Færsluflokkur: Ferðalög

Gamlárskvöld

Gamlárskvöld

 

Dvel hérna á litlu gistihúsi skammt frá Heathrow í herbergi við hæfi Spartverja; lítið, kalt og með lágmarksbúnaði. Á morgun liggur leiðin til Kenía með viðkomu í Amsterdam. Rölti í kuldanum í kvöld inn á kínverskt buffet, prýðismatur á þokkalegu verði – pundið hefur verið að falla fyrir evrunni og með sama áframhaldi ná þau saman innan skamms tíma.

Í netfréttum koma fyrir nokkrar fréttir í röð, Kryddsíld blásin af vegna mótmæla, búnaður Stöðvar 2 skemmdur og starfsfólk laskað og mótmælendur úðaðir – og þar fyrir neðan: „Ingibjörg vill friðarumræður.“ Um stund velti ég fyrir mér hvort hún sé að tala um Gaza-svæðið eða mótmælendur á Íslandi. Ákveð að hún sé að tala um hið fyrrnefnda en finnst það síðarnefnda ekki síður góð hugmynd – það þarf að eiga sér stað heiðarleg og hreinskiptin umræða á Íslandi og henni þurfa að fylgja aðgerðir ef það á að verða einhver friður.

Þrátt fyrir allt hefur þetta verið gott ár hjá mér þótt mér hefði ekki veitt af svo sem einum mánuði í viðbót. Þegar vinnubrjálæðið minnkaði fyrir jólin gerði ég smá átak og hafði samband við fólk sem ég hef trassað að vera í sambandi við og sem ég fann fyrir spennu þegar ég hugsaði um það – aðallega af því að ég hef ekki sinnt ákveðnum samskiptum og ekki gert eitthvað sem ég hefði átt að vera búinn að gera. Það er alltaf gott að tjá sig beint við fólk og nú þarf ég ekki að burðast með þessa spennu fram yfir á næsta ár – sem er svo sannarlega léttir.

Næsta ár... Einhvern veginn eitt stórt spurningamerki. Allir þessir erfiðleikar sem fela í sér alla þessa möguleika – í öllu falli mjög áhugavert ár framundan. 


Ísland - Nígería norðursins

Ég átti í smá bréfaskriftum við kunningja minn frá Ítalíu í morgun. Hann, eins og margir aðrir, fær mjög ýkta mynd af ástandi mála á Íslandi í gegnum fjölmiðla. Við höfum báðir verið talsvert í Kenía og hann spurði mig hvort að þetta væri að verða eins og í Afríku hjá okkur. Í Silfri Egils áðan kom fram að Icesave reikningarnir í Hollandi voru stofnaðir í vor og þeim síðan lokað nú þegar bankarnir hrundu. Þá datt mér þessi samlíking við Afríku í hug, sérstaklega við Nígeríu, þar sem menn hafa verið mjög útsjónarsamir við að plata fólk á Vesturlöndum - þeim hefur þó aldrei tekist neitt í líkingu við þetta!

Úr sveitum Indlands

Undanfarnir dagar á Indlandi hafa mest farið í fundi og námskeið en á þeim allra síðustu hefur gefist tími fyrir smá leiðangur suður á bóginn til að heimsækja eitthvað af nýjum samstarfsaðilum okkar hérna í Tamil Nadu. Ferðin stóð í tvo daga, þann fyrri hittum við fólk frá Rural Development Association sem starfa aðallega í kringum borgina Salem í vesturhluta Tamil Nadu þar sem þau annast hóp munaðarleysingja af svæðinu. Í borginni sjá þau um börn vændiskvenna – gefa þeim að borða og halda í skóla. Um nóttina gisti ég svo á hótelkytru í borginni, var orðinn svo þreyttur eftir keyrsluna að ég hefði sætt mig við nánast hvað sem er.

Um morguninn sótti mig maður að nafni Gnanamani. Hann er forstöðumaður samtaka sem heita Seeds. Gnanamani er af svokölluðu “tribal cast” eða ættflokkastétt, sem er ein af lægstu stéttunum á Indlandi. Hann er í kringum sextugt, kvikur í hreyfingum og brosir eins og brjálæðingur og ákafinn bætir upp það sem skortir á enskuna. Gnanamani hefur verið virkur í baráttu fyrir réttindum “tribal cast” fólks í fleiri áratugi. Fyrst þegar við hittumst fékk ég að þreifa á dæld í höfuðkúpu hans, menjar úr of á tíðum ofbeldisfullri baráttu. „Tribal cast“ fólkið lifði til skamms tíma í náttúrunni, týndi rætur og lifði á landsins gæðum. Á seinni árum hefur þrengt að þessum lifnaðarháttum auk þess sem kröfur nútímasamfélags eru að öll börn gangi í skóla. Fólkið starfar helst við ýmsa daglaunavinnu, í verstu störfum sem bjóðast.

Við ókum frá Salem í átt að Chennai þar til við komum að Kalrayan hæðum. Til þess að komast upp á hæðirnar þurftum við að aka eftir skógi vöxnum hlíðum, fram hjá fallegum fossum og eftir því sem ofar dró varð landslagið sífellt stórbrotnara.

Þegar upp var komið renndum við inn í lítið þorp með u.þ.b. 1.500 manns úr tribal cast. Þar er skóli sem Seeds styður, en börnin sem sækja hann þurfa flest að koma mjög langt að, allt að 7 kílómetrum. Það, ásamt þeirri staðreynd að þau fá litla hvatningu heimavið, gerir að verkum að fátítt er að börnin endist nema til 9-10 ára aldurs í skólanum. Börnin sitja á gólfinu og allur kostur er frekar fátæklegur. Skammt frá skólanum er illa hirt bygging. Frjáls félagasamtök byggðu hana og átti hún að vera heilsugæsla, en þar sem ekki hefur fengist fé til reksturs hennar stendur hún auð – málningin að mestu flögnuð og rúðurnar brotnar.

Gnanamani og hans fólk gera það sem þau geta en hafa takmarkað fé. Markmið þeirra er að reyna að halda börnunum lengur í skóla en auk þess að geta boðið upp á kennslu og námskeið í ýmis konar handverki – eitthvað til þess að auka afkomumöguleika fólksins. Þetta er aðkallandi verkefni og nú er að sjá til hvort það finnast ekki einhverjir á Íslandi sem vilja vinna með þeim að þessu.


Meira frá Tbilisi

Næstu tvo daga höldum við sjálfboðaliðanámskeið í miðstöð húmanista á staðnum. Þátttakendur eru á ýmsum aldri, en helmingurinn tengist lögmennsku – sem stafar af því að Giorgi er lögfræðingur. Þarna eru þrír laganemar, tveir lögfræðingar, auk Giorgis – og einn dómari. Aðrir eru úr ýmsum áttum. Túlkurinn á námskeiðinu er fyrsta flokks – ljóðaþýðandi sem kennir auk þess ensku í einum helsta háskóla Tbilisi. Námskeiðið fær góðar viðtökur – komin góð reynsla á það – búnir að halda það áður á Íslandi, Indlandi og í Kenía. Kvöldunum eftir námskeiðin er varið í gönguferðir um miðbæinn með Giorgi og Nick. „Kemistríið“ í hópnum er frábært og mikið hlegið. Nick kemur á óvart – frábærlega vel lesinn í heimsbókmenntunum og stendur hvergi á gati. Giorgi hefur komið nokkuð víða við – eftir námið þjónaði hann í hernum og var stuttan tíma í lögreglunni. Skortur hans á feminískri rétthugsun virkar undarlega hressandi, femínisminn hérna heima er stundum eins og jarðsprengjusvæði – maður þarf að passa sig svo fjandi vel hvar maður stígur niður. Maður skynjar að undir niðri vill hann vel – einhvern veginn á mörkum tveggja heima. Við ræðum ýmis mál, mannréttindamál og helstu átakamál Georgíu. Málefni samkynhneigðra – reynt hefur verið að halda Gay Pride en hætt við vegna morðhótana – ekki alveg kominn tími á það. Ástandið í Abkhasiu er flókið mál sem brennur á þeim – hvernig er hægt að sætta og fyrirgefa?

Við Guinness eigum flug til baka með stuttu millibili. Við sitjum yfir kaffibollum í flugstöðinni með Giorgi og Nick og spjöllum um næstu skref. Eftir þessa fáu daga er allavega eitt víst – hingað á ég eftir að koma aftur!  


Nokkrir dagar í Tbilisi


Flugstöðin í Tbilisi er lítil, meira að segja miðað við Keflavík. Nútímaleg glerbygging, eins og höfuð flugu með þúsund augu og þrjá rana sem sjúga inn sveitta og svefnvana ferðalanga. Fyrir framan mig í biðröðinni að vegabréfsskoðuninni er ungt par sem heldur á vegabréfum sem sýna að þau eru frá Georgíu – stúlkan brosir innilega til mín – eins og hún hafi alltaf þekkt mig. Ég átti eftir að mæta álíka innilegheitum víðar í Tbilisi – inni á stórmörkuðum, úti á götu – íbúar Georgíu eru ótrúlega hlýlegt fólk. Fyrir utan taka á móti mér Giorgi og Nick, Giorgi er rúmlega þrítugur – nokkuð líkur leikaranum Nicolas Cage án hártopps. Nick er ungur, hávaxinn og slánalegur. Við bíðum rúmlega hálftíma eftir Guinness frá Skotlandi sem mætir hálftíma síðar – ekki í skotapilsi, þeim félögum til nokkurra vonbrigða.DSCF6013

Við fáum lánaða íbúð í einu úthverfa Tbilisi, í dæmigerðri sovétblokk. Hrörlegur stigangur, lyfta sem virðist vera frá seinni heimstyrjöldinni með myntsjálfssala sem greiða þarf í, kveikja á bakþönkum – hefðum við kannski átt að vera á hóteli? Þegar inn í íbúðina kemur hverfa þeir, íbúðin er hin vistlegasta, með parketi og hlýlegum skápum í hnotubrúnum lit. Dyrnar úr rammgerðu stáli, þumlungsþykkar með þremur lásum – Giorgi segir okkur að opna ekki fyrir neinum sem spyr ekki um okkur með nafni. Georgíubúar eru ekki slæmir, segir hann, en hér er yfir 60% atvinnuleysi og margir eiga erfitt.

Daginn eftir er borgin og næsta umhverfi skoðað. Tbilisi stendur á hæðóttu landi umhverfis ána Mtkvari. Langflestar byggingarnar eru stórar íbúðablokkir og minna á að landið var áður hluti af Sovétríkjunum. Þá má finna eldri hverfi með þröngum götum sem gætu verið hvar sem er í Suður-Evrópu. Samgöngumálaráðuneytið vekur athygli – til húsa í ferlíki sem er eins og steypukubbar lagðir á víxl hver á annan – líklegast sovésk framúrstefnulist. Þá má finna mjúkar ávalar línur íslamskrar byggingalistar á nokkrum eldri byggingum. Nafnið Tbilisi þýðir „heitt vatn“ og á það sameiginlegt með nafni Reykjavíkur að það má rekja til hverasvæðis sem þar má finna. Kunnugleg hveralyktin stígur þar út úr lágreistum og hlýlegum múrsteinsbyggingum – þar eru heilsuböð með grænleitu hveravatni.

Við ökum af stað út úr bænum. Hitinn er tæplega 30 gráður og umhverfið minnir helst á Spán. Eftir tæplega hálftíma akstur út fyrir borgina komum við að gömlu höfuðborginni, Mtskheta, eða gömlu Tblisi. Heimsækjum Sioni kirkjuna, þar sem í gólfinu má sjá grafir konunga Georgíu sem einnig voru skírðir í þessari kirkju. Á veggjum kirkjunnar má sjá brot úr fornum freskum sem hafa verið endurheimtar undan málningu sem kommúnistar settu yfir þær. Myndirnar eru alls ólíkar þeim sem maður á að venjast í kirkjum hinnar vestrænu kristni; við hlið postulanna eru ýmsar kynjaskepnur, m.a. hafmaður og dýr með mannseinkenni.DSCF6105

Komum við á markaði á bakaleiðinni. Giorgi talar um mat af mikilli ástríðu – hann þreifar og lyktar af ávöxtum á markaðinum og andvarpar, nánast með kynferðislegum undirtóni. Borðum mat heima hjá fjölskyldu hans. Systir hans hefur eldað, aðallega grænmetisrétti sem er raðað á diskana í margvíslegu mynstri. Faðir hans, fyrrverandi kommúnisti, stjórnaði borðhaldi – það þarf að skála fyrir framtíðinni, löndum okkar, friði og börnum heims. Síðan er spjallað og spurt og deilt staðreyndum um þjóðir og sögu. Undir niðri má greina hálfvolga nostalgía í minningum um tíma Sovétríkjanna þegar flestir höfðu vinnu, heilsugæsla og menntun var ókeypis – allir höfðu það skítsæmilegt, en engin von um nokkuð betra. Nú á að heita frelsi til allra hluta, en frelsi hins fátæka er takmarkað.


« Fyrri síða

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband