Gylfi og myntlánin

Einn af ókostunum við að setja embættismenn í hlutverk stjórnmálamanna er að þeir fyrrnefndu kunna oft á tíðum ekki að tala við fólk - almenning í landinu. Þetta kunna stjórnmálamenn, þótt á stundum komi frá þeim tómt froðusnakk í löngu máli þar sem þeir segja ekki neitt (undantekning er Jón Gnarr sem segir ekki neitt í stuttu máli) þá kunna þeir þá list að láta sem þeir séu að tala máli almennings og gæta þess að tala ekki niður til fólks. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, er gott dæmi um þetta. Hann var ekki búinn að sitja lengi sem viðskiptaráðherra þegar hann, í sjónvarpsviðtali, talaði niður til fólks í umræðu um skuldavanda heimilanna - sagði að það hefði ekki átt að taka þessi lán og gaf í skyn að þetta væri fólkinu sjálfu að kenna. Ummæli hans nú um nýfallinn hæstaréttardóm eru forvitnileg í þessu samhengi. „Það er með miklum eindæmum að þessi bolti fór af stað og að öllum þeim lögfræðingum sem útbjuggu lánasamningana hafi ekki tekist að gera þá þannig úr garði að þeir væru löglegir.“Þetta er áhugavert orðalag. Vandinn er sem sé sá að lögfræðingarnir hefðu átt að finna smugu til að komast hjá lögum um verðtryggingu í þessum samningum - eða hvað? Hverra erinda gengur Gylfi Magnússon í vinstri stjórn á Íslandi? Varla almennings.

Hvað áhrif hefur hrun Grikklands á Icesave?

Ástandið í Grikklandi hefur vakið upp vangaveltur um hrun landsins og mögulega keðjuverkun sem næði til annarra Suður-Evrópuþjóða og hefði svo áhrif á efnahagskerfið um allan heim. Í umfjöllun um Icesaveskuldir hefur verið rætt um að endurheimtur af eignum Landsbankans muni nema 80-90% af skuldinni þannig að þegar upp verði staðið muni eingöngu lítill hluti þess falla á Íslendinga - mesti bagginn verði vaxtakostnaður. Forsendur þessarar spár eru spár um hagvöxt og batnandi efnahag í heiminum - hvað gerist ef allt snýst til verri vegar og við horfum fram á stærri kreppu næsta áratuginn? Það væri áhugavert ef hagfræðingar færu að setja fram einhver möguleg módel um slíkt.


Skötuselurinn

Mörgum kann að þykja Samtök atvinnulífsins gera mikið veður út af skötuselsfrumvarpinu svonefnda. Það er auðvitað ljóst að LÍÚ stendur þarna að baki og þeir vita vel hvað er undir. Átökin um þetta frumvarp er hvorki meira né minna en fyrsta orrustan um hverjir muni eiga kvótann í framtíðinni - þjóðin eða nokkur fyrirtæki og einstaklingar. Fyrir okkur sem erum á móti núverandi skipulagi er auðvitað geysimikilvægt að skapa fordæmi, jafnvel þótt það snerti aðeins eina fisktegund - að búa til nýtt kerfi við hlið þess gamla svo fólk geti borið saman og hætti að taka núverandi kerfi sem sjálfgefið. Að sama skapa vita talsmenn útvegsmanna hve hættulegt slíkt fordæmi er þeirra hagsmunum og leggja því allt undir - þar með talinn stöðugleikasáttmálann þar sem hvergi er minnst á skötusel.

Færslan á kvótanum frá útvegsmönnum til þjóðarinnar er eitt mikilvægasta þjóðþrifamál um þessar mundir. Ég segi "frá útvegsmönnum" en í raun er eignin á kvótanum að miklu leyti hjá bönkunum eftir braskið um árið og þ.a.l. í höndum erlendra kröfuhafa sem eignuðust stærsta hlutann í þeim. Nú ríður á að stjórnin stígi fast niður - hún er með lýðræðislegt og siðferðilegt umboð til þess!


Kenía

Ég hef sjaldan flogið til Keníu að degi til – í þetta skipti gerði ég það og mest alla leiðina var lítið um ský. Ég flaug í glampandi sólskini frá Sikiley yfir Miðjarðarhafið, yfir eyðimerkur Líbíu – smátt og smátt fóru að sjást grænir blettir en engin samfelld gróðurbreiða alla leið að Naíróbí. Kom þangað seint um kvöld, mitt venjulega hótel undanfarið, Hótel Downtown, lokað og skreið ég því inn á það næsta við hliðina. Þótt ég væri grútsyfjaður gekk illa að sofna – hávaðinn af veitingastaðnum fyrir neðan bergmálaði um allt. Svefninn sigraði þó að lokum þar til ég var vakinn af leigubílstjóra hálf sjö – hafði stillt vekjarann en gleymt að breyta á kenískan tíma. Bílstjórinn fékk dálítið aukreitis þjórfé eftir að við vorum komnir út á völl. Þar var Gunnar Hallson mættur, hafði lent hálftíma á undan áætlun en beið svellkaldur. Settumst inn á veitingastað og fengum okkur að borða og spjölluðum saman þar til kom að brottför í innanlandsflugi til Kisumu. Þegar við lentum í Kisumu var mikið fjölmenni á vellinum, Raila Odinga, forsætisráðherra, hafði hitað upp fyrir okkur klukkutíma á undan og var þar stór barnahópur í búningum auk fjölda annars fólks – þar á meðal Anne Lauren. Ókum beint á Hotel Palmers – enn er verið að byggja við hótelið, búið að vera stanslaust í gangi síðan það brann 2004. Frekar rólegur dagur, smá fundur með nokkrum heimamönnum undir kvöldmat og farið snemma að sofa.

Helgin fór í sjálfboðaliðanámskeið með fólki frá Kisumu, Nakuru, Suba og Íslandi. Mjög blandaður hópur en frábær stemning. Þegar námskeiðinu lauk á sunnudag var haldinn fundur með nokkrum hópstjórum í Kisumu. Farið var yfir sameiginleg verkefni; fósturbarnaverkefnið, sjálfboðaliðaverkefnið, plúsar og mínusar og öll hugmyndin skýrð betur.

IMG_3048Mánudagsmorguninn fór í snúninga en eftir hádegi lögðum af stað til Uji Verani hópsins, þar sem Wilkister heitin hafði stýrt starfinu. Fórum og skoðuðum leiðið hennar sem var í nokkurra metra fjarlægð frá húsinu. Yfir gröfinni var steyptur hlemmur en meðfram honum var moldarkantur þar sem nýgræðlingar af ýmsum gerðum teygðu sig upp úr jörðinni – vel við hæfi, eins og grænir fingur grasakonunnar að teygja sig til himins. Við heimsóttum skóla Janetar, stúlku sem nýtur stuðnings frá Íslandi og er nýbyrjuð í „Secondary School“. Hittum kennara hennar sem gaf henni góðan vitnisburð og seinna hana sjálfa. Á bakaleiðinni stoppuðum við í Korando – hlýjar móttökur þar eins og ævinlega. Borðuðum þar og héldum svo á starfsþjálfunarmiðstöð fyrir unga stráka sem búa til póstkort og ýmis vírvirki úr endurnýjanlegum hlutum. Verslaði slatta fyrir Múltikúlti áður en við héldum aftur heim á hótelið.

Þriðjudagsmorguninn fór Gunnar með Janess til Suba til að skoða nokkur verkefni við Viktoríuvatnið. Ég átti flug til Nairobí klukkan 11.15 en þurfti fyrst að ganga frá skírteinum vegna námskeiðsins. Fengum að prenta þau í heilsugæslunni þar sem Anne Lauren vinnur. Geoffrey læknir er hættur að vinna þar en hitti ungan lækni sem hafði tekið við hlutverki hans. Ég sagði honum að Geoffrey hefði stundum farið með mig á dansstaði í Kisumu og spurði hann hvort hann ætlaði ekki að taka við því hlutverki líka. Hann hló við og sagðist myndi gera það næst. Hitti þar líka ungan og greindan strák að nafni Felix. Hann fær stuðning frá Íslandi og Anne sýndi mér dagblað sem innihélt lista yfir þá sem náðu bestum árangri í samræmdum prófum upp úr Secondary School – hann var þar nr. 67 á svæðinu – er einn af 400 efstu nemendunum af 300.000 á landsvísu. Spjallaði aðeins við hann – hefur áhuga á tæknifræðinámi háskóla. Flaug til Nairobí og hitti Jökul og Súlu á hótel SixEighty. Þau höfðu gist í Little Bees um nóttina fyrir misskilning – samkvæmt plani áttu þau að vera á hóteli. Þau létu ágætlega af reynslunni í Little Bees – ekki amalegt að geta sagst hafa varið nótt í slömmi í Nairobí! Þar sem engum peningum hafði verið varið í hótel þá nótt var svigrúm til að gista á SixEighty hótelinu þá næstu. Fórum yfir plúsa og mínusa úr Indlandsdvölinni áður en við tókum okkur smá hvíld. Um kvöldið fórum við yfir götuna á Simmers þar sem borðuð var steik og dansað. Sýndist Jökull nokkuð ánægður með athyglina sem hann fékk. Ég rölti upp á herbergi upp úr ellefu en þau urðu eftir.

IMG_3061Hittumst í morgunmat á miðvikudagsmorgni. Þau höfðu verið fram undir morgun að skemmta sér – voru ófús að fara og vildu treina Keníudvölina. Eftir morgunmat var klárað að fara yfir plúsa og mínusa í Kenía, síðan kvaddi ég þau – þau áttu ekki að fara út á flugvöll fyrr en tveimur tímum síðar, en ég tók bíl að rútustöð þar sem ég tók express matatu til Nakuru. Ferðin tók rétt um tvo tíma. Las dagblað á leiðinni. Ein frétt vakti athygli mína: Kona hafði nýverið verið dæmd fyrir tvíkvæni. Athyglivert í þessu samfélagi fjölkvænis karla! Fór niður á hótelið og slakaði á þangað til það var kominn tími á að taka á móti Gunnari frá Kisumu. Hann var mættur – fyrir tímann eins og venjulega. Slökuðum á það sem eftir lifði dags og enduðum með að borða á Taitys þar sem Josephine, konan hans Ragga, slóst í hópinn.Um morguninn kom Josphine og náði í okkur. Fórum með henni að skoða nýju hárgreiðslustofuna hennar og svo í slömmið að hitta ungar konur úr Alfa hópnum – stúlkur sem eru að reyna að koma sér út úr vændi og skapa sér aðra tilveru. Hittum unga konu í bæjarhúsnæði. Hún var heima við en dóttirin á leikskóla. Hún borgar sjöfalt meira fyrir leikskólann en hún borgar fyrir leigu, en dóttir hennar er þar átta tíma á dag. Foresendur fyrir þessari löngu dvöl eru ekki þær sömu og hjá fólkinu hér heima á Íslandi. Það er ekki óalgengt að ráðist sé á stúlkubörn í  þessu hverfi og þeim nauðgað.Því næst heimsóttum við barnaheimili nálægt þar sem Josphine býr, en þýskir aðilar reka heimilið í samvinnu við hóp á staðnum sem Josphine er hluti af. Er skemmst frá því að segja að þetta var stórt hús með stórum garði þar sem 15 börn bjuggu ásamt kokki, sem er um leið ráðsmaður, og tveimur öðrum. Miðað við aðstæður flestra annarra barna sem ég hef séð í Kenía er þetta eins og annar heimur. Um klukkan fimm byrjaði fundur með nokkrum aðalsprautunum í Nakuru þar sem farið var yfir málin líkt og í Kisumu. Sá fundur var mjög gagnlegur þar sem hugmyndir þeirra um sjálfboðaliðaheimsóknirnar voru nokkuð öðruvísi en lagt hafði verið upp með. Voru hlutirnir ræddir fram og aftur og skýrðir. Eftir fundinn fórum við rétt út fyrir bæinn og ókum eftir vegi sem hafði verið lagður tvist og bast – einhver hafði lagt spotta eins og honum hentaði og annar bætt við, o.s.frv. Við enduðum í „The Village“ sem er staður sem hópur Linet setti upp sem athvarf þegar óeirðirnar í kjölfar kosninganna 2007 stóðu sem hæst. Voru það aðallega konur sem byggðu húsið með hjálp múrara. Þar var útbúinn fyrir okkur matur og við; Linet, Sophie, Sam (einn þátttakandann á námskeiðinu), ræddum m.a. um ný stjórnarskrárdrög í Kenía, fóstureyðingar og samkynhneigð. Klukkan var langt gengin í miðnætti þegar við komum aftur heim á hótelið.

Hittum Josephine hans Ragga um morguninn og vinur hennar skutlaði okkur upp á rútustöð þar sem við tókum express matatu til nairobi. Hafði bókað hótel sem heitir Mooreland hotel sem ég hafði aldrei gist á áður. Það er stutt frá miðbænum en verðið á herbergjum hóflegt. Við máttum engan tíma missa, hoppuðum upp í leigubíl og fórum á Little Angels Network ættleiðingamiðstöðina. Það hafa verið einhver vandamál í samskiptum Alþjóðlegrar ættleiðingar á Íslandi og Little Angels Network og fengum við þar skýringu – að allt væri fast í kerfinu, ekki bara málefni Íslendinga, heldur einnig tveggja annarra stofnana frá Norðurlöndunum. Þegar því var lokið fórum við aftur á hótelið og fengum okkur aðeins að borða áður en Mama Lucy kom og náði í okkur til að fara með okkur á Little Bees. Í Little Bees var vel tekið á móti okkur eins og venjulega. Við vorum mættir um hálf fjögur á föstudegi og skólastarf í fullum gangi í hverri kytru. Á efri hæð nýju byggingarinnar voru eldri nemendur og eingöngu karlkennarar. Kvenkennararnir hafa neitað að ganga upp stigann þar sem hægt var að sjá undir pilsin þeirra á leiðinni upp. Nemendur í næstefsta bekk tóku á móti okkur með íslenskum orðum sem Jökull og Súla höfðu kennt þeim nokkrum dögum fyrr. Eftir kynningarferð um skólann hélt fimleikadeild skólans sýningu, nokkrir ungir drengir tóku heljarstökk afturábak og sýndu ýmis atriði – allt á ósópuðum steyptum bletti á skólalóðinni (hugsaði með hryllingi með hvað myndi gerast ef þeir dyttu á hausinn). Þar á eftir var tískusýning hjá nokkrum stúlkum sem gengu með miklum tilþrifum fram og aftur og báru sig ótrúlega flott. Í lokin gengu þær allar í einni röð undir taktföstu lófataki en í bakgrunni fléttuðu tveir strákar afríkönsk stef inn í taktinn – slógu þau á málmsúlur skólans.

IMG_3108

IMG_3184 

IMG_3212 

Vorum komnir aftur heim á hótel fyrir myrkur. Fórum á Simmers og fengum okkur steik um kvöldið. Fengum tilboð um „nudd“ sem við afþökkuðum og fórum heim á hótel.Lögðum af stað á laugardagsmorguninn niður í bæ, á Masai markaðinn. Þurftum að hrista af okkur nokkra skuggalega útlítandi menn sem vildu endilega „hjálpa“ okkur við að versla – áður en við fórum á röltið. Tókum okkur góðan tíma til að skoða hvað var í boði og kaupa sitt lítið af hverju. Hittum svo Lucy, Victor og litla stúlku sem heitir Brynhildur ásamt móður hennar. Héldum smá fund um herferð sem við erum að skipuleggja fyrir sumarið – gegn ofbeldi gagnvart börnum.Um kvöldið kíktum við á Florida-klúbbinn. Ég hef einu sinni komið þangað áður og sá flotta danssýningu þar. Þar var reyndar engin danssýning en heimamenn ásamt nokkrum „musungu“ (hvítur maður) að dansa. Sátum við borð með nokkrum konum sem voru að halda upp á afmæli einnar þeirrar. Tókum nokkra snúninga með þeim. Gunnar talaði svo fallega um Keníu að þær vildu endilega bjóða honum í glas (í 17 ferðum til Kenía hefur það aldrei komið fyrir mig). Þar sem klukkan var orðin margt og við áttum flug snemma um morguninn, afþakkaði hann og við kvöddum.Kvöddum svo Keníu morguninn eftir – Naíróbí – Amsterdam – London – Keflavík.

Hvunndagshetja fallin frá

Ég fékk að vita það í morgun að Wilkister Ogata, vinkona mín og hvunndagshetja frá Keníu, væri fallin frá. Wilkister stóð fyrir miklu og merku starfi í Uji Verani miðstöðinni, rétt fyrir utan Kisumu í Keníu. Þar hafði hún umsjón með hóp munaðarlausra barna auk þess að stunda stórmerkilega ræktunarstarfsemi - sannkölluð grasakerling sem vissi lengra en nef hennar náði um nytjaplöntur náttúrunnar. Á Íslandi hefði hún verið kölluð bústólpi. Hennar verður sárt saknað. Meðfylgjandi er myndband frá því í sumar, en þar er hún ásamt einum skjólstæðingi sínum, Janet Awino.


Af hverju munu Norðmenn ekki lána okkur án Icesave-skilyrða?

Það er einföld ástæða fyrir því að Norðmenn munu aldrei lána okkur norska krónu fyrr en við höfum gengið frá okkar málum við Breta og Hollendinga - það er af sömu ástæðu og þeir tóku ekki í mál að við tækjum hér upp norska krónu. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að Norðmenn hafi tvívegis hafnað inngöngu í Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu vill meirihluti norskra stjórnmálamanna enn að Noregur gangi í Evrópusambandið. Það hentar því norskum stjórnmálamönnum ekki að við fáum valkosti við evruna sem gjaldmiðil og það hentar þeim ekki að skera okkur niður í snörunni sem við komum okkur sjálfir í með Icesave - þannig gætum við frestað því að taka á samskiptavanda okkar við meginland Evrópu og það myndi minnka líkurnar á að við gengjum í sambandið. Norskir stjórnmálamenn vilja að við göngum í Evrópusambandið því það eykur líkurnar á að Norðmenn geri það líka.

 


mbl.is Fullviss að Norðmenn vilji lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagbók - Kenía

Mánudagur 20. júlí

Flaug með Air India frá Mumbay til Nairóbí.  Þetta var frekar gamaldags vél – í annað sinn á undanförnum áratug sem ég hef verið í langflugi þar sem ekki er skjár í bakinu á sætinu fyrir framan mann. Þýddi Ngugi eins lengi og rafhlaðan í tölvunni leyfði, sofnaði eitthvað og las svo Risk það sem eftir lifði ferðarinnar. Undir kvöldmatarleytið var ég kominn á hótel Downtown, Nairóbí. Það er orðið aðalhótelið mitt – áður var það alltaf SixEighty sem nú er orðið allt of dýrt. Heyrði í Ragga frá Nakuru og Lucy í Little Bees og sofnaði snemma. Svefninn var reglulega rofinn af hávaða – tónlistinni í veitingastaðnum á móti og þjófavarnarkerfi bíla sem fóru af stað, að því er virtist fyrir litla ástæðu allt um kring.

 

Þriðjudagur 21. júlí

Klukkan níu var Lucy mætt og tók megnið af þeim pökkum sem ég hafði komið með – minnkaði farangurinn um helming. Samdi svo um smá afslátt við Downtown hótelið – sex herbergi í tvær nætur nokkrum dögum síðar (fyrir sjálfboðaliðana) áður en Lucy fylgdi mér í 10 sæta matatú til Nakuru. Þetta var bara skottúr, tveir og hálfur tími. Á hótel Genivieve urðu fagnaðarfundir þegar ég hitti loks Linet og íslenska hópinn – allir nokkurn veginn heilir eftir tæplega tveggja mánaða „töff“ ferð um Indland og Kenía. Fékk að heyra nokkrar sögur áður en Raggi og Josephine bættust í hópinn. Plönuðum næstu daga – svo var slappað af og farið að borða á Taity‘s, ágætur matur og aldrei þessu vant tónlistin ekki í botni þannig að hægt var að tala saman. Spjallaði m.a. við Linet um Dan, ungan mann sem var á námskeiðinu sem ég hélt í maí (sjá mynd hér neðar frá bloggi 15. maí. Hann er sjötti frá vinstri) Hann hafði ekið mér nokkrum sinnum í maí og gaf mér Kenía-derhúfu – nokkrum vikum dó hann af lungnameini. Dan var ágætlega menntaður og vann við ýmis verkefni, m.a. í Súdan. Af því fólki sem við höfum unnið hvað nánast með síðan við byrjuðum á þessu starfi hérna í Kenía fyrir um 7 árum hafa fjögur dáið. Þrjú þeirra voru á milli þrítugs og fertugs – öll hæfileikarík og öflug.  Það kemur svona „súnk“ inni í manni þegar maður hugsar um það – og ef þetta endurspeglar samfélagið, eins og mér sýnist, þá er þetta gífurleg blóðtaka.

Við fórum frekar snemma í háttinn.

 

Miðvikudagur 22. júlí

Krakkarnir fóru eldsnemma af stað í þjóðgarðinn í Nakuru en ég varð eftir á hótelinu að þýða Ísöld 3 fyrir DVD útgáfu myndarinnar – hafði fengið það verkefni daginn áður. Dagurinn leið við það verkefni og dálítið af Ngugi. Undir fjögur labbaði ég með Josphine nokkurn spöl frá hótelinu þar sem hún sýndi mér nýja miðstöð sem hún er að setja á laggirnar. Josphine er ung stúlka sem hefur gengið í gegnum ýmislegt. Foreldrar hennar skildu þegar hún var mjög ung og síðan hefur hún aðeins séð föður sinn einu sinni. Það var í Nairóbí fyrir ekki mjög mörgum árum. Þá rakst hún á ungan mann sem hét óvenjulegu nafni sem föðurafi hennar hafði heitið. Hún gaf sig á tal við hann og kom í ljós að það var hálfbróðir hennar, nokkrum árum yngri. Hann fór með henni til föður þeirra – sem varð nokkuð hissa. Sagði að nýja konan sín vildi ekki að hann hefði neitt samneyti við hana eða systkini hennar – koma hennar ætti eftir að valda honum vandræðum. Sagðist svo myndi kíkja á hana þegar hann ætti leið til Nakuru – það hefur enn ekki gerst. Eftir að hann yfirgaf fjölskylduna á sínum tíma lentu þau í miklum vandræðum og Josphine lenti á götunni og þurfti sem unglingur að selja sig til að sjá systkinum farborða. Hún náði að rífa sig frá þessu og opnaði hárgreiðslustofu og vinnur nú með ungum konum sem eru í svipaðri stöðu og hún var. Í nýju miðstöðinni hitti ég þrjár ungar stúlkur sem sögðu mér sögu sína – ein þeirra, 23 ára og tveggja barna móðir, var á vergangi. Hún bjó inni á manni sem barði hana reglulega og var nýbúin að segja henni að hypja sig. Josphine er greinilega mikil stoð þeirra og stytta .

Um kvöldið komu svo krakkarnir – endurtekið efni á Taity´s áður en farið var aftur í háttinn á skikkanlegum tíma.

 

Fimmtudagur 23. júlí

CIMG0110Upp úr hádegi rölti ég með íslensku krökkunum í nýju miðstöðina hennar Josphine o.Co. Þar vörðum við 2-3 tímum í að fara yfir alla ferðina, jákvæða og neikvæða hluti og það sem mætti verða til að bæta úr – minnka þjáningu þeirra sem fara í svona sjálfboðaliðferð í framtíðinni J Í heildina virðist þetta þó hafa verið áhugaverð ferð fyrir alla. Uppi á skerinu munum við svo skoða nánar hvernig þau sem vilja geta lagt hönd á plóginn í framtíðinni.

Upp úr hálf sex mættu svo heimamenn á fund þar sem við fórum yfir þeirra hlið á málum, auk þess að tala um nokkur þemu frá sameiginlegum fundi sem haldinn var á netinu í júní – nettengingin við Kenía hafði ekki tekist vel þannig að það þurfti að ræða málin betur. Eftir þann fund mættu Íslendingarnir á staðinn, haldnar voru ræður og fólk kvaddist, knúsaðist og táraðist.

Síðan: Aftur Taity´s og svo á dansstað rétt hjá hótelinu þar sem dansinn var stiginn – mislengi að mér skildist morguninn eftir.

 

Föstudagur 24. júlí

Klukkan tíu vorum við komin af stað til Nairóbí. Ferðin gekk ágætlega, nema þegar komið var inn í Nairóbí, þar var nokkur umferðarteppa. Komumst þó þangað um eittleytið. Um klukkutíma síðar kom Mama Lucy og önnur kona – móðir litlu nýfæddu Brynhildar í Little Bees. Við höfðum haldið matatúinum sem við komum á frá Nakuru og fórum með honum til Little Bees. Á leiðinni var stoppað á lögreglustöð á leiðinni til að fá lögreglufylgd. Ég var dreginn inn á stöðina og látinn setjast hjá lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra svæðisins til að heilsa upp á þá. Þeir sögðu mér að þeir ættu mikla samvinnu með Lucy. Þegar börn fyndust á vergangi og engir foreldrar fyndust, færu þeir með þau til Lucy. Kvöddum þá svo og héldum í fylgd tveggja óeinkennisklæddra lögreglumanna til Little Bees. Stoppuðum þar líklega tvo tíma. Það er alltaf að bætast við barnahópinn í hvert skipti sem ég kem. Lucy staðfesti það; skólinn hefur vaxið frá 80 í 250 á undanförnum árum. Hjá Lucy var eitt barn sem lögreglan hafði fundið á vergangi og var búið að vera í nokkra daga. Ágústa, ein úr hópnum, tók hann í fangið og hann hjúfraði sig upp að henni .

Ferðin til baka gekk frekar hægt, enda var komið fram undir rökkur og mikil umferð. Kvöldið var frekar rólegt.

 

Laugardagur 25. júlí

Um ellefu komu Lucy og Victor og lóðsuðu okkur á Masai-markaðinn, sem var í um 20 mínútna göngufæri frá hótelinu. Þetta er býsna stór markaður og er bara opinn á laugardögum og þriðjudögum.  Sölumennirnir voru býsna ágengir og notuðu öll brögð til að koma af stað sölu. Ég tók eftir að ég er kallaður meira „papa“ en „brother“ – hm... Maður verður víst að sætta sig við að tíminn líður. Við dreifðum okkur um markaðinn - ég skannaði svæðið lengi áður en ég fór svo og keypti eitt og annað fyrir Múltikúlti.

Gengum þungklyfjuð heim á hótel og við tóku rólegheit - síðasta kvöld sjálfboðaliðanna í Nairóbí.

 

Sunnudagur 26. júlí

Morguninn var rólegur - lögðum af stað um eitt út á flugvöll. Umferðin var nánast engin svo við vorum fljót á leiðinni. Kvaddi þennan frábæra hóp við „International departure“. Var að hugsa, á meðan ég beið eftir flugi til Kisumu: Sýn þeirra og nálgun á þetta starf, auk einlægs ásetnings, er svo endurlífgandi fyrir sjálfan mig.

Fluginu til Kisumu seinkaði, auk þess sem vélin millilenti í Eldoret. Þar að auki varð bíllinn sem fór með mig frá flugvellinum bensínlaus á leiðinni á hótelið. Bílstjórinn stoppaði mótorhjól og fékk ökumanninn til að skutla sér eftir bensín á brúsa.

Allt þetta leiddi til að ég varð of seinn að hitta Tony Robinson, gamlan vin úr Húmanistahreyfingunni sem ég hafði frétt að væri í Kisumu. Það var komið á þriðja ár síðan ég hafði hitt Tony, en þar á undan höfðum við ýmislegt brallað og höfum svipaðar hugmyndir á mörgu. Hann var að vinna fyrir heimsfriðargöngu Húmanistahreyfingarinnar, hafði hitt Raila Odinga, forsætisráðherra Kenía, í vikunni og fengið hann til að lýsa yfir stuðningi á myndbandi. Þegar ég spurði hann hvernig honum litist á Odinga sagði hann að bókin (ævisagan) væri betri!!  Kjöftuðum svo lengi frameftir um hvað hefði drifið á dagana undanfarið.

Rölti svo upp á hótel Palmers, eina ferðina enn. Alltaf ljúft að koma þangað.

 

Mánudagur 27. júlí

Um morguninn kom Anne Lauren að hitta mig yfir morgunmatnum og skipulögðum við þessa fáu daga sem voru framundan. Lenti á kjaftatörn í lok morgunverðar við kínversk/bandaríska konu sem var á flakki um Austur-Afríku.Raggi og Josephine komu skömmu síðar og kjöftuðum við frameftir morgni.

Ég hafði vaknað með einhverja kvefpest og fór og keypti mér pillur áður en ég fór á netið á Mega Plaza.

Um þrjúleytið komu Anne, Wilkister, Davies og George og fóru með mér í matatú eitthvað út fyrir bæinn. Þar var hljóðlátur fundarsalur - eftir að við höfðum fengið okkur að borða, héldum við fund sem stóð í rúma 3 tíma. Þar var farið yfir svipaða hluti og við fórum yfir í Nakuru - fólk var jafn ánægt þar með heimsókn sjálfboðaliðanna. Eina „kvörtunin“ sem kom var þegar konur í einu þorpi höfðu varið nærri heilum degi við að elda jarðhnetusúpu, sem er í miklu uppáhaldi hjá þeim, þá voru sjálfboðaliðarnir lítt hrifnir og þótti hún súr.

Að fundinum loknum hitti ég Ragga og Josephine aftur og kvaddi þau. Þau voru bara í dagsferð í Kisumu – Raggi var að leggja drög að ýmsum verkefnum; Ísframleiðslu, vinnslu fiskroða og fleira. Hann átti eftir að fara aftur og koma hlutunum í gang.

 

Þriðjudagur 28. júlí

CIMG0154Klukkan 10 kom Anne Lauren með bíl og skelltum við okkur í Korando. Sú kínversk/bandaríska kom með – hún hafði ekki kynnst því hvernig fólkið býr til sveita, svo ég bauð henni með. Hún var skemmtilega „ferköntuð“ í spurningunum um starfið - hugsaði það út frá svona hefðbundnu hjálparstarfi í anda ný-nýlendustefnu, eins og er svo algeng. Kíktum á leikskólann hjá Anne Lauren og svo röltum við með henni til að heimsækja nágrannakonu hennar sem er mjög veik og Anne heimsækir nánast daglega til að gefa henni að borða og nudda hana. Hún og maðurinn hennar eru bæði HIV smituð en þegar hann varð óvinnufær var hún send aftur á sínar heimaslóðir og býr hjá mömmu sinni. Í dag liggur hún allan daginn hálf ósjálfbjarga á strádýnu á gólfinu. Kvartaði yfir að Anne hefði ekkert sinnt henni í gær. Ég játaði á mig sökina að hafa haldið henni upptekinni og var þetta allt á frekar léttum nótum. Síðan kvöddum við og fengum að borða heima hjá Anne. Skutluðum svo Lotus í rútu - hún var á leið til Uganda. Á leiðinni til baka lýsti hún yfir að hún vildi gjarnan styðja barn. Sjáum til hvað verður.

Upp úr tvö heimsóttum við Geoffrey lækni á heilsugæsluna. Hann var hress að vanda og fór með okkur upp í fundarherbergi upp á lofti. Þar komu síðan þær fjórar „sex workers“ sem fengu aðstoð frá Vinum Kenía í framfærsluverkefni. Þær voru allar búnar að endurgreiða svo hægt er að lána aftur. Þær voru allar á því að lánið hefði nýst þeim vel - þær hefðu getað keypt meiri lager af vörunum sem þær voru að selja, aukið úrvalið og haft meira sér til framfærslu. Þær voru ekki allar hættar „harkinu“ en sú síðasta sagði að nú þyrfti hún ekki að segja já við hvern sem er, ofbeldismenn og þá sem hætt var við að sviku þær um greiðslu.

Um kvöldmat kom Janess og við kjöftuðum frameftir – hann geturr verið býsna skemmtilega pælandi.

 

Miðvikudagur 29. júlí

Vaknaði um níu. Fór niður í banka – hraðbanki hafði gleypt kort hjá mér kvöldið áður. Þeir sögðu mér að koma aftur eftir klukkutíma, sem og ég gerði – þá á leiðinni út á flugvöll. Kortið var þá fundið og var ég samferða Anne Lauren út á flugvöll: Kisumu-Nairóbí-Mumbay-London-Keflavík.

       

Skot-tur til Indlands

Þriðjudagur, 14. júlí

Lenti á Gatwick í London undir hádegið og í þeirri lengstu biðröð sem ég hef lent í fyrir framan vegabréfsskoðunina. Hún náði einhverja hundruð metra út úr tollafgreiðslusalnum fram eftir löngum göngum, fimm til sexföld á breidd. Mér varð um og ó þegar ég sá hana – þetta yrði seint búið. Þegar til kom gekk hún þó ótrúlega hratt – var kominn í gegn á innan við klukkutíma.

Fór í rútu yfir á Heathrow og dundaði mér þar í nokkra tíma við nokkur lítil þýðingarverkefni, verslaði mér myndavél (það er alltaf verið að skamma mig fyrir hvað ég er lélegur að taka myndir – góð byrjun að eiga myndavél!) og svo tvær bækur; Risk eftir Dan Gardner og OutliersThe Story of Success, eftir Malcolm Gladwell. Sú síðari var algjört „möst“. Ég á fyrir The Tipping Point (fjallar m.a. um líkindi félagslegra byltinga og veikindafaraldra) og Blink (Um innsæið, Blink = hvernig við tökum ákvörðun á augabragði byggt á innsæinu og ómeðvitaðri "rökrænni" úrvinnslu). Það sem ég veit um þá þriðju er að þar fjallar hann um snillinga, hvað það er sem skilur þá að frá öðrum. Niðurstaðan er víst að það sé að mestu leyti vinnan sem lögð er í viðfangsefnið, um 10.000 tímar, sem skapa snilling. Meðfædd gáfa er samkvæmt því ofmetin. Tók svo eftir að á forsíðu Risk var vísað í Malcolm Graldwell (Terrific ... has the clarity of Malcolm Gladwell).

Í flugvél flugfélagsins Kingfisher á leið til Mumbay byrjaði ég svo á Risk. Áhugaverð lesning um áhrif óttans, m.a. talað um hvernig rúmlega 1.500 Bandaríkjamenn létust í umferðarslysum eftir 9/11 umfram það sem hefði verið ef þeir atburðir hefðu ekki vakið ótta við að fljúga. Eftir atburðina fór fólk að aka meira en það er mun hættulegra en að fljúga (þótt hryðjuverkamenn brotlentu farþegaflugvél vikulega væri samt margfalt öruggara að fljúga en aka). Einnig áhugaverð pæling um hvernig við höfum smíðað samfélag sem passar fyrir vitsmunaveru sem er þó að litlu leyti til staðar, vitsmunaveru sem íhugar og rökræðir, allt mjög hægt. En við tökum margfalt fleiri ákvarðanir út frá annarri og eldri „vitsmunaveru“ sem lætur m.a. stjórnast af hlutum eins og hræðslu – sú „vitsmunavera“ er mun eldri en sú fyrri.

 

Miðvikudagur, 15. júlí

Lenti í Mumbay í rigningarsudda í rauðum sokkum – með kveðju frá Kingfisher. Biðin á innanlandsflugvellinum var frekar stutt – lenti í Chennai undir kvöldmat að indverskum tíma daginn eftir að ég lagði í hann. Á flugvellinum tók John á móti mér, þráttaði létt við hann um hvaða hótel ég ætti að fara á. Hann vildi að vel færi um mig, ég vildi spara – fékk mitt fram, fundum lítið og ódýrt hótel í Pallavaram, rétt hjá flugvellinum.  Settum niður fundartíma fyrir daginn eftir og svo fór ég beina leið í háttinn.

 

Fimmtudagur, 16. júlí

Vaknaði svo um tvöleytið um nóttina og gat ekki sofnað aftur. Dundaði mér við að þýða bók Ngugi wa Thiong‘o, Devil on the Cross eða Kölski á krossinum sem er fyrsta verkið sem útgáfudeild Múltikúlti gefur út. Ngugi er merkasti rithöfundur Kenía og einnig vel þekktur í mannfræðinni (Decolonizing the Mind) og kemur til Íslands í septemberlok.

Um morguninn skilaði ég af mér nokkrum þýðingaverkefnum á internetbúllu skammt hjá. Hraðinn á nettengingum hefur margfaldast frá því síðast – besta mál. Svo kom John og við byrjuðum að kíkja á reikningsuppgjör vegna komu sjálfboðaliðanna ungu til Indlands. Allt mjög skipulagt og vel gert, eins og hans er von og vísa. Síðan fórum við á Spencer Plaza, aðal „mollið“ í Chennai og gott ef ekki í Asíu (sagði einhver). Verslaði slatta af dóti fyrir Múltikúlti (reyndar dálítið meira en ég ætlaði) og druslaði því heim á hótel aftan á mótorhjólinu hans Johns áður en við fórum í mat heim til hans, þar sem ég hitti foreldra hans og systur. Skoðaði síðan nýja skrifstofu „Action India“ (félag sem þeir stofnuðu í kringum nokkur verkefni) á efstu hæðinni hjá honum.

Um kvöldið, þegar ég var kominn aftur á hótelið, var frétt í sjónvarpinu um Ísland. „Ísland ákveður að ganga í Evrópusambandið“ var yfirskriftin. Einhvern veginn ekki alveg eins og það er sett fram í umræðunni heima. Fréttin var nokkuð ítarleg með viðtali og myndum.

 

Föstudagur 17. júlí

Köflóttur svefn og endaði með að ég svaf fram að hádegi. Ýmislegt stúss um daginn sem endaði með að John kom og fylgdi mér á eitt flottasta hótelið í Chennai þar sem við hittum Michael. Mágur hans er hótelstjóri þar og býr í næsta húsi við Michael. Við fengum þarna flott buffet með óteljandi réttum, hver öðrum betri á 250 rúpíur á mann (brot af því sem það kostaði). Ég fékk ekki einu sinni að borga minn hlut (fékk yfirleitt frekar lítið að borga í þessari ferð, allir hafa mikla samúð með ástandinu á Íslandi :) Hótelstjórinn kom svo með yfirþjóninn og yfirkokkinn og kynnti fyrir okkur. Það var gaman að fylgjast með kokkinum. Indverjar kinka ekki kolli til að segja já heldur vagga höfðinu til hliðanna. Hann var með langa hvíta kokkahúfu og þegar hann vaggaði höfðinu var það býsna skondið.

 

Laugardagur 18. júlí

Eftir svefnlitla nótt var ég sóttur klukkan sjö um morguninn í Ambassador bifreið (ekki eins flott og það hljómar). Þar voru mættir John og bílstjórinn en við náðum svo í Michael og Deva Kumar skammt hjá og ókum af stað út úr bænum í átt að Thorapadi. Þar stóð til að vígja Grund Humanist Home for Children. Grundarnafnið kemur frá því að upphafið má rekja til framlags frá Grundarsjóði, sem var menningarsjóður sem var lagður niður og hluti hans rann í að byggja þarna barnaheimili að frumkvæði Gunnars Kvaran. Ferðin þangað tók um 3 tíma og þar tók á móti okkur dágóður hópur heimamanna, fulltrúa IHA (International Humanist Alliance), o.fl. Þar klippti ég á borða, fékk litaklessu á ennið og var sveipaður handklæði (bara ég og Michael fengum handklæði, hinir fengu bara einhverjar dúkadruslur) og fékk gefna gjöf, auk þess sem ég hélt smá ræðu. Á staðnum voru líka blaðaljósmyndarar og fréttamenn, auk nokkurra stráka sem munu búa þarna þegar starfsemin kemst í gang.

Síðan var farið í nálæga borg þar sem við fengum afnot af kennslustofu í skóla og héldum fund með nokkrum helstu sprautunum í starfinu í Tamil Nadu og fórum yfir ýmis mál. Allir voru mjög ánægðir með ferð sjálfboðaliðanna – virðist hafa lukkast vel frá þeim séð. Skoðuðum hvað mætti gera betur ef þetta verður endurtekið. Við enduðum á spjalli um þema síðasta mánaðar „Af hverju ættum við að hjálpa öðrum“ og spruttu af því skemmtilegar umræður og endaði á mjög góðum nótum.

Á bakaleiðinni var mikið spjallað – Michael sagði mér frá ýmsu sem gengið hefur á varðandi bygginguna í Thorapadi. Sá sem við byrjuðum með upphaflega og lagði til landið þar reyndist hafa einhvern dulinn ásetning og er þetta búið að vera ein allsherjar sápuópera þar sem hann hefur verið að reyna eitt og annað til að ota sínum tota og þvælast fyrir þegar það hefur ekki tekist. Öll sú saga er lengri en svo að þetta blogg rúmi hana, en virðing mín fyrir Michael óx við að hlusta á þetta (og var hún nokkur fyrir) – hvernig hann lítur á hlutina og leysir málin. Við renndum svo inn í Chennai upp úr kvöldmat.

 

Sunnudagur, 19. júlí

 

Rólegur morgun við þýðingar en rétt fyrir hádegi kom John og var samferða mér heim til Michaels. Þar beið matur – konan hans er ótrúlega góður kokkur. Svo fórum við upp á loft á skrifstofuna hans Michaels og fórum yfir nokkra hluti, skoðuðum myndir og myndbönd frá heimsókn sjálfboðaliðanna. Hann sýndi mér líka nokkrar myndbandsskýrslur um fósturbörn sem verið er að styðja. Frábær hugmynd og eitt verkefni sem næsti sjálfboðaliðahópur (ef við leggjum í þetta aftur) getur gert, bæði í Indlandi og Kenía. Klukkan var orðin fimm þegar við kvöddumst.

Kíkti á netið og hitti svo Deva Kumar og Louis. Deva kumar var með blaðaúrklippur frá menntaverkefni Vina Indlands í samvinnu við ýmis samtök í Tamil Nadu, með myndir af sjálfboðaliðunum við ýmis tækifæri. Textinn á tamílsku þannig að hann var lítt skiljanlegur en myndirnar töluðu fyrir sig. Átti gott spjall við Louis. Hann er skemmtilegur og ljóngáfaður kaþólikki sem vinnur við að dreifa smokkum og eiga samskipti við samkynhneigða (Hluti af fræðslu hans í slömmum vegna HIV, sem er útbreiddara en marga gæti grunað, sérstaklega á meðal sprautufíkla). Við ræddum m.a. dóm hæstaréttar í vikunni á undan þar sem úrskurðað var að kynlíf samkynhneigðra væri ekki ólöglegt á Indlandi. Hann sagði mér frá því að fyrir daga Breta á Indlandi hefðu verið musteri tileinkuð samkynhneigð (Khajraho musterið) en það hefðu verið Bretar með tilskipun 377: 18c, sem hefði gert samkynhneigð ólöglega. Áhugavert. Um kvöldið var svo pakkað niður í ró og næði.


Af hverju ættum við að hjálpa öðrum

Fyrir nokkrum dögum héldum við málstofu um spurninguna; af hverju ættum við að hjálpa öðrum? Málstofan heppnaðist mjög vel og vakti skemmtilegar umræður. Í gær heyrði ég enduróm frá þeim umræðum sem hafa haldið áfram í framhaldinu - einn þátttakendanna fékk að heyra eftirfarandi staðhæfingu: Hér á Íslandi þurfum við að hugsa um okkur sjálf núna og þau vandamál sem við höfum við að glíma. Dæmi var tekið af neyðarástandi í flugvél þar sem loftþrýstingur félli. Fyrst þyrfti maður að setja grímuna á sjálfan sig og svo á börn og aðra sem þyrftu hjálp. Þetta hljómar kannski sannfærandi við fyrstu skoðun, en ef maður hugsar aðeins um það og setur í stærra samhengi þá er það frekar eins og eftirfarandi lýsing: Við erum löngu komin með okkar súrefnisgrímu, hér er fólk ekki að deyja úr hungri eða neitt slíkt. Það er frekar eins og við þurfum að rétta aðeins úr sætisbakinu vegna þess að við finnum til smáóþæginda, við þurfum að klóra okkur aðeins í eyranu og setja á okkur smá svitalyktareyði og konurnar smá maskara - áður en við snúum okkur að þeim sem situr við hliðina á okkur helblár úr súrefnisskorti.

Skottúr til Kenía

Lenti  í London í 17 gráðu hita og sólskin – sem gerði jökulkalt vorið á Íslandi með snævi þöktum fjöllunum og gaddfreðinni skuldahítinni einhvern veginn enn nöturlegra.  Hafði tékkað mig inn í gegnum netið áður en ég lagði af stað – bæði hjá Icelandair og Qatar Airways og allt gekk því fljótt og snurðulaust fyrir sig. Millilenti í Doha um miðnætti eftir um 7 tíma flug – 28 gráðu hiti þar, tilkynnti flugstjórinn rétt fyrir lendingu. Nokkuð löng bið – um sjö tímar í ógurlega afkastamiklu loftræstikerfi sem olli því að eftir að mér tókst að leggja mig í nokkra tíma, vaknaði ég hálffreðinn. Hálsbólgan og hóstinn sem spratt í kjölfarið átti eftir að endast nokkurn veginn alla ferðina. Ferðafélaginn var Rauðbrystingurinn, eftir Jon Nesbö, en hann er næsta viðfangsefni bókaklúbbsins Æskunnar (nafnið kemur af örvæntingarfullri sjálfsblekkingu nokkurra miðaldra bókanörda).

Flugið til Nairobi er umtalsvert styttra – eitthvað á fimmta tímann. Fann mér hótel sem var heldur ódýrara en í fyrri ferðum – ég var aðeins lasinn en krónugreyið í enn verra ástandi, allt 60-70% dýrara en áður. Fór samt ágætlega um mig. Um kvöldið fékk ég heimsókn konu sem tók hjá mér 10 fótbolta sem Paul Ramses hafði beðið mig að taka með mér. WPM$6946

Morguninn eftir kom svo Mama Lucy úr Little Bees og tók af mér megnið af pökkunum sem ég hafði komið með. Seinna um daginn hitti ég svo hana aftur ásamt Victori, ungum fyrrverandi skjólstæðingi hennar úr Little Bees sem í dag hjálpar henni við rekstur skólans. Victor varð samferða mér í tíu sæta Matatu til Nakuru. Í Nakuru tók Linet á móti okkur, rak mig beina leið í lyfjaverslun og lét mig kaupa flensulyf og síðan í beint á hótelið.

Morguninn eftir byrjaði námskeið um húmanískt sjálfboðaliðastarf með 12 manna hópi. Helmingurinn frá Nakuru, hinn helmingurinn héðan og þaðan úr Vestur-Kenía. Námskeiðið gekk mjög vel, stærsti hluturinn ungt fólk, þriðjungur í háskóla. Umræðurnar voru skemmtilegar og frjóar á köflum. Það var aftur lítið hægt að tala saman um kvöldið þegar farið var út að borða á stað þar sem tónlistin var í botni og varla hægt að tjá sig nema með öskrum. Þar á eftir kíkt örstutt á dansstað. Dansvalið var pólitískt rétt; á víxl spiluð Kikuyu- og Luo-tónlist auk annarrar sem ég kann ekki deili á. Þar sem námskeiðið átti að halda áfram klukkan átta morguninn eftir var farið á skikkanlegum tíma inn á hótel og í bólið. Áður en svefninn tók völdin svifu um kollinn hugleiðingar um liðinn dag og kveiktu á þessari sjaldgæfu og dýrmætu tilfinningu um að vera að gera nákvæmlega það sem mann langar til að gera!WPM$69AD

Námskeiðinu lauk rúmlega tvö á sunnudag. Eftir að við höfðum gætt okkur á tilapiu (fiskur) og geitakjöti kom einn sjálfboðaliðahópurinn með ýmislegt sem hann er að framleiða úr úrgangsefnum, töskur, veski , o.fl. Ég valdi sitt lítið af hvoru fyrir Múltikúlti áður en ég settist upp í Matatu á ný og brunað til Kisumu. Ferðin tók tæpa fjóra tíma og ég hafði nægan tíma, m.a. til að lesa staðarblöðin. Í Kenía eru þeir að reyna að koma saman nýrri stjórnarskrá – þeirra, eins og okkar, er uppsuða úr stjórnarskrá nýlenduherranna. Þeir hafa þó hóflegri hugmyndir en við um mannafla í þessa vinnu – þrettán manns koma að verkinu. Af hverju þurfum við sextíu og þrjá? Þá var nokkuð fjallað um atlögu stjórnvalda gegn talibönum Kenía, Mungiki-sértrúarhópnum. Hópurinn hefur vaxið undanfarin ár og er talinn ábyrgur fyrir fjölda morða í landinu. Þeir blanda saman sósíalískum hugsjónum um jöfnuð og afturhvarfi til gamalla gilda í Kenía – þ.m.t. til umskurðar kvenna og annars slíks. Þá var vandræðaleg útskýring eins ráðherra ríkisstjórnarinnar á því hvernig hvarf á upphæð sem nemur 15 milljörðum íslenskra króna mætti rekja til tölvuvillu. Kom til Kisumu um kvöldmatarleytið – frekar heimilislegt að rúlla inn á Hotel Palmers og heilsa upp á fólkið. Eftir að hafa kíkt í bæinn á „boda-boda“ (reiðhjól með bólstruðum bögglabera fyrir farþega) og kíkt á netið, hitti ég Anne Lauren á Palmers og við fórum yfir dagskrá þessa eina dags sem ég átti í vændum í Kisumu.

Klukkan tíu um morguninn komu Anne, George, Davies, ásamt Janet litlu sem Bidda systir er að styðja sem mætti með frænku sinni. Við ræddum aðeins mál Janetar – hún er á síðasta ári í grunnskóla, á næsta ári tekur við framhaldsskóli og ráðast möguleikar hennar af prófi sem hún þarf að taka í lok árs. Eftir það var fundað um komu ungu íslensku sjálfboðaliðanna í lok júní, gisting og verkefni og flestir lausir endar hnýttir . Var skotið föstum skotum á mig að nú yrði ég að koma og prófa að gista í heimahúsum líka! (Hvað er ég að koma mér útí?) Eftir hádegi röltum við Anne á heilsugæsluna og heilsuðum upp á Geoffrey lækni. Vinir Kenía byrjuðu nýlega að styðja við smálánaverkefni sem hann stýrir – hann vinnur með hópi vændiskvenna sem eru að reyna að skapa sér annað lifibrauð. Hann er frekar praktískur: „Við erum aðallega að reyna að fækka þeim skiptum sem þær fara á götuna – minnka tíðnina og skapa þeim valkosti.“ Svo sagði hann mér sögu af einni sem var nýkomin af stað með eigin atvinnurekstur – og gekk nokkuð vel. Hún hafði sagt að hún hefði mikið að gera, þegar hún kæmi heim á kvöldin væri hún of þreytt til að fara út og harka – og svo átti hún hvort sem er nóg að borða! Þar á eftir fórum við Anne á stúfana og náðum í vörur frá starfsþjálfunarmiðstöð fyrir ungt fólk – m.a. endurunnin kort sem hafa selst ágætlega í Múltikúlti. Um fimmleytið kom heilsugæslujeppinn og keyrði mig á flugvöllinn. Hálftímaflug, leigubíll í bæinn og inn á hótel. Þegar ég kíkti á netið beið dágott þýðingarverkefni sem ég fór langleiðina með að klára á heimleiðinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband