Færsluflokkur: Spaugilegt

Nýr sími

Ég fékk mér nýjan síma um daginn - gamli félaginn í gegnum súrt og sætt síðustu árin, var orðinn lúinn og heyrðust í honum brak og brestir, ef maður ýtti ekki með hárnákvæmum þrýstingi, plús/mínus tvö bör, aftan á bakið á honum og sneri eilítið uppá. Þegar maður er í framboðsham og talar hástemmt um lýðræðisbyltingu í símann var erfitt að halda réttum þrýstingi og snúningurinn varð of mikið til vinstri. Mér líður enn dálítið eins og ég sé svikari - hann var þrátt fyrir allt nothæfur og hafði fylgt mér í 6-7 ár, en lífið þarf að hafa sinn gang og ég keypti nýjan síma. Mitt innlegg til aukinnar neyslu til að koma hjólum atvinnulífs heimsins í gang á ný... Eða þannig.

Dagur í lífi "homo politicus".

Mér hefur alltaf fundist prófkjörstími skemmtilegur tími. Maður gengur um bæinn og hittir fullt af elskulegum frambjóðendum sem hafa ofboðslegan áhuga á manni, eru kátir og kammó – hreint út sagt, yndislegir! Auðvitað er það ekki að ástæðulausu – þeir eru að leita að umboði – nýrri vinnu eða eru að reyna að halda gömlu vinnunni í bland við að reyna að koma hugsjónum sínum í framkvæmd. En samt ... maður er ekkert að gera sér rellu út af því – væri ekki heimurinn betri ef allir væru alltaf á leiðinni í framboð – og fólk væri stöðugt meðvitað um að það þarf á öðru fólki að halda? ... hm...

Nú er ég sjálfur kominn í þessa stöðu, á leiðinni í prófkjör, og það er forvitnilegt að skoða það frá hinni hliðinni. Ég tók t.d. eftir því í gær þegar ég stoppaði fyrir kunningja mínum á Hverfisgötunni til að skutla honum upp á Hlemm og hugsaði: Hefði ég gert þetta ef ég væri ekki í prófkjöri? Líklega hefði ég gert það en kannski ekki af jafn miklum ákafa – hann er meira að segja í sama flokki og ég! Ég finn líka að ég vanda mig meira þegar ég tala við fólk – þarf raunar að passa mig að fara ekki að tala eitthvað hástemmt, uppskrúfað mál í landsföðurlegum tón sem endar með andlegu og líkamlegu harðlífi undir vorið. Næstu dagar verða áhugaverðir – nokkrir dagar í lífi homo politicus. 


Í kjölfar kommúnisma og frjálshyggju ... og Davíð og Geir

Þegar kommúnisminn hrundi sögðu hörðustu kommúnistar að kommúnisminn í Sovétríkjunum sálugu hefði ekki verið alvöru kommúnismi heldur eitthvað allt annað. Það er áhugavert að heyra í hörðustu frjálshyggjupostulunum í dag: Þetta var ekki alvöru frjálshyggja ... líka bara eitthvað annað.

Svo er komin upp áhugaverð staða hjá Sjálfstæðisflokknum núna. Skjaldborg sjálfstæðismanna um Davíð stafar auðvitað af því að arfleifð hans er stór hluti af arfleifð Sjálfstæðisflokksins. Það útskýrir auðvitað ótrúlegt þanþol þeirra gagnvart seðlabankastjóranum. Eftir að Davíð hótaði Geir með pólitískri endurkomu er komin upp sú staða að arfleifð Geirs er að veði - ef hann bregst ekki við þessu hefur hann verið algjörlega niðurlægður. Geir þarf því að velja, og hann getur aðeins valið eitt af tvennu: eigin arfleifð eða Davíðs.

 


Talað í hring

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, svaraði í Háskólabíói í kvöld spurningu um af hverju mætti ekki afnema eða frysta verðtrygginguna með eftirfarandi orðum: "Við þurfum peninga inn í bankana til að geta hjálpað fólki og fyrirtækjum í erfiðleikum" - erfiðleikum sem væntanlega má að stórum hluta rekja til verðtryggingarinnar!

Ísland - Nígería norðursins

Ég átti í smá bréfaskriftum við kunningja minn frá Ítalíu í morgun. Hann, eins og margir aðrir, fær mjög ýkta mynd af ástandi mála á Íslandi í gegnum fjölmiðla. Við höfum báðir verið talsvert í Kenía og hann spurði mig hvort að þetta væri að verða eins og í Afríku hjá okkur. Í Silfri Egils áðan kom fram að Icesave reikningarnir í Hollandi voru stofnaðir í vor og þeim síðan lokað nú þegar bankarnir hrundu. Þá datt mér þessi samlíking við Afríku í hug, sérstaklega við Nígeríu, þar sem menn hafa verið mjög útsjónarsamir við að plata fólk á Vesturlöndum - þeim hefur þó aldrei tekist neitt í líkingu við þetta!

Stytta lagið og lengja söngvarann

Ég hef svo sem nánast ekkert fylgst með Eurovision forkeppninni hérna heima en umfjöllunin í Fréttablaðinu í morgun vakti athygli mína. Söngvarinn þótti of stuttur í einni grein og lagið of langt í annarri. Þetta er þá að meðaltali mátulegt, ekki satt?

Af vekjaraklukkum

Ég hlustaði aðeins á BBC í morgun á leið í kennslu - á umfjöllun um vekjaraklukkur. Þar voru spiluð ýmis afbrigði af vekjaraklukkuhljóðum og sagt frá ýmsum gerðum af vekjaraklukkum - ein færði sig um á gólfinu þannig að maður varð að elta hana uppi til að slökkva á henni, ein gaf rafstuð þegar maður reyndi að slökkva á henni, o.s.frv. Best fannst mér þó sú sem var nettengd og gefur framlag til einhvers málefnis sem manni er illa við, fari maður ekki á fætur og slökkvi á henni. Fyrir mig myndi eflaust virka að stilla á kosningasjóð Frjálslynda flokksins...

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband