Færsluflokkur: Bloggar

Hugleiðingar um flugfargjöld

Flaug í gær til Indlands - svosem ekki í frásögur færandi - nema hvað að ég flaug líka innanlands, frá Mumbai til Chennai. Fyrir það borgaði ég um 7.000 kr. báðar leiðir en samt var það fjarri því að vera ódýrasta fargjaldið sem er í boði. Þetta er rétt tæplega tveggja tíma flug, en til samanburðar má benda á að flug frá Keflavík til Glasgow er tveir og hálfur tími. Nú eru laun miklu lægi á Indlandi en í Evrópu en varla borga þeir minna fyrir flugvélabensín og vélarnar sjálfar. Þar fyrir utan var þjónustan frábær og vélin mjög snyrtileg. Athyglisvert!

Spike Milligan - ljóð

Í tíma í dag var verið að fjalla um breska grínistann, Spike Milligan. Húmorinn er súrrealískur og absúrd, gaman af honum í hófi. Hins vegar rakst ég á eitt "alvöru" ljóð eftir hann - kannski eitthvað absúrd í því... Og þó: 
 
Someone left the mirror running
I pulled the plug out
it emptied my face
and drowned my reflection.
I tried mouth to mouth resusticatation
the glass broke
my reflection died
Now there's only one of me.

Pælingar um húmor

Þessa dagana sit ég í tímum upp í HÍ í gamanleikjum, allt frá forngrískum fram á daginn í dag. Þetta eru skemmtilegir tímar, eins og vænta má, og hafa orðið kveikja af ýmsum pælingum:

Stundum finn ég fyrir spennu þegar einhver byrjar að segja brandara, sérstaklega ef ég er eini áheyrandinn – í mesta lagi einn annar. „Kannski verður hann ekkert fyndinn,“ er óorðuð hugsun eða tilfinning. Er ekki viss um að ég kunni að hlæja kurteislega, eða brosa eingöngu með munninum. Spennan stafar líklega af því að þegar búið er að gefa hið félagslega merki um að þetta sé byrjun á brandara, eins og „Einu sinni var,“ markar upphafið af ævintýri, þá er komin ákveðin vænting í gang, ákveðin pressa – jafnvel dónalegt að hlæja ekki.

Þá er það sameiginlegt með bröndurum og kynlífi er að tímasetningar skipta miklu máli – munurinn er sá að þegar konur segja brandara geta þær líka komið of fljótt.

Kristnir menn á hinum myrku miðöldum bönnuðu hláturinn vegna þess hve þessir hressilegu krampakippir eru holdlegir í eðli sínu. Allt þar til þeir Rabelais og Erasmus leystu hann úr læðingi aftur. Síðan höfum við að mestu leyti fengið frið til að hlæja – sem betur fer.


Erum við leikstjórar í eigin lífi?

"Þú ert leikstjóri í eigin lífi" 

Þessa setning úr auglýsingu KB banka vakti athygli mína um daginn. Þetta er að sjálfsögðu háheimspekileg spurning - stjórnum við eigin lífum? Hlustaði á talsmann einhverra kenninga í taugasálfræði í gær tala um hve frelsi væri mikil blekking - þetta væri bara spurning um einhver taugaboð - eitthvað vélrænt, við erum samkvæmt því aðeins flóknari en hundar Pavlovs, en jafn skilyrt. Þetta er auðvitað sígild umræða sem hefur tekið á sig ýmsar myndir og er mín niðurstaða sú að ég hef frelsi út frá mínum forsendum og minni vitund, hef bara mitt mannlega sjónarhorn, í sjálfu sér er ekki til neitt annað - ef guð væri til sæi hann kannski allar orsakirnar og afleiðingarnar og þ.a.l. sæi hann mig sem skilyrta, vélræna veru. En ég er ekki guð og í því er frelsi mitt fólgið. En hvað varðar KB banka, þá voru þetta vissulega fyndin skilaboð á tíma þegar við erum að slá met í neyslu á yfirdráttarlánum - eru ekki bankarnir einmitt orðnir leikstjórar í lífum ansi margra?


Laxveiðar og ljósaskipti

Undanfarin sumur hef ég, með rétt moðvolgum ásetningi, ásett mér að uppfæra veiðistatus minn úr silungi upp í lax. Sem þýðir í raun að borga fimm- til tífalt fyrir það að fá að viðra veiðigræjurnar og sjálfan mig á árbakka í stað vatnsbakka. Svona ferð hefur þó alltaf einhver þerapísk áhrif, þótt ég mæli ekki mikinn mun á þeim áhrifum hvort sem um er að ræða lax eða silung. Síðastliðinn fimmtudag fór ég í "laxveiðiferð" ársins í Sogið. Veðrið var dæmigert sýnishornaveður, sól og blíða, hellidemba, ofsastormur og allt þarna á milli. Þegar liðið var að kvöldmat og ég hafði ekkert orðið var fór ég að hugsa mér til hreyfings - fannst þetta orðið gott þótt eitthvað væri eftir að veiðitímanum. Þá fóru þeir að stökkva allt um kring, laxarnir, svo ég lét mig hafa það að halda áfram. Og viti menn! 45 mínútum áður en tíminn var búinn setti ég í lax! 15 mínútum síðar dró ég svo á land 4-5 punda hæng - Maríulaxinn minn. Stuttu síðar kom ein einkennilegasta veðursamsetning sem ég hef upplifað. Það var aðeins komið inn í ljósaskiptin en samt einkennileg og mikil birta, veðrið var stillt og fór að hellirigna. Allt í einu gat ég séð um allt vatnið undir yfirborðið, gat fylgt silfruðum tóbí-spúninum þar sem hann sveif um vatnið. Þetta var næstum eins og andleg reynsla. Laxinn var etinn í gær með góðri lyst!

Um nauðsyn þess að halda krónu...

Hlustaði á Jafet Ólafsson bankamógúl svara fyrirspurn um hvort við ættum að taka upp evru og kasta krónunni. Hann var á móti ... var einhver hissa á því? Bankarnir stórgræða á þessu, fyrir utan beinar tekjur fyrir að skipta gjaldeyri þá gerir myntin alla aðkomu erlendra aðila (þ.á.m. erlendra banka) erfiðari og minnkar þar af leiðandi samkeppni. Það er nokkuð ljóst hvað bankarnir græða á krónunni. Hvað okkur landsmenn í heild varðar, þá er það kannski eins og karlinn sagði: Við þurfum krónuna til þess að geta mætt efnahagssveiflum í íslensku hagkerfi. Efnahagssveiflum sem má helst rekja til þess að hér höfum við lítinn gjaldmiðil sem nefnist króna...

Að pissa standandi

Þessa dagana býr hjá okkur þýsk vinkona okkar og í þessari heimsókn hefur ýmislegt verið rætt, m.a. um muninn á Íslendingum og Þjóðverjum. Ein fullyrðing sem hún nefndi fannst mér athyglisverð: Í Þýskalandi pissa allir meðvitaðir karlmenn sitjandi! Við Íslendingar erum samkvæmt henni nokkrum árum á eftir - fyrir okkur á einnig að liggja að fara þessa leið. Ástæðuna sem hún nefndi var einkanlega hreinlæti - þess vegna krefðust konurnar þess líka. Mér varð á að spyrja hvort meðvituðu mennirnir í Þýskalandi þrifu þá ekki klósettin heldur létu konurnar um það, en það varð fátt um svör. Nú hef ég enga tölfræði þessu til stuðnings en upplifun mín á þessari athöfn - að pissa - hefur snarbreyst. Þessi áður merkingarlausa uppákoma er nú hlaðin merkingu: Hún er orðin að yfirlýsingu um frelsi mitt til að velja eigin lífsstíl - hallellújá!!!

Vímuefni og verslunarmannahelgin

Hlustaði á fréttir að kvöldi föstudagsins fyrir verslunarmannahelgina. Tvær fréttir sem komu í röð vöktu athygli mína. Í þeirri fyrri var talað um að lögreglan væri með sérstakt átak gegn fíkniefnum - hún væri með sérstaka mæla sem mældu hvort viðkomandi hefði neytt fíkniefna undanfarna daga og vikur. Þetta var svona stemningsfrétt - átak í gangi og mikil aksjón. Næsta frétt á eftir var meira eins og hlutlaus umfjöllun - um hve mikið hefði verið keypt af áfengi þessa dagana. Skrítið að sjá þessum fréttum slegið upp svona hlið við hlið - ekki mikill munur á þessu tvennu í mínum huga þótt annað sé löglegt en hitt ekki.

Göng undir Vesúvíus?

Í dag las ég ferðabækling um valmöguleika í ferðalögum innanlands. Þar mátti m.a. finna auglýsingu frá eyjamönnum: Vestmannaeyjar; Pompei norðursins. Líkingin er augljós, undir öskunni í Eyjum má finna hús og mannvistarleifar frá fyrri tímum líkt og grafið hefur verið upp í borginni Pompei á suður Ítalíu, þótt muni nokkrum árum. Líkingin setur undangengna umræðu um göng til Eyja í einkennilegt samhengi - myndi einhverjum detta í hug að grafa göng undir Vesúvíus?

Aftur í Bombay

Það gafst lítill tími til að blogga í Kenía - stöðug dagskrá og þegar færi gafst til að fara á netið var tengingin hæg. Hefði verið svo sem nóg um að spjalla, en hvað um það. Flaug frá Nairobi aftur til Bombay í morgun - 12 tíma seinkun, ein máltíð í 6 tíma flugi og allt í ólestri þegar farþegar gengu um borð - sæti með mínu númeri var t.d. ekki til í vélinni. Hún komst þó alla leið að lokum. Fór á skemmtilegan markað í Bombay í dag innan um alþjóðlega veitingastaði. Fann kaffistað þar sem ég fékk unaðslega gott kaffi americano - búinn að fá meira en nóg af hinni bresku kaffimenningararfleifð í Indlandi og Kenía. Betlarar í Bombay eru miklu mun fleiri og ágengari en í Chennai - var orðinn hálf lúinn á þeim að lokum. Gafst upp fyrir ótrúlega þrautseigum skóburstara sem elti mig í 2 tíma með hléum - hann fékk að bursta skóna mína að lokum sem voru reyndar orðnir nokkur skítugir. Hann setti upp 2 rúpíur (3 krónur) en þegar leið á burstunina bað hann mig um að fjármagna trékassa sem gæti aukið innkomu hans verulega. Borgaði honum 15 rúpíur sem ég átti í lausu sem e.k. málamiðlun.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband