Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Eru það bruðlarar sem velja lægstu vexti?

Pétur Blöndal tekur stórt upp í sig þegar hann ásakar þá tugþúsundir manna sem tóku myntlán um að hafa ekki sýnt ráðdeild og um áhættusækni. Fyrir utan þá staðreynd að bankarnir héldu þessum lánum að fólki sem hagkvæmum valkosti (og þeir áttu að heita sérfræðingarnir sem ósérfróður almenningur leitaði til) þá voru þetta lægstu vextir sem í boði voru og ef fólk vildi sýna varkárni og skoðaði gengisþróun undanfarinna ára, þá var ekkert í spilunum sem gaf tilefni til að halda að fyrir höndum væru slíkar hamfarir sem urðu. Þar með er Pétur líka að segja að meginþorri íslenskra fyrirtækjarekenda séu óráðssíumenn og áhættufíklar - en flest stærri lán til íslenskra fyrirtækja undanfarin ár hafa verið myntlán. Ég held, þvert á móti, að þeim sem hefur gengið vel í fyrirtækjarekstri hafa gert það vegna ráðdeildar og fyrirhyggju, vegna þess að þeir hafa alltaf leitað að ódýrustu kostunum - og þar með talið lægstu vöxtum.

Ákall um inngrip vegna myntlána

Núna tala fjármögnunarfyrirtæki um að þeir bíði eftir skilaboðum eða inngripi frá stjórnvöldum vegna hæstaréttardóms um myntkörfulán. Undirliggjandi er ósk um lög þar sem lögleg verðtrygging komi á lánin í stað þeirrar ólögmætu, þ.e. lánin hækki samkvæmt vísitölu auk vaxta. Stjórnvöld gripu ekki inn í þegar krónan féll og myntlánin ruku upp úr öllu valdi og lögðust með fullum þunga á lántakendur. Ef þau ætla að grípa inn í þessi mál núna til bjargar fjármögnunarfyrirtækjum sem veittu þessi ólöglegu lán eða bönkunum, þegar íbúðalánin fara sömu leið, þá er almenningur í landinu í djúpum skít - þá á hann enga málsvara lengur.

Gylfi og myntlánin

Einn af ókostunum við að setja embættismenn í hlutverk stjórnmálamanna er að þeir fyrrnefndu kunna oft á tíðum ekki að tala við fólk - almenning í landinu. Þetta kunna stjórnmálamenn, þótt á stundum komi frá þeim tómt froðusnakk í löngu máli þar sem þeir segja ekki neitt (undantekning er Jón Gnarr sem segir ekki neitt í stuttu máli) þá kunna þeir þá list að láta sem þeir séu að tala máli almennings og gæta þess að tala ekki niður til fólks. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, er gott dæmi um þetta. Hann var ekki búinn að sitja lengi sem viðskiptaráðherra þegar hann, í sjónvarpsviðtali, talaði niður til fólks í umræðu um skuldavanda heimilanna - sagði að það hefði ekki átt að taka þessi lán og gaf í skyn að þetta væri fólkinu sjálfu að kenna. Ummæli hans nú um nýfallinn hæstaréttardóm eru forvitnileg í þessu samhengi. „Það er með miklum eindæmum að þessi bolti fór af stað og að öllum þeim lögfræðingum sem útbjuggu lánasamningana hafi ekki tekist að gera þá þannig úr garði að þeir væru löglegir.“Þetta er áhugavert orðalag. Vandinn er sem sé sá að lögfræðingarnir hefðu átt að finna smugu til að komast hjá lögum um verðtryggingu í þessum samningum - eða hvað? Hverra erinda gengur Gylfi Magnússon í vinstri stjórn á Íslandi? Varla almennings.

Hvað áhrif hefur hrun Grikklands á Icesave?

Ástandið í Grikklandi hefur vakið upp vangaveltur um hrun landsins og mögulega keðjuverkun sem næði til annarra Suður-Evrópuþjóða og hefði svo áhrif á efnahagskerfið um allan heim. Í umfjöllun um Icesaveskuldir hefur verið rætt um að endurheimtur af eignum Landsbankans muni nema 80-90% af skuldinni þannig að þegar upp verði staðið muni eingöngu lítill hluti þess falla á Íslendinga - mesti bagginn verði vaxtakostnaður. Forsendur þessarar spár eru spár um hagvöxt og batnandi efnahag í heiminum - hvað gerist ef allt snýst til verri vegar og við horfum fram á stærri kreppu næsta áratuginn? Það væri áhugavert ef hagfræðingar færu að setja fram einhver möguleg módel um slíkt.


Af hverju munu Norðmenn ekki lána okkur án Icesave-skilyrða?

Það er einföld ástæða fyrir því að Norðmenn munu aldrei lána okkur norska krónu fyrr en við höfum gengið frá okkar málum við Breta og Hollendinga - það er af sömu ástæðu og þeir tóku ekki í mál að við tækjum hér upp norska krónu. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að Norðmenn hafi tvívegis hafnað inngöngu í Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu vill meirihluti norskra stjórnmálamanna enn að Noregur gangi í Evrópusambandið. Það hentar því norskum stjórnmálamönnum ekki að við fáum valkosti við evruna sem gjaldmiðil og það hentar þeim ekki að skera okkur niður í snörunni sem við komum okkur sjálfir í með Icesave - þannig gætum við frestað því að taka á samskiptavanda okkar við meginland Evrópu og það myndi minnka líkurnar á að við gengjum í sambandið. Norskir stjórnmálamenn vilja að við göngum í Evrópusambandið því það eykur líkurnar á að Norðmenn geri það líka.

 


mbl.is Fullviss að Norðmenn vilji lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brennum greiðsluseðlana á Austurvelli

Það eru undarleg rökin sem dynja yfir skuldara húsnæðislána á Íslandi. Viðskiptaráðherra talar niður til fólks í Kastljósi og segir að það hefði ekki átt að taka lánin og þeir sem veittu lánin hefðu ekki átt að veita þau. Síðan stíga hann og fleiri fram og höfða til siðferðiskenndar og löghlýðni - við eigum að borga það sem okkur ber samkvæmt samningum. Samningum á myntlánum sem blekið var varla þornað á þegar lánveitendurnir, gömlu bankarnir, tóku stöðu gegn krónunni og felldu hana jafnt og þétt með þriggja mánaða fresti þegar kom að uppgjörum og milliuppgjörum hjá þeim. Síðan afskrifa nýju bankarnir helminginn af þeim kröfum sem þeir yfirtaka frá gömlu bönkunum en ætlast til að "eigendur" íbúðahúsnæðis með neikvæða eiginfjárstöðu borgi að fullu! Verðtryggð lán okkar eru hækkuð með fölskum forsendum, neyslumynstri háþenslutímans 2005-2007 og íbúðaverði frysts markaðar sem á eftir að fara mun neðar. Ég dreg í efa að þetta með myntlánin muni reynast löglegt þegar upp verður staðið - lánasamningarnir sem nýju bankarnir tóku yfir hljóta að vera "damaged goods" og forsenda til lækkunar þeirra. Hvort tveggja, myntlánin og þau verðtryggðu, er örugglega siðlaust í þessu ástandi. Og ef ný stjórn kemur ekki með pólitíska lausn, þá er það í höndum okkar skuldaranna og borgaranna að taka af þeim ráðin einu sinni enn. Við mætum með greiðsluseðlana á Austurvöll og kveikjum í þeim. Ég ítreka - gefum stjórninni smá stund og látum svo verkin tala! Við úrtölumenn greiðsluverkfalla vil ég segja: Verkföll eru aldrei góð til skemmri tíma, hvorki fyrir þá sem fara í verkfall né fyrir þá sem verkfallið beinist gegn. Þau hafa þó verið nauðsynlegt tæki til að skapa það velferðarkerfi sem hér er til staðar og afleiðingar greiðsluverkfalls sem byggir á réttlátum kröfum er á ábyrgð þess sem það beinist gegn.

 


...að kjósa með buddunni

Ekki er neinn skortur á hugmyndum um af hverju VG fékk mun minna fylgi í kosningunum en skoðanakannanir gáfu til kynna. Að mínu mati stendur ein upp úr. Við gefum upp skoðanir í skoðanakönnunum út frá hjartanu en í kjörklefanum ræður buddan. Einhversstaðar heyrði ég því fleygt að skoðanakannanir um afstöðu gagnvart inngöngu Dana í Evrópusambandið hefðu ávallt verið á þá leið að meirihluti væri andvígur - bæði fyrir og eftir að þeir samþykktu það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef það er rétt, styður það þessa hugmynd.


Í kjölfar kommúnisma og frjálshyggju ... og Davíð og Geir

Þegar kommúnisminn hrundi sögðu hörðustu kommúnistar að kommúnisminn í Sovétríkjunum sálugu hefði ekki verið alvöru kommúnismi heldur eitthvað allt annað. Það er áhugavert að heyra í hörðustu frjálshyggjupostulunum í dag: Þetta var ekki alvöru frjálshyggja ... líka bara eitthvað annað.

Svo er komin upp áhugaverð staða hjá Sjálfstæðisflokknum núna. Skjaldborg sjálfstæðismanna um Davíð stafar auðvitað af því að arfleifð hans er stór hluti af arfleifð Sjálfstæðisflokksins. Það útskýrir auðvitað ótrúlegt þanþol þeirra gagnvart seðlabankastjóranum. Eftir að Davíð hótaði Geir með pólitískri endurkomu er komin upp sú staða að arfleifð Geirs er að veði - ef hann bregst ekki við þessu hefur hann verið algjörlega niðurlægður. Geir þarf því að velja, og hann getur aðeins valið eitt af tvennu: eigin arfleifð eða Davíðs.

 


Davíðsarmur Sjálfstæðisflokks - Andstaða við Evrópusambandsaðild

Í hádegisfréttum Bylgjunnar var talað um tvær fylkingar innan Sjálfstæðisflokksins, önnur sem varaformaðurinn, Þorgerður Katrín, talar fyrir og er opin fyrir að skoða inngöngu í Evrópusambandið, og hin kennd við Davíðsarminn, samkvæmt Bylgjunni, og er mótfallin henni. Ég veit ekki hvort þetta er með ráðum gert, að spyrða andstöðu við Evrópusambandsaðild saman við Davíð, en með stöðu Davíðs í dag í huga, þá dettur manni í hug að e.t.v. sé um pólitíska framsetningu að ræða. Það verður engum málstað til framdráttar í dag að vera kenndur við Davíð.

Svört spá seðlabanka - spá eða afleiðing eigin stefnu?

Svört spá Seðlabankans um aukið atvinnuleysi, lækkun húsnæðisverðs og annað í þeim dúr, vekur hugleiðingar um forsendur þeirrar spár. Það sem er áhugavert við spána er að þar hlýtur að telja allþungt þeirra eigin ákvörðun um að hækka stýrivexti, ákvörðun sem mörg dæmi sýna að hefur haft nákvæmlega þessar afleiðingar.

Næsta síða »

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband