17.3.2010 | 12:32
Kenía
Helgin fór í sjálfboðaliðanámskeið með fólki frá Kisumu, Nakuru, Suba og Íslandi. Mjög blandaður hópur en frábær stemning. Þegar námskeiðinu lauk á sunnudag var haldinn fundur með nokkrum hópstjórum í Kisumu. Farið var yfir sameiginleg verkefni; fósturbarnaverkefnið, sjálfboðaliðaverkefnið, plúsar og mínusar og öll hugmyndin skýrð betur.
Mánudagsmorguninn fór í snúninga en eftir hádegi lögðum af stað til Uji Verani hópsins, þar sem Wilkister heitin hafði stýrt starfinu. Fórum og skoðuðum leiðið hennar sem var í nokkurra metra fjarlægð frá húsinu. Yfir gröfinni var steyptur hlemmur en meðfram honum var moldarkantur þar sem nýgræðlingar af ýmsum gerðum teygðu sig upp úr jörðinni vel við hæfi, eins og grænir fingur grasakonunnar að teygja sig til himins. Við heimsóttum skóla Janetar, stúlku sem nýtur stuðnings frá Íslandi og er nýbyrjuð í Secondary School. Hittum kennara hennar sem gaf henni góðan vitnisburð og seinna hana sjálfa. Á bakaleiðinni stoppuðum við í Korando hlýjar móttökur þar eins og ævinlega. Borðuðum þar og héldum svo á starfsþjálfunarmiðstöð fyrir unga stráka sem búa til póstkort og ýmis vírvirki úr endurnýjanlegum hlutum. Verslaði slatta fyrir Múltikúlti áður en við héldum aftur heim á hótelið.Þriðjudagsmorguninn fór Gunnar með Janess til Suba til að skoða nokkur verkefni við Viktoríuvatnið. Ég átti flug til Nairobí klukkan 11.15 en þurfti fyrst að ganga frá skírteinum vegna námskeiðsins. Fengum að prenta þau í heilsugæslunni þar sem Anne Lauren vinnur. Geoffrey læknir er hættur að vinna þar en hitti ungan lækni sem hafði tekið við hlutverki hans. Ég sagði honum að Geoffrey hefði stundum farið með mig á dansstaði í Kisumu og spurði hann hvort hann ætlaði ekki að taka við því hlutverki líka. Hann hló við og sagðist myndi gera það næst. Hitti þar líka ungan og greindan strák að nafni Felix. Hann fær stuðning frá Íslandi og Anne sýndi mér dagblað sem innihélt lista yfir þá sem náðu bestum árangri í samræmdum prófum upp úr Secondary School hann var þar nr. 67 á svæðinu er einn af 400 efstu nemendunum af 300.000 á landsvísu. Spjallaði aðeins við hann hefur áhuga á tæknifræðinámi háskóla. Flaug til Nairobí og hitti Jökul og Súlu á hótel SixEighty. Þau höfðu gist í Little Bees um nóttina fyrir misskilning samkvæmt plani áttu þau að vera á hóteli. Þau létu ágætlega af reynslunni í Little Bees ekki amalegt að geta sagst hafa varið nótt í slömmi í Nairobí! Þar sem engum peningum hafði verið varið í hótel þá nótt var svigrúm til að gista á SixEighty hótelinu þá næstu. Fórum yfir plúsa og mínusa úr Indlandsdvölinni áður en við tókum okkur smá hvíld. Um kvöldið fórum við yfir götuna á Simmers þar sem borðuð var steik og dansað. Sýndist Jökull nokkuð ánægður með athyglina sem hann fékk. Ég rölti upp á herbergi upp úr ellefu en þau urðu eftir.
Hittumst í morgunmat á miðvikudagsmorgni. Þau höfðu verið fram undir morgun að skemmta sér voru ófús að fara og vildu treina Keníudvölina. Eftir morgunmat var klárað að fara yfir plúsa og mínusa í Kenía, síðan kvaddi ég þau þau áttu ekki að fara út á flugvöll fyrr en tveimur tímum síðar, en ég tók bíl að rútustöð þar sem ég tók express matatu til Nakuru. Ferðin tók rétt um tvo tíma. Las dagblað á leiðinni. Ein frétt vakti athygli mína: Kona hafði nýverið verið dæmd fyrir tvíkvæni. Athyglivert í þessu samfélagi fjölkvænis karla! Fór niður á hótelið og slakaði á þangað til það var kominn tími á að taka á móti Gunnari frá Kisumu. Hann var mættur fyrir tímann eins og venjulega. Slökuðum á það sem eftir lifði dags og enduðum með að borða á Taitys þar sem Josephine, konan hans Ragga, slóst í hópinn.Um morguninn kom Josphine og náði í okkur. Fórum með henni að skoða nýju hárgreiðslustofuna hennar og svo í slömmið að hitta ungar konur úr Alfa hópnum stúlkur sem eru að reyna að koma sér út úr vændi og skapa sér aðra tilveru. Hittum unga konu í bæjarhúsnæði. Hún var heima við en dóttirin á leikskóla. Hún borgar sjöfalt meira fyrir leikskólann en hún borgar fyrir leigu, en dóttir hennar er þar átta tíma á dag. Foresendur fyrir þessari löngu dvöl eru ekki þær sömu og hjá fólkinu hér heima á Íslandi. Það er ekki óalgengt að ráðist sé á stúlkubörn í þessu hverfi og þeim nauðgað.Því næst heimsóttum við barnaheimili nálægt þar sem Josphine býr, en þýskir aðilar reka heimilið í samvinnu við hóp á staðnum sem Josphine er hluti af. Er skemmst frá því að segja að þetta var stórt hús með stórum garði þar sem 15 börn bjuggu ásamt kokki, sem er um leið ráðsmaður, og tveimur öðrum. Miðað við aðstæður flestra annarra barna sem ég hef séð í Kenía er þetta eins og annar heimur. Um klukkan fimm byrjaði fundur með nokkrum aðalsprautunum í Nakuru þar sem farið var yfir málin líkt og í Kisumu. Sá fundur var mjög gagnlegur þar sem hugmyndir þeirra um sjálfboðaliðaheimsóknirnar voru nokkuð öðruvísi en lagt hafði verið upp með. Voru hlutirnir ræddir fram og aftur og skýrðir. Eftir fundinn fórum við rétt út fyrir bæinn og ókum eftir vegi sem hafði verið lagður tvist og bast einhver hafði lagt spotta eins og honum hentaði og annar bætt við, o.s.frv. Við enduðum í The Village sem er staður sem hópur Linet setti upp sem athvarf þegar óeirðirnar í kjölfar kosninganna 2007 stóðu sem hæst. Voru það aðallega konur sem byggðu húsið með hjálp múrara. Þar var útbúinn fyrir okkur matur og við; Linet, Sophie, Sam (einn þátttakandann á námskeiðinu), ræddum m.a. um ný stjórnarskrárdrög í Kenía, fóstureyðingar og samkynhneigð. Klukkan var langt gengin í miðnætti þegar við komum aftur heim á hótelið.Hittum Josephine hans Ragga um morguninn og vinur hennar skutlaði okkur upp á rútustöð þar sem við tókum express matatu til nairobi. Hafði bókað hótel sem heitir Mooreland hotel sem ég hafði aldrei gist á áður. Það er stutt frá miðbænum en verðið á herbergjum hóflegt. Við máttum engan tíma missa, hoppuðum upp í leigubíl og fórum á Little Angels Network ættleiðingamiðstöðina. Það hafa verið einhver vandamál í samskiptum Alþjóðlegrar ættleiðingar á Íslandi og Little Angels Network og fengum við þar skýringu að allt væri fast í kerfinu, ekki bara málefni Íslendinga, heldur einnig tveggja annarra stofnana frá Norðurlöndunum. Þegar því var lokið fórum við aftur á hótelið og fengum okkur aðeins að borða áður en Mama Lucy kom og náði í okkur til að fara með okkur á Little Bees. Í Little Bees var vel tekið á móti okkur eins og venjulega. Við vorum mættir um hálf fjögur á föstudegi og skólastarf í fullum gangi í hverri kytru. Á efri hæð nýju byggingarinnar voru eldri nemendur og eingöngu karlkennarar. Kvenkennararnir hafa neitað að ganga upp stigann þar sem hægt var að sjá undir pilsin þeirra á leiðinni upp. Nemendur í næstefsta bekk tóku á móti okkur með íslenskum orðum sem Jökull og Súla höfðu kennt þeim nokkrum dögum fyrr. Eftir kynningarferð um skólann hélt fimleikadeild skólans sýningu, nokkrir ungir drengir tóku heljarstökk afturábak og sýndu ýmis atriði allt á ósópuðum steyptum bletti á skólalóðinni (hugsaði með hryllingi með hvað myndi gerast ef þeir dyttu á hausinn). Þar á eftir var tískusýning hjá nokkrum stúlkum sem gengu með miklum tilþrifum fram og aftur og báru sig ótrúlega flott. Í lokin gengu þær allar í einni röð undir taktföstu lófataki en í bakgrunni fléttuðu tveir strákar afríkönsk stef inn í taktinn slógu þau á málmsúlur skólans.
Vorum komnir aftur heim á hótel fyrir myrkur. Fórum á Simmers og fengum okkur steik um kvöldið. Fengum tilboð um nudd sem við afþökkuðum og fórum heim á hótel.Lögðum af stað á laugardagsmorguninn niður í bæ, á Masai markaðinn. Þurftum að hrista af okkur nokkra skuggalega útlítandi menn sem vildu endilega hjálpa okkur við að versla áður en við fórum á röltið. Tókum okkur góðan tíma til að skoða hvað var í boði og kaupa sitt lítið af hverju. Hittum svo Lucy, Victor og litla stúlku sem heitir Brynhildur ásamt móður hennar. Héldum smá fund um herferð sem við erum að skipuleggja fyrir sumarið gegn ofbeldi gagnvart börnum.Um kvöldið kíktum við á Florida-klúbbinn. Ég hef einu sinni komið þangað áður og sá flotta danssýningu þar. Þar var reyndar engin danssýning en heimamenn ásamt nokkrum musungu (hvítur maður) að dansa. Sátum við borð með nokkrum konum sem voru að halda upp á afmæli einnar þeirrar. Tókum nokkra snúninga með þeim. Gunnar talaði svo fallega um Keníu að þær vildu endilega bjóða honum í glas (í 17 ferðum til Kenía hefur það aldrei komið fyrir mig). Þar sem klukkan var orðin margt og við áttum flug snemma um morguninn, afþakkaði hann og við kvöddum.Kvöddum svo Keníu morguninn eftir Naíróbí Amsterdam London Keflavík.Eldri færslur
- Mars 2012
- Ágúst 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Nóvember 2010
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.