Færsluflokkur: Bloggar

...að kjósa með buddunni

Ekki er neinn skortur á hugmyndum um af hverju VG fékk mun minna fylgi í kosningunum en skoðanakannanir gáfu til kynna. Að mínu mati stendur ein upp úr. Við gefum upp skoðanir í skoðanakönnunum út frá hjartanu en í kjörklefanum ræður buddan. Einhversstaðar heyrði ég því fleygt að skoðanakannanir um afstöðu gagnvart inngöngu Dana í Evrópusambandið hefðu ávallt verið á þá leið að meirihluti væri andvígur - bæði fyrir og eftir að þeir samþykktu það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef það er rétt, styður það þessa hugmynd.


Að loknu forvali

Þá eru ljósar niðurstöður forvals VG í Reykjavík - og auðvitað hefði ég viljað ná betri niðurstöðu. 269 greidd atkvæði er þó ágætis byrjun, sérstaklega ef tekið er mið af því að vera hvorki þingmaður, kona né ungur, og tilheyra því engri af þeim blokkum sem þarna voru að einhverju leyti til staðar. En ég er reynslunni og nokkrum vinum ríkari - og það er þó nokkuð.

Að morgni forvals

Vaknaði í morgun með hugsanir um nokkra hluti sem ég hefði átt að gera í gær, hefði getað gert betur. Ákvað svo að vera sáttur - ég gerði mikið í gær, miklu fleiri hluti en ég gerði ekki og flest gerði ég betur en illa. Búnir að vera áhugaverðir dagar. Fékk staðfestingu á að fullt af fólki sem ég hef ekki séð eða heyrt í lengi er enn góðir vinir mínir, fólk sem hefur einhvern tímann slest upp á vinskapinn hjá er samt vinir mínir þrátt fyrir allt. Og svo hef ég kynnst fullt af áhugaverðu og spennandi fólki. Þrátt fyrir að það sé einhver handavinna í dag og púsl, þá er aðal "aksjónin" búin og ég ætla að njóta dagsins, hitta fólk í kosningaskrifstofu VG og vera á góðum stað innra með mér. Ég hef ekki hugmynd um hvernig þetta forval fer en ég veit það eitt að ég er sáttur.


Dauðasveitir í Kenía

Ástæðan fyrir að Paul Ramses sótti um pólitískt hæli í fyrrasumar var að hann taldi sig í hættu vegna dauðasveita sem tækju stjórnarandstæðinga, eða andstæðinga forsetans, af lífi. Ýmsir drógu þetta í efa þá. Í ferðum mínum síðan til Kenía hef ég heyrt ýmsu hvíslað um slíkar dauðasveitir og að fjöldi fólks horfið sporlaust. Nýleg morð á "aktivistum" sem rannsökuðu þessar sveitir renna stoðum undir þennan orðróm - en þær eiga að tengjast her og lögreglu.


Nýr sími

Ég fékk mér nýjan síma um daginn - gamli félaginn í gegnum súrt og sætt síðustu árin, var orðinn lúinn og heyrðust í honum brak og brestir, ef maður ýtti ekki með hárnákvæmum þrýstingi, plús/mínus tvö bör, aftan á bakið á honum og sneri eilítið uppá. Þegar maður er í framboðsham og talar hástemmt um lýðræðisbyltingu í símann var erfitt að halda réttum þrýstingi og snúningurinn varð of mikið til vinstri. Mér líður enn dálítið eins og ég sé svikari - hann var þrátt fyrir allt nothæfur og hafði fylgt mér í 6-7 ár, en lífið þarf að hafa sinn gang og ég keypti nýjan síma. Mitt innlegg til aukinnar neyslu til að koma hjólum atvinnulífs heimsins í gang á ný... Eða þannig.

Dagur í lífi "homo politicus".

Mér hefur alltaf fundist prófkjörstími skemmtilegur tími. Maður gengur um bæinn og hittir fullt af elskulegum frambjóðendum sem hafa ofboðslegan áhuga á manni, eru kátir og kammó – hreint út sagt, yndislegir! Auðvitað er það ekki að ástæðulausu – þeir eru að leita að umboði – nýrri vinnu eða eru að reyna að halda gömlu vinnunni í bland við að reyna að koma hugsjónum sínum í framkvæmd. En samt ... maður er ekkert að gera sér rellu út af því – væri ekki heimurinn betri ef allir væru alltaf á leiðinni í framboð – og fólk væri stöðugt meðvitað um að það þarf á öðru fólki að halda? ... hm...

Nú er ég sjálfur kominn í þessa stöðu, á leiðinni í prófkjör, og það er forvitnilegt að skoða það frá hinni hliðinni. Ég tók t.d. eftir því í gær þegar ég stoppaði fyrir kunningja mínum á Hverfisgötunni til að skutla honum upp á Hlemm og hugsaði: Hefði ég gert þetta ef ég væri ekki í prófkjöri? Líklega hefði ég gert það en kannski ekki af jafn miklum ákafa – hann er meira að segja í sama flokki og ég! Ég finn líka að ég vanda mig meira þegar ég tala við fólk – þarf raunar að passa mig að fara ekki að tala eitthvað hástemmt, uppskrúfað mál í landsföðurlegum tón sem endar með andlegu og líkamlegu harðlífi undir vorið. Næstu dagar verða áhugaverðir – nokkrir dagar í lífi homo politicus. 


Einnota frumvarp Helga

Ég hef lengi verið talsmaður þess að auka hér lýðræð með ýmsum hætti, m.a. að með undirskriftasöfnum sé hægt að knýja fram mál. Nú ætlar Helgi Hjörvar, ásamt fleirum, að leggja fram frumvarp um að meirihluti kosningabærra manna geti knúið fram kosningar. Sú einstaka staða sem nú er uppi í íslensku samfélagi gerir það að verkum að mögulegt og líklegt er hægt væri að koma slíkri söfnun í gegn og það á einni viku eða svo. Hins vegar held ég að það verði aldrei slíkar aðstæður aftur og þess vegna er þetta einnota frumvarp. Eðlilegt væri að setja markið við 20-30% kosningabærra manna. Það er 40-60 þúsund manns og víst að er nóg mikill biti til þess að ekki yrði hægt að misnota það.

Bylting í miðbænum

Ég skrapp ofan í bæ í kvöld og upplifði stemninguna í mótmælunum, þungur taktur og ungt fólk að dansa í kringum bál sem varpaði bjarma á andlitshlífar lögreglumanna sem röðuðu sér á milli alþingishússins og fólksins. Minnti mig á myrkrið og sláttinn í Heart of Darkness, einni uppáhaldsbókinni minni. Svo varð mér hugsað til friðarins og rósemdarinnar í Kisumu í síðustu viku... 


Gamlárskvöld

Gamlárskvöld

 

Dvel hérna á litlu gistihúsi skammt frá Heathrow í herbergi við hæfi Spartverja; lítið, kalt og með lágmarksbúnaði. Á morgun liggur leiðin til Kenía með viðkomu í Amsterdam. Rölti í kuldanum í kvöld inn á kínverskt buffet, prýðismatur á þokkalegu verði – pundið hefur verið að falla fyrir evrunni og með sama áframhaldi ná þau saman innan skamms tíma.

Í netfréttum koma fyrir nokkrar fréttir í röð, Kryddsíld blásin af vegna mótmæla, búnaður Stöðvar 2 skemmdur og starfsfólk laskað og mótmælendur úðaðir – og þar fyrir neðan: „Ingibjörg vill friðarumræður.“ Um stund velti ég fyrir mér hvort hún sé að tala um Gaza-svæðið eða mótmælendur á Íslandi. Ákveð að hún sé að tala um hið fyrrnefnda en finnst það síðarnefnda ekki síður góð hugmynd – það þarf að eiga sér stað heiðarleg og hreinskiptin umræða á Íslandi og henni þurfa að fylgja aðgerðir ef það á að verða einhver friður.

Þrátt fyrir allt hefur þetta verið gott ár hjá mér þótt mér hefði ekki veitt af svo sem einum mánuði í viðbót. Þegar vinnubrjálæðið minnkaði fyrir jólin gerði ég smá átak og hafði samband við fólk sem ég hef trassað að vera í sambandi við og sem ég fann fyrir spennu þegar ég hugsaði um það – aðallega af því að ég hef ekki sinnt ákveðnum samskiptum og ekki gert eitthvað sem ég hefði átt að vera búinn að gera. Það er alltaf gott að tjá sig beint við fólk og nú þarf ég ekki að burðast með þessa spennu fram yfir á næsta ár – sem er svo sannarlega léttir.

Næsta ár... Einhvern veginn eitt stórt spurningamerki. Allir þessir erfiðleikar sem fela í sér alla þessa möguleika – í öllu falli mjög áhugavert ár framundan. 


Kreppa sjálfsímyndar

Flestir eru sammála um að hér sé kreppa. Fólk missir vinnuna, vöruverð og lán hækka - framtíð fólks lokast. Samt sveltur enginn og allir hafa húsnæði - og þannig verður það áfram. Kreppur síðustu alda þýddu hungur, sjúkdómar og vosbúð - þær voru upp á líf og dauða. Hver eru þá einkenni þessarar kreppu sem nú blasir við okkur? Hvað gerist hjá fólki á Íslandi er það tapar fjárfestingum sínum, missir atvinnu sína og eignir í samfélagi þar sem þessir hlutir hafa svo mikið vægi í að ákvarða og skilgreina hver við erum? Stór hluti okkar sjálfsímyndar er húsin sem eigum, bílarnir sem við ökum og störfin sem við gegnum - þessir hlutir eru í hættu og þ.a.l. er þessi kreppa fyrst og fremst kreppa sjálfsímyndar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband