Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Hið nýja landslag

Ég upplifi oft ákveðna tilfinningu þegar ég kem heim til Íslands eftir veru í fjarlægum og ólíkum löndum. Um leið og ég geng út af Leifsstöð og við mér blasir fjallasýnin finn ég yfirleitt hvernig slaknar á einhverju innra með mér - ég er kominn heim, heim í eitthvað kunnuglegt landslag sem samsvarar "landslagi" innra með mér. Ég finn fyrir sambærilegri tilfinningu í dag gagnvart því samfélagi sem var hér á landi fyrir ekki svo löngu. Þetta samfélag var orðið mér framandi og í dag finnst mér ég kominn heim í kunnuglegra "landslag". Hér er þrátt fyrir allt að komast á samfélag með aðeins meira jafnræði og jöfnuði, nær því sem var og sem á betur við í svona fámennu landi. Laun hinna nýju bankastjóra eru t.d. eitthvað sem ég get skilið og haft skoðun á og jafnvel hneykslast yfir - þær upphæðir sem viðgengust áður ... maður klóraði sér bara í hausnum yfir þeim, tengdi ekki við þær. Þetta er kannski dýru verði keypt, en vel þess virði. 


Georgíu launaður greiðinn

Innrás Georgíuhers inn í Suður-Ossetíu var algjörlega glórulaus út frá langflestum sjónarhornum - nema kannski einu sem Pútín vakti athygli á skömmu eftir innrásina. Utanríkismál hafa verið talin einn veikasti bletturinn á framboði Obama til Bandaríkjaforseta. Órói og spenna á lykilstað í heiminum í nýju köldu stríði hefði því hentað repúblikönum vel og hefði mögulega getað dregið athyglina frá óþægilegri málum eins og efnahagsmálum. Forsætisráðherra Georgíu segir þjóðina djúpt snortna og auðmjúka vegna þessa örlætis sem Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra sýna núna með 4,5 milljarða dala aðstoð - með kveðju frá Bush fyrir veitta þjónustu. 

Um gullgerðarlist af ýmsum gerðum

Á undanförnum áratugum hafa komið fram á Íslandi, sem og í öðrum löndum, fyrirbæri sem byggjast á því að plata fólk – einhvers konar nútímaafbrigði af gullgerðarlist sem var stunduð til forna. Það sem þessi fyrirbæri eiga sameiginlegt er afneitun á einni meginforsendu vísindanna; að eitthvað geti orðið til úr engu. Ein einfaldasta birting þessa fyrirbæris kom fram hér á landi fyrir nokkrum áratugum; í keðjubréfum sem gengu manna á milli þar sem fullyrt var að ef keðjan væri ekki rofin myndu allir græða og stutt með einföldum reikningsdæmum sem voru þó aldrei reiknuð til enda. Nokkrum árum síðar mætti einn magnaðast „snákaolíusölumaður“ Íslandssögunnar, Kári Stefánsson, og seldi landsmönnum draum um eilífðargróðavél knúna af erfðamengi landsmanna, vél sem er núna er á síðustu dropunum. Kári notaði yfirbragð vísindanna til þess að ginna þúsundir landsmanna til þess að taka þátt í fjárfestingu sem var kynnt sem örugg þrátt fyrir að vera í hæsta áhættuflokki sem fjárfesting. Vissulega áhugaverð vísindi en vafasöm fjárfesting. Kári kemst þó ekki í hálfkvisti við útrásarvíkingana sem byggðu stærstu gullgerðarvél sem byggð hefur verið á Íslandi og tókst að flækja hvern einasta Íslending í plottið!


Kreppan og Kremlarbóndinn

Ég man ekki eftir neinni krísu sem ég hef lent í í lífinu sem hefur ekki leitt af sér eitthvað gott, opnað fyrir möguleika og tækifæri sem annaðhvort voru ekki til staðar áður eða ég sá ekki. Þannig held ég að "kreppan" okkar feli í sér ýmsa möguleika, þótt ég eigi erfitt með að taka hana alvarlega eftir að vera nýkominn fram hjá Indlandi þar sem 40% hækkun matarverðs skapar mun áþreifanlegri og alvarlegri kreppu. Hér höfum við ýmislegt til að vera þakklát fyrir, kannski sérstaklega fyrir að fá tækifæri til að hætta að vera svo vitlaus að trúa loftbólur og pípudrauma hlutafjármarkaðarins. Smá auðmýkt er líka holl og góð og minnir okkur á að það er hluti af mennsku okkar að þurfa á hjálp annarra að halda. Nú, svo hugsa ég sérstaklega hlýtt til sjálfstæðismanna sem fá tækifæri til að fara í almennilega andlega þarmahreinsun og skola niður síðustu leyfum kaldastríðsþankagangs um leið og þeir þiggja útrétta hönd Kremlarbóndans.

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband