Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Látum ekki bölmóðinn ráða - kjósum

Nokkuð hefur borið á því síðustu dag og síðast í morgun að ýmsir, þar með talið fjölmiðlafólk, setji fram efasemdir eins og til hvers sé að vera að kjósa á stjórnlagaþing – alþingi þurfi hvort sem er að samþykkja stjórnarskrá og að alþingi muni ekki hleypa neinum róttækum breytingum í gegn. Um þetta er tvennt að segja: Í fyrsta lagi er það ekki alþingi eitt sem ræður þessu, forsetinn verður að skrifa undir og ef alþingi gerir miklar breytingar við drög að stjórnarskrá sem sett eru fram af stjórnlagaþingi með sterkt umboð frá almenningi, hef ég fulla trú á að hann neiti að skrifa undir og leggi málið í dóm þjóðarinnar. Í öðru lagi er úrtölufólkið að hafa áhrif á þátttökuna með þessu og þar með að draga úr möguleikunum á að stjórnlagaþing hafi sterkt umboð.

Samkvæmt núverandi stjórnarskrá höfum við enga aðra leið til þess að koma breytingum í gegn og úrtölufólkið leggur ekki til aðrar lausnir. Leggjumst því öll á eitt: Látum ekki bölmóðinn ráða - kjósum og gefum stjórnlagaþingi öflugt umboð.

Nokkrir stafir um stjórnlagaþing

Í umræðu um væntanlegt stjórnlagaþing er gjarnan fullyrt að tíminn sem því er ætlað að starfa, tveir til fjórir mánuðir, sé of naumt skammtaður. Það er ákveðinn misskilningur sem fylgir þessari skoðun – eins og gert sé ráð fyrir að stjórnlagaþingmenn þurfi og ætli sér fyrst að fara að hugsa um þessi mál þegar þeir setjast á þingið. Á meðal þeirra sem bjóða sig fram er fólk sem hefur hugsað um þessi mál svo árum og áratugum skiptir og hefur skýrar hugmyndir um hvað það vill sjá inni í nýrri stjórnarskrá. Nýtt stjórnlagaþing þarf fyrst og fremst að komast að samkomulagi og stilla saman hugmyndir og skoðanir þátttakenda, sem munu flestir vita hverju þeir vilja koma á framfæri. Búið er að vinna mesta vinnuna nú þegar og ætti tíminn því að vera nægur.

Stjórnlagaþing getur lagt stjórnarskrárdrög sín í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en alþingi tekur þau til meðferðar og myndi afgerandi niðurstaða úr henni gefa þinginu skýr skilaboð – með forseta sem hefur sýnt að hann er óhræddur við að beita málskotsréttinum myndi þingið varla hreyfa mikið við stjórnarskrá sem hefur almennan stuðning þjóðarinnar. Æskilegt væri að gefa almenningi kost á, ekki aðeins að kjósa um stjórnarskrána, heldur jafnframt um einstaka liði hennar. Gallinn við íslenskt lýðræði hefur gjarnan verið að í kosningum, t.d. til alþingis, hafa kjósendur ekki átt kost á að gefa mjög skýr skilaboð með atkvæðum sínum. Þeir kjósa flokk út á einstök mál – en sjaldnast öll mál viðkomandi flokks. Forystan túlkar síðan niðurstöðuna og setur áherslur eins og henni sýnist – fer í samsteypustjórn þar sem sumt nær inn annað ekki. Niðurstaðan er sú að erfitt er að ráða í hver raunverulegur vilji kjósenda er, sem grefur undan lýðræðinu. Ef einstakir liðir stjórnarskrárinnar eru bornir undir almenning í þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki hvert smáatriði, heldur t.d. stærri flokkar eins og mannréttindakaflinn, aðskilnaður ríkis og kirkju, ný skilgreining á forsetaembættinu og aðskilnaði framkvæmda- og löggjafarvalds – fær almenningur möguleika á að gefa skýr skilaboð með atkvæðum sínum í þessu mikilvæga máli.

Mannréttindi

Í áherslum mínum í framboði til stjórnlagaþings set ég mannréttindi sem mikilvægasta þáttinn. Í sjöunda kafla stjórnarskrárinnar er ágætis upptalning á mannréttindum, en skortir á nánari skilgreiningar. Þar vantar t.d. grein um pólitíska mismunum, sem útilokar mismunandi vægi atkvæða – svo eitthvað sé nefnt. Mannréttindi eiga að mínu mati að vera hryggjarstykkið í nýrri stjórnarskrá – þau hafa forgang gagnvart öðrum málum, hvort sem það er fullveldi, hlutverk forseta eða önnur atriði – þau síðarnefndu eru undirskipuð gagnvart mannréttindum. Þannig hafi mannréttindakafli eða mannréttindakaflar stjórnarskrárinnar svipaðan sess innan stjórnarskrárinnar og stjórnarskrá gagnvart lögum: Engin lög standast ef þau eru í andstöðu við stjórnarskrá og ekki er hægt að setja neitt inn í stjórnarskrá sem er í andstöðu við mannréttindi. Þannig er t.d. ekki hægt að krefjast aukins meirihluta í almennum kosningum um mál sem snerta fullveldi – eins og sumir frambjóðendur hafa tæpt á. Aukin meirihluti þýðir í raun misvægi atkvæði, sem er mannréttindabrot. Þannig væri líka útilokað að vera með ríkisrekna þjóðkirkju – þar með ríkir ekki raunverulegt trúfrelsi eins og kveðið er á um í 65. grein, 6.  kafla.

 

Réttindi fólks gagnvart lögreglu og dómsvaldi verði tryggð

Í flestum ef ekki öllum samfélögum í dag er hluti af skilgreiningunni á ríki sú að það sé eini aðilinn sem hefur rétt á beitingu ofbeldis innan sinna landamæra. Þannig liggur ofbeldishótun að baki öllu laga- og reglugerðargangvirki ríkisins. Ef við borgum ekki skattana, ef við brjótum umferðareglur eða önnur lög landsins getur ríkið beitt okkur ofbeldi – tekið af okkur fé, eignir eða frelsi okkar. Þegnar hafa ekki þennan rétt – þeir verða að leita réttar síns í gegnum stofnanir ríkisins. Þetta ofbeldi er réttlætt með því að það sé nauðsynlegt til að halda ríkinu saman og koma í veg fyrir upplausn þess. Þessi réttur ríkisins til ofbeldis er þó yfirleitt nokkrum takmörkunum háður. Þannig þarf dómsvaldið alla jafnan að hafa milligöngu um beitingu ofbeldisins, fólk er talið saklaust þar til sekt hefur verið sönnun og hafi fólk hreina samvisku á að ekki að þurfa að eiga það á hættu að verða beitt ofbeldi með því að það sé tekið til yfirheyrslu eða frelsi þess takmarkað á annan hátt. Lögreglan þarf að hafa rökstuddan grun um afbrot til þess að beita slíku ofbeldi. Á dögum Rögnu Árnadóttur í sæti dómsmálaráðherra voru lögð drög að því að breyta því fyrirkomulagi, með því að leyfa forvirkar rannsóknarheimildir, en sem betur fer hafa þau áform verið lögð til hliðar – a.m.k. að sinni.

Til staðar er tilhneiging í öllum stofnunum til að reyna að efla völd sín og áhrif og þ.a.l. túlka raunveruleikann þannig að sú túlkun styðji við slíkt. Þannig er t.d. hentugt að tala um aukningu glæpa í tengslum við vændi þegar hegðun sem var eitt sinn lögleg er gerð ólögleg. Það þarf ekki að vera um neina breytingu á atferli að ræða – þvert á móti eru líkur á að tíðni slíks atferlis hafi minnkað, en samkvæmt tölum hefur þá glæpatíðnin aukist. Það að ákveðin bifhjólasamtök ákveði að ganga til liðs við erlend bifhjólasamtök sem hafa illt orð á sér þýðir í orðræðu lögreglunnar að skipulögð glæpastarfsemi sé að festa rætur sínar hér – án þess að nokkuð hafi endilega breyst í starfsemi áðurnefndra bifhjólasamtaka eða að einhverjir hafi bæst í þeirra hóp erlendis frá.

Þessi orðræða er ekki ósvipuð orðræðunni í tengslum við hryðjuverkaógn og öryggismál. Á undanförnum árum er búið að ganga langt, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, í að veita lögreglu og öryggisþjónustu víðtækari heimildir og völd sem skerða persónulegt frelsi og mannréttindi þegnanna. Í Bretlandi var lífi fólks gjörbylt vegna atburða sem vissulega voru hræðilegir, en til að setja hlutina í samhengi þá dóu í hryðjuverkaárásinni jafn margir og deyja á tveimur dögum í umferðarslysum í Bretlandi. Á Spáni var tekin ákvörðun um að láta hryðjuverkaárásirnar sem urðu á Spáni um svipað leyti ekki verða til að stjórna lífsháttum fólks – túlkunin var sú að slíkt bæri vott um sigur hryðjuverkamannanna.

Eins og áður segir er það tilhneiging stofnana til þess að efla völd sín og áhrif. Það er hins vegar hlutverk stjórnmálamanna að dansa ekki eins og dáleiddar hænur eftir orðræðu þeirra og lepja hana upp gagnrýnislaust. Stjórnarskrá sem tekur af skarið með mannréttindakafla með skýrum ákvæðum sem tryggja mannhelgi og lágmarkar ofbeldi ríkisvaldsins hjálpar til þess.

 

Um hlutverk forsetans

Ég man eftir því, fyrir rúmlega tveimur áratugum þegar ég las stjórnarskrána í fyrsta sinn, að lýsingin á hlutverki forseta kom mér spánskt fyrir sjónir. Það var eins og að hafa talið sig vera að horfa á leikritið Skugga Svein og uppgötva svo skyndilega að handritið var Íslandsklukkan eða eitthvað annað leikrit. Lýsingin var af töluvert pólitískara hlutverki en ég hafði vanist að sjá í verki; forseti getur lagt fram frumvörp, skipað ráðherra og embættismenn, svo eitthvað sé nefnt. En svo er klikkt út með því að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt, sem er ákveðin þversögn í sjálfu sér.

Nú hef ég ekki miklar skoðanir á því hvert hlutverki forsetans í stjórnsýslunni á að vera - mér hefur hingað til þótt það helst hafa mótast af löngun fólks til að hafa konung til að klippa á borða og halda hátíðarræður. Kosningar til forseta hafa mér þótt frekar vandræðalegar – til hvers var forseti að sækja lýðræðislegt umboð til fólksins ef hann var í raun valdalaus „gaukur í klukku“ eins og Bubbi orðaði það – umboð til hvers? Núverandi forseti braut blað í sögunni með því að nota og virkja málskotsréttinn fræga. Ég man eftir umræðunni í tengslum við framboð Sigrúnar Þorsteinssonar til forseta, árið 1988, sem hafði sem sitt helsta baráttumál að virkja málskotsréttinn – flestir lögspekingar töldu hann þá óvirkan eða jafnvel ónýtan. Ég vil að fólkið í landinu geti sjálft knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál, ef nógu margir fara fram á slíkt. Þar með verður aukaatriði hvort forseti hafi slíkan málskotsrétt.

Ég held þó að andstaða almennings við að leggja niður forsetaembættið yrði of mikil og því þarf að finna skilgreiningu og skipan á því sem er sjálfri sér samkvæm - forseti Íslands getur verið sameiningartákn og rödd samvisku þjóðarinnar - en valdamikill verður hann ekki.


Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband