Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
15.5.2009 | 10:43
Skottúr til Kenía
Lenti í London í 17 gráðu hita og sólskin sem gerði jökulkalt vorið á Íslandi með snævi þöktum fjöllunum og gaddfreðinni skuldahítinni einhvern veginn enn nöturlegra. Hafði tékkað mig inn í gegnum netið áður en ég lagði af stað bæði hjá Icelandair og Qatar Airways og allt gekk því fljótt og snurðulaust fyrir sig. Millilenti í Doha um miðnætti eftir um 7 tíma flug 28 gráðu hiti þar, tilkynnti flugstjórinn rétt fyrir lendingu. Nokkuð löng bið um sjö tímar í ógurlega afkastamiklu loftræstikerfi sem olli því að eftir að mér tókst að leggja mig í nokkra tíma, vaknaði ég hálffreðinn. Hálsbólgan og hóstinn sem spratt í kjölfarið átti eftir að endast nokkurn veginn alla ferðina. Ferðafélaginn var Rauðbrystingurinn, eftir Jon Nesbö, en hann er næsta viðfangsefni bókaklúbbsins Æskunnar (nafnið kemur af örvæntingarfullri sjálfsblekkingu nokkurra miðaldra bókanörda).
Flugið til Nairobi er umtalsvert styttra eitthvað á fimmta tímann. Fann mér hótel sem var heldur ódýrara en í fyrri ferðum ég var aðeins lasinn en krónugreyið í enn verra ástandi, allt 60-70% dýrara en áður. Fór samt ágætlega um mig. Um kvöldið fékk ég heimsókn konu sem tók hjá mér 10 fótbolta sem Paul Ramses hafði beðið mig að taka með mér.
Morguninn eftir kom svo Mama Lucy úr Little Bees og tók af mér megnið af pökkunum sem ég hafði komið með. Seinna um daginn hitti ég svo hana aftur ásamt Victori, ungum fyrrverandi skjólstæðingi hennar úr Little Bees sem í dag hjálpar henni við rekstur skólans. Victor varð samferða mér í tíu sæta Matatu til Nakuru. Í Nakuru tók Linet á móti okkur, rak mig beina leið í lyfjaverslun og lét mig kaupa flensulyf og síðan í beint á hótelið.
Morguninn eftir byrjaði námskeið um húmanískt sjálfboðaliðastarf með 12 manna hópi. Helmingurinn frá Nakuru, hinn helmingurinn héðan og þaðan úr Vestur-Kenía. Námskeiðið gekk mjög vel, stærsti hluturinn ungt fólk, þriðjungur í háskóla. Umræðurnar voru skemmtilegar og frjóar á köflum. Það var aftur lítið hægt að tala saman um kvöldið þegar farið var út að borða á stað þar sem tónlistin var í botni og varla hægt að tjá sig nema með öskrum. Þar á eftir kíkt örstutt á dansstað. Dansvalið var pólitískt rétt; á víxl spiluð Kikuyu- og Luo-tónlist auk annarrar sem ég kann ekki deili á. Þar sem námskeiðið átti að halda áfram klukkan átta morguninn eftir var farið á skikkanlegum tíma inn á hótel og í bólið. Áður en svefninn tók völdin svifu um kollinn hugleiðingar um liðinn dag og kveiktu á þessari sjaldgæfu og dýrmætu tilfinningu um að vera að gera nákvæmlega það sem mann langar til að gera!
Námskeiðinu lauk rúmlega tvö á sunnudag. Eftir að við höfðum gætt okkur á tilapiu (fiskur) og geitakjöti kom einn sjálfboðaliðahópurinn með ýmislegt sem hann er að framleiða úr úrgangsefnum, töskur, veski , o.fl. Ég valdi sitt lítið af hvoru fyrir Múltikúlti áður en ég settist upp í Matatu á ný og brunað til Kisumu. Ferðin tók tæpa fjóra tíma og ég hafði nægan tíma, m.a. til að lesa staðarblöðin. Í Kenía eru þeir að reyna að koma saman nýrri stjórnarskrá þeirra, eins og okkar, er uppsuða úr stjórnarskrá nýlenduherranna. Þeir hafa þó hóflegri hugmyndir en við um mannafla í þessa vinnu þrettán manns koma að verkinu. Af hverju þurfum við sextíu og þrjá? Þá var nokkuð fjallað um atlögu stjórnvalda gegn talibönum Kenía, Mungiki-sértrúarhópnum. Hópurinn hefur vaxið undanfarin ár og er talinn ábyrgur fyrir fjölda morða í landinu. Þeir blanda saman sósíalískum hugsjónum um jöfnuð og afturhvarfi til gamalla gilda í Kenía þ.m.t. til umskurðar kvenna og annars slíks. Þá var vandræðaleg útskýring eins ráðherra ríkisstjórnarinnar á því hvernig hvarf á upphæð sem nemur 15 milljörðum íslenskra króna mætti rekja til tölvuvillu. Kom til Kisumu um kvöldmatarleytið frekar heimilislegt að rúlla inn á Hotel Palmers og heilsa upp á fólkið. Eftir að hafa kíkt í bæinn á boda-boda (reiðhjól með bólstruðum bögglabera fyrir farþega) og kíkt á netið, hitti ég Anne Lauren á Palmers og við fórum yfir dagskrá þessa eina dags sem ég átti í vændum í Kisumu.
Klukkan tíu um morguninn komu Anne, George, Davies, ásamt Janet litlu sem Bidda systir er að styðja sem mætti með frænku sinni. Við ræddum aðeins mál Janetar hún er á síðasta ári í grunnskóla, á næsta ári tekur við framhaldsskóli og ráðast möguleikar hennar af prófi sem hún þarf að taka í lok árs. Eftir það var fundað um komu ungu íslensku sjálfboðaliðanna í lok júní, gisting og verkefni og flestir lausir endar hnýttir . Var skotið föstum skotum á mig að nú yrði ég að koma og prófa að gista í heimahúsum líka! (Hvað er ég að koma mér útí?) Eftir hádegi röltum við Anne á heilsugæsluna og heilsuðum upp á Geoffrey lækni. Vinir Kenía byrjuðu nýlega að styðja við smálánaverkefni sem hann stýrir hann vinnur með hópi vændiskvenna sem eru að reyna að skapa sér annað lifibrauð. Hann er frekar praktískur: Við erum aðallega að reyna að fækka þeim skiptum sem þær fara á götuna minnka tíðnina og skapa þeim valkosti. Svo sagði hann mér sögu af einni sem var nýkomin af stað með eigin atvinnurekstur og gekk nokkuð vel. Hún hafði sagt að hún hefði mikið að gera, þegar hún kæmi heim á kvöldin væri hún of þreytt til að fara út og harka og svo átti hún hvort sem er nóg að borða! Þar á eftir fórum við Anne á stúfana og náðum í vörur frá starfsþjálfunarmiðstöð fyrir ungt fólk m.a. endurunnin kort sem hafa selst ágætlega í Múltikúlti. Um fimmleytið kom heilsugæslujeppinn og keyrði mig á flugvöllinn. Hálftímaflug, leigubíll í bæinn og inn á hótel. Þegar ég kíkti á netið beið dágott þýðingarverkefni sem ég fór langleiðina með að klára á heimleiðinni.
Bloggar | Breytt 20.5.2009 kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.5.2009 | 06:30
Brennum greiðsluseðlana á Austurvelli
Það eru undarleg rökin sem dynja yfir skuldara húsnæðislána á Íslandi. Viðskiptaráðherra talar niður til fólks í Kastljósi og segir að það hefði ekki átt að taka lánin og þeir sem veittu lánin hefðu ekki átt að veita þau. Síðan stíga hann og fleiri fram og höfða til siðferðiskenndar og löghlýðni - við eigum að borga það sem okkur ber samkvæmt samningum. Samningum á myntlánum sem blekið var varla þornað á þegar lánveitendurnir, gömlu bankarnir, tóku stöðu gegn krónunni og felldu hana jafnt og þétt með þriggja mánaða fresti þegar kom að uppgjörum og milliuppgjörum hjá þeim. Síðan afskrifa nýju bankarnir helminginn af þeim kröfum sem þeir yfirtaka frá gömlu bönkunum en ætlast til að "eigendur" íbúðahúsnæðis með neikvæða eiginfjárstöðu borgi að fullu! Verðtryggð lán okkar eru hækkuð með fölskum forsendum, neyslumynstri háþenslutímans 2005-2007 og íbúðaverði frysts markaðar sem á eftir að fara mun neðar. Ég dreg í efa að þetta með myntlánin muni reynast löglegt þegar upp verður staðið - lánasamningarnir sem nýju bankarnir tóku yfir hljóta að vera "damaged goods" og forsenda til lækkunar þeirra. Hvort tveggja, myntlánin og þau verðtryggðu, er örugglega siðlaust í þessu ástandi. Og ef ný stjórn kemur ekki með pólitíska lausn, þá er það í höndum okkar skuldaranna og borgaranna að taka af þeim ráðin einu sinni enn. Við mætum með greiðsluseðlana á Austurvöll og kveikjum í þeim. Ég ítreka - gefum stjórninni smá stund og látum svo verkin tala! Við úrtölumenn greiðsluverkfalla vil ég segja: Verkföll eru aldrei góð til skemmri tíma, hvorki fyrir þá sem fara í verkfall né fyrir þá sem verkfallið beinist gegn. Þau hafa þó verið nauðsynlegt tæki til að skapa það velferðarkerfi sem hér er til staðar og afleiðingar greiðsluverkfalls sem byggir á réttlátum kröfum er á ábyrgð þess sem það beinist gegn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2009 | 00:23
Tveir mánuðir í greiðsluverkfall!
Ég hef ekki viljað taka svo djúpt í árinni, eins og sumir hafa gert, að það sé eins konar borgarastyrjöld í aðsigi vegna húsnæðislána í samfélaginu. Viðtöl við forsætis- og viðskiptaráðherra í fréttum í kvöld gætu þó lagt sitt af mörkum til þess. Ég kaus þessa stjórn til þess að vera áfram í þeirri trú að hún ætlaði að taka á málum en í viðtalinu var sagt blákalt að með möguleikum á greiðsludreifingu, frystingu og öðru slíku, væri búið að gera það sem gera á í lánamálum! Þau hótuðu fólki að ef það tæki þátt í greiðsluverkfalli eða einhverju slíku, þá fengi það mögulega ekki greiðsluaðlögun og það var farið að tala um innheimtulögfræðinga. Skilur þetta fólk ekki að ef ekkert breytist verður fólki skítsama um mögulega greiðsluaðlögun eða innheimtulögfræðinga, hvorugt mun skipta neinu máli - það verður ekkert að innheimta hjá fólki sem á minna en ekki neitt og ef farið verður að gera fólk gjaldþrota vegna húsnæðisskulda eftir að búið er að hirða af þeim húsnæðið verður örugglega einshvers konar styrjöld á Íslandi. Það er líka að koma í ljós að þótt bankarnir eigi að heita í eigu ríkisins, þá haga þeir sér enn eins og glæpahyski. Þeir frysta myntlán en halda fullu eða auknu álagi - þeir tvö og þrefalda tekjur sínar af lánunum miðað við þegar þau voru tekin án þess að rekstargjöld hækki svo nokkru nemi - þeir eru með sín rekstargjöld í krónum! Mér þykir rétt að ráðrúm verði gefið til að mynda nýja stjórn og síðan fái hún einhverjar vikur til að byrja sín störf. Ef ekki verður búið að taka myndarlega á þessu innan tveggja mánaða eða svo, t.d. með því að færa niður verðtryggingarþátt lánanna, breytingu á myntlánum í krónulán miðað við sanngjarnt gengi, t.d. snemma í fyrra, mun ég hefja greiðsluverkfall!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eldri færslur
- Mars 2012
- Ágúst 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Nóvember 2010
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar