Indland

Sessunautur minn í fluginu frá London til Naíróbí heitir Richard King og hefur áhugavert starf – hann vinnur að því að koma á friði. Samtökin sem hann tilheyrir heita Concordis International og starfa víða um heim að því að reyna að miðla málum á milli fylkinga þar sem eru vopnuð átök með því að koma á tengslum og umræðu. Hann er á leið til Súdan þar sem hans bíða ærin verkefni.

Undanfarin ár, þegar ég hef farið til bæði Indlands og Kenía í sömu ferð, hef ég yfirleitt flogið fyrst til Bombay, klárað mín mál í Indlandi, flogið frá Bombay til Naíróbí og svo sömu leið til baka í ferðarlok. Í þetta sinn er ódýrara að fljúga til Naíróbí og jafndýrt er á milli Naíróbí og Bombay, sama hvoru megin maður byrjar. Það neikvæða við þessa leið er að á flugvellinum í Naíróbí er langlélegasta aðstaða sem ég hef kynnst til að bíða og tólf tímar þar – mér tekst að vísu að dotta aðeins í stól en samt... Síðan tekur við stutt bið, bæði í millilendingu í Addis Ababa og í Bombay og svo liggur leiðin til Chennai. John tekur á móti mér á flugvellinum, við spjöllum saman á leiðinni á lítið hótel nærri flugvellinum en svo er höfuðið varla búið að snerta koddann þegar...

Daginn eftir flýg ég til Madurai – John er búinn að panta rútumiða fyrir mig til Kodaikanal en eftir allan þennan tíma á ferðalagi get ég ekki hugsað mér að sitja 9 tíma í rútu. Á flugvellinum í Madurai tekur Deenis á móti mér, en hann rekur hjálparsamtök í Madurai og nágrenni. Samtökin reka 11 dagvistarheimili fyrir börn, auk minni verkefna eins og kennslumiðstöðvar o.fl. Þrír sjálfboðaliðanna okkar tóku þátt í einu slíku hjá „tribal“ fólki í þorpi fyrir utan Madurai. Eftir að ég er búinn að henda töskunni inn á herbergi setjumst við niður og förum yfir verkefnið – plúsa og mínusa hans megin og hvað megi betur fara. Nota tímann um daginn til að undirbúa námskeiðið sem ég er að fara að halda í Kodaikanal og ljúka nokkrum óloknum verkefnum. Um kvöldmatarleitið kemur Deenis aftur – við fáum okkur kvöldmat uppi á þaki hótelsins – frábær veðurblíða og þægilegur kvöldandvari. Deenis kemur með sundurliðaða áætlun um hvernig hann myndi gera verkefnið aftur – dag fyrir dag.

Vakna fyrir allar aldir og fer út á rútustöð. Er rétt búinn að missa af einni rútu til Kodaikanal en eftir smá bið kemur leigubílstjóri sem hafði verið að aka fólki frá Kodaikanal á flugvöllinn í Madurai og var að leita að farþegum til baka. Verður úr að ég borga honum 500 rúpíur, sem er þriðjungur að því sem það myndi annars kosta í leigubíl, og er kominn með far til Kodaikanal. Leiðin upp í fjöllin er gríðarlega falleg. Ekið er með hlíðum þöktum þéttum skógi með útsýni á vinstri hönd yfir landið fyrir neðan, á veggjum meðfram veginum sitja apar og tína lýs af hverjum öðrum, íhugulir á svip. Leiðin frá Madurai er ekki löng – um 120 kílómetrar, en tekur um tvo og hálfan tíma. Ég renni inn að Jay hotel rétt fyrir ellefu. Þar taka John og Michael á móti mér, ásamt fimmtán öðrum þátttakendum.

Hálftíma síðar byrjar námskeiðið. Ég þekki ekki nema um helming þátttakendanna – hinn helmingurinn er fólk sem er nýkomið í samtökin okkar, ekki bara frá Tamil Nadu, heldur frá nágrannafylkjunum líka – Andra Pradesh og Karnataka. Ég er að prófa nýtt námskeið sem ég hef ekki haldið áður. Vinnuheitið á því er: „The Humanist Approach to Religion.“ Þegar mér er sagt að það séu tveir kristnir prestar á námskeiðinu, auk jógameistara sem haldið hefur mörg hundruð jóganámskeið, hugsa ég: Þetta verður áhugavert. Reyndar eru indverskir prestar ekki mjög „orthodox“, mér hefur sýnst þeirra andlega grunnur byggjast á indverskri speki, frekar en að vera kristileg tvíhyggja góðs og ills. Námskeiðið er í bland fræðilegt og verklegt – þ.e. verklegi hlutinn felst í að skoða og reyna að framkalla trúarlega reynslu og setja hana í annað samhengi en fólk gerir vanalega – efni sem var nokkuð stúderað í húmanistahreyfingunni í gamla daga.

100_2811

Námskeiðið gengur ótrúlega vel miðað við að þetta er fyrsta sinn sem ég held það og í lokasamantektinni virðast allir vera ánægðir. Reyndar er þetta efni sem, ef það virkar, tekur tíma að gerjast með fólki, þannig að ég þarf að heyra í þátttakendum eftir eina eða tvær vikur. Í lok dags held ég fund með þeim sem voru viðloðandi sjálfboðaliðaverkefnið; Sumathi í Salem, Eelangeran í Thorapadi, Chinnamaruthu og Shanmugan frá Ramanathapuram, auk Michaels og Johns. Förum yfir málin og ræðum það sem betur má fara – þeir stinga m.a. upp á því að dvalið verði lengur á hverjum stað svo að sjálfboðaliðarnir fái almennilega þjálfun í því sem þeir eru að gera. Það er býsna svalt um nóttina sem við gistum þarna – sef alklæddur með rúmábreiðu. Kodaikanal er í 1.800 metra hæð yfir sjávarmáli og á nýlendutímanum fóru Bretar gjarnan þangað yfir heitasta tímann.

Námskeiðinu lýkur um þrjú á sunnudag og þá fer ég ásamt Chinnamaruthu, Shamugam jógameistara og Barathi, sem rekur tímarit í Ramanthapuram,  í almenningsrútu – leiðin liggur til Muthukalathur þar sem Chinnamaruthu rekur stúlknaheimili. Þeir segja mér í upphafi að við verðum komnir upp úr átta en það er ekki fyrr en um miðnætti sem við skrönglumst í bæinn. Chinnamaruthu fer með mig heim til sín – hann og konan hans gista sjálf á heimilinu sem þau reka, þau hafa ekki efni á að ráða vaktmann. Sef ekki mjög vel – fæ loksins að kynnast aðstöðunni sem við bjóðum sjálfboðaliðunum okkar upp á!!! Einhver árans óværa í rúminu held ég, klæjar í annan handlegginn og sef varla nema 3-4 tíma áður en kominn er tími á að fara á fætur. Chinnamaruthu kemur og sækir mig um hálfsjö – meiningin er að hitta stúlkurnar á heimilinu áður en þær fara til skóla. Heimilið er í jaðri bæjarins, virðist hafa verið byggt sem einhvers konar samkomuhús og hafði staðið autt lengi áður en þau hjónin tóku það á leigu. Þau vörðu umtalsverðu fé í að koma því í stand – seldu m.a. alla gullskartgripi konunnar (algeng brúðkaupsgjöf) og reka það enn að stórum hluta með eigin fé. Vinir Indlands styðja fjórar stúlkur þar af samtals fimmtán, sem er mikilvægur stuðningur, en betur má ef duga skal. Eftir að stúlkurnar eru farnar í skóla er mér borinn morgunmatur á pallinum í fordyrinu á húsinu og spjalla við Rexline, konu Chinnamaruthu – hún talar prýðisgóða ensku, en Chinnamaruthu kann bara nokkur orð.

SAM_2489

Þegar komið er undir klukkan ellefu er kominn tími á að halda áfram för minni. Eftir hálftíma í rútu er ég kominn til Parmakudi, þar sem ég hitti Shamugan yfir tesopa áður en ég held áfram til Madurai þar sem ég gisti um nóttina. Morguninn eftir á ég flug til Chennai. John hittir mig á flugvelllinum og við höldum rakleiðis til Spencer Plaza. Þar versla ég sitt lítið af hverju, fer og skoða áprentun á kaffikönnur fyrir Múltikúlti (könnur með lógói Múltikúlti). Verðið er gott en flutningskostnaður mikill, nema það sé í mun meira magni en ég get gengið frá á staðnum. Niðurstaðan er að geyma það fram á sumar og taka einhvern slatta með heim í frakt. Frá Spencer Plaza förum við beint á flugvöllinn þar sem við hittum Michael – fáum okkur kaffi og spjöllum saman áður en ég fer út í flugvélina til Bombay.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband