27.9.2007 | 01:27
Nokkrir dagar í Tbilisi
Flugstöðin í Tbilisi er lítil, meira að segja miðað við Keflavík. Nútímaleg glerbygging, eins og höfuð flugu með þúsund augu og þrjá rana sem sjúga inn sveitta og svefnvana ferðalanga. Fyrir framan mig í biðröðinni að vegabréfsskoðuninni er ungt par sem heldur á vegabréfum sem sýna að þau eru frá Georgíu stúlkan brosir innilega til mín eins og hún hafi alltaf þekkt mig. Ég átti eftir að mæta álíka innilegheitum víðar í Tbilisi inni á stórmörkuðum, úti á götu íbúar Georgíu eru ótrúlega hlýlegt fólk. Fyrir utan taka á móti mér Giorgi og Nick, Giorgi er rúmlega þrítugur nokkuð líkur leikaranum Nicolas Cage án hártopps. Nick er ungur, hávaxinn og slánalegur. Við bíðum rúmlega hálftíma eftir Guinness frá Skotlandi sem mætir hálftíma síðar ekki í skotapilsi, þeim félögum til nokkurra vonbrigða.
Við fáum lánaða íbúð í einu úthverfa Tbilisi, í dæmigerðri sovétblokk. Hrörlegur stigangur, lyfta sem virðist vera frá seinni heimstyrjöldinni með myntsjálfssala sem greiða þarf í, kveikja á bakþönkum hefðum við kannski átt að vera á hóteli? Þegar inn í íbúðina kemur hverfa þeir, íbúðin er hin vistlegasta, með parketi og hlýlegum skápum í hnotubrúnum lit. Dyrnar úr rammgerðu stáli, þumlungsþykkar með þremur lásum Giorgi segir okkur að opna ekki fyrir neinum sem spyr ekki um okkur með nafni. Georgíubúar eru ekki slæmir, segir hann, en hér er yfir 60% atvinnuleysi og margir eiga erfitt.
Daginn eftir er borgin og næsta umhverfi skoðað. Tbilisi stendur á hæðóttu landi umhverfis ána Mtkvari. Langflestar byggingarnar eru stórar íbúðablokkir og minna á að landið var áður hluti af Sovétríkjunum. Þá má finna eldri hverfi með þröngum götum sem gætu verið hvar sem er í Suður-Evrópu. Samgöngumálaráðuneytið vekur athygli til húsa í ferlíki sem er eins og steypukubbar lagðir á víxl hver á annan líklegast sovésk framúrstefnulist. Þá má finna mjúkar ávalar línur íslamskrar byggingalistar á nokkrum eldri byggingum. Nafnið Tbilisi þýðir heitt vatn og á það sameiginlegt með nafni Reykjavíkur að það má rekja til hverasvæðis sem þar má finna. Kunnugleg hveralyktin stígur þar út úr lágreistum og hlýlegum múrsteinsbyggingum þar eru heilsuböð með grænleitu hveravatni.
Við ökum af stað út úr bænum. Hitinn er tæplega 30 gráður og umhverfið minnir helst á Spán. Eftir tæplega hálftíma akstur út fyrir borgina komum við að gömlu höfuðborginni, Mtskheta, eða gömlu Tblisi. Heimsækjum Sioni kirkjuna, þar sem í gólfinu má sjá grafir konunga Georgíu sem einnig voru skírðir í þessari kirkju. Á veggjum kirkjunnar má sjá brot úr fornum freskum sem hafa verið endurheimtar undan málningu sem kommúnistar settu yfir þær. Myndirnar eru alls ólíkar þeim sem maður á að venjast í kirkjum hinnar vestrænu kristni; við hlið postulanna eru ýmsar kynjaskepnur, m.a. hafmaður og dýr með mannseinkenni.
Komum við á markaði á bakaleiðinni. Giorgi talar um mat af mikilli ástríðu hann þreifar og lyktar af ávöxtum á markaðinum og andvarpar, nánast með kynferðislegum undirtóni. Borðum mat heima hjá fjölskyldu hans. Systir hans hefur eldað, aðallega grænmetisrétti sem er raðað á diskana í margvíslegu mynstri. Faðir hans, fyrrverandi kommúnisti, stjórnaði borðhaldi það þarf að skála fyrir framtíðinni, löndum okkar, friði og börnum heims. Síðan er spjallað og spurt og deilt staðreyndum um þjóðir og sögu. Undir niðri má greina hálfvolga nostalgía í minningum um tíma Sovétríkjanna þegar flestir höfðu vinnu, heilsugæsla og menntun var ókeypis allir höfðu það skítsæmilegt, en engin von um nokkuð betra. Nú á að heita frelsi til allra hluta, en frelsi hins fátæka er takmarkað.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.10.2007 kl. 13:33 | Facebook
Eldri færslur
- Mars 2012
- Ágúst 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Nóvember 2010
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.