Vímuefni og verslunarmannahelgin

Hlustaði á fréttir að kvöldi föstudagsins fyrir verslunarmannahelgina. Tvær fréttir sem komu í röð vöktu athygli mína. Í þeirri fyrri var talað um að lögreglan væri með sérstakt átak gegn fíkniefnum - hún væri með sérstaka mæla sem mældu hvort viðkomandi hefði neytt fíkniefna undanfarna daga og vikur. Þetta var svona stemningsfrétt - átak í gangi og mikil aksjón. Næsta frétt á eftir var meira eins og hlutlaus umfjöllun - um hve mikið hefði verið keypt af áfengi þessa dagana. Skrítið að sjá þessum fréttum slegið upp svona hlið við hlið - ekki mikill munur á þessu tvennu í mínum huga þótt annað sé löglegt en hitt ekki.

Göng undir Vesúvíus?

Í dag las ég ferðabækling um valmöguleika í ferðalögum innanlands. Þar mátti m.a. finna auglýsingu frá eyjamönnum: Vestmannaeyjar; Pompei norðursins. Líkingin er augljós, undir öskunni í Eyjum má finna hús og mannvistarleifar frá fyrri tímum líkt og grafið hefur verið upp í borginni Pompei á suður Ítalíu, þótt muni nokkrum árum. Líkingin setur undangengna umræðu um göng til Eyja í einkennilegt samhengi - myndi einhverjum detta í hug að grafa göng undir Vesúvíus?

Aftur í Bombay

Það gafst lítill tími til að blogga í Kenía - stöðug dagskrá og þegar færi gafst til að fara á netið var tengingin hæg. Hefði verið svo sem nóg um að spjalla, en hvað um það. Flaug frá Nairobi aftur til Bombay í morgun - 12 tíma seinkun, ein máltíð í 6 tíma flugi og allt í ólestri þegar farþegar gengu um borð - sæti með mínu númeri var t.d. ekki til í vélinni. Hún komst þó alla leið að lokum. Fór á skemmtilegan markað í Bombay í dag innan um alþjóðlega veitingastaði. Fann kaffistað þar sem ég fékk unaðslega gott kaffi americano - búinn að fá meira en nóg af hinni bresku kaffimenningararfleifð í Indlandi og Kenía. Betlarar í Bombay eru miklu mun fleiri og ágengari en í Chennai - var orðinn hálf lúinn á þeim að lokum. Gafst upp fyrir ótrúlega þrautseigum skóburstara sem elti mig í 2 tíma með hléum - hann fékk að bursta skóna mína að lokum sem voru reyndar orðnir nokkur skítugir. Hann setti upp 2 rúpíur (3 krónur) en þegar leið á burstunina bað hann mig um að fjármagna trékassa sem gæti aukið innkomu hans verulega. Borgaði honum 15 rúpíur sem ég átti í lausu sem e.k. málamiðlun.

Nokkrir dagar a Indlandi

Sit hérna í innanlandsflugstöðinni í Mumbay, sem áður hét Bombay. Á gluggunum bylur monsúnrigning – allt er rakt og þvalt, yfir 30 stiga hiti. Munaði minnstu að ég kæmist ekki hingað í morgun. British Airways fluginu frá Glasgow til London var aflýst vegna vandamála á Heathrow og flaug ég með Midland Airlines til London og lenti nákvæmlega á þeim tíma sem Mumbay vélin átti að fara í loftið. Hljóp á milli terminala, vélin var ekki farin – en búið að ráðstafa sætinu mínu. Arrggh. En viti menn – það losnaði eitt sæti á Club-farrými. Þægilegast flug sem ég hef farið í nokkurn tímann, hægt að stilla sætið þannig að það var eins og rúm, dýrðlega góður matur, horfði á eina bíómynd, raðaði saman nokkrum lögum úr afþreyingarkerfi vélarinnar og sofnaði út frá ljúfum ballöðum Moby og Bítlanna. Ætlaði að hitta Hrannar bróður hérna í Mumbay og verða samferða honum niður til Chennai en Icelandair vélinni sem hann kom með til London seinkaði svo hann missti af sinni vél. Sé hann ekki fyrr en annað kvöld í fjöllunum í Kodaikanal.

Hef verið að pæla í samskiptum mínum undanfarið. Á ég að láta vini sem mér sýnist ganga í hringi með hausinn upp í rassgatinu á sjálfum sér vita af  því? Ég myndi allavega vilja af því – það er kannski hlýtt og blautt og maður sér ekkert annað en inn í görnina á sjálfum sér – lyktin venst eflaust. En fyrr eða síðar detta menn um eitthvað.

 

Allt gekk að óskum til Chennai og þaðan til Madurai. Hitti þar fyrir skoska vini og indverska. Fékk mér matarbita með þeim og fór svo snemma að sofa. Vaknaði um 10 og fékk mér morgunmat – kíkti á netið, síðan var lagt af stað upp í fjöllin. Komum til Kodaikanal upp úr fimm. Slatti af vinum þar, strax byrjað að funda.

 

2.7

Komst að því í gær, þegar við vorum að fara yfir ýmsa tölfræði úr skýrslum Sameinuðu þjóðanna, að ég er kominn yfir þann aldur sem meðalmaður í Kenía getur vænst að ná. Meðalaldurinn þar hefur lækkað um 10 ár síðan árið 1990. Nöturlegt.

   

Fyrsta blogg

Sit hérna í glaðasólskini á internet stað við göngugötu í Glasgow og færi inn þetta fyrsta blogg. Var að reyna að upphugsa einhverja virðulega byrjun á blogginu en gafst upp – verð seint virðulegur – get alveg hætt að rembast við það. Sit hérna á annarri hæð með útsýni yfir göngugötu, andspænis gamalli kirkju, iðandi mannlíf í sólskini fyrir neðan. Nokkurra tíma stopp hér áður en ég held áfram til London – Mumbai – Chennai – Madurai – Chennai – Mumbay – Nairobi – Kisumu – Nairobi – Mumbay – London – Glasgow – Keflavík... Sjúkk – maður verður bara þreyttur á að hugsa um það, og varla lagður af stað. Ætla að reyna að vera duglegur að blogga... eða þannig.

« Fyrri síða

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 10344

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband