Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að lepja upp án gagnrýni - leiðari Fréttablaðsins

Í leiðara Fréttablaðsins fjallar Ólafur Stephensen um áhrif hæstaréttardómsins um myntlánin og lepur gagnrýnislaust upp ummæli Franeks Roswadowskis, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um hvaða kostnaður leggist á ríkið ef hann verður staðfestur án nokkurrar verðtryggingar. Eini kostnaðurinn sem er nefndur er aukið hlutafé sem mögulega þurfi að leggja bönkunum til ef af þessu verður. Aukið hlutafé er ekki endilega kostnaður – það er líka fjárfesting. Það þýðir að ríkið mun eiga stærri hluta í bönkunum tveimur sem nú er að mestu leyti í höndum erlendra kröfuhafa. Þar að auki minnist hann ekki á þær auknu tekjur sem ríkið fær við að þessir peningar fara í umferð út í samfélagið í stað þess að fara í oftekna vexti.


Ég vil sanngirni - þegar hún hentar mér...

Áður en dómur hæstaréttar um myntlán féll man ég ekki eftir að neinn hafi haldið því fram að leiðrétta ætti myntlánin af því að kjör þeirra sem þau tóku væru mun lakari en þeirra sem tóku verðtryggð krónulán. Núna ganga menn fram, hver af öðrum; Kristinn Gunnarsson, Mörður Árnason og Gylfi Magnússon og vilja verðtryggja myntlánin, m.a. annars af því að ef skilmálarnir standi að öðru leyti muni kjör fólks með verðtryggð lán verða mun lakari en myntlánin. Skoðanabræður þeirra á blogginu birtast líka einn af öðrum og taka í sama streng án þess hafa nokkurn tímann skrifað stafkrók þegar hallaði á skuldara myntlána gagnvart skuldurum verðtryggðra lána. Þetta er eins og maðurinn sagði: "Ég vil sanngirni – þegar hún hentar mér." Auðvitað mega þessir menn hamast eins og þeir vilja, hæstiréttur er æðsta dómstig landsins og ekki er hægt að setja afturvirk lög til að breyta þessu.

Undirritaður hefur í gegnum tíðina talað fyrir inngripi stjórnvalda í myntlán þegar þau voru að sliga almenning og fyrirtæki í landinu. Lánveitendur þeirra, alla vega stóru gömlu bankarnir, voru virkir í að fella krónuna þannig að þessir pappírar sem nýju bankarnir tóku yfir voru alltaf gölluð vara – ef ekki lagalega, þá örugglega siðferðilega. Vinstri stjórnin á Íslandi valdi að grípa ekki inn í þessi mál. Ég treysti á að hún verði sjálfri sér samkvæm og grípi ekki inn í núna þegar almennir borgarar hafa réttinn sín megin. Og ef skynsamir menn eru við stjórn á lánastofnunum koma þeir nú með gott tilboð sem lágmarkar tap þeirra en bætir um leið skuldurum myntlána þjáningar undanfarinna mánaða. Hinn kosturinn er að útkljá alla óvissuþætti í gegnum hæstarétt - og það verður lánastofnunum ekki í hag.

 

Eru það bruðlarar sem velja lægstu vexti?

Pétur Blöndal tekur stórt upp í sig þegar hann ásakar þá tugþúsundir manna sem tóku myntlán um að hafa ekki sýnt ráðdeild og um áhættusækni. Fyrir utan þá staðreynd að bankarnir héldu þessum lánum að fólki sem hagkvæmum valkosti (og þeir áttu að heita sérfræðingarnir sem ósérfróður almenningur leitaði til) þá voru þetta lægstu vextir sem í boði voru og ef fólk vildi sýna varkárni og skoðaði gengisþróun undanfarinna ára, þá var ekkert í spilunum sem gaf tilefni til að halda að fyrir höndum væru slíkar hamfarir sem urðu. Þar með er Pétur líka að segja að meginþorri íslenskra fyrirtækjarekenda séu óráðssíumenn og áhættufíklar - en flest stærri lán til íslenskra fyrirtækja undanfarin ár hafa verið myntlán. Ég held, þvert á móti, að þeim sem hefur gengið vel í fyrirtækjarekstri hafa gert það vegna ráðdeildar og fyrirhyggju, vegna þess að þeir hafa alltaf leitað að ódýrustu kostunum - og þar með talið lægstu vöxtum.

Ákall um inngrip vegna myntlána

Núna tala fjármögnunarfyrirtæki um að þeir bíði eftir skilaboðum eða inngripi frá stjórnvöldum vegna hæstaréttardóms um myntkörfulán. Undirliggjandi er ósk um lög þar sem lögleg verðtrygging komi á lánin í stað þeirrar ólögmætu, þ.e. lánin hækki samkvæmt vísitölu auk vaxta. Stjórnvöld gripu ekki inn í þegar krónan féll og myntlánin ruku upp úr öllu valdi og lögðust með fullum þunga á lántakendur. Ef þau ætla að grípa inn í þessi mál núna til bjargar fjármögnunarfyrirtækjum sem veittu þessi ólöglegu lán eða bönkunum, þegar íbúðalánin fara sömu leið, þá er almenningur í landinu í djúpum skít - þá á hann enga málsvara lengur.

Gylfi og myntlánin

Einn af ókostunum við að setja embættismenn í hlutverk stjórnmálamanna er að þeir fyrrnefndu kunna oft á tíðum ekki að tala við fólk - almenning í landinu. Þetta kunna stjórnmálamenn, þótt á stundum komi frá þeim tómt froðusnakk í löngu máli þar sem þeir segja ekki neitt (undantekning er Jón Gnarr sem segir ekki neitt í stuttu máli) þá kunna þeir þá list að láta sem þeir séu að tala máli almennings og gæta þess að tala ekki niður til fólks. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, er gott dæmi um þetta. Hann var ekki búinn að sitja lengi sem viðskiptaráðherra þegar hann, í sjónvarpsviðtali, talaði niður til fólks í umræðu um skuldavanda heimilanna - sagði að það hefði ekki átt að taka þessi lán og gaf í skyn að þetta væri fólkinu sjálfu að kenna. Ummæli hans nú um nýfallinn hæstaréttardóm eru forvitnileg í þessu samhengi. „Það er með miklum eindæmum að þessi bolti fór af stað og að öllum þeim lögfræðingum sem útbjuggu lánasamningana hafi ekki tekist að gera þá þannig úr garði að þeir væru löglegir.“Þetta er áhugavert orðalag. Vandinn er sem sé sá að lögfræðingarnir hefðu átt að finna smugu til að komast hjá lögum um verðtryggingu í þessum samningum - eða hvað? Hverra erinda gengur Gylfi Magnússon í vinstri stjórn á Íslandi? Varla almennings.

Hvað áhrif hefur hrun Grikklands á Icesave?

Ástandið í Grikklandi hefur vakið upp vangaveltur um hrun landsins og mögulega keðjuverkun sem næði til annarra Suður-Evrópuþjóða og hefði svo áhrif á efnahagskerfið um allan heim. Í umfjöllun um Icesaveskuldir hefur verið rætt um að endurheimtur af eignum Landsbankans muni nema 80-90% af skuldinni þannig að þegar upp verði staðið muni eingöngu lítill hluti þess falla á Íslendinga - mesti bagginn verði vaxtakostnaður. Forsendur þessarar spár eru spár um hagvöxt og batnandi efnahag í heiminum - hvað gerist ef allt snýst til verri vegar og við horfum fram á stærri kreppu næsta áratuginn? Það væri áhugavert ef hagfræðingar færu að setja fram einhver möguleg módel um slíkt.


Skötuselurinn

Mörgum kann að þykja Samtök atvinnulífsins gera mikið veður út af skötuselsfrumvarpinu svonefnda. Það er auðvitað ljóst að LÍÚ stendur þarna að baki og þeir vita vel hvað er undir. Átökin um þetta frumvarp er hvorki meira né minna en fyrsta orrustan um hverjir muni eiga kvótann í framtíðinni - þjóðin eða nokkur fyrirtæki og einstaklingar. Fyrir okkur sem erum á móti núverandi skipulagi er auðvitað geysimikilvægt að skapa fordæmi, jafnvel þótt það snerti aðeins eina fisktegund - að búa til nýtt kerfi við hlið þess gamla svo fólk geti borið saman og hætti að taka núverandi kerfi sem sjálfgefið. Að sama skapa vita talsmenn útvegsmanna hve hættulegt slíkt fordæmi er þeirra hagsmunum og leggja því allt undir - þar með talinn stöðugleikasáttmálann þar sem hvergi er minnst á skötusel.

Færslan á kvótanum frá útvegsmönnum til þjóðarinnar er eitt mikilvægasta þjóðþrifamál um þessar mundir. Ég segi "frá útvegsmönnum" en í raun er eignin á kvótanum að miklu leyti hjá bönkunum eftir braskið um árið og þ.a.l. í höndum erlendra kröfuhafa sem eignuðust stærsta hlutann í þeim. Nú ríður á að stjórnin stígi fast niður - hún er með lýðræðislegt og siðferðilegt umboð til þess!


Af hverju munu Norðmenn ekki lána okkur án Icesave-skilyrða?

Það er einföld ástæða fyrir því að Norðmenn munu aldrei lána okkur norska krónu fyrr en við höfum gengið frá okkar málum við Breta og Hollendinga - það er af sömu ástæðu og þeir tóku ekki í mál að við tækjum hér upp norska krónu. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að Norðmenn hafi tvívegis hafnað inngöngu í Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu vill meirihluti norskra stjórnmálamanna enn að Noregur gangi í Evrópusambandið. Það hentar því norskum stjórnmálamönnum ekki að við fáum valkosti við evruna sem gjaldmiðil og það hentar þeim ekki að skera okkur niður í snörunni sem við komum okkur sjálfir í með Icesave - þannig gætum við frestað því að taka á samskiptavanda okkar við meginland Evrópu og það myndi minnka líkurnar á að við gengjum í sambandið. Norskir stjórnmálamenn vilja að við göngum í Evrópusambandið því það eykur líkurnar á að Norðmenn geri það líka.

 


mbl.is Fullviss að Norðmenn vilji lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagbók - Kenía

Mánudagur 20. júlí

Flaug með Air India frá Mumbay til Nairóbí.  Þetta var frekar gamaldags vél – í annað sinn á undanförnum áratug sem ég hef verið í langflugi þar sem ekki er skjár í bakinu á sætinu fyrir framan mann. Þýddi Ngugi eins lengi og rafhlaðan í tölvunni leyfði, sofnaði eitthvað og las svo Risk það sem eftir lifði ferðarinnar. Undir kvöldmatarleytið var ég kominn á hótel Downtown, Nairóbí. Það er orðið aðalhótelið mitt – áður var það alltaf SixEighty sem nú er orðið allt of dýrt. Heyrði í Ragga frá Nakuru og Lucy í Little Bees og sofnaði snemma. Svefninn var reglulega rofinn af hávaða – tónlistinni í veitingastaðnum á móti og þjófavarnarkerfi bíla sem fóru af stað, að því er virtist fyrir litla ástæðu allt um kring.

 

Þriðjudagur 21. júlí

Klukkan níu var Lucy mætt og tók megnið af þeim pökkum sem ég hafði komið með – minnkaði farangurinn um helming. Samdi svo um smá afslátt við Downtown hótelið – sex herbergi í tvær nætur nokkrum dögum síðar (fyrir sjálfboðaliðana) áður en Lucy fylgdi mér í 10 sæta matatú til Nakuru. Þetta var bara skottúr, tveir og hálfur tími. Á hótel Genivieve urðu fagnaðarfundir þegar ég hitti loks Linet og íslenska hópinn – allir nokkurn veginn heilir eftir tæplega tveggja mánaða „töff“ ferð um Indland og Kenía. Fékk að heyra nokkrar sögur áður en Raggi og Josephine bættust í hópinn. Plönuðum næstu daga – svo var slappað af og farið að borða á Taity‘s, ágætur matur og aldrei þessu vant tónlistin ekki í botni þannig að hægt var að tala saman. Spjallaði m.a. við Linet um Dan, ungan mann sem var á námskeiðinu sem ég hélt í maí (sjá mynd hér neðar frá bloggi 15. maí. Hann er sjötti frá vinstri) Hann hafði ekið mér nokkrum sinnum í maí og gaf mér Kenía-derhúfu – nokkrum vikum dó hann af lungnameini. Dan var ágætlega menntaður og vann við ýmis verkefni, m.a. í Súdan. Af því fólki sem við höfum unnið hvað nánast með síðan við byrjuðum á þessu starfi hérna í Kenía fyrir um 7 árum hafa fjögur dáið. Þrjú þeirra voru á milli þrítugs og fertugs – öll hæfileikarík og öflug.  Það kemur svona „súnk“ inni í manni þegar maður hugsar um það – og ef þetta endurspeglar samfélagið, eins og mér sýnist, þá er þetta gífurleg blóðtaka.

Við fórum frekar snemma í háttinn.

 

Miðvikudagur 22. júlí

Krakkarnir fóru eldsnemma af stað í þjóðgarðinn í Nakuru en ég varð eftir á hótelinu að þýða Ísöld 3 fyrir DVD útgáfu myndarinnar – hafði fengið það verkefni daginn áður. Dagurinn leið við það verkefni og dálítið af Ngugi. Undir fjögur labbaði ég með Josphine nokkurn spöl frá hótelinu þar sem hún sýndi mér nýja miðstöð sem hún er að setja á laggirnar. Josphine er ung stúlka sem hefur gengið í gegnum ýmislegt. Foreldrar hennar skildu þegar hún var mjög ung og síðan hefur hún aðeins séð föður sinn einu sinni. Það var í Nairóbí fyrir ekki mjög mörgum árum. Þá rakst hún á ungan mann sem hét óvenjulegu nafni sem föðurafi hennar hafði heitið. Hún gaf sig á tal við hann og kom í ljós að það var hálfbróðir hennar, nokkrum árum yngri. Hann fór með henni til föður þeirra – sem varð nokkuð hissa. Sagði að nýja konan sín vildi ekki að hann hefði neitt samneyti við hana eða systkini hennar – koma hennar ætti eftir að valda honum vandræðum. Sagðist svo myndi kíkja á hana þegar hann ætti leið til Nakuru – það hefur enn ekki gerst. Eftir að hann yfirgaf fjölskylduna á sínum tíma lentu þau í miklum vandræðum og Josphine lenti á götunni og þurfti sem unglingur að selja sig til að sjá systkinum farborða. Hún náði að rífa sig frá þessu og opnaði hárgreiðslustofu og vinnur nú með ungum konum sem eru í svipaðri stöðu og hún var. Í nýju miðstöðinni hitti ég þrjár ungar stúlkur sem sögðu mér sögu sína – ein þeirra, 23 ára og tveggja barna móðir, var á vergangi. Hún bjó inni á manni sem barði hana reglulega og var nýbúin að segja henni að hypja sig. Josphine er greinilega mikil stoð þeirra og stytta .

Um kvöldið komu svo krakkarnir – endurtekið efni á Taity´s áður en farið var aftur í háttinn á skikkanlegum tíma.

 

Fimmtudagur 23. júlí

CIMG0110Upp úr hádegi rölti ég með íslensku krökkunum í nýju miðstöðina hennar Josphine o.Co. Þar vörðum við 2-3 tímum í að fara yfir alla ferðina, jákvæða og neikvæða hluti og það sem mætti verða til að bæta úr – minnka þjáningu þeirra sem fara í svona sjálfboðaliðferð í framtíðinni J Í heildina virðist þetta þó hafa verið áhugaverð ferð fyrir alla. Uppi á skerinu munum við svo skoða nánar hvernig þau sem vilja geta lagt hönd á plóginn í framtíðinni.

Upp úr hálf sex mættu svo heimamenn á fund þar sem við fórum yfir þeirra hlið á málum, auk þess að tala um nokkur þemu frá sameiginlegum fundi sem haldinn var á netinu í júní – nettengingin við Kenía hafði ekki tekist vel þannig að það þurfti að ræða málin betur. Eftir þann fund mættu Íslendingarnir á staðinn, haldnar voru ræður og fólk kvaddist, knúsaðist og táraðist.

Síðan: Aftur Taity´s og svo á dansstað rétt hjá hótelinu þar sem dansinn var stiginn – mislengi að mér skildist morguninn eftir.

 

Föstudagur 24. júlí

Klukkan tíu vorum við komin af stað til Nairóbí. Ferðin gekk ágætlega, nema þegar komið var inn í Nairóbí, þar var nokkur umferðarteppa. Komumst þó þangað um eittleytið. Um klukkutíma síðar kom Mama Lucy og önnur kona – móðir litlu nýfæddu Brynhildar í Little Bees. Við höfðum haldið matatúinum sem við komum á frá Nakuru og fórum með honum til Little Bees. Á leiðinni var stoppað á lögreglustöð á leiðinni til að fá lögreglufylgd. Ég var dreginn inn á stöðina og látinn setjast hjá lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra svæðisins til að heilsa upp á þá. Þeir sögðu mér að þeir ættu mikla samvinnu með Lucy. Þegar börn fyndust á vergangi og engir foreldrar fyndust, færu þeir með þau til Lucy. Kvöddum þá svo og héldum í fylgd tveggja óeinkennisklæddra lögreglumanna til Little Bees. Stoppuðum þar líklega tvo tíma. Það er alltaf að bætast við barnahópinn í hvert skipti sem ég kem. Lucy staðfesti það; skólinn hefur vaxið frá 80 í 250 á undanförnum árum. Hjá Lucy var eitt barn sem lögreglan hafði fundið á vergangi og var búið að vera í nokkra daga. Ágústa, ein úr hópnum, tók hann í fangið og hann hjúfraði sig upp að henni .

Ferðin til baka gekk frekar hægt, enda var komið fram undir rökkur og mikil umferð. Kvöldið var frekar rólegt.

 

Laugardagur 25. júlí

Um ellefu komu Lucy og Victor og lóðsuðu okkur á Masai-markaðinn, sem var í um 20 mínútna göngufæri frá hótelinu. Þetta er býsna stór markaður og er bara opinn á laugardögum og þriðjudögum.  Sölumennirnir voru býsna ágengir og notuðu öll brögð til að koma af stað sölu. Ég tók eftir að ég er kallaður meira „papa“ en „brother“ – hm... Maður verður víst að sætta sig við að tíminn líður. Við dreifðum okkur um markaðinn - ég skannaði svæðið lengi áður en ég fór svo og keypti eitt og annað fyrir Múltikúlti.

Gengum þungklyfjuð heim á hótel og við tóku rólegheit - síðasta kvöld sjálfboðaliðanna í Nairóbí.

 

Sunnudagur 26. júlí

Morguninn var rólegur - lögðum af stað um eitt út á flugvöll. Umferðin var nánast engin svo við vorum fljót á leiðinni. Kvaddi þennan frábæra hóp við „International departure“. Var að hugsa, á meðan ég beið eftir flugi til Kisumu: Sýn þeirra og nálgun á þetta starf, auk einlægs ásetnings, er svo endurlífgandi fyrir sjálfan mig.

Fluginu til Kisumu seinkaði, auk þess sem vélin millilenti í Eldoret. Þar að auki varð bíllinn sem fór með mig frá flugvellinum bensínlaus á leiðinni á hótelið. Bílstjórinn stoppaði mótorhjól og fékk ökumanninn til að skutla sér eftir bensín á brúsa.

Allt þetta leiddi til að ég varð of seinn að hitta Tony Robinson, gamlan vin úr Húmanistahreyfingunni sem ég hafði frétt að væri í Kisumu. Það var komið á þriðja ár síðan ég hafði hitt Tony, en þar á undan höfðum við ýmislegt brallað og höfum svipaðar hugmyndir á mörgu. Hann var að vinna fyrir heimsfriðargöngu Húmanistahreyfingarinnar, hafði hitt Raila Odinga, forsætisráðherra Kenía, í vikunni og fengið hann til að lýsa yfir stuðningi á myndbandi. Þegar ég spurði hann hvernig honum litist á Odinga sagði hann að bókin (ævisagan) væri betri!!  Kjöftuðum svo lengi frameftir um hvað hefði drifið á dagana undanfarið.

Rölti svo upp á hótel Palmers, eina ferðina enn. Alltaf ljúft að koma þangað.

 

Mánudagur 27. júlí

Um morguninn kom Anne Lauren að hitta mig yfir morgunmatnum og skipulögðum við þessa fáu daga sem voru framundan. Lenti á kjaftatörn í lok morgunverðar við kínversk/bandaríska konu sem var á flakki um Austur-Afríku.Raggi og Josephine komu skömmu síðar og kjöftuðum við frameftir morgni.

Ég hafði vaknað með einhverja kvefpest og fór og keypti mér pillur áður en ég fór á netið á Mega Plaza.

Um þrjúleytið komu Anne, Wilkister, Davies og George og fóru með mér í matatú eitthvað út fyrir bæinn. Þar var hljóðlátur fundarsalur - eftir að við höfðum fengið okkur að borða, héldum við fund sem stóð í rúma 3 tíma. Þar var farið yfir svipaða hluti og við fórum yfir í Nakuru - fólk var jafn ánægt þar með heimsókn sjálfboðaliðanna. Eina „kvörtunin“ sem kom var þegar konur í einu þorpi höfðu varið nærri heilum degi við að elda jarðhnetusúpu, sem er í miklu uppáhaldi hjá þeim, þá voru sjálfboðaliðarnir lítt hrifnir og þótti hún súr.

Að fundinum loknum hitti ég Ragga og Josephine aftur og kvaddi þau. Þau voru bara í dagsferð í Kisumu – Raggi var að leggja drög að ýmsum verkefnum; Ísframleiðslu, vinnslu fiskroða og fleira. Hann átti eftir að fara aftur og koma hlutunum í gang.

 

Þriðjudagur 28. júlí

CIMG0154Klukkan 10 kom Anne Lauren með bíl og skelltum við okkur í Korando. Sú kínversk/bandaríska kom með – hún hafði ekki kynnst því hvernig fólkið býr til sveita, svo ég bauð henni með. Hún var skemmtilega „ferköntuð“ í spurningunum um starfið - hugsaði það út frá svona hefðbundnu hjálparstarfi í anda ný-nýlendustefnu, eins og er svo algeng. Kíktum á leikskólann hjá Anne Lauren og svo röltum við með henni til að heimsækja nágrannakonu hennar sem er mjög veik og Anne heimsækir nánast daglega til að gefa henni að borða og nudda hana. Hún og maðurinn hennar eru bæði HIV smituð en þegar hann varð óvinnufær var hún send aftur á sínar heimaslóðir og býr hjá mömmu sinni. Í dag liggur hún allan daginn hálf ósjálfbjarga á strádýnu á gólfinu. Kvartaði yfir að Anne hefði ekkert sinnt henni í gær. Ég játaði á mig sökina að hafa haldið henni upptekinni og var þetta allt á frekar léttum nótum. Síðan kvöddum við og fengum að borða heima hjá Anne. Skutluðum svo Lotus í rútu - hún var á leið til Uganda. Á leiðinni til baka lýsti hún yfir að hún vildi gjarnan styðja barn. Sjáum til hvað verður.

Upp úr tvö heimsóttum við Geoffrey lækni á heilsugæsluna. Hann var hress að vanda og fór með okkur upp í fundarherbergi upp á lofti. Þar komu síðan þær fjórar „sex workers“ sem fengu aðstoð frá Vinum Kenía í framfærsluverkefni. Þær voru allar búnar að endurgreiða svo hægt er að lána aftur. Þær voru allar á því að lánið hefði nýst þeim vel - þær hefðu getað keypt meiri lager af vörunum sem þær voru að selja, aukið úrvalið og haft meira sér til framfærslu. Þær voru ekki allar hættar „harkinu“ en sú síðasta sagði að nú þyrfti hún ekki að segja já við hvern sem er, ofbeldismenn og þá sem hætt var við að sviku þær um greiðslu.

Um kvöldmat kom Janess og við kjöftuðum frameftir – hann geturr verið býsna skemmtilega pælandi.

 

Miðvikudagur 29. júlí

Vaknaði um níu. Fór niður í banka – hraðbanki hafði gleypt kort hjá mér kvöldið áður. Þeir sögðu mér að koma aftur eftir klukkutíma, sem og ég gerði – þá á leiðinni út á flugvöll. Kortið var þá fundið og var ég samferða Anne Lauren út á flugvöll: Kisumu-Nairóbí-Mumbay-London-Keflavík.

       

Af hverju ættum við að hjálpa öðrum

Fyrir nokkrum dögum héldum við málstofu um spurninguna; af hverju ættum við að hjálpa öðrum? Málstofan heppnaðist mjög vel og vakti skemmtilegar umræður. Í gær heyrði ég enduróm frá þeim umræðum sem hafa haldið áfram í framhaldinu - einn þátttakendanna fékk að heyra eftirfarandi staðhæfingu: Hér á Íslandi þurfum við að hugsa um okkur sjálf núna og þau vandamál sem við höfum við að glíma. Dæmi var tekið af neyðarástandi í flugvél þar sem loftþrýstingur félli. Fyrst þyrfti maður að setja grímuna á sjálfan sig og svo á börn og aðra sem þyrftu hjálp. Þetta hljómar kannski sannfærandi við fyrstu skoðun, en ef maður hugsar aðeins um það og setur í stærra samhengi þá er það frekar eins og eftirfarandi lýsing: Við erum löngu komin með okkar súrefnisgrímu, hér er fólk ekki að deyja úr hungri eða neitt slíkt. Það er frekar eins og við þurfum að rétta aðeins úr sætisbakinu vegna þess að við finnum til smáóþæginda, við þurfum að klóra okkur aðeins í eyranu og setja á okkur smá svitalyktareyði og konurnar smá maskara - áður en við snúum okkur að þeim sem situr við hliðina á okkur helblár úr súrefnisskorti.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband