Kenía - júlí 2010, fyrri hluti

Flugvellir í Indlandi eru einstakir að því leyti að þar er hvergi hægt að komast á netið. Mér skilst að ástæðan tengist baráttunni gegn hryðjuverkum – en þar fyrir utan eru Indverjar náttúrulega skriffinnar par excellence og stjórnvöld vilja stjórna flestu en netið lætur illa að stjórn. Netfíkillinn ég þjáðist því af óstöðvandi andlegum kláða í 11 tíma bið á flugvellinum í Bombay. Mér tókst að slá á hann með því að detta inn í unglingavampírubókmenntir, réttlætt með því að ég vissi að höfundurinn skrifaði eina snjöllustu vísindaskáldsögu sem ég hef lestið, The Host, auk þess sem næsta verkefni bókaklúbbsins Æskunnar eru vampírubókmenntir (Las upprunalegu Drakúla, eftir Bram Stoker, fyrr í sumar – hún hefur elst býsna vel). Fékk kjánahroll við að lesa um nokkur hundruð ára gamlar vampírur í gelgjulegum tilfinninga-sambandsflækjum. Ég hef tekið eftir að í nýrri vampírubókmenntum verða vampírurnar sífellt mennskari – eina undantekningin síðari ár er Salem´s Lot eftir Stephen King, þar sem vampíran er ill í gegn eins og í upprunalegu sögu Stokers. Anne Pryce, í Interview with a Vampire, gengur kannski ekki eins langt og gert er í unglingadramanu en þar er vampíran frekar úrkynjuð en ill – en umfram allt mennsk. Sama gildir um kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Meira að segja mynd Coppola, Bram Stoker‘s Dracula, þótt hún sé annars nokkuð trú sögunni og myndin snilld að öllu leyti, þá er hún römmuð inn í ástarsögu sem verður kveikjan að tilurð Drakúla, illsku hans og „dauða“.

Þegar 11 tímarnir voru liðnir bættist við einn enn tími vegna seinkunar sem þýddi að ég missti af fluginu frá Nairóbí til Kisumu – lenti um korteri of seint. Þurfti að bíða frá tíu um morguninn til fimm um daginn á Panters hótelinu, skammt frá flugvellinum, í boði Kenya Airways. Herbergið sem ég fékk í nokkra tíma til að leggja mig var líklega flottasta hótelherbergi sem ég hef komið í.

Flugið til Kisumu tók hálftíma – eins og venjulega. Á flugvellinum tók Anne á móti mér – eins og venjulega og fór með mig á Palmers – eins og venjulega. Klukkutíma síðar komu Georg, Davies og Harrison og við héldum fund um verkefnin og prógrammið og svo fór ég upp á hótelherbergi og þegar ég vaknaði um morguninn mundi ég ekki eftir að hafa hallað höfðinu að koddanum.

Morguninn eftir kom Janess á hótelið. Við byrjuðum að fara niður á Mega Plaza til að prenta út gögn fyrir námskeiðið sem ég ætlaði að halda – námskeið fyrir fólk sem er að vinna með börn, í skólum og miðstöðvum og fjallar um sýn okkar á fólk – og þar með börn – ofbeldi og nýhúmaníska menntun. Leiðinni var heitið til Lakeview leikskólans í Maeri og spjöllum við Janess um eitt og annað, m.a. um gamla tíma, en ég kynntist Janess í minni fyrstu ferð til Kenía árið 2002. Hann fór að tala að ýmislegt hefði breyst frá þeim tíma – sérstaklega þessi „NGO-hugsunarháttur“, þ.e. hugsunarhátturinn að halda að lausnin á öllum hlutum sé að fá fé í gegnum hjálparstofnanir en gera sem minnst sjálfur, en það er hluti af hugmyndafræðinni að okkar aðstoð frá Íslandi er aldrei nema viðbót við það starf sem fyrir er – starfið má aldrei standa eða falla með henni. Ég hef þóst vita að þetta væri að virka að einhverju leyti en það var gott að fá það staðfest. Þá ræddum við væntanlegar kosningar um nýja stjórnarskrá fyrir Keníu. Janess er virkur í Já-hreyfingunni sem vill samþykkja stjórnarskránna. Hjá Nei-sinnum fara kirkjunnar menn í fararbroddi og mótmæla helst að leyfðar skuli fóstureyðingar ef líf móður er í hættu auk þess sem ákvæði um jarðir, sem ríkið ætlar að endurheimta, valda deilum. Þá styðja langflestar konur nýja stjórnarskrá – í henni fá þær ýmis réttindi til jafns við karlmenn, eins og rétt til að erfa land, en fram til þessa hefur það eingöngu fallið sonum í skaut. Ef enginn sonur er til staðar verður nánasti karlkyns ættingi fyrir valinu. Kosningarnar fara fram 4. ágúst – vel við hæfi; á afmælisdegi Ingu Sóleyjar dóttur minnar fá konur í Keníu mikla réttarbót.

Vegirnir eru mjög misjafnir á leiðinni til Maeri, eins og víðast í Keníu og sjá mátti farartæki af öllum stærðum og gerðum. Gamall maður á reiðhjóli sem lék jafnvægislist með hvíta og gljáandi líkkistu á bögglaberanum vakti athygli mína, undrun og aðdáun. Á námskeiðið mættu 6 konur sem annast um 120 börn í Lakeview leikskólanum. Sú eina sem ég þekkti fyrir var Sophy, sem var á sjálfboðaliðanámskeiðinu sem ég var með í mars síðastliðnum. Þessi fyrsta keyrsla á námskeiðinu tókst nokkuð vel þótt ég sæi fram á að ég þyrfti að gera einhverjar breytingar á því. Á köflum urðu skemmtilegar umræður, t.d. í einum kafla, þar sem fjallað er um að varðveita frumkvæði og sköpun hjá börnum og í því samhengi komið inn á viðhorf til óhlýðni, og eitt umræðuefnið er: „Hvernig væri mannkynssagan öðruvísi ef Gandhi, Einstein, Kristur og fleiri sögupersónur hefðu fylgt reglum og viðmiðum síns tíma?“ Eitt svar vakti athygli mína: „Heimurinn væri þá fullur af heiðingjum!“

CIMG0733

Þegar námskeiðinu var lokið var langt liðið á daginn, klukkan orðin sex og eftir smá bið við veginn vorum við orðnir svartsýnir á að við næðum bíl aftur til Kisumu þetta kvöldið. Eftir einhver símtöl var hóað í mótorhjól sem keyrði með okkur rétt út fyrir bæinn, síðan út á einhvern troðning í átt að vatninu. Mér var um og ó en slakaði á þegar við keyrðum inn í rjóður þar sem stóð matatú sem verið var að hlaða með fiskikössum og með nóg af lausum sætum. Fimm mínútum síðar var lagt af stað og Janess sagði mér að bíllinn flytti smáfisk sem bannað væri að veiða á þessum tíma árs. Smyglleiðangurinn gekk snurðulaust fyrir sig og matatúinn skilaði okkur og fiskinum í heilu lagi til Kisumu.

Ég náði á Mega Plaza áður en netkaffið lokaði og náði líka að hala niður myndaskrá fyrir verkefni sem mér hafði borist um daginn – prófarkarlestur á bíómynd. Þegar því var lokið rölti ég niður á Mon Ami, veitingastað fyrir neðan og settist þar inn þrátt fyrir að hátt í 50 bandarísk ungmenni görguðu þar í karókí, nánast öll á sama tíma – þetta var eini staðurinn sem var opinn. Þegar ég hafði setið þar í korter sá ég hvar gamall vinur frá London, Tony Robinson, kemur gangandi – lítill heimur. Tony er að styðja við skóla nálægt Kisumu (www.footstepsuk.org). Við sátum og spjölluðum fram eftir kvöldinu en hann var á leið til Nairóbí morguninn eftir til að taka á móti 25 Bretum sem ætluðu á næstu dögum að leggja hönd á plóginn í skólunum sem Steps er að styðja.

Næsti morgunn leið við prófarkarlestur en um hádegið kom Patrick frá Korando og sótti mig. Ferðin til Korando tók um hálftíma en þar voru mætt á annað námskeiðið fjórar konur frá Korando og þrír kennarar frá grunnskóla skammt frá. Börnin sem ljúka leikskólanum í Korando sækja þennan skóla. Þetta námskeið gekk líka ágætlega en efnið hentaði þó greinilega betur kennurunum en umsjónarkonunum í Korando. Mikill munur er á leikskólanum eftir að Gunnar Hallsson splæsti í þak yfir hann – nú fyrst er hann farinn að nýtast almennilega. Eftir námskeiðið fékk ég sýnishorn af gerð aloa vera sápu sem þær framleiða í Korando og að því loknu gengum við út að þjóðveginum við síðustu geisla sólarinnar – sólarlag við Viktoríuvatnið er einstakt.

CIMG0740 

Við vorum rétt komin út á veginn þegar matatú renndi að. Eftir kvöldmat átti að vera fundur aftur með Anne Lauren og nokkrum fleiri og eftir að ég var búinn að bíða góða stund hringdi hún – það höfðu orðið einhver forföll og útlit fyrir að aðeins hún myndi mæta, svo við ákváðum að hittast bara áður en ég færi morguninn eftir. Ég sofnaði yfir sjónvarpinu og vaknaði ekki aftur fyrr en nokkrum tímum síðar um hánótt.

Morguninn eftir kom Davies með nokkur af nýju börnunum sem verið er að styðja frá Íslandi svo ég tók smá vídeóbrot með þeim – frekar feimin greyin. Síðan kom Ruth, dóttir Wilkister heitinnar, með unga stúlku að nafni Idevere sem er studd af íslenskri konu og færði ég henni bréf sem ég var með til hennar. Fékk bréf til baka og gjafir. Um hádegið kom Anne og héldum við smá fund, hnýttum lausa enda og svo hoppaði ég upp á boda-boda (reiðhjól með hnakki á bögglaberanum) og hélt á rútustöðina. Rútunni seinkaði um klukkutíma svo ég var ekki kominn til Nakuru fyrr en undir sex. Linet tók á móti mér á hótelinu, ásamt Sam og John, en eftir smá spjall héldu þau sína leið. Um kvöldið var hellirigning, þrumur og eldingar og ég dundaði mér við lestur og sjónvarps- og tölvugláp.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband