Kæra dagbók...

Hingað til hef ég ekki notað blogg sem dagbók - en einn og einn dagur er þannig að hann er þess virði að skrifa um - eins og í gær:

Vaknaði hálf níu - ekkert of snemma miðað við að eiga grislinga sem eru tveggja og hálfs árs og að verða 7 ára. Við eigum okkur ritúal um helgar; annan daginn fer ég á fætur, hinn Sólveig. Það okkar sem fer á fætur, vekur síðan hitt um 10, með blöðum og kaffi í rúmið. Klukkutíma lestur og dorm, og ef krakkarnir eru rólegir fyrir framan sjónvarpið má teygja sig yfir rúmið og klípa í eitthvað af góðu holdi (mesta furða hvað það er mikið líf í manni miðað við að nálgast fimmtugsaldurinn) Á laugardaginn kom það í minn hluta að vakna. Klukkan 11 var síðan sett á góð tónlist - ég valdi Led Zeppelin II - og svo er tekinn klukkutími í tiltekt á fullu. Tekið úr og sett í uppþvottvél, eftir þörfum, moppað eða ryksugað, eftir þörfum, þurrkað af og tekið til. Einu sinni í viku, klukkan 12 að hádegi á laugardegi, lýkur ritúalinum - einu sinni í viku er íbúðin algjörlega hrein og fín.

Síðan tók við ýmislegt smávægilegt, klukkan hálf þrjú tók ég viðtal uppi í Grafarvogi við stofnendur Systkinasmiðjunnar - smiðja fyrir systkini fatlaðra barna og á hún 10 ára afmæli á þessu ári.

Upp úr hálfsjö fórum við að hafa okkur til fyrir óvissuferð (þ.e.a.s. fyrir mig, skipulögð af Sólveigu). Ég fór í nýja frakkann sem Sólveig gaf mér í jólagjöf og Inga Sóley litla, sem er rétt tveggja og hálfs árs, sagði upp úr þurru: Pabbi er algjör gæjari! og kom og kyssti mig. Síðan var lagt af stað - byrjuðum á austurlenskum veitingastað niðri í bæ þar sem vinafólk okkar slóst í hópinn. Svo var ekið af stað út í óvissuna sem reyndist vera Laugardalshöllin þar sem Þursaflokkurinn hélt upp á það að 30 ár eru liðin síðan hann kom fyrst fram. Tónlist þeirra stendur enn fyrir sínu - margt flott sem þeir fluttu með Caput-hópnum, en best fannst mér þó í lokin þegar þeir tóku syrpu með upphaflegu hljóðfæraskipaninni og enduðu á pönklaginu um hann Jón sem var kátur karl og hraustur. Setti góðan punkt á tónleikana.

Síðan enduðum með að koma við á Ölstofunni - hef ekki komið þangað býsna lengi - og hitti slatta af góðu fólki þar. Komum heim um hálf tvö, sem er einhvers konar met, allavega í seinni tíð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband