Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Skot-tur til Indlands

Þriðjudagur, 14. júlí

Lenti á Gatwick í London undir hádegið og í þeirri lengstu biðröð sem ég hef lent í fyrir framan vegabréfsskoðunina. Hún náði einhverja hundruð metra út úr tollafgreiðslusalnum fram eftir löngum göngum, fimm til sexföld á breidd. Mér varð um og ó þegar ég sá hana – þetta yrði seint búið. Þegar til kom gekk hún þó ótrúlega hratt – var kominn í gegn á innan við klukkutíma.

Fór í rútu yfir á Heathrow og dundaði mér þar í nokkra tíma við nokkur lítil þýðingarverkefni, verslaði mér myndavél (það er alltaf verið að skamma mig fyrir hvað ég er lélegur að taka myndir – góð byrjun að eiga myndavél!) og svo tvær bækur; Risk eftir Dan Gardner og OutliersThe Story of Success, eftir Malcolm Gladwell. Sú síðari var algjört „möst“. Ég á fyrir The Tipping Point (fjallar m.a. um líkindi félagslegra byltinga og veikindafaraldra) og Blink (Um innsæið, Blink = hvernig við tökum ákvörðun á augabragði byggt á innsæinu og ómeðvitaðri "rökrænni" úrvinnslu). Það sem ég veit um þá þriðju er að þar fjallar hann um snillinga, hvað það er sem skilur þá að frá öðrum. Niðurstaðan er víst að það sé að mestu leyti vinnan sem lögð er í viðfangsefnið, um 10.000 tímar, sem skapa snilling. Meðfædd gáfa er samkvæmt því ofmetin. Tók svo eftir að á forsíðu Risk var vísað í Malcolm Graldwell (Terrific ... has the clarity of Malcolm Gladwell).

Í flugvél flugfélagsins Kingfisher á leið til Mumbay byrjaði ég svo á Risk. Áhugaverð lesning um áhrif óttans, m.a. talað um hvernig rúmlega 1.500 Bandaríkjamenn létust í umferðarslysum eftir 9/11 umfram það sem hefði verið ef þeir atburðir hefðu ekki vakið ótta við að fljúga. Eftir atburðina fór fólk að aka meira en það er mun hættulegra en að fljúga (þótt hryðjuverkamenn brotlentu farþegaflugvél vikulega væri samt margfalt öruggara að fljúga en aka). Einnig áhugaverð pæling um hvernig við höfum smíðað samfélag sem passar fyrir vitsmunaveru sem er þó að litlu leyti til staðar, vitsmunaveru sem íhugar og rökræðir, allt mjög hægt. En við tökum margfalt fleiri ákvarðanir út frá annarri og eldri „vitsmunaveru“ sem lætur m.a. stjórnast af hlutum eins og hræðslu – sú „vitsmunavera“ er mun eldri en sú fyrri.

 

Miðvikudagur, 15. júlí

Lenti í Mumbay í rigningarsudda í rauðum sokkum – með kveðju frá Kingfisher. Biðin á innanlandsflugvellinum var frekar stutt – lenti í Chennai undir kvöldmat að indverskum tíma daginn eftir að ég lagði í hann. Á flugvellinum tók John á móti mér, þráttaði létt við hann um hvaða hótel ég ætti að fara á. Hann vildi að vel færi um mig, ég vildi spara – fékk mitt fram, fundum lítið og ódýrt hótel í Pallavaram, rétt hjá flugvellinum.  Settum niður fundartíma fyrir daginn eftir og svo fór ég beina leið í háttinn.

 

Fimmtudagur, 16. júlí

Vaknaði svo um tvöleytið um nóttina og gat ekki sofnað aftur. Dundaði mér við að þýða bók Ngugi wa Thiong‘o, Devil on the Cross eða Kölski á krossinum sem er fyrsta verkið sem útgáfudeild Múltikúlti gefur út. Ngugi er merkasti rithöfundur Kenía og einnig vel þekktur í mannfræðinni (Decolonizing the Mind) og kemur til Íslands í septemberlok.

Um morguninn skilaði ég af mér nokkrum þýðingaverkefnum á internetbúllu skammt hjá. Hraðinn á nettengingum hefur margfaldast frá því síðast – besta mál. Svo kom John og við byrjuðum að kíkja á reikningsuppgjör vegna komu sjálfboðaliðanna ungu til Indlands. Allt mjög skipulagt og vel gert, eins og hans er von og vísa. Síðan fórum við á Spencer Plaza, aðal „mollið“ í Chennai og gott ef ekki í Asíu (sagði einhver). Verslaði slatta af dóti fyrir Múltikúlti (reyndar dálítið meira en ég ætlaði) og druslaði því heim á hótel aftan á mótorhjólinu hans Johns áður en við fórum í mat heim til hans, þar sem ég hitti foreldra hans og systur. Skoðaði síðan nýja skrifstofu „Action India“ (félag sem þeir stofnuðu í kringum nokkur verkefni) á efstu hæðinni hjá honum.

Um kvöldið, þegar ég var kominn aftur á hótelið, var frétt í sjónvarpinu um Ísland. „Ísland ákveður að ganga í Evrópusambandið“ var yfirskriftin. Einhvern veginn ekki alveg eins og það er sett fram í umræðunni heima. Fréttin var nokkuð ítarleg með viðtali og myndum.

 

Föstudagur 17. júlí

Köflóttur svefn og endaði með að ég svaf fram að hádegi. Ýmislegt stúss um daginn sem endaði með að John kom og fylgdi mér á eitt flottasta hótelið í Chennai þar sem við hittum Michael. Mágur hans er hótelstjóri þar og býr í næsta húsi við Michael. Við fengum þarna flott buffet með óteljandi réttum, hver öðrum betri á 250 rúpíur á mann (brot af því sem það kostaði). Ég fékk ekki einu sinni að borga minn hlut (fékk yfirleitt frekar lítið að borga í þessari ferð, allir hafa mikla samúð með ástandinu á Íslandi :) Hótelstjórinn kom svo með yfirþjóninn og yfirkokkinn og kynnti fyrir okkur. Það var gaman að fylgjast með kokkinum. Indverjar kinka ekki kolli til að segja já heldur vagga höfðinu til hliðanna. Hann var með langa hvíta kokkahúfu og þegar hann vaggaði höfðinu var það býsna skondið.

 

Laugardagur 18. júlí

Eftir svefnlitla nótt var ég sóttur klukkan sjö um morguninn í Ambassador bifreið (ekki eins flott og það hljómar). Þar voru mættir John og bílstjórinn en við náðum svo í Michael og Deva Kumar skammt hjá og ókum af stað út úr bænum í átt að Thorapadi. Þar stóð til að vígja Grund Humanist Home for Children. Grundarnafnið kemur frá því að upphafið má rekja til framlags frá Grundarsjóði, sem var menningarsjóður sem var lagður niður og hluti hans rann í að byggja þarna barnaheimili að frumkvæði Gunnars Kvaran. Ferðin þangað tók um 3 tíma og þar tók á móti okkur dágóður hópur heimamanna, fulltrúa IHA (International Humanist Alliance), o.fl. Þar klippti ég á borða, fékk litaklessu á ennið og var sveipaður handklæði (bara ég og Michael fengum handklæði, hinir fengu bara einhverjar dúkadruslur) og fékk gefna gjöf, auk þess sem ég hélt smá ræðu. Á staðnum voru líka blaðaljósmyndarar og fréttamenn, auk nokkurra stráka sem munu búa þarna þegar starfsemin kemst í gang.

Síðan var farið í nálæga borg þar sem við fengum afnot af kennslustofu í skóla og héldum fund með nokkrum helstu sprautunum í starfinu í Tamil Nadu og fórum yfir ýmis mál. Allir voru mjög ánægðir með ferð sjálfboðaliðanna – virðist hafa lukkast vel frá þeim séð. Skoðuðum hvað mætti gera betur ef þetta verður endurtekið. Við enduðum á spjalli um þema síðasta mánaðar „Af hverju ættum við að hjálpa öðrum“ og spruttu af því skemmtilegar umræður og endaði á mjög góðum nótum.

Á bakaleiðinni var mikið spjallað – Michael sagði mér frá ýmsu sem gengið hefur á varðandi bygginguna í Thorapadi. Sá sem við byrjuðum með upphaflega og lagði til landið þar reyndist hafa einhvern dulinn ásetning og er þetta búið að vera ein allsherjar sápuópera þar sem hann hefur verið að reyna eitt og annað til að ota sínum tota og þvælast fyrir þegar það hefur ekki tekist. Öll sú saga er lengri en svo að þetta blogg rúmi hana, en virðing mín fyrir Michael óx við að hlusta á þetta (og var hún nokkur fyrir) – hvernig hann lítur á hlutina og leysir málin. Við renndum svo inn í Chennai upp úr kvöldmat.

 

Sunnudagur, 19. júlí

 

Rólegur morgun við þýðingar en rétt fyrir hádegi kom John og var samferða mér heim til Michaels. Þar beið matur – konan hans er ótrúlega góður kokkur. Svo fórum við upp á loft á skrifstofuna hans Michaels og fórum yfir nokkra hluti, skoðuðum myndir og myndbönd frá heimsókn sjálfboðaliðanna. Hann sýndi mér líka nokkrar myndbandsskýrslur um fósturbörn sem verið er að styðja. Frábær hugmynd og eitt verkefni sem næsti sjálfboðaliðahópur (ef við leggjum í þetta aftur) getur gert, bæði í Indlandi og Kenía. Klukkan var orðin fimm þegar við kvöddumst.

Kíkti á netið og hitti svo Deva Kumar og Louis. Deva kumar var með blaðaúrklippur frá menntaverkefni Vina Indlands í samvinnu við ýmis samtök í Tamil Nadu, með myndir af sjálfboðaliðunum við ýmis tækifæri. Textinn á tamílsku þannig að hann var lítt skiljanlegur en myndirnar töluðu fyrir sig. Átti gott spjall við Louis. Hann er skemmtilegur og ljóngáfaður kaþólikki sem vinnur við að dreifa smokkum og eiga samskipti við samkynhneigða (Hluti af fræðslu hans í slömmum vegna HIV, sem er útbreiddara en marga gæti grunað, sérstaklega á meðal sprautufíkla). Við ræddum m.a. dóm hæstaréttar í vikunni á undan þar sem úrskurðað var að kynlíf samkynhneigðra væri ekki ólöglegt á Indlandi. Hann sagði mér frá því að fyrir daga Breta á Indlandi hefðu verið musteri tileinkuð samkynhneigð (Khajraho musterið) en það hefðu verið Bretar með tilskipun 377: 18c, sem hefði gert samkynhneigð ólöglega. Áhugavert. Um kvöldið var svo pakkað niður í ró og næði.


Af hverju ættum við að hjálpa öðrum

Fyrir nokkrum dögum héldum við málstofu um spurninguna; af hverju ættum við að hjálpa öðrum? Málstofan heppnaðist mjög vel og vakti skemmtilegar umræður. Í gær heyrði ég enduróm frá þeim umræðum sem hafa haldið áfram í framhaldinu - einn þátttakendanna fékk að heyra eftirfarandi staðhæfingu: Hér á Íslandi þurfum við að hugsa um okkur sjálf núna og þau vandamál sem við höfum við að glíma. Dæmi var tekið af neyðarástandi í flugvél þar sem loftþrýstingur félli. Fyrst þyrfti maður að setja grímuna á sjálfan sig og svo á börn og aðra sem þyrftu hjálp. Þetta hljómar kannski sannfærandi við fyrstu skoðun, en ef maður hugsar aðeins um það og setur í stærra samhengi þá er það frekar eins og eftirfarandi lýsing: Við erum löngu komin með okkar súrefnisgrímu, hér er fólk ekki að deyja úr hungri eða neitt slíkt. Það er frekar eins og við þurfum að rétta aðeins úr sætisbakinu vegna þess að við finnum til smáóþæginda, við þurfum að klóra okkur aðeins í eyranu og setja á okkur smá svitalyktareyði og konurnar smá maskara - áður en við snúum okkur að þeim sem situr við hliðina á okkur helblár úr súrefnisskorti.

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband