Skottúr til Kenía

Lenti  í London í 17 gráðu hita og sólskin – sem gerði jökulkalt vorið á Íslandi með snævi þöktum fjöllunum og gaddfreðinni skuldahítinni einhvern veginn enn nöturlegra.  Hafði tékkað mig inn í gegnum netið áður en ég lagði af stað – bæði hjá Icelandair og Qatar Airways og allt gekk því fljótt og snurðulaust fyrir sig. Millilenti í Doha um miðnætti eftir um 7 tíma flug – 28 gráðu hiti þar, tilkynnti flugstjórinn rétt fyrir lendingu. Nokkuð löng bið – um sjö tímar í ógurlega afkastamiklu loftræstikerfi sem olli því að eftir að mér tókst að leggja mig í nokkra tíma, vaknaði ég hálffreðinn. Hálsbólgan og hóstinn sem spratt í kjölfarið átti eftir að endast nokkurn veginn alla ferðina. Ferðafélaginn var Rauðbrystingurinn, eftir Jon Nesbö, en hann er næsta viðfangsefni bókaklúbbsins Æskunnar (nafnið kemur af örvæntingarfullri sjálfsblekkingu nokkurra miðaldra bókanörda).

Flugið til Nairobi er umtalsvert styttra – eitthvað á fimmta tímann. Fann mér hótel sem var heldur ódýrara en í fyrri ferðum – ég var aðeins lasinn en krónugreyið í enn verra ástandi, allt 60-70% dýrara en áður. Fór samt ágætlega um mig. Um kvöldið fékk ég heimsókn konu sem tók hjá mér 10 fótbolta sem Paul Ramses hafði beðið mig að taka með mér. WPM$6946

Morguninn eftir kom svo Mama Lucy úr Little Bees og tók af mér megnið af pökkunum sem ég hafði komið með. Seinna um daginn hitti ég svo hana aftur ásamt Victori, ungum fyrrverandi skjólstæðingi hennar úr Little Bees sem í dag hjálpar henni við rekstur skólans. Victor varð samferða mér í tíu sæta Matatu til Nakuru. Í Nakuru tók Linet á móti okkur, rak mig beina leið í lyfjaverslun og lét mig kaupa flensulyf og síðan í beint á hótelið.

Morguninn eftir byrjaði námskeið um húmanískt sjálfboðaliðastarf með 12 manna hópi. Helmingurinn frá Nakuru, hinn helmingurinn héðan og þaðan úr Vestur-Kenía. Námskeiðið gekk mjög vel, stærsti hluturinn ungt fólk, þriðjungur í háskóla. Umræðurnar voru skemmtilegar og frjóar á köflum. Það var aftur lítið hægt að tala saman um kvöldið þegar farið var út að borða á stað þar sem tónlistin var í botni og varla hægt að tjá sig nema með öskrum. Þar á eftir kíkt örstutt á dansstað. Dansvalið var pólitískt rétt; á víxl spiluð Kikuyu- og Luo-tónlist auk annarrar sem ég kann ekki deili á. Þar sem námskeiðið átti að halda áfram klukkan átta morguninn eftir var farið á skikkanlegum tíma inn á hótel og í bólið. Áður en svefninn tók völdin svifu um kollinn hugleiðingar um liðinn dag og kveiktu á þessari sjaldgæfu og dýrmætu tilfinningu um að vera að gera nákvæmlega það sem mann langar til að gera!WPM$69AD

Námskeiðinu lauk rúmlega tvö á sunnudag. Eftir að við höfðum gætt okkur á tilapiu (fiskur) og geitakjöti kom einn sjálfboðaliðahópurinn með ýmislegt sem hann er að framleiða úr úrgangsefnum, töskur, veski , o.fl. Ég valdi sitt lítið af hvoru fyrir Múltikúlti áður en ég settist upp í Matatu á ný og brunað til Kisumu. Ferðin tók tæpa fjóra tíma og ég hafði nægan tíma, m.a. til að lesa staðarblöðin. Í Kenía eru þeir að reyna að koma saman nýrri stjórnarskrá – þeirra, eins og okkar, er uppsuða úr stjórnarskrá nýlenduherranna. Þeir hafa þó hóflegri hugmyndir en við um mannafla í þessa vinnu – þrettán manns koma að verkinu. Af hverju þurfum við sextíu og þrjá? Þá var nokkuð fjallað um atlögu stjórnvalda gegn talibönum Kenía, Mungiki-sértrúarhópnum. Hópurinn hefur vaxið undanfarin ár og er talinn ábyrgur fyrir fjölda morða í landinu. Þeir blanda saman sósíalískum hugsjónum um jöfnuð og afturhvarfi til gamalla gilda í Kenía – þ.m.t. til umskurðar kvenna og annars slíks. Þá var vandræðaleg útskýring eins ráðherra ríkisstjórnarinnar á því hvernig hvarf á upphæð sem nemur 15 milljörðum íslenskra króna mætti rekja til tölvuvillu. Kom til Kisumu um kvöldmatarleytið – frekar heimilislegt að rúlla inn á Hotel Palmers og heilsa upp á fólkið. Eftir að hafa kíkt í bæinn á „boda-boda“ (reiðhjól með bólstruðum bögglabera fyrir farþega) og kíkt á netið, hitti ég Anne Lauren á Palmers og við fórum yfir dagskrá þessa eina dags sem ég átti í vændum í Kisumu.

Klukkan tíu um morguninn komu Anne, George, Davies, ásamt Janet litlu sem Bidda systir er að styðja sem mætti með frænku sinni. Við ræddum aðeins mál Janetar – hún er á síðasta ári í grunnskóla, á næsta ári tekur við framhaldsskóli og ráðast möguleikar hennar af prófi sem hún þarf að taka í lok árs. Eftir það var fundað um komu ungu íslensku sjálfboðaliðanna í lok júní, gisting og verkefni og flestir lausir endar hnýttir . Var skotið föstum skotum á mig að nú yrði ég að koma og prófa að gista í heimahúsum líka! (Hvað er ég að koma mér útí?) Eftir hádegi röltum við Anne á heilsugæsluna og heilsuðum upp á Geoffrey lækni. Vinir Kenía byrjuðu nýlega að styðja við smálánaverkefni sem hann stýrir – hann vinnur með hópi vændiskvenna sem eru að reyna að skapa sér annað lifibrauð. Hann er frekar praktískur: „Við erum aðallega að reyna að fækka þeim skiptum sem þær fara á götuna – minnka tíðnina og skapa þeim valkosti.“ Svo sagði hann mér sögu af einni sem var nýkomin af stað með eigin atvinnurekstur – og gekk nokkuð vel. Hún hafði sagt að hún hefði mikið að gera, þegar hún kæmi heim á kvöldin væri hún of þreytt til að fara út og harka – og svo átti hún hvort sem er nóg að borða! Þar á eftir fórum við Anne á stúfana og náðum í vörur frá starfsþjálfunarmiðstöð fyrir ungt fólk – m.a. endurunnin kort sem hafa selst ágætlega í Múltikúlti. Um fimmleytið kom heilsugæslujeppinn og keyrði mig á flugvöllinn. Hálftímaflug, leigubíll í bæinn og inn á hótel. Þegar ég kíkti á netið beið dágott þýðingarverkefni sem ég fór langleiðina með að klára á heimleiðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Skemmtileg frásögn af Keníuferðinni. Þetta þyrfti nú að rata í fjölmiðlana, ekki veitir af jákvæðum fregnum af starfsemi okkar íslendinga. Og þú átt líklegast fullt af myndum? Hvenær kemurðu til landsins, annars?

Bestu kveðjur

Lalli

Lárus Vilhjálmsson, 15.5.2009 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 10201

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband