Indland - júlí 2010, seinni hluti

Klukkan 10 morguninn eftir voru 17 manns mættir á námskeið sem fór fram á hótelinu. Flestir frá Ramanathapuram-svæðinu en nokkur norðar; frá Salem og Chennai og nágrenni. Michael hélt með mér námskeiðið, en það er kallað „phase 2“ og er framhaldsnámskeið á eftir „phase 1“ sem hefur verið aðal sjálfboðaliðanámskeiðið hjá okkur í gegnum tíðina. Námskeiðið hófst klukkan 10 og var klukkan langt gengin í sex þegar við hættum. Þetta námskeið er í senn háheimspekilegt og með mikið af leikjum og skemmtir fólk sér undatekningarlaust vel. Á þessum fyrri degi rifjuðum við upp helstu atriði phase 1, fórum í hugmyndafræði IHA (International Humanist Alliance) og fólk fékk þau verkefni í hópvinnu að leysa ýmis félagsleg ágreiningsefni með notkun þessarar hugmyndafræði og síðan var hið sama gert með persónuleg vandamál. Næsta þema var „Tilgangur lífsins á tuttugustu öld“, þema sem undantekningarlaust vekur skemmtilegar umræður. Eftir að dagskrá dagsins lauk var okkur boðið í heimsókn til eins þátttakanda í um korters fjarlægð frá hótelinu. Þar fengum við te og meðlæti og var ég látin fletta í gegnum risastórt myndaalbúm frá giftingu dótturinnar síðastliðið vor. Þar voru endalausar myndir af brúðhjónunum þar sem þeim var stillt upp við hliðina á gestum og sjá mátti hvernig þau voru sífellt lúnari eftir því sem leið á albúmið – ég held að jafnist á við maraþon að gifta sig á Indlandi.

Morguninn eftir vaknaði ég rétt fyrir 7, en ég hafði mælt mér mót við mann að nafni Shamugan og fór ég með honum í heimsókn til miðstöðvar hans í um hálftíma fjarlægð. Shamugan er læknir og doktor í jógafræðum og hafði verið mjög virkur í umræðum á námskeiðinu. Á miðstöðinni hans er dreift lyfjum ókeypis til fátækra – þar á meðal mikið af náttúrulyfjum. Auk þess stendur hann fyrir ýmsum öðrum verkefnum. Hann talar ágæta ensku svo við gátum spjallað um mjög margt. Það kom í ljós að hann var alveg á sömu bylgjulengd og ég í sambandi við sjálfboðaliðaverkefnið – að líta ætti á þá sem „workers“ en ekki „special guests“. Ræddum það fram og aftur og þóttist ég búinn að finna þarna góðan samherja. Klukkan tíu vorum við komnir aftur á hótelið, þar sem haldið var áfram með námskeiðið og fjallað um „networking“ (vantar almennilega þýðingu, bygging tengslaneta nær því ekki). Í þessum hluta var mikið af leikjum og mikið hlegið. Námskeiðinu lauk svo um hálf þrjú og þá tókum við hlé áður en ég fór yfir stutta námskeiðið sem ég hafði verið að prófa í Keníu. Ég var aðeins búinn að laga það en kom skemmtilega á óvart hvað þau voru gríðarlega ánægð með efnið. Um kvöldið heimsóttum við Michael Chinnamarathu sem rekur félag sem heitir Awards Trust og þar var okkur boðið í kvöldmat. Spjölluðum fram eftir kvöldi áður en við héldum aftur á hótelið.

Morguninn eftir fengum við Michael okkur morgunmat saman, spjölluðum, plönuðum og plottuðum áður en hann rölti með mig út á rútustöð. Eftir tvo tíma var ég kominn á rútustöðina í Madurai, þaðan á flugstöðina þar sem ég flaug aftur til Chennai. Hitti John aðeins um kvöldið áður en ég lagði mig. Síðan: Chennai, Mumbai, London, Keflavík. Í vélinni frá London hitti ég gamla og kæra vinkonu, hana Stínu Sævars, og kjöftuðum við um pólitík og liðna tíma. Fékk svo far með henni og Völlu heim.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband