Tólf dagar í Kenía

Föstudagur 2. janúar

Lenti í Nairóbí eldsnemma eftir stutta viðkomu í Amsterdam og lengri þar á undan í London. Morguninn var frekar svalur en hlýnaði fljótt og þar sem ég ranglaði á milli veitingastaða og beið eftir fluginu til Kisumu hitti ég Val og Guinness, skoska vini mína – ég hafði staðið í þeirri trú að þau væru komin til Kisumu. Við fengum okkur að borða saman og instant kaffi úr dós, en þrátt fyrir að framleiða ókjör af kaffi er engin almennileg kaffimenning í Kenía – sama sagan og á Indlandi og annars staðar sem enskir hafa komið við sögu, kaffið er útbúið eins og te eða bara instant. Flug til Kisumu tekur innan við hálftíma, öðrum hálftíma síðar stóðum við í fordyri hótels sem kennt við heilaga Önnu. Tveimur tímum síðar komu John og Michael, tveir félagar okkar frá Indlandi, og þá var ekki eftir neinu að bíða; ásamt ellefu kenískum hvunndagshetjum fórum við að funda um málefni IHA (International Humanist Alliance) og hættum ekki fyrr en langt var liðið á kvöldið.

  Teambuilders meeting Jan09

Laugardagur 3. janúar

Eftir morgunmat, um 9, var haldið áfram að funda. Undir kvöldmat mætti Þórir Gunnarsson, gallvaskur frá Íslandi og sat það sem eftir lifði fundar. Hann hafði lent í Nairóbí snemma um morguninn en átti ekki flug til Kisumu fyrr en um eftirmiðdaginn svo hann notaði tækifærið og kíkti í heimsókn til Little Bees skólans í Nairobi – hitti þar Mömmu Lucy, kraftaverkakerlingu úr slömmum Nairobi og útdeildi gjöfum frá stuðningsforeldrum.

 

Sunnudagur og mánudagur 4.-5. janúar

Ég og Val héldum svokallað Phase II, eða framhaldsnámskeið, fyrir lykilfólk í hópunum sem við erum að vinna með. Þar var fjallað um ýmis þemu: Hugmyndafræðilegar grunnstoðir IHA, tilgang lífsins á 21. öld, persónulegar og félagslegar mótstöður við breytingum og ferlið frá hóp til „networks“ (tengslanet lýsir því ekki alveg). Námskeiðið er byggt upp sem blanda af fyrirlestrum, þátttökuverkefnum og leikjum og tókst mjög vel.

 

Þriðjudagur 6. janúar

Nú var skipt liði; Námskeið I var að mestu leyti í höndum Val, Michaels og Anne Lauren – ég tók bara Þórir Kenía 09 055þátt í blábyrjun og síðustu klukkutímunum. Þess á milli hafði ég tækifæri til að fara í jólasveinaleik og færa nokkrum börnum pakka frá stuðningsaðlinum á Íslandi. Á námskeiðið mætti fólk frá Kisumu, Migori, Sindo og Nakuru. Á meðan á því námskeiði stóð hélt Guinness annað námskeið um internetið. Þátttakendur voru nokkrir af þeim sem höfðu tekið þátt í framhaldsnámskeiðinu, auk fáeinna annarra. Hann fór yfir grundvallarhluti eins og tölvupóst og innskráningu og þátttöku í spjalli og fundum á netinu. Tölvunámskeiðið fór fram í tölvuveri Great Lakes University, skammt frá hóteli heilagrar Önnu, og var það fullt af tölvum með íslenskum lyklaborðum – tölvum frá Orkuveitu Reykjavíkur sem við sendum þeim í fyrra.

 

Miðvikudagur 7. janúar

Þegar byrjenda- og internetnámskeiðunum lauk, rétt upp úr hádeginu á miðvikudag, hélt Þórir vestur til Migori, að landamærum Tansaníu, en undanfarin ár hefur hann stutt grunnskóla þar, Goodwill Humanist Academy. Starfið þar hefur verið í nokkurri upplausn eftir að Florence Akinye, sem var aðalsprautan í því starfi, lést í fyrra og var markmiðið með för Þóris m.a. að koma málum þar í góðan farveg. Við hinir útlendingarnir fórum í heimsókn til miðstöðvar Anne Lauren í Korando, austur af Kisumu, rétt við Viktoríuvatnið. Kvennahópurinn þar tók á móti okkur með söng og dansi en síðan gekk Anne með okkur um nágrenni miðstöðvarinnar, kynnti okkur fyrir ýmsu fólki, m.a. tveimur unglingssystrum sem búa þar og annast yngri systkini sín, en fá hjálp frá miðstöðinni. Við miðstöðina sjálfa lék stór hópur barna sérIMG_2267_cr í fótbolta, boltinn var alvörufótbolti – víðast sér maður krakka í fótbolta í Kenía með bolta úr samanvöðluðu og -bundu plasti, hnoðuðu saman í kúlu. Þessi bolti var gefinn af stuðningsforeldri frá Íslandi. Hópurinn í Korando var búinn að gera ýmislegt frá því að ég var þarna síðast, m.a. girða af stóran akur til ræktunar við miðstöðina. Leikskólinn sem þær hafa verið að byggja er með bráðabirgðaþaki en stuðningsaðili á Íslandi lagði til aura til þess að setja á hann þak og verður það væntanlega komið á innan skamms.

Eftir heimsóknina var haldið aftur á hótelið í Kisumu en skömmu síðar vorum við sótt af öðru farartæki. Leiðin lá rétt út fyrir bæinn þar til beygt var inn í ríkmannlegt hverfi, inn í garð umluktan háum vegg með gaddavír efst. Þar var geysistórt hús á tveimur hæðum þar sem kunningjakona Michaels, Jane Ochieng býr. Jane rekur munaðarleysingjaheimili og er gift þingmanni úr flokki forsætisráðherrans, Raila Odinga. Ochieng var kosinn í frægu kosningunum fyrir rúmlega ári. Þar beið okkar síðbúinn kvöldmatur og spjall. Auk Jane var þar frændi hennar Bob, sem býr í New Jersey í Bandaríkjunum – skarpur karl sem starfar við rannsóknir á tryggingasvikum. Bob spurði mikið um ástand mála á Íslandi, fregnir af Íslandi fljúga víða.

 

Fimmtudagur 8. janúar

Um morguninn skildu leiðir, Val og Guinness héldu til Mombasa, Michael og John til Nakuru en ég, ásamt Janess Swama, ungum manni frá Suba-svæðinu við Viktoríuvatnið, stigum upp í rútu. Leiðin lá til bæjarins Sindo þar sem hann býr. Fólk tíndist inn og út úr farartækinu á leiðinni, sérstaka athygli mína vakti mjög dökk ung stúlka í skærbleikum bol sem á stóð: „Blonds are more cool,“ og vakti hugleiðingar um sjálfsmynd og hjálparstarf. Þótt þröngt væri í bílnum gekk allt greiðlega fyrir sig, „eftir að óeirðunum í kjölfar kosninganna lauk er fólk almennt kurteisara og tillitsamara,“ sagði Janess, „það hafa allir fengið nóg af ófriði.“ Við fórum óvenjulega leið til Sindo sem liggur vestur af Kisumu. Í stað þess að aka í vesturátt fórum við austur frá Kisumu og svo norður, en Kisumu liggur við botn fjarðar frá vatninu. Fjarðarmynnið er mjótt og tekur ferðin yfir aðeins um 45 mínútur. Bærinn sem ferjan leggst við heitir Mbita. Þar fór Janess með mig á skrifstofu í bænum sem hýsir miðstöð fyrir baráttu gegn kynbundnu ofbeldi. Hann kynnti mig fyrir konum sem þar starfa – þetta verkefni er eitt af mörgum sem hann kemur að. Síðan var haldið beint til Sindo, um 25 kílómetra leið. Þar mættum við beint á fund með hópi ungs fólks á staðnum sem er að vinna að ýmsum málum á staðnum í tengslum við börn og HIV. Eftir ræðuhöld og spjall þar var stokkið aftan á mótorhjól og keyrt eftir moldartroðningum enn vestar þar sem Jane, einn þátttakenda á byrjendanámskeiðinu, var með hóp sem vinnur að því að gefa munaðarlausum börnum og börnum fátækra mat. Eftir ræðuhöld og spjall, þar sem þau lýstu áhuga á því að tengjast stuðningsforeldraverkefninu okkar, var tekið til við að borða; kjúkling og ugali. Síðan var ekin sama leið til baka. Nóttinni varði ég í litlu hóteli í Sindo. Handan götunnar var spiluð hávær, lifandi tónlist vel fram yfir miðnætti – og það var hljóðbært, þau hefðu alveg eins getað verið í herberginu mínu að spila. Eldsnemma um morguninn voru settir í gang stórir bílar fyrir utan hótelið og þeim gefið vel inn – svefninn varð frekar stuttur og sundurlaus. Niðurstaða mín var að þetta væri næstversta hótel sem ég hef dvalið á – það versta er líka í Sindo, þar var ég fyrir 5 árum. Um morguninn bauð Janess í morgunmat og eftir að komast á netið í heilsugæslunni á staðnum hélt ég einn til baka til Mbita og tók ferjuna til baka og bílinn til Kisumu.

Þórir kom til baka frá Migori sama dag og bókuðum við okkur báðir á Palmers-hótelið. Um kvöldið var farið út, að ég hélt til að hlusta á lifandi tónlist. Þannig hófst það allavega en á fyrsta staðnum hittum við gamlan kunningja, lækni sem vinnur á heilsugæslunni sem Anne Lauren vinnur út frá, ásamt konu að nafni Carol, sem er fyrrverandi vændiskona og vinnur með honum að verkefnum sem snerta vændiskonur; að tryggja þeim ókeypis heilsugæslu og skapa þeim aðra valkosti sér til framfærslu. Fararkosturinn um kvöldið var ágæt jeppabifreið sem tilheyrði heilsugæslunni og enduðum við kvöldið á veitingastaðnum „Bottoms Up“, en þar sátu nokkrar stúlkur og voru að „harka“ og ein þeirra kom til okkar og sagði okkur sögu sína. Hún var innan við þrítugt, átti 2 börn og var HIV smituð.

 

Laugardagur 9. janúar

Um morguninn var haldið til Nakuru í 10 sæta Matatu, sem eru Toyota sendibifreiðar innréttaðar með sætum og einn helsti ferðamátinn í Kenía. Þegar ég kom fyrst til Kenía var troðið 19 manns í þessa bíla en 10 er svona mátulegt. Vegurinn til Nakuru var talsvert betri en þegar ég fór hann síðast og tók ferðin um 3 tíma. Á Chester-hótelinu í Nakuru beið okkar hópur um 30 sjálfboðaliða og voru haldnar ræður á milli þess að dreypt var á te og kaffi og etnar kökur. Síðan var farið út að borða og hlustað á og dillað sér við þjóðlega tónlist.

 

Sunnudagur 10. janúar

Morguninn eftir fóru allir nema ég í þjóðgarðinn í Nakuru, ég þurfti að vinna í þýðingaverkefni og átti eftir að ganga frá athugsemdum varðandi námskeiðin, sem ég og gerði. Þegar hópurinn sneri aftur höfðu þau gert góða ferð, séð ljón, hlébarða auk annarra dýra. Bavíani hafði rænt nestispoka Þóris og át banana og jógúrt með bestu lyst. Um kvöldið var Þórir svo orðinn fárveikur, með hita og í maganum – líklega matareitrun.

 

Mánudagur 11. janúar

Um morguninn hélt ég, ásamt Michael og John, til Nairóbí en Þórir varð eftir í góðum höndum Linetar, sem dreif hann til læknis sem dældi í hann lyfjum og hélt honum á sjúkrahúsinu yfir nótt. Ég kvaddi indversku vinina mína, sem áttu flug í eftirmiðdaginn, en fór sjálfur til Little Angels Adoption Agency í úthverfi borgarinnar, en það er félag sem hefur leyfi til alþjóðlegra ættleiðinga. Ég átti fund með forstöðukonunni sem upplýsti mig um hvað þyrfti til að opna fyrir ættleiðingar til Íslands. Þar á eftir bókaði ég mig inn á hótel og hélt áfram að vinna fram eftir kvöldi.

 

Þriðjudagur 12. janúar

Snemma næsta morgun lagði ég af stað til Kenyatta-háskólans, sem er rétt fyrir utan borgina. Þar tók Ezekiel á móti mér, en ég hitti hann fyrst í september í fyrra og hafði hann boðið mér í heimsókn. Ezekiel er kunningi Terry Gunnels sem átti frumkvæði að því að senda tölvur frá HÍ til Kenyatta-háskólans, fyrst 2005 og svo aftur í fyrra og unnum við að því með honum í bæði skiptin. Ezekiel starfar í dag sem yfirumsjónarmaður útvarpsstöðvar Kenyatta-háskóla. Hann gekk með mér um ganga og inn á skrifstofur og herbergi þar sem mjög víða mátti sjá tölvur með íslensk lyklaborð. Þar á eftir lá leiðin til Olive M. Mugenda, sem er Vice-Chancellor háskólans, en Ezekiel hafði bókað tíma hjá henni. Ég átti von á 5 mínútna kurteisisspjalli en lenti í 45 mínútna fundi með henni ásamt nokkrum toppum í háskólanum þar sem þau lýstu áhuga á meiri samskiptum við HÍ og Ísland almennt. Það kom mér mjög á óvart hvað þessar tölvusendingar til þessa næststærsta háskóla Kenía skiptu þá miklu máli. Hluti þessarar síðustu sendingar fór til menntamálaráðuneytisins í Kenía, til samhæfingarskrifstofa sem samhæfa starf hundruð skóla hver á sínu svæði. Öll þessi fyrirhöfn sem við lögðum á okkur í september til að koma tölvunum til landsins var allt í einu alveg þess virði. Ég var svo leystur út með gjöfum og teknar virðulegar myndir af mér og frú Mugende.

Seinna um daginn kom Þórir svo, hann hafði jafnað sig ótrúlega fljótt og vel. Með honum var Jeff, ungur maður frá Migori sem stundaði háskólanám í Nairóbí, en tók þátt í verkefninu í Migori. Jeff sagði mér að prófessor Mugende væri vel þekkt í Kenía, hún hefði unnið frábært starf með háskólann og hefði fengið sérstaka forsetviðurkenningu árið áður. Að lokum málsverði á ítölskum pítsustað í miðborg Nairóbí var farið snemma í háttinn.

 

Miðvikudagur 14. janúar

Við Þórir áttum flug hvor með sinni vélinni en brottför var aðeins með hálftíma millibili þannig að það hentaði ágætlega að fara saman út á völl. Við hittumst svo aftur í London og lentum skömmu eftir miðnætti í íslenskt myrkur og kulda.

 

Gamlárskvöld

Gamlárskvöld

 

Dvel hérna á litlu gistihúsi skammt frá Heathrow í herbergi við hæfi Spartverja; lítið, kalt og með lágmarksbúnaði. Á morgun liggur leiðin til Kenía með viðkomu í Amsterdam. Rölti í kuldanum í kvöld inn á kínverskt buffet, prýðismatur á þokkalegu verði – pundið hefur verið að falla fyrir evrunni og með sama áframhaldi ná þau saman innan skamms tíma.

Í netfréttum koma fyrir nokkrar fréttir í röð, Kryddsíld blásin af vegna mótmæla, búnaður Stöðvar 2 skemmdur og starfsfólk laskað og mótmælendur úðaðir – og þar fyrir neðan: „Ingibjörg vill friðarumræður.“ Um stund velti ég fyrir mér hvort hún sé að tala um Gaza-svæðið eða mótmælendur á Íslandi. Ákveð að hún sé að tala um hið fyrrnefnda en finnst það síðarnefnda ekki síður góð hugmynd – það þarf að eiga sér stað heiðarleg og hreinskiptin umræða á Íslandi og henni þurfa að fylgja aðgerðir ef það á að verða einhver friður.

Þrátt fyrir allt hefur þetta verið gott ár hjá mér þótt mér hefði ekki veitt af svo sem einum mánuði í viðbót. Þegar vinnubrjálæðið minnkaði fyrir jólin gerði ég smá átak og hafði samband við fólk sem ég hef trassað að vera í sambandi við og sem ég fann fyrir spennu þegar ég hugsaði um það – aðallega af því að ég hef ekki sinnt ákveðnum samskiptum og ekki gert eitthvað sem ég hefði átt að vera búinn að gera. Það er alltaf gott að tjá sig beint við fólk og nú þarf ég ekki að burðast með þessa spennu fram yfir á næsta ár – sem er svo sannarlega léttir.

Næsta ár... Einhvern veginn eitt stórt spurningamerki. Allir þessir erfiðleikar sem fela í sér alla þessa möguleika – í öllu falli mjög áhugavert ár framundan. 


Kreppa sjálfsímyndar

Flestir eru sammála um að hér sé kreppa. Fólk missir vinnuna, vöruverð og lán hækka - framtíð fólks lokast. Samt sveltur enginn og allir hafa húsnæði - og þannig verður það áfram. Kreppur síðustu alda þýddu hungur, sjúkdómar og vosbúð - þær voru upp á líf og dauða. Hver eru þá einkenni þessarar kreppu sem nú blasir við okkur? Hvað gerist hjá fólki á Íslandi er það tapar fjárfestingum sínum, missir atvinnu sína og eignir í samfélagi þar sem þessir hlutir hafa svo mikið vægi í að ákvarða og skilgreina hver við erum? Stór hluti okkar sjálfsímyndar er húsin sem eigum, bílarnir sem við ökum og störfin sem við gegnum - þessir hlutir eru í hættu og þ.a.l. er þessi kreppa fyrst og fremst kreppa sjálfsímyndar.


Í kjölfar kommúnisma og frjálshyggju ... og Davíð og Geir

Þegar kommúnisminn hrundi sögðu hörðustu kommúnistar að kommúnisminn í Sovétríkjunum sálugu hefði ekki verið alvöru kommúnismi heldur eitthvað allt annað. Það er áhugavert að heyra í hörðustu frjálshyggjupostulunum í dag: Þetta var ekki alvöru frjálshyggja ... líka bara eitthvað annað.

Svo er komin upp áhugaverð staða hjá Sjálfstæðisflokknum núna. Skjaldborg sjálfstæðismanna um Davíð stafar auðvitað af því að arfleifð hans er stór hluti af arfleifð Sjálfstæðisflokksins. Það útskýrir auðvitað ótrúlegt þanþol þeirra gagnvart seðlabankastjóranum. Eftir að Davíð hótaði Geir með pólitískri endurkomu er komin upp sú staða að arfleifð Geirs er að veði - ef hann bregst ekki við þessu hefur hann verið algjörlega niðurlægður. Geir þarf því að velja, og hann getur aðeins valið eitt af tvennu: eigin arfleifð eða Davíðs.

 


Davíð Oddson - Yfirumsjón gjaldeyrisskömmtunar ríkisins

Ef einhver hefði spáð því fyrir nokkrum árum að hlutskipti Davíðs Oddsonar, talsmanns frjálslyndis og einkaframtaks, ætti að verða að sjá um verkstjórn á gjaldeyrisskömmtun Seðlabankans, hefði sá hinn sami líklega aðeins uppskorið hlátur. En svona er nú Ísland í dag.

Talað í hring

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, svaraði í Háskólabíói í kvöld spurningu um af hverju mætti ekki afnema eða frysta verðtrygginguna með eftirfarandi orðum: "Við þurfum peninga inn í bankana til að geta hjálpað fólki og fyrirtækjum í erfiðleikum" - erfiðleikum sem væntanlega má að stórum hluta rekja til verðtryggingarinnar!

Davíðsarmur Sjálfstæðisflokks - Andstaða við Evrópusambandsaðild

Í hádegisfréttum Bylgjunnar var talað um tvær fylkingar innan Sjálfstæðisflokksins, önnur sem varaformaðurinn, Þorgerður Katrín, talar fyrir og er opin fyrir að skoða inngöngu í Evrópusambandið, og hin kennd við Davíðsarminn, samkvæmt Bylgjunni, og er mótfallin henni. Ég veit ekki hvort þetta er með ráðum gert, að spyrða andstöðu við Evrópusambandsaðild saman við Davíð, en með stöðu Davíðs í dag í huga, þá dettur manni í hug að e.t.v. sé um pólitíska framsetningu að ræða. Það verður engum málstað til framdráttar í dag að vera kenndur við Davíð.

Ísland - Nígería norðursins

Ég átti í smá bréfaskriftum við kunningja minn frá Ítalíu í morgun. Hann, eins og margir aðrir, fær mjög ýkta mynd af ástandi mála á Íslandi í gegnum fjölmiðla. Við höfum báðir verið talsvert í Kenía og hann spurði mig hvort að þetta væri að verða eins og í Afríku hjá okkur. Í Silfri Egils áðan kom fram að Icesave reikningarnir í Hollandi voru stofnaðir í vor og þeim síðan lokað nú þegar bankarnir hrundu. Þá datt mér þessi samlíking við Afríku í hug, sérstaklega við Nígeríu, þar sem menn hafa verið mjög útsjónarsamir við að plata fólk á Vesturlöndum - þeim hefur þó aldrei tekist neitt í líkingu við þetta!

Svört spá seðlabanka - spá eða afleiðing eigin stefnu?

Svört spá Seðlabankans um aukið atvinnuleysi, lækkun húsnæðisverðs og annað í þeim dúr, vekur hugleiðingar um forsendur þeirrar spár. Það sem er áhugavert við spána er að þar hlýtur að telja allþungt þeirra eigin ákvörðun um að hækka stýrivexti, ákvörðun sem mörg dæmi sýna að hefur haft nákvæmlega þessar afleiðingar.

Um pólitíska ábyrgð

Segjum sem svo að yfirvöld slökuðu á umferðareglum og leyfðu 200 km. hámarkshraða, akstur á göngustígum og gegn hefðbundinni akstursstefnu, þ.e. slökuðu á öllum almennum umferðarreglum. Gætu þau vísað ábyrgðinni á gífurlega aukinni slysatíðni á almenning og bílaframleiðendur? Ríkisstjórnin bendir á auðmenn og almenning en minnast ekki á eigin ábyrgð - það var pólistísk ákvörðun að lækka bindisskyldu bankanna og ríkið ber ábyrgð á eigin eftirlitsstofnunum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband