Réttindi fólks gagnvart lögreglu og dómsvaldi verði tryggð

Í flestum ef ekki öllum samfélögum í dag er hluti af skilgreiningunni á ríki sú að það sé eini aðilinn sem hefur rétt á beitingu ofbeldis innan sinna landamæra. Þannig liggur ofbeldishótun að baki öllu laga- og reglugerðargangvirki ríkisins. Ef við borgum ekki skattana, ef við brjótum umferðareglur eða önnur lög landsins getur ríkið beitt okkur ofbeldi – tekið af okkur fé, eignir eða frelsi okkar. Þegnar hafa ekki þennan rétt – þeir verða að leita réttar síns í gegnum stofnanir ríkisins. Þetta ofbeldi er réttlætt með því að það sé nauðsynlegt til að halda ríkinu saman og koma í veg fyrir upplausn þess. Þessi réttur ríkisins til ofbeldis er þó yfirleitt nokkrum takmörkunum háður. Þannig þarf dómsvaldið alla jafnan að hafa milligöngu um beitingu ofbeldisins, fólk er talið saklaust þar til sekt hefur verið sönnun og hafi fólk hreina samvisku á að ekki að þurfa að eiga það á hættu að verða beitt ofbeldi með því að það sé tekið til yfirheyrslu eða frelsi þess takmarkað á annan hátt. Lögreglan þarf að hafa rökstuddan grun um afbrot til þess að beita slíku ofbeldi. Á dögum Rögnu Árnadóttur í sæti dómsmálaráðherra voru lögð drög að því að breyta því fyrirkomulagi, með því að leyfa forvirkar rannsóknarheimildir, en sem betur fer hafa þau áform verið lögð til hliðar – a.m.k. að sinni.

Til staðar er tilhneiging í öllum stofnunum til að reyna að efla völd sín og áhrif og þ.a.l. túlka raunveruleikann þannig að sú túlkun styðji við slíkt. Þannig er t.d. hentugt að tala um aukningu glæpa í tengslum við vændi þegar hegðun sem var eitt sinn lögleg er gerð ólögleg. Það þarf ekki að vera um neina breytingu á atferli að ræða – þvert á móti eru líkur á að tíðni slíks atferlis hafi minnkað, en samkvæmt tölum hefur þá glæpatíðnin aukist. Það að ákveðin bifhjólasamtök ákveði að ganga til liðs við erlend bifhjólasamtök sem hafa illt orð á sér þýðir í orðræðu lögreglunnar að skipulögð glæpastarfsemi sé að festa rætur sínar hér – án þess að nokkuð hafi endilega breyst í starfsemi áðurnefndra bifhjólasamtaka eða að einhverjir hafi bæst í þeirra hóp erlendis frá.

Þessi orðræða er ekki ósvipuð orðræðunni í tengslum við hryðjuverkaógn og öryggismál. Á undanförnum árum er búið að ganga langt, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, í að veita lögreglu og öryggisþjónustu víðtækari heimildir og völd sem skerða persónulegt frelsi og mannréttindi þegnanna. Í Bretlandi var lífi fólks gjörbylt vegna atburða sem vissulega voru hræðilegir, en til að setja hlutina í samhengi þá dóu í hryðjuverkaárásinni jafn margir og deyja á tveimur dögum í umferðarslysum í Bretlandi. Á Spáni var tekin ákvörðun um að láta hryðjuverkaárásirnar sem urðu á Spáni um svipað leyti ekki verða til að stjórna lífsháttum fólks – túlkunin var sú að slíkt bæri vott um sigur hryðjuverkamannanna.

Eins og áður segir er það tilhneiging stofnana til þess að efla völd sín og áhrif. Það er hins vegar hlutverk stjórnmálamanna að dansa ekki eins og dáleiddar hænur eftir orðræðu þeirra og lepja hana upp gagnrýnislaust. Stjórnarskrá sem tekur af skarið með mannréttindakafla með skýrum ákvæðum sem tryggja mannhelgi og lágmarkar ofbeldi ríkisvaldsins hjálpar til þess.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kjartan Jónsson
Kjartan Jónsson
Höfundur starfar við íslenskukennslu og þýðingar. Auk þess stundar hann ýmis félagsstörf, sjá multikulti.is

Nýjustu myndir

  • DSC00594
  • DSCN2508
  • ...img_0395
  • ...dsc02790
  • ...dsc02765

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband