Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011
7.4.2011 | 10:25
Af skuldum óreiðumanna
Nú stíga menn fram, hver á fætur öðrum og básúna í anda Bjarts í Sumarhúsum: Við borgum ekki skuldir óreiðumanna segjum nei við Icesave. Bjartur sjálfur orðaði þetta svona: Meðan ég sækist ekki eftir annarra manna gróða kæri ég mig ekki um að bera annarra manna skuld.
Vissulega geta margir ef ekki flestir tekið undir þessi orð en vandinn er bara sá að ef við lítum of einfeldningslega á þau, í anda Bjarts, að þá gætu örlög okkar orðið þau sömu. Auðvitað erum við alltaf að borga skuldir óreiðumanna; við tryggjum, með lögum um greiðslur í Tryggingasjóð launa, laun starfsmanna fyrirtækja sem fara á hausinn, með almannafé greiðum við skaðabætur sem ógæfumenn eru ekki borgunarmenn fyrir og meðlagsskuldir þeirra sem ekki standa skil á meðlagi. Við gerum það ekki vegna þessa óreiðu- og ógæfufólks, við gerum það vegna fórnarlambanna, vegna fólksins sem missti vinnuna og myndi annars að auki missa laun fyrir unna vinnu, vegna þolenda ýmis konar ofbeldis og glæpa og vegna barna einstæðra foreldra. Við borgum skuldir óreiðumanna til þess að minnka þjáningu grandalausra fórnarlamba vegna þess að við viljum telja okkur siðlegt samfélag.
Stærra samfélag
Þegar við tölum í dag um samfélagið sem við lifum í getum við ekki einskorðað það við Ísland. Við erum líka þátttakendur í stærra samfélagi þar sem við höfum ýmsar skuldbindingar, bæði lagalegar og siðferðilegar. Lagalegar í gegnum ýmsa alþjóðasamninga og siðferðilegar skuldbindingar sem eru þær sömu gagnvart öllu fólki sem við eigum samskipti við og skiptir þjóðerni engu í því sambandi. Á meðal þeirra sem hæst kalla nú um að við eigum ekki að borga skuldir óreiðumanna er fólk sem fékk sitt sparifé að fullu bætt. Það var í lagi að þeir fengu borgað sitt að fullu, það eru bara útlendingar sem voru viðskiptavinir íslensku bankanna sem mega éta það sem úti frýs. Ef íslenskar innistæður Landsbankans hefðu ekki verið að fullu tryggðar væri Icesave ekki vandamál þá hefði andvirði þrotabús Landsbankans dugað og vel það. En það var ákveðið að mismuna eftir þjóðerni (það er býsna aumt að hanga á því að mismununin hafi verið eftir útibúum en ekki þjóðerni) og þess vegna er Icesave vandamál í dag. Við slíka mismunun hefur kallið: Við borgum ekki skuldir óreiðumanna! holan hljóm og inngrip íslenskra stjórnvalda með neyðarlögunum gerði þetta að okkar máli.
Dómsstólaleiðin
Nei-sinnar hafa verið duglegir að benda á að það sé sjálfsagt mál að leita til dómstóla um úrlausn Icesave-málsins. Ég hef alltaf, svona almennt séð, litið á dómstóla sem þrautarlendingu ef allt annað bregst. Ef ég hef reynt viðræður og samninga, ef ég hef reynt að setja mig í annarra spor og ná sanngjarnri niðurstöðu í samningum ef allt um þrýtur, þá leita ég til dómstóla. Það er þá um leið ákveðinn vanmáttaryfirlýsing ég var ekki fær um að leysa málið öðruvísi. Vegna þess að við höfnuðum fyrri Icesave-samningunum náðum við mun hagstæðari samningum og getum vel við unað. Við, ásamt gervöllum hinum vestræna heima, gerðum stórt á okkur í fjármálum og við Íslendingar eigum að taka ábyrgð á okkar hlut en ekki að reyna að sleppa sem billegast frá því.
Förum varlega í að gera orð Bjarts í Sumarhúsum að okkar munum örlög hans; frjáls og sjálfstæður, já en allslaus og vinasnauður. Ég ætla að segja já þann níunda ekki af ótta við mögulegar afleiðingar, heldur vegna þess að ég vil ekki skammast mín fyrir að vera Íslendingur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
- Mars 2012
- Ágúst 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Nóvember 2010
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar