsugæslunni og enduðum við kvöldið á veitingastaðnum Bottoms Up, en þar sátu nokkrar stúlkur og voru að harka og ein þeirra kom til okkar og sagði okkur sögu sína. Hún var innan við þrítugt, átti 2 börn og var HIV smituð.
Laugardagur 9. janúar
Um morguninn var haldið til Nakuru í 10 sæta Matatu, sem eru Toyota sendibifreiðar innréttaðar með sætum og einn helsti ferðamátinn í Kenía. Þegar ég kom fyrst til Kenía var troðið 19 manns í þessa bíla en 10 er svona mátulegt. Vegurinn til Nakuru var talsvert betri en þegar ég fór hann síðast og tók ferðin um 3 tíma. Á Chester-hótelinu í Nakuru beið okkar hópur um 30 sjálfboðaliða og voru haldnar ræður á milli þess að dreypt var á te og kaffi og etnar kökur. Síðan var farið út að borða og hlustað á og dillað sér við þjóðlega tónlist.
Sunnudagur 10. janúar
Morguninn eftir fóru allir nema ég í þjóðgarðinn í Nakuru, ég þurfti að vinna í þýðingaverkefni og átti eftir að ganga frá athugsemdum varðandi námskeiðin, sem ég og gerði. Þegar hópurinn sneri aftur höfðu þau gert góða ferð, séð ljón, hlébarða auk annarra dýra. Bavíani hafði rænt nestispoka Þóris og át banana og jógúrt með bestu lyst. Um kvöldið var Þórir svo orðinn fárveikur, með hita og í maganum líklega matareitrun.
Mánudagur 11. janúar
Um morguninn hélt ég, ásamt Michael og John, til Nairóbí en Þórir varð eftir í góðum höndum Linetar, sem dreif hann til læknis sem dældi í hann lyfjum og hélt honum á sjúkrahúsinu yfir nótt. Ég kvaddi indversku vinina mína, sem áttu flug í eftirmiðdaginn, en fór sjálfur til Little Angels Adoption Agency í úthverfi borgarinnar, en það er félag sem hefur leyfi til alþjóðlegra ættleiðinga. Ég átti fund með forstöðukonunni sem upplýsti mig um hvað þyrfti til að opna fyrir ættleiðingar til Íslands. Þar á eftir bókaði ég mig inn á hótel og hélt áfram að vinna fram eftir kvöldi.
Þriðjudagur 12. janúar
Snemma næsta morgun lagði ég af stað til Kenyatta-háskólans, sem er rétt fyrir utan borgina. Þar tók Ezekiel á móti mér, en ég hitti hann fyrst í september í fyrra og hafði hann boðið mér í heimsókn. Ezekiel er kunningi Terry Gunnels sem átti frumkvæði að því að senda tölvur frá HÍ til Kenyatta-háskólans, fyrst 2005 og svo aftur í fyrra og unnum við að því með honum í bæði skiptin. Ezekiel starfar í dag sem yfirumsjónarmaður útvarpsstöðvar Kenyatta-háskóla. Hann gekk með mér um ganga og inn á skrifstofur og herbergi þar sem mjög víða mátti sjá tölvur með íslensk lyklaborð. Þar á eftir lá leiðin til Olive M. Mugenda, sem er Vice-Chancellor háskólans, en Ezekiel hafði bókað tíma hjá henni. Ég átti von á 5 mínútna kurteisisspjalli en lenti í 45 mínútna fundi með henni ásamt nokkrum toppum í háskólanum þar sem þau lýstu áhuga á meiri samskiptum við HÍ og Ísland almennt. Það kom mér mjög á óvart hvað þessar tölvusendingar til þessa næststærsta háskóla Kenía skiptu þá miklu máli. Hluti þessarar síðustu sendingar fór til menntamálaráðuneytisins í Kenía, til samhæfingarskrifstofa sem samhæfa starf hundruð skóla hver á sínu svæði. Öll þessi fyrirhöfn sem við lögðum á okkur í september til að koma tölvunum til landsins var allt í einu alveg þess virði. Ég var svo leystur út með gjöfum og teknar virðulegar myndir af mér og frú Mugende.
Seinna um daginn kom Þórir svo, hann hafði jafnað sig ótrúlega fljótt og vel. Með honum var Jeff, ungur maður frá Migori sem stundaði háskólanám í Nairóbí, en tók þátt í verkefninu í Migori. Jeff sagði mér að prófessor Mugende væri vel þekkt í Kenía, hún hefði unnið frábært starf með háskólann og hefði fengið sérstaka forsetviðurkenningu árið áður. Að lokum málsverði á ítölskum pítsustað í miðborg Nairóbí var farið snemma í háttinn.
Miðvikudagur 14. janúar
Við Þórir áttum flug hvor með sinni vélinni en brottför var aðeins með hálftíma millibili þannig að það hentaði ágætlega að fara saman út á völl. Við hittumst svo aftur í London og lentum skömmu eftir miðnætti í íslenskt myrkur og kulda.
Ferðalög | Breytt 22.1.2009 kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Mars 2012
- Ágúst 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Nóvember 2010
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar