Færsluflokkur: Dægurmál

Talað í hring

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, svaraði í Háskólabíói í kvöld spurningu um af hverju mætti ekki afnema eða frysta verðtrygginguna með eftirfarandi orðum: "Við þurfum peninga inn í bankana til að geta hjálpað fólki og fyrirtækjum í erfiðleikum" - erfiðleikum sem væntanlega má að stórum hluta rekja til verðtryggingarinnar!

Davíðsarmur Sjálfstæðisflokks - Andstaða við Evrópusambandsaðild

Í hádegisfréttum Bylgjunnar var talað um tvær fylkingar innan Sjálfstæðisflokksins, önnur sem varaformaðurinn, Þorgerður Katrín, talar fyrir og er opin fyrir að skoða inngöngu í Evrópusambandið, og hin kennd við Davíðsarminn, samkvæmt Bylgjunni, og er mótfallin henni. Ég veit ekki hvort þetta er með ráðum gert, að spyrða andstöðu við Evrópusambandsaðild saman við Davíð, en með stöðu Davíðs í dag í huga, þá dettur manni í hug að e.t.v. sé um pólitíska framsetningu að ræða. Það verður engum málstað til framdráttar í dag að vera kenndur við Davíð.

Ísland - Nígería norðursins

Ég átti í smá bréfaskriftum við kunningja minn frá Ítalíu í morgun. Hann, eins og margir aðrir, fær mjög ýkta mynd af ástandi mála á Íslandi í gegnum fjölmiðla. Við höfum báðir verið talsvert í Kenía og hann spurði mig hvort að þetta væri að verða eins og í Afríku hjá okkur. Í Silfri Egils áðan kom fram að Icesave reikningarnir í Hollandi voru stofnaðir í vor og þeim síðan lokað nú þegar bankarnir hrundu. Þá datt mér þessi samlíking við Afríku í hug, sérstaklega við Nígeríu, þar sem menn hafa verið mjög útsjónarsamir við að plata fólk á Vesturlöndum - þeim hefur þó aldrei tekist neitt í líkingu við þetta!

Svört spá seðlabanka - spá eða afleiðing eigin stefnu?

Svört spá Seðlabankans um aukið atvinnuleysi, lækkun húsnæðisverðs og annað í þeim dúr, vekur hugleiðingar um forsendur þeirrar spár. Það sem er áhugavert við spána er að þar hlýtur að telja allþungt þeirra eigin ákvörðun um að hækka stýrivexti, ákvörðun sem mörg dæmi sýna að hefur haft nákvæmlega þessar afleiðingar.

Um pólitíska ábyrgð

Segjum sem svo að yfirvöld slökuðu á umferðareglum og leyfðu 200 km. hámarkshraða, akstur á göngustígum og gegn hefðbundinni akstursstefnu, þ.e. slökuðu á öllum almennum umferðarreglum. Gætu þau vísað ábyrgðinni á gífurlega aukinni slysatíðni á almenning og bílaframleiðendur? Ríkisstjórnin bendir á auðmenn og almenning en minnast ekki á eigin ábyrgð - það var pólistísk ákvörðun að lækka bindisskyldu bankanna og ríkið ber ábyrgð á eigin eftirlitsstofnunum.

Stytta lagið og lengja söngvarann

Ég hef svo sem nánast ekkert fylgst með Eurovision forkeppninni hérna heima en umfjöllunin í Fréttablaðinu í morgun vakti athygli mína. Söngvarinn þótti of stuttur í einni grein og lagið of langt í annarri. Þetta er þá að meðaltali mátulegt, ekki satt?

Kæra dagbók...

Hingað til hef ég ekki notað blogg sem dagbók - en einn og einn dagur er þannig að hann er þess virði að skrifa um - eins og í gær:

Vaknaði hálf níu - ekkert of snemma miðað við að eiga grislinga sem eru tveggja og hálfs árs og að verða 7 ára. Við eigum okkur ritúal um helgar; annan daginn fer ég á fætur, hinn Sólveig. Það okkar sem fer á fætur, vekur síðan hitt um 10, með blöðum og kaffi í rúmið. Klukkutíma lestur og dorm, og ef krakkarnir eru rólegir fyrir framan sjónvarpið má teygja sig yfir rúmið og klípa í eitthvað af góðu holdi (mesta furða hvað það er mikið líf í manni miðað við að nálgast fimmtugsaldurinn) Á laugardaginn kom það í minn hluta að vakna. Klukkan 11 var síðan sett á góð tónlist - ég valdi Led Zeppelin II - og svo er tekinn klukkutími í tiltekt á fullu. Tekið úr og sett í uppþvottvél, eftir þörfum, moppað eða ryksugað, eftir þörfum, þurrkað af og tekið til. Einu sinni í viku, klukkan 12 að hádegi á laugardegi, lýkur ritúalinum - einu sinni í viku er íbúðin algjörlega hrein og fín.

Síðan tók við ýmislegt smávægilegt, klukkan hálf þrjú tók ég viðtal uppi í Grafarvogi við stofnendur Systkinasmiðjunnar - smiðja fyrir systkini fatlaðra barna og á hún 10 ára afmæli á þessu ári.

Upp úr hálfsjö fórum við að hafa okkur til fyrir óvissuferð (þ.e.a.s. fyrir mig, skipulögð af Sólveigu). Ég fór í nýja frakkann sem Sólveig gaf mér í jólagjöf og Inga Sóley litla, sem er rétt tveggja og hálfs árs, sagði upp úr þurru: Pabbi er algjör gæjari! og kom og kyssti mig. Síðan var lagt af stað - byrjuðum á austurlenskum veitingastað niðri í bæ þar sem vinafólk okkar slóst í hópinn. Svo var ekið af stað út í óvissuna sem reyndist vera Laugardalshöllin þar sem Þursaflokkurinn hélt upp á það að 30 ár eru liðin síðan hann kom fyrst fram. Tónlist þeirra stendur enn fyrir sínu - margt flott sem þeir fluttu með Caput-hópnum, en best fannst mér þó í lokin þegar þeir tóku syrpu með upphaflegu hljóðfæraskipaninni og enduðu á pönklaginu um hann Jón sem var kátur karl og hraustur. Setti góðan punkt á tónleikana.

Síðan enduðum með að koma við á Ölstofunni - hef ekki komið þangað býsna lengi - og hitti slatta af góðu fólki þar. Komum heim um hálf tvö, sem er einhvers konar met, allavega í seinni tíð. 


Um áhrif fyrirmynda

Mér, eins og mörgum öðrum, fannst mjög jákvætt þegar Paul Nikolov settist á Alþingi á dögunum - það var bara tímaspursmál að aðfluttir Íslendingar tækju þar sæti og eignuðust sinn fulltrúa. Hins vegar gerði ég mér fyrst grein fyrir því í gær hvað þetta skipti miklu máli fyrir þúsundir manna hér á landi. Ég var í kvöldmat hjá vinafólki okkar, hjá aðfluttum vini mínum sem giftur er íslenskri konu og fékk ríkisborgararétt fyrir nokkrum árum. Hann er með vel menntaður, með 10 ára háskólanám að baki - lauk námi frekar nýlega og er búinn að vera að leita sér að vinnu. Honum hefur ekki gengið of vel að finna starf á sínu sviði og var það aðeins farið að leggjast á sálina, en sagði mér að þegar Paul fór inn á þing hefði hann fyllst bjartsýni og sjálftrausti - ef Paul getur þetta, þá getur hann farið uppréttur inn á vinnustaði og sótt um starf við sitt hæfi. Þetta skipti hann greinilega miklu máli. Nýverið setti hann inn umsókn um styrk fyrir ákveðið verkefni og hefur fengið frekar jákvæð viðbrögð við því. Ég hef alltaf talið mig vita að fyrirmyndir skipta máli - þetta er svo sannarlega staðfesting á því.

Morgunblaðið

Ég las á dögunum um að frammámenn í Samfylkingunni væru að segja upp Mogganum vegna leiðaraskrifa blaðsins undanfarið. Það vakti hjá mér nokkrar hugleiðingar um blessaðan Moggann sem ég bar út um nokkrar götur í Hafnarfirði fyrir þó nokkuð mörgum árum. Ég hafði borið út Tímann og Þjóðviljann þar á undan en það var dreifður og tímafrekur útburður svo mér fannst ég hafa himinn höndum tekið þegar ég komst í að bera út Moggann. Síðan komst ég til frekari þroska og pólitískrar meðvitundar með vaxandi róttækni og þá fæddist þessi texti við lag í bílskúrsbandi sem náði aldrei úr bílskúrnum:

Aðgöngumiði

að úreltri skoðun.

Afturhaldsliði

guðsalmáttugsboðun.

 

Frumskógarlögmál

sem frelsi það býður.

Þá framgjörn smásál

á frekjunni skríður. 

 

Þitt íhaldssull 

er innflutt af könum.

Já útlenskt sull

á íslenskum krönum

 

Morgunblaðið, Morgunblaðið

Minningargrein um málstað. 

 

Svo liðu árin, kalda stríðinu lauk, múrar og flokksmálgögn féllu og eftir stóð Mogginn með algjöra yfirburðastöðu á dagblaðamarkaði. Við þær aðstæður gat hann leyft sér að losa um tök flokksins í blaðinu, verða víðsýnni og gagnrýnni og farið að vinna á eigin faglegu forsendum, sem hann og virtist gera. Ég tók Moggann í sátt (hef enda alltaf verið frekar sáttagjarn) og keypti mér áskrift og hef síðan verið í það minnsta með helgaráskrift. Þá kom að Baugsmálinu og búmm, Mogginn var allt í einu kominn aftur í skotgrafirnar - nú var óvinurinn ekki hinn illi kommúnismi heldur ákveðin öfl auðmanna í landinu - ekki réttu auðmennirnir. Mogginn var aftur orðinn flokksmálsgagn og hefur verið það síðan. Dálítið skrítið í landslagi dagsins í dag þar sem enginn annar flokkur hefur lengur eigið málgagn. Fréttablaðið var að vísu í mjög ákveðinni stjórnarandstöðu í kringum Baugsmálið en virðist í dag hafa meiri metnað í að vera fréttablað en eitthvað annað. Ég er enn með helgaráskrift - Lesbókin hefur blessunarlega fengið að halda sínu striki - sem betur fer.


Af Nígeríu-svindlurum og þjófsnautum

Öðru hvoru fæ ég, eins og margir aðrir, póst með einhverjum tilboðum um auðævi gegn lítilsháttar viðviki - oft og iðulega frá Nígeríu, en einnig frá öðrum löndum. Oft er um einhvern arf að ræða, nú, eða einhver stjórnmálamaður þarf að koma einhverjum sjóðum undan og nú nýverið var verið að vekja athygli á enn útsmognari leiðum til að plata fólk. Öðru hvoru heyrir maður af því að einhverjir hafi látið ginnast og sent út fé til að liðka fyrir auðævunum og eflaust eru þeir enn fleiri sem maður heyrir ekkert frá. Mér datt það í hug si svona, eitt skipti fyrir nokkrum árum þegar fyrrverandi verkalýðsformaður úr sjávarplássi úti af landi bar sig aumlega eftir að hafa verið plataður og fannst hann eiga einhverja vorkunn skilið. Mér fannst dálítið einkennilegt að hann væri að barma sér yfir að hafa ekki fengið að vera þjófsnautur í að stela frá fátæku fólki í Afríku, hvort sem það var nú ríkisstjórn, fyrirtæki eða fátækir erfingjar einhvers í fátæku Afríkulandi sem um var að ræða. Ég hugsaði bara; gott á hann.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband