Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

„Það er morðingi í stofunni“

„Það er morðingi í stofunni“, sagði lítil stúlka af kikiyu-ættbálki við móður sína þegar hún heyrði aðra litla stúlku af tala mál katenjin-ættbálksins við móður sína inni á hárgreiðslustofu í Nakuru í Kenía. Hún var nýkomin inn og ætlaði í klippingu en sneri við og hefur ekki komið aftur á þessa hárgreiðslustofu. Fólk af katenjin-ættbálkinum hafði brennt hús hennar og myrt ættingja hennar í ofbeldisöldunni sem gekk yfir Kenía eftir kosningarnar um síðustu áramót. Þetta er ein af þeim sögum sem ég heyrði á sjálfboðaliðanámskeiði sem ég hélt í Kisumu í Kenía um miðjan september. Umræðuefnið var andofbeldi, heimspeki þess og aðferðarfræði. Hluti af því felst í að fólk segir frá reynslu sinni af ofbeldi. Flestar sögurnar voru mun verri, fólk hafði ótrúlegar sögur að segja, en einhverra hluta vegna sat þessi í mér. Sú sem sagði frá rak hárgreiðslustofuna, hún er ung kona með sem hefur þurft að ganga í gegnum ýmislegt. Sem unglingur stundaði hún vændi um langa hríð til þess að framfleyta yngri systkinum og þurfti að þola margvíslegt ofbeldi, en vinnur nú í sjálfboðavinnu við að hjálpa stúlkum sem eru í svipaðri aðstöðu og hún var.

Nokkrum dögum síðar heimsótti ég Little Bees-skólann í „slömmi“ í Nairobi, en systir mín og móðir hafa safnað fé til að byggja upp skólann sem hefur gerbreytt ásýnd nánasta umhverfis hans. Þegar við vorum að ganga frá Little Bees sagði forstöðukonan, Lucy, mér hvaða götur hefðu tilheyrt hvaða ættbálki: „Þessi gata tilheyrði Kikyum, þessi Luo,“ o.s.frv. Fjöldi fólks var drepinn á þessum götum þegar það neyddist af einhverri ástæðu til að fara um svæði andstæðinganna. Á götunum var iðandi mannlíf fólks af öllum ættbálkum – undarleg tilhugsun að fyrir 8-9 mánuðum skildi þetta sama fólk hafa verið að reyna að drepa hvert annað.


Hvar myndu krókódílar staðsetja himnaríki?

Ég ætlaði að vera byrjaður að blogga nokkru fyrr eftir bilað sumar í vinnu – sumarið klárast en bilunin ekki ... fyrr en núna (krossa puttana) Eins og áður segir er ég nýkominn frá Kenía og Indlandi. Í flugvél Kenya Airways á leiðinn frá Bombay til Nairobi sóttu að mér eftirfarandi þankar:

Undanfarna daga höfum við verið í Tamil Nadu að blanda geði við innfædda á námskeiðum og heimsóknum. Það sem vakti bloggneistann hjá mér var nokkuð sem ég hef verið að þýða í ferðinni; bókmenntaleg umfjöllun um Gleðileik Dantes. Ég vissi í grófum dráttum um hvað hann snýst: Þar segir frá ferð Dante og Virgils um heima handanlífsins, sem Dante flokkar í þrjú meginsvið og hvert þeirra í nokkur undirsvið. Á hverju sviði dveljast sálir sem þar hefur verið skipað í samræmi við þær syndir sem þeir hafa ástundað. Í þessum kafla eru þeir félagar á rölti á milli logandi grafhýsa sem geyma trúleysingja og villutrúarmenn. Í umfjölluninni kom fram áhugaverð skilgreining á helvíti og himnaríki sem er samofin heimi Dantes. Í víti eru menn fastir í óbreytanleika, horfa til fortíðar því þeir hafa ekkert nema minningar sínar sem eru á einhvers konar hringspólun hjá þeim að eilífu. Hjá sálum í himnaríki er hins vegar framtíðin til viðmiðunar og án þess að það sé sagt, finnst mér gefið í skyn að þar sé möguleiki á einhvers konar breytingu – einhvers konar frelsun. Sem líkingarsaga um mannlegan veruleika er þetta áhugaverð nálgun. Það hafa verið skrifaðar greinar um hvernig vitundin túlkar framtíðina sem upp og fortíðina sem niður. Stafar af frekar einföldu gangverki: Við vöxum upp – framtíðin er þ.a.l. uppi. Sem vekur aftur á móti pælingar um lífverur eins og krókódíla – sem vaxa á lárétt. Hvar myndu krókódílar staðsetja sitt himnaríki?

 


Sumarfríi lokið

Jæja, þá er löngu bloggsumarfríi lokið - stórviðburðir dagsins: KJ byrjar að blogga aftur og Glitnir er orðinn ríkisbanki. Manni hlýnar í hjartarætur að vita til að gamli pilsfaldakapítalisminn er samur við sig og lifir af allar málamyndafrjálshyggjupælingar.

Annars kom ég frá Kenía og Indlandi á þriðjudagskvöldið en maginn á mér lenti ekki fyrr en í gær. Geri grein fyrir hápunktum ferðarinnar hér á næstu dögum... Meðfylgjandi mynd er tekin eftir námskeið sem við héldum í Chennai í upphafi ferðarinnar um húmanískt sjálfboðaliðastarf. Með mér á myndinni eru fulltrúar ýmissa félagasamtaka auk ferðafélaga minna: Höddu Bjarkar og Mögnu.námskeið chennai sept08 copy


Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband